Hirðisbréf

Davids B. Tencer OFMCap. Reykjavíkurbiskups

Hirðisbréf - 1. október 2023

Kæru bræður og systur,

Tékkneskt orðatiltæki hljómar skemmtilega. Það er svona: Skutek utek! Á íslensku merkir það að maður hefur góðar hugmyndir eða tillögur, en gerir ekkert til að koma þeim í framkvæmd, og vegna þess fer svo, að aðgerðin (skutek) hverfur (utek).

Allir skilja það betur í ljósi guðspjallsins sem fjallar um tvo syni sem faðir bað um að vinna á akrinum. Svar fyrra sonarins var fullt af eftirvæntingu: „Já, ég fer!“ En – skutek utek, ekkert gerist. Skemmtilegri er hinn sonurinn sem var í upphafi latur við að hlýða föður sínum en á eftir skipti hann um skoðun, fór og var að vinna þar allan daginn eftir ákvörðun föðurins.

Ég er viss um það, bræður og systur, að við öll þekkjum samt fólk sem breytir þannig. Þau eru alræmdir ráðgjafar. Þau hafa lausn fyrir allt en þegar kemur að því að gera eitthvað til að framkvæma það, þá kemur – skutek utek – þá gerist ekkert. En því miður, við sjálf erum stundum líka svona. Hve marga drauma eigum við? En langflestir þeirra stranda á því að við erum ekki nógu sterk til að hrinda þeim í framkvæmd. Reynum að breyta þessu hjá okkur sjálfum. Hér eru nokkrar tillögur.

Í biskupsdæmi okkar erum við leggja áherslu á nokkur byggingaverkefni:

 1. Skipta um þak á Dómkirkjunni. Árið 2029 mun hún verða hundrað ára gömul dama. Komum og undirbúum fyrir hana nýjan „hatt“.
 2. Við erum byrjuð að reisa nýju kirkjuna á Selfossi. Auðvitað leitum við hjálpar frá útlöndum en samt ætti það að vera fyrst og fremst vinna og fjármunir okkar sjálfra sem styðja þetta verk.
 3. Í sókn heilags Péturs á Akureyri ætlum við að stækka mikið safnaðarheimilið. Það er bæði gott og nauðsynlegt. Gerum eitthvað til að þetta geti gerst.
 4. Á Patreksfirði erum við að kaupa hús sem ætti í framtíðinni að vera miðpunktur fyrir nýja sókn heilags Patreks á Vestfjörðum. Við þurfum að breyta ýmsu þar og endurbyggja til að þetta geti þjónað ætlunarverki sínu.
 5. Þá eru einnig nokkur minni verkefni sem við getum séð hér og þar í biskupsdæmi okkar.

Bræður og systur, lærum af seinni bróðurnum að gera eitthvað til að uppfylla þessi góðu verk. Veljum eitt af tilnefndum verkefnum og tökum þá ákvörðun að fylgja og styðja það frá upphafi til enda. Biðjum fyrir því, styðjum það reglulega með fjárframlögum og fylgjumst með hvernig þessi góðu verk vaxa. Orðatiltækið – skutek utek – aðgerð hverfur – er ekki gott! Leyfum ekki að aðgerðin hverfi. Gerum það besta til að þegar kemur að því að verkinu lýkur getum við sagt: „Jæja, ég var líka viðstaddur. Það tókst að klára góðu verkin.“ Takk fyrir athyglina og stuðning ykkar. Biðjið fyrir mér líka.

Bróðir ykkar og biskup, David

Hirðisbréf - Prédikun 20. nóvember 2022
Stórhátíð Krists, konungs alheimsins

Kæru bræður og systur,

Það er algengt að hver kirkja hafi sinn titil, eins og Péturskirkjan í Róm, kirkja heilagrar fjölskyldu i Barselóna eða Notre Dame í París og svo framvegis. Við vitum ekki af hverju Marteinn Meulenberg bað Páfagarð um að setja Krist konung sem titil Dómkirkjunnar og biskupsdæmis okkar en við erum hæstánægð með þann titil og lítum á hann sem sérréttindi okkar. Við getum sagt að við séum þessi brúður, sem Kristur – konungur – „ … lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir … Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus…“ (sbr. Ef 5,25-27).

Hann vildi hafa hana svona en við getum séð að hún ert það ekki. Vegna synda okkar lítur hún stundum eins og óhrein betlikona án virðingar og fegurðar. Það er svo vandræðalegt að sumir hafa ákveðið að yfirgefa hana og viðurkenna hana aldrei aftur. Reyndar, ef það væri hægt, myndu þeir vilja þvo skírnarmerkið af enni sér þó að það sé ósýnilegt. Kristin­dómurinn er að verða áhættusöm starfsgrein meira en nokkru sinni fyrr. Í stað venju ríkustu mannanna að hafa nöfn sín á virðingarbekkjum í kirkjunum vilja þeir eyða nöfnum sínum úr kirkjubókunum. Og við getum bara sagt: „… mín sök, mín mikla sök… Kyrie eleison! – Drottinn, miskunna þú oss!“

En halló! Vöknum! Er það raunverulega það eina sem við getum gert? Nei! Alls ekki! Horfum til dæmis á heilagan Frans frá Assisi, sem heyrði frá krossfestum Jesú þessi orð: „Frans, Frans, farðu og lagfærðu kirkju mína, sem þú sérð að er að hruni komin.“ Því byrjaði hann að gera við San Damiano-kirkjuna. Það tókst en á eftir skildi hann að þarna var talað um eitthvað mikilvægara – að þar var talað um heimskirkjuna sem þurfti að lagfæra. Og meira, hann skildi loksins að fyrst átti hann að lagfæra sjálfan sig, persónulega, og því gerðist hann prýði kirkjunnar.

