Kirkjuárið

Skipaðir helgidagar í Reykjavíkurbiskupsdæmi

Sérhver kaþólskur einstaklingur eldri en sjö ára er skyldur að fara til kirkju og taka þátt í messu á þessum dögum, að svo miklu leyti sem ekki hamla sjúkdómar, aldur, fjarlægð eða slæmt veður.

* Allir sunnudagar

* Hátíð Maríu Guðsmóður (1. janúar)

* Hátíð uppstigningar Drottins vors Jesú Krists. Alltaf á fimmtudegi í sóknarkirkjum.

* Allra heilagra messa (1. nóvember).

* Jóladagur (25. desember).

Sumar stórhátíðir kirkjuársins eru á Íslandi færðar til sunnudagsins fyrir eða eftir:

* Dýridagur – sunnudaginn eftir þrenningarhátíð.

* Vígsludagur Kristskirkju í Landakoti – sunnudaginn eftir vígsludaginn (23. júlí).

* Uppnumning Maríu meyjar til himna (15. ágúst).

Hátíðir kirkjuársins

Kaþólskt kirkjuár er röð hátíða, er kirkjan heldur yfir árið.

Kirkjuárið hefst eigi 1. janúar, heldur fyrsta sunnudag í aðventu.

Jól, páskar og hvítasunna eru aðalhátíðir kirkjuársins.

Þrennar eru hátíðir kirkjunnar

Hátíðir Drottins, hátíðir Guðsmóður og hátíðir annarra dýrlinga.

Helstu hátíðir Drottins

Jól (25. desember).

Birting Drottins, venjulega kallað þrettándinn (6. janúar).

Páskar (næsti sunnudagur eftir að fyrsta vortungl er fullt).

Uppstigningardagur (fertugasti dagur eftir páska).

Hvítasunna (fimmtugasti dagur eftir páska).

Dýridagur (annar fimmtudagur eftir hvítasunnu).

Helstu hátíðir Guðsmóður

Hinn flekklausi getnaður Maríu meyjar (8. desember).

Kyndilmessa eða hreinsunarhátíð (2. febrúar).

Boðunardagur Maríu (25. mars).

Himnaför Maríu eða Maríumessa hin fyrri (15. ágúst).

Fæðingardagur Maríu eða Maríumessa hin síðari (8. september).

Helstu hátíðir annarra dýrlinga

Stefán frumvottur (26. desember).

Jósefsmessa (19. mars og 1. maí).

Jónsmessa skírara (24. júní).

Péturs messa og Páls, heilagra postula (29. júni).

Hátíð hinna heilögu verndarengla (2. október).

Allra heilagra messa (1. nóvember).

************************************

Á undan nokkrum hátíðum er lengri eða skemmri undirbúningstími, t.d. aðventa fyrir jól og fastan fyrir páska.

Aðventan eða jólafastan er undirbúningstími jólahátíðarinnar. Með henni hefst kirkjuárið.

Aðventan stendur yfir í fjóra sunnudaga. Orðið aðventa er komið úr latínu adventus og það þýðir, koman, aðkoma eða nálgast.

Jesús er að koma. Það er hans fyrsta koma sem við minnumst um hver jól. En það sem við erum í raun að undirbúa, er endurkoma hans, sem mun verða á síðasta degi.

Á aðventu er sumum hlutum breytt í kirkjunni. Til dæmis erum við með aðventukransinn. Hér er um að ræða hring með grænu laufi sem umlykur fjögur kerti. Kertin, verða kveikt, eitt fyrir hvern sunnudag í aðventu og minna okkur á að Jesús er sanna ljósið í þessum heimi.

Annar hlutur sem breyttur er, er hökull prestsins. Fjólublár er liturinn sem kirkjan notar á aðventu og er hann tákn iðrunar og sorgar.

Umræðuefni ritningarlestranna og bænir í messunni, eru einnig breyttar. Í aðventu er eftirvæntingar að gæta í þeim.

Á sérhverri aðventu er okkur boðið að dýpka og styrkja samband okkar við Guð og náungann.

  • 4. desember: Barbara mey og píslarvottur.
  • 8. desember: Hinn Óflekkaði getnaður. Getnaðardagur Maríu.
  • 12. desember: María mey frá Guadalupe.
  • 13. desember: Lúsía mey og píslarvottur.
  • 14. desember: Jóhannes af krossi prestur og kirkjufræðari.
  • 23. desember: Þorlákur biskup Þórhallsson, verndardýrlingur Íslands. Þorláks helga er minnst tvo daga ársins hér á Íslandi. Í 20. júlí, er hátíð upptöku heilags dóms hans og 23. desember er andlátsdagur hans.

Jól og páskar

Á jólunum fögnum við fæðingu Jesú fyrir 2000 árum.

