Verndardýrlingur Íslands

Heilagur Þorlákur Þórhallsson
1133 - 1193

Þorlákur Þórhallsson var biskup í Skálholti 1178–1193. Hann var fæddur 1133 að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hann hlaut menntun í Odda hjá lærdómsmanninum Eyjólfi presti, syni Sæmundar fróða, og vígðist ungur til prests. Þorlákur hélt utan til náms og var sex ár (1153–1159) í París og Lincoln. Í námi sínu erlendis kynntist hann bæði siðbótarhreyfingu klaustranna og nýjungum í kirkjurétti. Eftir utanförina var hann fyrst prestur í Kirkjubæ á Síðu, uns hann varð príor 1168 og síðar ábóti í nýstofnuðu klaustri í Þykkvabæ í Veri, hinu fyrsta á Íslandi af reglu Ágústínusarmunka.

Kjörinn biskup í Skálholti
Á alþingi 1174 var Þorlákur kosinn biskup í Skálholti í stað Klængs Þorsteinssonar. Þorlákur fór ekki utan til vígslu fyrr en 1177 og var vígður til biskups í Niðarósi 2. júlí 1178. Hann var biskup í Skálholti til dauðadags, 23. desember 1193.

Efldi kirkjustarf á Íslandi
Þorlákur átti mikinn þátt í því að efla kirkjuvald á Íslandi. Kröfur hans um forræði kirkjueigna og tíunda og um almenna siðbót í hjónabandsmálum mættu mikilli mótspyrnu íslenskra höfðingja.

Tekinn í dýrlingatölu
Barátta Þorláks biskups fyrir hreinlífi landsmanna og málstað kirkjunnar stuðlaði að því að hann komst í tölu dýrðarmanna. Fljótlega eftir lát hans fór orð af helgi hans og voru bein hans tekin úr jörðu 20. júlí 1198. Á alþingi 1199 voru fyrst lesnar upp kraftaverkasögur af Þorláki og dánardagur hans síðan lögtekinn messudagur. Þorláksmessa á sumar, upptökudagur beina hans, var lögtekinn 1237. Á kaþólskum tíma voru yfir 50 kirkjur helgaðar heilögum Þorláki og aðeins Pétri postula, Maríu og Ólafi helga voru helgaðar fleiri kirkjur en honum. 14. janúar 1984 lýsti Stjórnardeild sakramenta og guðsdýrkunar í Páfagarði því yfir að Þorlákur helgi væri verndardýrlingur Íslands, með samþykki Jóhannesar Páls II. páfa.

Vinsældir heilags Þorláks verndardýrlings Íslands vaxa ört um þessar mundir. Fólk ákallar hann í bænum sínum og fær bænheyrslu, sífellt fleiri koma að styttu hans í Dómkirkju okkar á Landakotshæð og kveikja á kerti.

Nóvena (níu daga bænir) er beðin í kaþólskum kirkjum á undan hátíðum hl. Þorláks og reyndar eru þessar bænir einnig að breiðast út erlendis. Nóvenan er komin út á íslensku, ensku og frönsku og fleiri þýðingar eru í farvatninu.

Þorláksmessa á sumar er 20. júlí og er stórhátíð til minningar um upptöku beinanna (translatio) og 23. desember er hátíð, til minningar um dánardag hans.
Prestar mega syngja heitmessur hl. Þorláks (votiv messur) þegar hentar eða að vild, þegar aðrir dýrlingar eiga ekki messudag.
Tíðabænir heilags Þorláks eru einnig lesnar á þessum dögum báðum.

Bæn til heilags Þorláks

Messudagur: 20. júlí

Minningardagur: 23. desember

Heilagur Þorlákur, bið þú fyrir oss!

Almáttugi, eilífi Guð, þú gerðir heilagan Þorlák að biskupi og leiðtoga fólks þíns.

Megi fyrirbænir hans stuðla að fyrirgefningu þinni og kærleika okkar til handa.

Lát hl. Þorlák vera fordæmi okkar og að við mættum boða það sem hann trúði á og sýna það í verki.

Við biðjum þess í nafni Drottins okkar Jesú Krists

Þorláksmen

Nú er Þorláksmen eða Þorláksmedalía fáanleg. Medalían skartar mynd af dýrlingi með áletrun: Sancte Thorlace, patronus Islandiæ, ora pro nobis (heilagur Þorlákur, verndardýrlingur Íslands, bið þú fyrir oss). Á hinni hliðinni er liljutákn sem var til forna tákn Skálholtsbiskupsdæmis og er skírskotun til heilagrar Guðsmóður. Liljutáknið er einnig á skjaldarmerki biskupsdæmis okkar. Áletrunin er n. 1133, Episcopus Skalholtensis 1178-1193 (fæddur 1133, Skálholtsbiskup 1178-1193).

Davíð biskup afhenti Frans páfa eintak af Þorláksmedalíu sl. október og vakti hún hrifningu hans og samstarfsmanna hans.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við skrifstofu Reykjavíkurbiskupsdæmisins í síma 552 5388 eða í tölvupósti: catholica@catholica.is