Hér býðst okkur að framkvæma allt þetta á okkar tíma. Dómkirkjan okkar, Krists konungs, er orðin gömul. Árið 2029 verður stórafmæli vígslu hennar, 100 ára afmæli. Og maður sér strax að hún þarfnast mikillar viðgerðar. Það sama getum við sagt um biskupsdæmi okkar sem ætti að halda 55 ára afmæli sitt í október á næsta ári. Og hvert og eitt okkar persónulega getur líka lagfært sig. Væri ekki viðeigandi að byrja með því að Dómkirkjan okkar fengi af því tilefni nýtt þak? Og svo getum við haldið áfram, að á 100 ára afmæli kirkjunnar rísi hún sem perla úr hafdjúpinu? Þannig ætti hún að vera tákn endur­nýjunar kirkjunnar á Íslandi, sem erum við.

Kæru bræður og systur, styðjum af öllu hjarta þetta verkefni. Tökum það sem daglegt bænarefni okkar og styðjum það með rausnarlegum framlögum á reikningsnúmer kirkjunnar, sem er sérstaklega til þess ætlað: Íslandsbanki 0513-14-604447, kt. 680169-4629. En án þess að þreytast höldum við áfram og gerum það besta til að við getum sjálf verið prýði kirkjunnar!

María mey, þú sem ert flekklaus brúður Heilags Anda og Móðir kirkjunnar, bið þú fyrir oss og hjálpa þú oss að sýna heiminum dásemd kirkjunnar. Amen.

Með þakklæti, og beiðni um fyrirbæn, bróðir ykkar og biskup, David.

Hirðisbréf í tilefni af fimm ára embættistöku biskups - 31. október 2020

Kæru bræður og systur í biskupsdæmi okkar.

Einmitt í dag, 31. október, eru liðin fimm ár frá því að ég var vígður biskup og settur í embætti í Reykjavíkurbiskupsdæmi. Það er ekki langur tími en gefur samt tilefni til að gera stutta úttekt.

Fyrsta orðið sem kemur í hugann þegar ég lít yfir þessi fimm ár, er þakklæti. Þakklæti til Guðs og ykkar allra, presta, nunna og allra í Reykjavíkurbiskupsdæmi. Þegar ég byrjaði sem sóknarprestur á Austurlandi í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði árið 2007 var á öllum formlegum pappírum, sem ég fékk frá skrifstofu Fjarðabyggðar, þetta kjörorð: „Þú ert á góðum stað“.

Af reynslu minni eftir fimm ár í biskupsembætti leyfi ég mér að segja með þakklæti: „Ég er á góðum stað. Guð gaf mér gott fólk!“ Guð hjálpi okkur að halda áfram á þessari góðu vegferð.

Kannski vitið þið öll að við höldum nærri því í hverjum mánuði prestafund í Landakoti og eins og við ráðleggjum sóknarbörnum okkar, þannig ræðum við sjálfir líka á fundi í janúar um aðalverkefni ársins.

Á þessu ári var verkefnið það að í öllum sóknum okkar hér á landi viljum við stofna sóknarráð. Það er ekki bara vegna þess að kirkjulög nefna það, heldur vegna þess að við finnum að það er nauðsynlegt að gefa sóknarbörnum möguleika að hafa áhrif á líf sóknarinnar og það getur bætt kristilegt líf okkar hér á landi. Þökk sé Guði, þá tókst það! Með gleði get ég sagt að ég hef samþykkt sóknarráðslista í öllum sóknunum. Ég óska öllum sóknarprestum og meðlimum sóknarráðanna þess að þetta sé ekki bara formleg útnefning heldur verði þetta ávaxtarík þjónusta við bræður og systur í sóknum okkar.

Það væri gott að við öll tækjum þátt í safnaðarlífi okkar. Það er ekki bara tilboð heldur köllun eins og við sjáum í fyrsta lið Christifideles Laici, hvatningarbréfi hl. Jóhannesar Páls II páfa 30. desember 1988:

Leikmenn hinnar tryggu hjarðar Krists … eru þeir sem mynda þann hluta Guðs lýðs sem líkja mætti við verkamennina í víngarðinum sem getið er um í Matteusarguðspjalli: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn“ (Mt 20:1-2). (Christifideles Laici 1).

Kæru bræður og systur, tökum þetta ákall alvarlega. Höldum áfram að vera nærri kirkju okkar, sókn okkar og presti. Sýnum nærveru okkar efnislega og andlega í raun. Söfnum nægu fé fyrir viðhaldi og þróun alls sem er í sókninni og biskupsdæmi okkar og hugsum vel um presta okkar og biðjum góðan Guð um blessun fyrir öll verkefni okkar.

Við erum á góðum stað og í góðu kirkjusamfélagi. Sókn okkar og biskupsdæmi hér á landi bíður eftir hjálp okkar allra. Finnum okkar pláss í „víngarðinum“. Kannski erum við ekki nóg hæf fyrir erfiðustu verkin en einhver þarf líka að safna greinum af jörðinni til að létta vinnu hinna verkamannanna.