26. desember: Stefán frumvottur.

27. desember: Jóhannes postuli og guðspjallamaður.

Sunnudagur eftir jól (oftast): Hin Heilaga Fjölskylda, Jesús, María og Jósef.

1. janúar: María Guðsmóðir.

6. janúar: Opinberun Drottins venjulega kallað þrettándinn.

6. janúar: Skírn Drottins. Í dag höldum við upp á hátíð skírnar Jesú. Þessi hátíð minnir okkur einnig á okkar eigin skírn.

2. febrúar: Kyndilmessa eða hreinsunarhátíð.

19. mars og 1. maí: Hátíðir heilags Jósefs sem er verndardýrlingur kirkjunnar.

25. mars: Boðunardagur Maríu.

Langafastan

Hefst á öskudegi og varir í fjörtíu daga. Langafastan er sérstakur tími fyrir bænir og yfirbót. Á lönguföstu eigum við að undirbúa okkur fyrir páskana. Kaþólskir fasta tvo sérstaka daga á hverju ári; öskudag og föstudaginn langa. Það merkir að við neytum einnar fullkominnar máltíðar hvern þessara daga. Til þess er einnig ætlast að við gerum yfirbót á hverjum föstudegi og hvern dag föstunnar. Á öskudaginn er öskuvígsla og tækifæri fyrir fólk að meðtaka öskukross. Við úthlutun hinnar vígðu ösku segir presturinn við okkur: „Minnstu þess maður, að þú ert mold og að moldu skalt þú aftur verða.“

Í dymbilviku heldur kirkjan hátíðlega upp á atburði síðustu ævidaga Jesú, fyrir páska.

Pálmasunnudagur

Fyrstur af þessum atburðum var hans dýrðlega innganga í Jerúsalem, sem Messías. Við minnumst þessa atburðar á pálmasunnudegi þegar við göngum helgigönguna með vígðum pálmagreinum. Okkar helgiganga er ætluð til að minna okkur á fyrstu sigurgönguna í Jerúsalem þegar hópur fólks elti og hyllti Jesú. Á pálmasunnudag lesum við tvö guðspjöll. Fyrsta guðspjallið segir okkur um hina dýrlegu inngöngu Jesú inn í Jerúsalem. Annað guðspjallið segir okkur frá kvöl og dauða Jesú.

Skírdagur

Annar atburðurinn sem við höldum hátíðalega í dymbilviku, er síðasta kvöldmáltíðin, á skírdagskvöld. Messa á skírdag er byrjunin á dögunum þrem fyrir páskadaginn. Og þessir dagar eru þeir heilögustu í árinu. Þessir dagar ná hámarki sínu á páskavöku.

Föstudagurinn langi

Þriðji atburðurinn úr lífi Jesús sem við höldum hátíðlega í dymbilviku eru þjáningar hans og dauði, sem var á föstudaginn langa fyrir tvö þúsund árum. Á föstudaginn langa tökum við okkur tíma til að hugsa um hið saklausa lamb Guðs sem var fórnað vegna synda okkar. Þetta er dagurinn sem við sýnum sérstaka virðingu fyrir krossinum og við biðjum fyrir öllum heiminum. Föstudagurinn langi er dagur föstu og bindindis, dagur sem við gerum iðrun.

Laugardaginn fyrir páska biðja kaþólskir menn og hugsa um þá hluti sem komu fyrir Jesú og ástæður þess. Það er eins og við séum að krjúpa við gröf hans í djúpri sorg og bíðum upprisu hans.

************************************

Páskar

næsti sunnudagur eftir að fyrsta vortungl er fullt.

Páskavakan

Seint á laugardagskvöld, höldum við hátíðlega upprisu hans frá dauðum. Þetta er gert á sérstakan hátt með eldi og kertum og mörgum öðrum táknum. Þessi athöfn er ein af þeim fallegustu í kirkjunni.

(I) Páskavakan byrjar á því að kveikt er á páskaeldinum. Við erum minnt á að í upphafi skapaði Guð ljósið. Upphaf páskavöku er táknræn fyrir dögun hinnar nýju sköpunar sem hófst með upprisu Jesú.Síðan leiðir páskakertið okkur í helgigöngu inn kirkjuna. Þetta minnir okkur á eldinn sem vísaði Ísraelsmönnum veginn í eyðimörkinni. Þessi eldur leiddi þá frá okinu í Egyptalandi til fyrirheitna landsins. Núna leiðir Kristur, ljós heimsins, okkur frá fjötrum syndarinnar, með dauða sínum og upprisu, til eilífs lífs. Þetta er táknað með því að sá sem ber páskakertið inn kirkjuna, gengur í slóð þess er bar krossinn inn í kirkjuna á föstudaginn langa, og nam staðar á þremur sömu stöðum í kirkjunni. Þegar páskakertið er sett á sinn stað er páskalofsöngurinn sunginn. Páskalofsöngurinn er mjög gamall og má jafnvel rekja hluta hans aftur til fjórðu aldar. Í páskalofsöngnum er samtímanum kunngert:

„Þetta er nóttin,þegar (Guð) fyrrumleiddir forfeður vora, syni Ísraels, út úr Egyptalandi til fyrirheitna landsins .……… þegar Kristur braut fjötra dauðans og sté sigrandi úr helju.“

(II) Síðan er lesið úr ritningunni. Því er yfirleitt fylgt eftir með Davíðssálmum og bænum. Sagan um frelsun Ísraelsmanna við Rauðahafið er alltaf lesin. Önnur ritning minnir okkur á eigin frelsun í skírninni. Loks segja guðspjöllin frá upprisu Jesú.

(III) Síðan hefst skírnarathöfnin þar sem við erum minnt á að í skírninni öðlumst við hlutdeild í upprisu Jesú. Með skírninni verður upprisa Jesú fyrirheit um okkar upprisu. Þess vegna erum við á páskavökunni beðin um að endurtaka skírnarheit okkar.

(IV) Altarisþjónusta.

************************************

Páskadagur

Páskahátíðin er haldin í minningu upprisunnar. Það er hin mesta hátíð kirkjuársins og sigurhátíð kristninnar, Því með upprisu sinni hefur Jesús unnið fullan sigur á dauðanum og helvíti. Páskakertið er ímynd hins upprisna Endurlausnara. „Upprisa Krists er kjarninn í tilveru kirkjunnar.“ „En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.“ „Upprisa Krists er kóróna trúar okkar á Krist…“ Hátíð hinnar guðlegu miskunnar.Annar sunnudagur á páskatíma. Í dag minnumst við hins óendanlega kærleika og miskunnar Guðs, sem hann úthellir yfir heiminn. Hátíð hinnar guðlegu miskunnar býður okkur að líta á Guð sem uppsprettu raunverulegs friðar, sem okkur stendur til boða fyrir upprisinn Drottin okkar Jesú. Benjar hins upprisna og dýrlega Drottins eru varanlegt tákn um miskunnsaman kærleika Guðs fyrir mannkyninu. Úr sárum hans streymir eins konar andlegt ljós sem varpar ljósi á samvisku okkar og veitir okkur huggun og von. Í dag förum við, ásamt fjölda manns um allan heim, með orðin: „Jesús, ég treysti á þig!“

Köllunarsunnudagur. Fjórði sunnudagur á páskatíma. Alþjóðlegur dagur bæna um kallanir. Himnaför Jesú er haldin hátíðleg 40 dögum eftir páska.

Hvítasunnudagur er hátíð Heilags Anda. Heilagur Andi er þriðja persóna guðdómsins, sannur Guð, ásamt Föður og Syni. Þegar lærisveinarnir voru sviptir sýnilegri nærveru hans skildi Jesú þá ekki eftir munaðarlausa. Hann lofaði að vera með þeim allt til enda veraldar svo hann sendi þeim Anda sinn. Heilagur Andi kom yfir Maríu og postulana á hvítasunnu í líki logandi eldstungna. Andinn er líf vort.

Maí mánuður er sérstaklega tileinkaður Maríu.

Júní mánuður er sérstaklega tileinkaður dýrkun hins alhelga hjarta Jesú.

24. júní: Jónsmessa skírara.

20. júlí: Stórhátíð hl. Þorláks verndardýrlings Íslendinga. (Þorláksmessa á sumri). Hátíð upptöku heilags dóms Hl. Þorláks.

23. júlí: Vígsluafmæli Kristskirkju.

15. ágúst: Himnaför Maríu eða Maríumessa hin fyrri.

8. september: Fæðingardagur Maríu eða Maríumessa hin síðari.

14. september: Upphafning hins heilaga kross. Krossinn var ekki merkingarlaus fyrir Jesú, heldur var hann leiðin til upprisunnar. Nú lifir hann um alla eilífð og hann heitir okkur sama sigrinum. Krossinn er tákn um sigur en ekki ósigur.

Október mánuður er sérstaklega tileinkaður rósakransbæninni.

Í nóvember biðjum við sérstaklega fyrir þeim sem látnir eru.

1. nóvember: Allra heilagra messa.

2. nóvember: Allra sálna messa.

Kristur konungur. Á þessum síðasta sunnudegi kirkjuársins höldum við hátíð Krists konungs. Lestrar síðastliðna sunnudaga hafa minnt okkur á að Jesús mun snúa aftur í dýrð til að dæma heiminn. Við köllum það endurkomu hans.