Börn & ungmenni
Trúfræðsla
Kaþólska Kirkjan á Íslandi býður upp á kaþólska trúfræðslu. Fræðsluna annast prestar, reglusystur og leikmenn. Biskupsdæmið hefur gefið út trúfræðslurit og vinnubækur á íslensku. Trúfræðslan felst einkum í undirbúningi barna frá 7 til 14 ára aldurs, vegna móttöku sakramentanna. Prestar eða systur skipuleggja sérstaka kvertíma víðsvegar um landið handa börnum sem aðeins tala eða skilja pólsku eða ensku. Börn sem búa fjarri þeim stöðum þar sem skipulögð trúfræðsla fer fram geta tekið þátt í bréfaskóla. Um hann sér Séra Denis O´Leary.
Séra Denis veitir nánari upplýsingar í s. 862 8246
Einnig er hægt að senda tölvupóst: catechism@catholica.is
Spurningar & svör
Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar
Löngunin eftir Guði er letruð í hið mannlega hjarta vegna þess að maðurinn er skapaður af Guði og fyrir Guð; og Guð dregur manninn linnulaust til sín. Einungis í Guði mun maðurinn finna sannleikann og hamingjuna sem hann leitar sleitulaust. (Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar 27).
Lumen gentium – Stjórnskipun kirkjunnar (á ensku)
Trúfræðslurit Kaþólsku Kirkjunnar
Formáli (1-25)
Trúarjátningin
1. hluti – 1. þáttur (26-184)
1. hluti – 2. þáttur (185-1065)
Leyndardómur Kristninnar hafður um hönd
2. hluti – 1. þáttur (1066-1209)
2. hluti – 2. þáttur (1210-1690)
Líf í Kristi
3. hluti – 1. þáttur (1691-2051)
3. hluti – 2. þáttur (2052-2557)
Kristin bæn
4. hluti (2558-2865)
Mikilvægt að kenna lifandi trúfræðslu
Viðtal sem birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2018:
Unnur Guðný María Gunnarsdóttir hefur ásamt prestum leitt börnin í kaþólsku kirkjunni í Reykjavík í fermingarfræðslunni í vetur. Að hennar sögn er fræðslan í stöðugri þróun en áherslan í auknum mæli lögð á anda lifandi trúar með kærleiksríkri nálgun þar sem börnin hafa fengið tækifæri til að æfa sig í ýmsum verkefnum til að styrkja sig í trúnni.
„Við fylgjum námskrá frá Páfagarði líkt og aðrar Norðurlandaþjóðir, förum yfir sjö sakramenti kaþólskrar trúar, boðorðin, trúarjátninguna, bænina og almenna biblíufræðslu. Einnig leggjum við áherslu á að kenna gildi kristinnar trúar, til að mynda hvað það merkir í raun og veru að vera kristin manneskja.Við ræðum við fermingarbörnin um helgisiðina, t.d. um það sem fram fer í messunni, og gerum það á tungumáli sem þau skilja.
Svo höfum við verið að ræða um kærleikann í víðu samhengi og fræðum um það sem Biblían kennir um hann, það sem Jesús sagði og kenndi um kærleikann og hvernig við getum orðið lærisveinar Jesú hér á jörðinni, verið ljós af ljósi og kærleiksboðberar hans í lifanda lífi.“
Kærleiksbréf í heimaverkefni
Sem dæmi nefnir Unnur Guðný að þau hafi í vetur farið í æfingu þar sem þau sátu í hring með kerti og sögðu kærleiksríka hluti við manneskjuna sem sat við hliðina á þeim. „Eins æfðu fermingarbörnin sig í að skrifa kærleiksbréf til einhvers sem þeim þykir vænt um, og margir vildu skrifa fleiri en eitt bréf. Síðan var eitt af heimaverkefnunum í vetur að vinna kærleiksverk fyrir aðra, en eitt af verkunum var þannig að þau máttu ekki láta vita að þau hefðu unnið verkið, svo sem að skafa snjó og ís af bíl fyrir ókunnuga og fleira í svipuðum dúr.“
Unnur segir að þau hafi verið dugleg að æfa sig í bæninni í vetur og börnin hafi verið hvött til að líta inn á við, finna hvernig þeim líður í hjartanu og segja Jesú það með sínum eigin orðum, það sé mikilvægur hluti bænarinnar.
Jesús þeirra besti vinur
„Von okkar er að þau finni að Jesús er þeirra besti vinur, og hann er alltaf til staðar og hlustar alltaf. Við biðjum saman og fermingarbörnin bjuggu einnig til bæn saman sem hópur. Og svo er það rósakransbænin, bænin til heilagrar Guðsmóður, en hún er mikilvægur hluti kaþólskrar trúar. Við bjuggum til rósakrans úr kertum í kirkjunni og kveiktum á kerti fyrir hverja bæn og hugleiddum leyndardóma hans, en rósakransbænin er fallegt boð heilagrar Guðsmóður um að færast nær Jesú fyrir milligöngu hennar.