Biðjum hana um hjálp, sem var alltaf nærri syni sínum og er kölluð Móðir kirkjunnar:

„Ó, María mey, vísa okkur veginn og styð okkur svo a við megum ætíð lifa eins og sannir synir og dætur kirkju Sonar þíns. Ger okkur kleift að eiga okkar hlut í því að koma á stofn á jörðinni menningu sannleika og kærleika, að vilja Guðs og honum til dýrðar.“  (Christifideles Laici 64). Amen.

Ég sjálfur bið auðmjúklega um hjálp ykkar, fyrirbænir og þolinmæði og lofa ykkur því sama.

Með blessun, biskup ykkar og bróðir,

+ David

Við upphaf nýs skólaárs 29. og 30. ágúst 2020

Kæru bræður og systur í biskupsdæmi okkar,

margt er skrítið núna vegna óvissu­ástandsins, en samt viljum við í dag byrja nýtt skólaár í kirkju okkar með „Veni Sancte Spiritus“ (Kom þú, Heilagur Andi). Það þýðir að við biðjum Heilagan Anda að hann leiði líf okkar, bæði nemenda, foreldra og kennara.

Vel getur verið að almannareglur neyði okkur til að gera ýmislegt á annan hátt en áður, en líf okkar heldur samt áfram í Guði, en „í honum lifum, hrærumst og erum vér“ (Postulasagan 17, 28). Tilgangur okkar er, eins og við lesum strax í byrjun Trúfræðslu­ritsins (1): „Að þekkja Guð og elska hann.“

Guð er frelsari og markmið okkar og hann vill: „… að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“ (1Tím 2, 4). Guð sjálfur er sannleikur, „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist“ (Jh 17, 3). Þetta er réttasta svarið ef einhver spyr okkur: „Hvers vegna trúir þú, hvers vegna ert þú kaþólskur, hvers vegna ferð þú í trúfræðslu“ og svo framvegis. En hvað nákvæmlega merkir það að „þekkja Guð“?

Frægur guðfræðingur dó. Þegar hann kom til himnahliðsins, spurði dyravörðurinn hann: „Þekkir þú Jesú?“ „Já, já,“ svaraði hann, „ég hef í meira en 40 ár kennt um hann í háskólanum, mótað nýja presta og ég hef skrifað margar bækur um hann.“ „Jæja, minn kæri, þú þarft fyrst að fara í hreinsunareldinn og bíða nokkurn tíma, hreinsa hjarta þitt, og svo getur þú vonandi komist inn.“ Hann gerði það. Eftir stutta stund kom þangað prestur og dyravörðurinn spurði hann sömu spurningar: „Þekkir þú Jesú?“ „Að sjálfsögðu, ég var vígður prestur í 50 ár, las messu á hverjum degi, skírði börn í nafni hans og prédikaði á hverjum degi um hann.“ En dyravörðurinn var ekki ánægður með það og sagði: „Þú þarft að fara í hreinsunareldinn og biðja að augu þín opnist, svo að þú getir séð á réttan hátt.“ Svo hann fór. En bíðið aðeins, til himnahliðsins er komin gömul bóndakona, mjög þreytt eftir alla erfiðleika lífsins. Þegar hún vildi komast inn stöðvaði dyravörðurinn hana með sömu orðum og áður: „Þekkir þú Jesú?“ Andlit hennar ljómaði, bros birtist á ásjónu hennar og hún svaraði: „Æ, hvernig væri það ef ég þekkti þig ekki, Jesús minn. Þú ert besti vinur minn frá barnæsku minni og varst alltaf hjá mér í erfiðleikum lífs míns.“´

Kæru bræður og systur, við ætlum að byrja með trúfræðslu af fullum krafti, koma reglulega saman til að fá með annarri fræðslu líka góða trúfræðslu. Vegna þess höfum við undirbúið hana og má sjá á vefsíðu okkar trúfræðsluáætlun, meiri hluta efnisins, og ef eitthvað vantar ætlum við að gera okkar besta til að klára verkið. En, vinsamlega gleymum því alls ekki sem var aðalhluti sögunnar og er raunverulega markmið lífs okkar, að þekkja Jesú, ekki eins og aðalpersónu í skáldsögu, heldur eins og persónulegan vin og hjálpara. Þetta er „sapientia vera“, „raunveruleg viska lífsins“. Velkomin í mótun Heilags Anda!

María, þú sem ert kölluð Alspaka Mey, sýndu oss, eða það sem betra er, leið þú oss á leiðinni til Sonar þíns.

Með blessun og trausti, að þið biðjið fyrir mér líka,

David biskup og samferðamaður ykkar.

Uppstigningardagur 21. maí 2020

Kæru bræður og systur,

uppstigning Krists kom með miklar breytingar í líf postulanna og kirkjunnar. Þá komu upp spurningar eins og: Hvernig verður það núna? Er það hægt að halda áfram við svona kringumstæður? Kannski er sama óvissa á þessum tíma hjá okkur.

En þökk sé Guði fyrir það að kórónuveiran er næstum horfin. Við erum þakklát Guði en við erum líka þakklát öllum þeim sem hafa stuðlað að því. Meðal annars viljum við þakka Víði, Þórólfi, Ölmu og þeirra fólki, að þau mættu kringumstæðum af ábyrgð en gættu þó hófs. Þau fundu jafnvægi milli þess sem var nauðsynlegt og þess sem gæti valdið óróa.

