Páfagarður

Minning hl. Teresu frá Kalkútta

Daginn sem Frans páfi lauk upp dyrunum í Basilíku Vatíkansins þann 24. desember 2024, og markaði þar með upphaf Ársins Helga, gaf stjórnardeild tilbeiðslu og sakramenta út tilskipun fyrir hönd Frans páfa (Prot. N. 703 /24), um að minningardagur hl. Teresu frá Kalkútta, mey, verði framvegis 5. september í  Árbók Kaþólsku kirkjunnar.

ANNAR LESTUR

Úr ritum hl. Teresu frá Kalkútta, mey

(Bréf til sr. Joseph Neuner ritað um 1960: B. Kolodiejchuk, Móðir Teresa: Kom og ver ljós mitt, s. 209-212)

Ef myrkur mitt er einhverjum öðrum ljós þá er ég alsæl

…Í Loreto var ég afar hamingjusöm, faðir – hamingjusamasta nunnan að ég held. Svo kom kallið. Drottinn vor spurði mig beinlínis – röddin var skýr og full sannfæringar. Aftur og aftur spurði Hann mig árið 1946. Ég vissi að þetta var Hann. Ótti og ógnvekjandi tilfinning – óttinn við að vera blekkt. En þar sem ég hafði ætíð lifað í hlýðni þá bar ég allt undir andlegan föður minn með þá von í brjósti að hann segði að þetta væri allt saman blekking djöfulsins. En nei – rétt eins og röddin sagði, þá fullyrti hann að það væri Jesús sem spurði mig. Og þá veistu hvernig þetta fór allt saman. Yfirmenn mínir sendu mig til Asansol árið 1947 og þar var sem Drottinn vor hafi einfaldlega gefið mig Sig að fullu. Sæla, hughreysting og eining þessara sex mánaða skeiðs leið alltof hratt. Og síðan hófst starfið í desember árið 1948.

Nú, faðir, síðan 1949 eða ´50 skynja ég þessa hræðilegu tilfinningu missis, þetta ósegjanlega myrkur, þennan einmanaleika, þessa sífelldu þrá eftir Guði sem veldur mér sársauka djúpt í hjarta mér. Myrkrið er slíkt að ég sé í raun ekkert – hvorki með huga mínum né skynsemi. Staður Drottins í hjarta mínu er auður. Það er enginn Guð hið innra með mér. Þegar sársauki minn sem felst í lönguninni eftir Guði nístir svona þá er ég altekin þrá eftir Guði. Og þá skynja ég að Hann vill ekkert með mig hafa. Hann er ekki þar. Himinn, sálir – hví merkja þessi orð ekkert í huga mínum. Líf mitt virðist svo mótsagnakennt. Ég hjálpa sálum til að fara hvert? Hví allt þetta? Hvar er sálin í sjálfri mér? Stundum heyri ég mitt eigið hjarta hrópa, „Guð minn“ en ekkert gerist. Þjáning og sjársauki sem ég get ekki útskýrt. Allt frá barnæsku minni bar ég einlæga ást til Jesú í hinu Alhelga Altarissakramenti en hún hefur einnig horfið. Ég finn ekkert frammi fyrir Jesú en samt vil ég fyrir enga muni missa af Altarissakramentinu.

Þú sérð, faðir, mótsögnina í lífi mínu. Ég þrái Guð – ég vil elska Hann – að elska Hann mikið – að lifa alfarið fyrir kærleikann til Hans – aðeins að elska – en samt ríkir eingöngu sársauki – þrá en ekki ást. Fyrir mörgum árum – fyrir um það bil sautján árum í dag – vildi ég gefa Guði eitthvað afar fallegt. Ég skuldbatt mig til að neita Honum aldrei um neitt ella myndi ég gangast undir refsingu fyrir dauðasynd. Uppfrá því hef ég haldið heit mitt. Og oftsinnis þegar myrkrið er afar dökkt og ég er á mörkum þess að segja „nei“ við Guð, þá dregur tilhugsunin um þetta loforð mig aftur tilbaka.

Ég vil aðeins Guð í lífi mínu. „Starfið“ er raunverulegt og aðeins Hans. Hann spurði – Hann sagði mér fyrir verkum – leiðbeinir mér í hverju skrefi – leggur mér orð í munn, lætur mig kenna systrunum um veginn. Allt þetta í mér er Hann. Það er ástæðan fyrir því að þegar heimurinn lofar mig snertir það ekki – ekki einu sinni yfirborð – sálar minnar. Hvað starfið varðar þá er ég sannfærð um að það er allt Hans.

Áður fyrr gat ég eytt tímunum saman frammi fyrir Drottni vorum, að elska Hann, að tala við Hann en nú er mér ekki einu sinni unnt að hugleiða almennilega – ekkert nema „Guð minn“ – jafnvel það kemur ekki einu sinni. Þrátt fyrir það, einhvers staðar í djúpi hjarta míns leitast þessi þrá eftir Guði við að brjótast í gegnum myrkrið. Þegar ég er útivið, við störf eða á mannamótum, er nærvera einhvers sem býr nálægt mér – í sjálfri mér. Ég veit ekki hvað þetta er, en oft, jafnvel á hverjum degi, verður þessi ást sem ég ber til Guðs hið innra, raunverulegri. Ég stend mig að því að gefa Guði ómeðvitað, áköf merki um ást mína.

Faðir, ég hef úthellt hjarta mínu – kenndu mér að elska Guð – kenndu mér að elska Hann mikið. Ég er ekki menntuð – Ég veit fátt um Guð – ég vil elska Guð eins og Hann er og það sem Hann merkir fyrir mér „ Faðir minn“.

…Hjarta mitt og sál tilheyrir Guði einum – sem Hann hefur brottkastað sem einhverju óæskilegu, barni kærleika Hans. Þess vegna, faðir, hef ég heitið því á þessum kyrrðardögum að vera Honum undirgefin. Leyfðu Honum að gera við mig allt sem Hann óskar, eins og Hann óskar, eins lengi og Hann óskar. Ef myrkur mitt er einhverri annarri sál ljós – jafnvel þó að það verði engum til neins – er ég alsæl með að vera Guðs blóm á Akrinum.

 

Ljóðaljóðin 3,1,2; 5,6; Sálmarnir7 37,5

R/. Ég leitaði hans sem sál mín elskar, en fann hann ekki, ég kallaði á hann, en hann svaraði ekki..

* Fel Drottni líf þitt; treystu á hann og hann mun svara.

V/. Ég leitaði hans, sem sál mín elskar; um strætin og torgin. Ég skal leita hans, sem sál mín elskar!

*Fel Drottni líf þitt; treystu á hann og hann mun svara.