Einnig höfum við verið dugleg að leika og skemmta okkur og meðal annars fórum við í óvissuferð sem byggðist á ratleik. Ratleikurinn snerist um að leysa páfa úr haldi en biskup okkar, Davíð Tencer, tjáði börnunum að morgni dags að Frans páfa væri haldið föngnum einhvers staðar á Íslandi og Páfagarður hefði óskað eftir aðstoð hópsins við að finna hann. Hópurinn leysti þrautir og orðaleiki og fór með bænir til að fá vísbendingar, en leikurinn barst meðal annars í Karmelklaustur og St. Jósefskirkju í Hafnarfirði. Páfi fannst svo að lokum bundinn í skrúðhúsi í Kristskirkju og urðu miklir fagnaðarfundir þegar hann var frelsaður.“
Hvaða áhrif hefur fermingarfræðslan á okkur sem fullorðin erum?
„Það er talið að heilagur Frans frá Assisi hafi sagt: „Boðið fagnaðarerindið en notið orð ef nauðsynlegt er.“ Það hefur því verið mikil hvatning fyrir okkur sem stöndum að þessu að leitast við að gera þetta sem best úr garði. Við leggjum okkur fram við að fræðslan sé vönduð en jafnframt skemmtileg og að fermingarbörnunum finnist þau vera mikilvægur hluti af kirkjunni, sem er í raun stór fjölskylda.“
„Fyrir mig hefur þetta verið einstaklega gefandi starf, þar sem í raun og veru má segja að börnin hafi verið að gefa mér ekki síður en ég þeim. Þau eru svo lifandi, hugmyndarík og skemmtileg. Ég get varla sett það í orð hvað þau eru frábær,“ segir Unnur.
Hvaða tilgang hefur fermingin í kaþólskri trú?
„Fermingarsakramentið felst fyrst og fremst í að við játum að Jesús er leiðtogi lífs okkar. Við ferminguna hljótum við sjö gjafir Heilags anda; vísdóm, skilning, ráðspeki, kraft, þekkingu, guðrækni og guðsótta, sem allt er mikilvægt veganesti í lífsins ólgusjó. Við ferminguna staðfestist að heilagur andi var móttekinn í skírninni og hún innsiglar að fullu að við tilheyrum Guði og erum fullgildir meðlimir kirkju hans.“
Til hvers er ætlast af þeim sem tilheyra kirkjunni og vilja vera virkir í trúnni?
„Í kaþólskri trú er ætlast til þess að kaþólskir leikmenn séu við messu á sunnudögum og aðra lögbundna kirkjudaga, sem eru nokkrir í kirkjuárinu. Þeir eru 1. janúar – stórhátíð Maríu Guðsmóður; páskar; uppstigningardagur; 15. ágúst – uppnumning Maríu til himna; 1. nóvember – allraheilagramessa og jóladagur. Einnig er ætlast til að fólk gangi til skrifta minnst einu sinni á ári.“
Bænasystur og kærleiksboðberar
Mig langar að spyrja þig aðeins út í nunnurnar í Hafnarfirði og Kærleiksboðberana, hvað kenna þær okkur?
„Karmelnunnurnar í Hafnarfirði tilheyra bæna- og hugleiðslureglu og tileinka líf sitt bæninni. Það er mjög dýrmætt að hafa þær í samfélagi okkar. Til þeirra leitar stór hópur fólks, bæði kaþólskir og lúterskir, með ósk um fyrirbæn á hverjum degi, t.d. fyrir veikum ástvinum o.s.frv. Í klaustrinu búa tólf Karmelnunnur sem helga sig bæninni í um átta klukkustundir á sólarhring. Þær tala íslensku og reka fallega verslun sem selur handverk og gjafavöru sem þær framleiða. Messað er í klaustrinu á hverjum degi og þangað koma margir sérstaklega til að heyra tónlist systranna. Karmelnunnur sinna einnig andlegri handleiðslu í bænalífi fyrir marga.
Í St. Jósefskirkju og í Stykkishólmi eru einnig systur, þernur Drottins og Maríu meyjar frá Matará, en þær sinna mikilvægu safnaðar- og æskulýðsstarfi ásamt trúfræðslu.
Kærleiksboðberar móður Teresu eru regla sem hefur það að meginmarkmiði að hlúa að okkar minnstu bræðrum og systrum. Þær sinna óeigingjörnu mannúðarstarfi. Þær heimsækja til að mynda elliheimili og fangelsi og sinna trúfræðslu. Þær reka matsal sem er opnaður þegar mörgum gistiskýlum borgarinnar er lokað á morgnana. Þangað streymir fólk úr ýmsum áttum og fær morgunverð, félagsskap, andlegan stuðning og hlýju. Þar er öllum mætt með brosi og Teresusysturnar láta verkin tala.
Á Íslandi er einnig reglufólk á Akureyri og svo er munkaklaustur Kapúsína á Reyðarfirði.
Allar þessar konur og karlar sem hafa helgað líf sitt þjónustu í þágu kristinnar trúar eru mikilvægar fyrirmyndir ungs fólks á Íslandi í dag.“
Eitthvað að lokum?
„Ég vil nota tækifærið og óska öllum þeim börnum, sem hafa tekið þá ákvörðun að fermast í vor, hjartanlega til hamingju með ákvörðunina og ég samgleðst þeim innilega í hjartanu.“