Við viljum sýna þakklæti okkar öllu heilbrigðisstarfsfólki, sem setti sjálft sig í hættu og mætti erfiðleikum án þess að bíða eftir aukagreiðslum og ekki einu sinni aukaþakklæti frá samfélaginu. Guð sér það og gleymir ekki!

Sýnum þakklæti prestum okkar og öllum sem starfa í kirkjunni af því að þau hlustuðu á mig, lokuðu ekki kirkjunum og lokuðu alls ekki sjálf sig af, heldur leituðu nýrra leiða með miklum sköpunarkrafti til að vera enn nær sóknarbörnum sínum og samfélagi. Gleymum ekki þessari dýrmætu reynslu!

Lífið heldur áfram og verður á einhvern hátt öðruvísi og nýtt. En já, ég tala líka um líf kirkjunnar. Það er einmitt það sem ég vildi tala um. Hvað er það sem ég sé sem mikilvægustu reynsluna fyrir þessa „nýju“ framtíð kirkjunnar? Lítið dæmi getur hjálpað okkur að skilja það betur. Það var grínmynd sem birtist á samfélagsmiðlum. Á myndinni var Guð almáttugur og á móti honum sat djöfullinn sem segir: „Sjáðu, mér tókst að gera það, að kirkjur í mörgum löndum voru lokaðar á sunnudögum.“ En Guð svarar hlæjandi: „Alls ekki, einmitt vegna illsku þinnar gat ég verið viðstaddur í hvers­dagslífi barna minna heima hjá þeim, á miklu víðtækari hátt en fyrr!“

Við öll skiljum þetta af því að við höfum upplifað það. Er það ekki góð reynsla að í tölvum okkar og risaskjám erum við ekki vön því að fylgjast með messum og nú gera mörg okkar það á hverjum degi?!? Dagblöð, sem venjulega hafa ekki áhuga á trúarlífi og kirkju, birta á hverjum degi nokkrar fréttir um samkomur okkar og stöðu. Sumir gagnrýna það, aðrir tala um það með virðingu, en niðurstaðan er sú sama: Guð kom inn í hversdagslíf okkar og gerðist fastur meðlimur þess. Svona sé þetta áfram.

Bræður og systur, við ætlum að koma til baka og taka þátt í öllum athöfnum í kirkjum okkar. Kirkjulífið fer smátt og smátt aftur í sama horf, en töpum ekki reynslunni af Guði sem kom og gerðist Guð hversdagslífs okkar. Tökum þátt í hátíðlegum athöfnum, syngjum sálma til að heiðra hann en tölum líka á sama tíma á hverjum degi við hann í einrúmi eins og besta vin okkar og félaga.

María mey, þú sem varst næst Guði – og það var hversdagsiðja þín að elska hann – hjálpa þú okkur að halda áfram að vera nær honum í hversdagslífi okkar. Amen.

Biðjið fyrir mér eins og ég geri fyrir ykkur á hverjum degi.

David biskup ykkar

23. mars 2020

Kæru bræður og systur,

Allir vita að í dag, 24. mars, taka nýjar takmarkanir vegna kórónuveirunnar gildi, sem snerta einnig alvarlega kirkjulíf okkar. Auðvitað skiljum vel hve mikil hætta steðjar að okkur öllum og þess vegna viljum við fylgja öllum reglum sem best, og ef við þurfum að fara út, hvert sem er og hvenær sem er, gerum við okkar besta til að vernda okkur sjálf og aðra.

Alvarlegasta og erfiðasta ákvörðunin er að allar opinberar messur falla niður til 13. apríl næstkomandi. En hvað þýðir það? Það þýðir að prestar lesa aðeins einka­messur og biðja fyrir fólki í sóknum okkar og í öllum heimi um vernd Guðs. En kirkjur okkar verða áfram opnar fyrir einkabænum fólks og menn eiga alltaf möguleika á að biðja presta um persónulegar skriftir, meðtöku altarissakramentis og annað sem þeir þurfa.

Við prestar viljum vera enn nær ykkur á þessum erfiðu tímum og vegna þess er öllum sóknarbörnum okkar boðið að vera í sambandi við Guð og kirkju hans eins mikið og þau geta. Til dæmis: Á sunnudaginn þegar við erum vön að fara í messu væri gott að við hættum öllum störfum okkar heima og sameinumst andlega presti okkar sem kemur til altarisins til að biðja fyrir okkur, og biðjum messuna í fjölskyldum okkar. Og ef það er ekki í valdi okkar, helgum við að minnsta kosti þessum tíma, einni klukkustund, til að biðja saman með fjölskyldunni.

Sjálfsagt er það mjög gagnlegt að fylgjast með messum á netinu eða gera eitthvað svipað, og gera þá allt eins og við værum í kirkju, það er, biðjum, krjúpum, stöndum, og sérstaklega þegar tími altarisgöngu rennur upp, biðjum við innilega að Jesús komi í hjarta okkar eins og hann gerir raunverulega með altaris­sakramentinu. Að sjálfsögðu er ekki rétt að elda eða ryksuga og svo framvegis á sama tíma, og ég er viss um  að allir skilja það.

Auðvitað er þetta ekki það sama og að vera raunverulega í kirkju en ég er viss um að Guð kemur með blessun sína til okkar af því að hann veit hve þetta eru erfiðir tímar hjá okkur.

Ég hef nokkrum sinnum séð að nokkrir hugsa sem svo: „Jæja, þetta er refsing Guðs.“ Ég er alveg á móti því að orða það svona. Ég fann annað orð yfir þetta og það er kallað „breytingartími“ af því að þegar kórónuveiran fer, verður svo margt öðruvísi. En besta nafnið fann ég í breviar-bókinni (tíðabænir), sem allir prestar fara reglulega með, og margt reglufólk og leikmenn líka. Í hymna sem við endurtökum á hverjum degi á föstutíma, á undan svokölluðum lestratíma – officium lectionis – þar sem segir: Kominn er náðartíminn sem Guð gefur okkur til að lækna – vekja okkur af syndum og veikleika okkar.

Bræður og systur, höldum áfram að biðja að þegar þessu öllu lýkur, getum við hist aftur í kirkjum okkar og lofað Guð með glöðu hjarta. María, hressing sjúkra, bið þú fyrir oss.

David biskup ykkar

17. nóvember 2019

Kæru bræður og systur.

Hirðisbréf veitir biskupi alltaf tækifæri til að tala til allra meðlima biskups­dæm­isins á sama tíma, og þess vegna nota biskupar þennan möguleika til að tala um eitthvað sem snertir alla í biskupsdæminu. Og núna er það einmitt svo, og ef ég ætti að segja með aðeins einu orði, hvað ég vildi tala um og hvað er svo mikilvægt, þá myndi ég nota orðið ÞAKKLÆTI.

Við megum vera mjög þakklát Guði af því að á þessum dögum höfum við lokið 50 ára hátíðarári biskupsdæmisins en það er meira sem við getum þakkað Guði fyrir, af því að frá september til janúar minnumst við þess að fyrir 15 árum komu til Íslands til að starfa hér á landi þrjár reglur. Það voru 9. september 2004 Móðir Pentecostes, systir Reyna del los Cieols og systir Assumption, eða Bláu systurnar úr reglunni Þernur Jesú Krists og Maríu meyjar frá Matará. Hinn 15. nóvember hófu starf sitt hér einnig Kapúsínabræður og ég get sagt að mér hlotnaðist sú náð að verða fyrstur þeirra. Og svo 6. janúar árið eftir, árið 2005, komu bræður af reglunni Verbo Incarnado, en það voru séra Lucio Ballester og séra Gabriel Grosso.

Við gleðjumst mjög yfir því að hafa allar þessar reglur hér á landi. Þakklæti okkar ætti að vera einasta svarið við öllu þessu. Chesterton gamli skrifaði í bók sinni, Orthodoxy,

„Prófsteinn allrar hamingju er þakklæti; og mér fannst ég þakklátur, þó að ég vissi varla hverjum. Börn eru þakklát þegar jólasveinninn setur í sokkana gjafir til þeirra, leikföng eða sælgæti. Gæti ég ekki verið þakklátur þegar hann setti í sokkana mína þá gjöf og kraftaverk að hafa tvo fætur? Við þökkum fólki þegar það gefur okkur í afmælisgjöf vindla og inniskó. Get ég engum þakkað fyrir fæðinguna sem ég fékk í afmælisgjöf?“

Við erum ekki aðeins þakklát Guði heldur líka því fólki sem við nefndum hér fyrr. Kaþólskur prestur les á hverjum degi heilaga messu, sem á 15 árum eru rúmlega fimm þúsund messur. Margir skriftuðu hjá þeim, þeir skírðu mörg börn, og undirbjuggu þau fyrir fyrstu altarisgöngu, fermingu og sakramenti hjónabandsins. Þeir fylgdust með mörgum sjúkum á erfiðum stundum í veikindum þeirra og þeir jarðsettu marga og héldu áfram að biðja  fyrir hinum látnu. Á ég að halda áfram? Getið þið jafnvel ímyndað ykkur lífið í sókn hl. Jósefs í Hafnarfirði eða hl. Frans í Stykkishólmi án Bláu systranna okkar? Sá sem kemur þangað sér það strax og fyrir munn allra getur lítill strákur svarað, sem tók í hönd systurinnar að mér ásjáandi og sagði við mig mjög alvarlegur á svip: „Ég elska hana!“ Eða gömul kona, sem sagði í framhjáhlaupi: „Þær eru englarnir okkar.“

Á ég að halda áfram? Já, mig langar til þess vegna þess að nú er tækifæri til að þakka öllum hinum prestunum og nunnunum í biskupsdæmi okkar sem komu til landsins til að lifa með okkur og deyja í starfi sínu hér. Bræður og systur, biðjum fyrir starfsfólki kirkjunnar hér á landi með þakklæti og vonum að margir af unglingunum okkar taki við störfum þeirra þegar þeir falla frá. Biðjið fyrir mér líka og ég sjálfur kalla blessun Guðs yfir alla.

Með þakklæti, ykkar biskup, David.

18. og 19. maí 2019

Kæru bræður og systur,

Þegar við tölum um heilaga menn notum við venjulega þátíð, en hugsum í fjarlægri þátíð, eins og heilagleiki væri eitthvað sem er ekki í tísku í dag. En það er ekki svo.

Í dag viljum við minnast afmælis heimsóknar heilags Jóhannesar Páls páfa annars, sem mörg okkar hafa séð með eigin augum, eða voru að minnsta kosti fædd á þeim tíma sem hann var enn á lífi. Hvaða tilfinningar vekur það að hugsa um að heilagur maður hafi gengið um á landi okkar!

Í Hollywood er frægðarstígur sem er skreyttur með meira en tvöþúsund stjörnum með nöfnum leikara, leikstjóra og annarra sem voru frægir í kvikmyndum, sjónvarpi og tónlistarlífi. Ef við vildum taka dæmi af þessu, ætti fyrsta stjarnan að vera á Keflavíkurflugvelli, þar sem flugvél Alitalia lenti með Jóhannes Pál páfa annan um borð þann þriðja júní nítján hundruð áttatíu og níu. Stjörnuna ætti að setja þar sem páfi kyssti íslenska jörð eins og hann gerði alltaf þegar hann kom til annars lands.

Höldum áfram á stíg heilagleika hans, og aðra stjörnuna finnum við í Dóm­kirkju okkar þar sem hann hitti biskup og presta landsins, nunnur og kaþólska leik­menn og talaði um altaris­sakramentið, evkaristíuna, sem er og á að vera miðpunktur lífs okkar.

Þriðja stjarnan er á Þingvöllum þar sem kristnisaga Íslands hófst, og við getum kallað hjarta landsins. Og einmitt hér hitti páfi ekki aðeins kaþólska, heldur einnig yfirmenn lútersku kirkjunnar, forseta Íslands og marga stjórnmálamenn og alla þá sem höfðu góðan vilja. Og hann kallaði alla til að hugsa um orð Þorgeirs Ljósvetningagoða: „Höfum allir ein lög og einn sið,“  og einnig um það að eining kristinna manna væri náðargjöf frá Guði sem menn eiga að vinna saman að.

Fjórða stjarnan ætti að vera við innganginn á Landakotsspítala þar sem altarið var reist og lesin var sunnudagsmessa, sem sótt var af nokkrum þúsundum manna. Einmitt þar talaði páfi um þessi orð: „Drottinn, ég er ekki þess verður að þú gangir undir þak mitt, en mæl þú aðeins eitt orð og þá mun sál mín heil verða.“ Þessi orð sagði eitt sinn hundraðshöfðingi Rómverja þegar Jesús læknaði þjón hans, og kirkjan endur­tekur þessi orð um allan heim. Hvílík upplifum var það fyrir það alla sem tóku þátt en sérstaklega fyrir börn úr Landakots­skóla, sem og annars staðar frá, sem fóru í fyrsta sinn til altaris og fengu altarissakramentið úr höndum páfa!

Bræður og systur, nú höfum við fylgt fótsporum heilags Jóhannesar Páls páfa annars og takið eftir því að við höfum aftur notað þátíð. En það er kominn tími til að nota framtíð! Hvað bíður okkar í framtíðinni? Í dag vildi ég í því valdi sem mér var gefið upplýsa í biskupsdæmi okkar um hátíðarár heilags Jóhannesar Páls II páfa, sem byrjar í dag og endar á næsta ári, þann átjánda maí, á fæðingardegi hans. Við ætlum að minnast heimsóknar hans með sýningu sem kemur til allra sókna okkar ásamt með helgum dómum blóðs hans sem eru geymdir í sóknarkirkju Jóhannesar Páls annars í Ásbrú. Hátíðlegar messur til minningar um heimsókn hans eru 1. júní klukkan 18.00 í Dómkirkju okkar og 2. júní kl. 10.30 í Kirkju heilags Jóhannesar Páls páfa annars í Ásbrú. Auk þess verða á þessu hátíðarári keppni unglinga um líf Jóhannesar Páls annars og fræðslu hans, pílagrímsferð og svo framvegis.

Bræður og systur, heilagur maður var hér, gekk um land okkar. Fylgjum í fótspor hans, eða það sem betra er, hefjum lífsgöngu okkar með honum. Á þessari leið blessi okkur almáttugur Guð, Faðirinn, og Sonurinn og hinn Heilagi Andi. Totus tuus, María – María, við felum okkur vernd þinni. Kærar þakkir að þið biðjið einnig fyrir mér.

Ykkar

                                  + Biskup David

23.-24. mars 2019

Kæru bræður og systur,

á mánudaginn ætlum við að halda Stórhátíð boðunar Drottins. Aðal­persóna í sögu hátíðarinnar er Guð sem „svo elskaði heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ (Jóh 3,16). Hann var að leita að persónu sem vildi bjóða sig fram til að uppfylla áætlun hans. Hann fann hana í Maríu mey sem með svarinu „verði mér eftir orði þínu“ var tilbúin að taka á móti öllu því sem Guð vildi. Með þessu samþykki Maríu meyjar fullnaði hún köllun sína. Og svo hélt áfram líf hennar sem staðfesti allt það sem hún lofaði Guði í þessum orðum.

Bræður og systur, Guð heldur áfram með áætlun sína og er að enn að leita að körlum konum sem af frjálsum vilja bjóða sig fram fyrir hann. Guð leitar að þeim sem taka á móti kölluninni, en ekki eins og þeir séu að fórna sér. Hann leitar eftir körlum og konum sem taka á móti kölluninni eins og stærstu gjöfinni í lífi sínu, gjöfinni sem þau eru reiðubúin að borga hvað sem er fyrir, einnig með líkamlegu lífi sínu ef það er nauðsynlegt. Hve dásamlegt er að sjá þann sem tekur á þennan hátt á móti kölluninni!

Við skulum taka eitt dæmi sem gildir einnig fyrir alla. Það er um blessaðan Noël Pinot, franskan prest sem dó í frönsku byltingunni. Fyrst var honum bannað að þjóna sem prestur en hann vissi að hann gat ekki hætt því vegna þess að Guð kallaði hann til þess. Brátt gerðist það, að óvinir kirkjunnar náðu honum einmitt þegar hann hafði skrýtt sig til að lesa messu fyrir nokkra trúaða. Þeir drógu hann í messuklæðunum um göturnar og vörpuðu honum í fangelsi.

Eftir tólf daga drógu þeir hann úr fangelsinu og leiddu hann undir fallöxina (guillotine). Enginn þeirra gaf því gaum að Pinot var enn í messuklæðunum sem hann skrýddist þegar þeir handtóku hann. Allir heyrðu að þegar hann gekk upp tröppurnar að fallöxinni bað hann svokallaðar þrepbænir sem allir prestar báðu fyrir messu. Í rauninni var þetta síðasta messa hans. Í henni þakkaði hann Guði, ekki með brauði og víni heldur  með líkama sínum og blóði. Þannig fullnaði hann óumdeilanlega köllun sína.

Og Guð finnur svona karla og konur á öllum tímum og í öllum löndum. Allir prestar sem starfa á Íslandi og allar nunnur svöruðu sama Guði og tóku á móti sömu kölluninni og María mey og Noël Pinot: „Sjá, ég er hér, verði mér eftir orði þínu.“

Bræður og systur, núna ætla ég að koma ykkur á óvart. Mig langar að biðja prest eða nunnu sem þið þekkið og starfar á Íslandi, að ganga fram. Hlustum á hann/hana segja frá því hvernig Guð kallaði hann/hana. Nú talar prestur/nunna um köllun sína.

Og nú tala ég, biskupinn ykkar, aftur og ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þennan vitnisburð. Ég vildi þakka fyrir vitnisburð allra sem svöruðu köllun sinni og helguðu líf sitt Guði og kirkjunni. Einnig vildi ég þakka Guði fyrir öll ykkar sem hafa áhuga á að gera það. Sérstaklega ykkur unga fólk, sem hafið lokið stúdentsprófi eða ætlið að ljúka því, og hugsið um framhaldið. Þið skuluð hlusta vel eftir því hvort Guð sé ekki að kalla ykkur til að verða prestar eða nunnur hér á landi. Óttist ekki að svara: „Sjá, ég er hér, verði mér eftir orði þínu.“

Og bæn og blessun mín fylgir ykkur alltaf og alls staðar.

Í nafni Föðurins, Sonarins og hins Heilaga Anda. Amen.

Biðjið líka fyrir mér.

David biskupinn ykkar.

4. sunnudagur í aðventu 2018, á Þorláksmessu

Kæru bræður og systur,

Aðventutímanum, undirbúningstíma jólanna, er að ljúka. Á aðventukransinum okkar loga öll fjögur kertin og allt er tilbúið fyrir komu Frelsara okkar. Þetta er líka mynd af lífi okkar af því að allan tíma okkar eigum við að nota einmitt til þess að búa okkur undir aðra komu hans í sögu heimsins. Og sjálfsagt er að við hugsum öll um það, en smám saman tapar gullið birtu sinni og sá tími kemur að endurnýja þarf það hús sem eitt sinn var glænýtt, og setja verður nýtt malbik á veginn sem var einu sinni eins og glæst hraðbraut. Það gerist hjá okkur á þennan hátt: Ekki skammast okkar fyrir að segja: Já, hversdagsleg málefni huldu það augum mínum sem mikilvægast var, eða eins og við segjum stundum: Eitt tré skyggir á allan skóginn.

En þökk sé Guði, þá koma þær stundir sem hjálpa okkur að horfa aftur á lífið eins og það er og á að vera. Einn af hjálpurum okkar sem ég vildi tala sérstaklega um í dag er verndardýrlingur okkar, heilagur Þorlákur. Hann fæddist árið 1133 á Hlíðarenda og dó í Skálholti 23. desember 1193 svo að í dag eru nákvæmlega 825(!) ár frá dauða hans.

Hann var mjög frægur fyrir að sýna fólki á hans tímum hvernig á að lifa eins og kristinn maður, bæði með lífi sínu og kennslu. Hve dásamlegt er að lesa um hann í ævisögu hans, hvernig hann hjálpaði þeim sem voru í nauðum staddir, læknaði sjúka með bæn eða snertingu eða bjargaði þeim sem voru í dauðans hættu á sjó og landi. Að honum látnum voru allir sammála um þetta: „Heilagleiki er mögulegur“.

Og þess vegna samþykkti Alþingi árið 1198 það sem allir vissu löngu áður: „Já, hann var heilagur.“

Enn fremur skrifaði Frans páfi bréfið Gaudete et Exsultate (Fagnið og gleðjist) 19. mars 2018, með undirtitlinum Kallaðir til heilagleika. Og allt sem hann skrifar þar vísar til þess að heilagleiki er ekki bara möguleiki heldur köllun – markmið okkar! Af lífi okkar ætti heimurinn að sjá hvernig lífið á að vera.

Á Facebook sá ég fallega, stutta kvikmynd þar sem talað var um litblindu, sem þýðir að viðkomandi getur ekki einu sinni séð liti í kringum sig. Hann lifir eins og allir aðrir og það skiptir ekki miklu máli en hann vantar þó eitthvað sem gerir líf okkar talsvert fallegra og skemmtilegra. Litblint fólk getur til dæmis ekki verið flugmenn eða stýrimenn á skipi og fleira. En sérfræðingar eru búnir að búa til sérstök gleraugu handa litblindum og myndin sýnir nokkra einstaklinga sem notuðu gleraugun í fyrsta skiptri, bæði ungir og fullorðnir, karlar og konur, menn sem voru einhleypir eða fjölskyldufólk og líka gamalt fólk. Þau lifðu hversdagslífi sínu með þessari fötlun en þegar þau í fyrsta sinn notuðu gleraugu handa litblindum, voru viðbrögðin samt þau sömu: Allir byrjuðu að gráta af gleði og sögðu: „Hefur heimurinn virkilega alltaf verið svona litfagur og dásamlegur?“ Og það er skiljanlegt þegar fólk sér í fyrsta sinn að blöðrur eru mismunandi á litinn, að rós getur verið gul eða rauð, að barnabarnið mitt er ljóshært með blá augu… Skiljið þið um hvað ég er að tala? Það er þetta sem líf heilags Þorláks hefur hjálpað okkur að skilja í 825 ár. Þetta er það sem Frans páfi átti við í áðurnefndu bréfi sínu þegar hann sagði um heilagleikann, að hann væri „fegursta andlit kirkjunnar“ (nr. 9).

Í þessum mánuði var Stórhátíð óflekkaðs getnaðar Maríu meyjar, sem vildi vekja athygli okkar á því hvernig eðli mannsins var á undan erfðasyndinni. Og hugmynd kirkjunnar með þessari stórhátíð er einmitt sú að kveikja þrá í hjarta okkar eftir því að öðlast aftur þennan heilagleika.

Bræður og systur, allt er tilbúið fyrir jólin, allt er hreint, jólatréð er á sínum stað, búið er að baka kökurnar og lambahryggurinn bíður þess að fara í ofninn. Gerum líka allt til að ljúka hinum andlega undirbúningi. Ef við höfum ekki skriftað skulum við gera það, ef við eigum eftir sættast við einhvern skulum við hafa samband við hann í dag. Kveikjum á kerti náðarinnar sem er í hjarta okkar, svo að heilagleikinn ljómi í endurnýjuðum litum. Megi Guð, fyrir árnað Maríu meyjar og heilags Þorláks, gefa okkur gleðileg jól.

Með blessun, bróðir David biskup

22. apríl 2018, á sunnudegi Góða Hirðisins

Kæru bræður og systur,

Allir vita að dagurinn í dag er kallaður sunnudagur Góða Hirðisins og það er líka sunnu­dagurinn þegar við biðjum fyrir því að fólk fái köllun til kirkjustarfs, sem nunnur, munkar og prestar, sem vilja starfa í Kaþólsku kirkjunni á Íslandi og koma úr íslensku samfélagi.

Ég var sendur nýlega á ráðstefnu í Fatíma í nafni biskupráðsins okkar, ásamt biskupum frá Evrópu og Afríku. Að sjálfsögðu heimsótti ég alla þá staði þar sem María mey birtist börnunum þremur, Lúsíu, Frans og Jasintu fyrir 100 árum. Það var svo djúp og mikil reynsla að á sama tíma og ég þarf að ræða um köllun, get ekki þagað um hana og verð að ræða um hana líka. En þessi tvö atriði eiga nefnilega mjög vel saman.

Hvað gerist hjá þeim einstaklingi sem Guð kallar? Venjulega veit hann eða hún ekkert, eða þá ákaflega lítið um það. Viðkomandi spyr sig: „Er þetta raunverulega Guð sem kallar mig?“ Þetta var mjög svipað hjá börnunum í Fatíma. Fyrst kom engill þrisvar sinnum til þeirra og þau gátu ekkert sagt um hann annað en að hann var mjög fallegur og eins og úr gleri. Og þegar María mey birtist þeim höfðu þau enga hugmynd um hver hún var, og töluðu bara um mjög fagra konu. „Fagra konan bauð okkur að koma hingað reglulega og biðja rósakransinn.“ Og þannig er það líka, að sá eða sú sem kölluð er veit ekki alltaf hvernig köllunin virkar. Ekki er þörf á hafa mörg orð um hana, en samt er gott að eiga einhvern sem hægt er að ræða við um köllunina. Hjá börnunum í Fatíma voru það foreldrar og prestar. Og þannig gæti það verið hjá öðrum, að ræða við einhvern sem við treystum, svo sem foreldra eða presta.

Þannig byrjar frjókorn köllunarinnar að vaxa í hjarta okkar. En við erum ekki nógu sterk í upphafi til að gera allt sem við erum beðin um að gera. Engillinn sagði við börnin: „Þið eigið að biðja daglega fyrir afturhvarfi syndara og segja 50 sinnum ,Heil sért þú María‘“ (það er að segja Rósakransinn). Börnin voru ekki mjög dugleg að biðja og sögðu því ekki Rósakransinn heldur bara 50 sinnum „Heil sért þú María“ og fóru svo að leika sér!

En hjá þeim þroskaðist köllun þeirra til að biðja fyrir syndurunum og þau skildu líka að að þau áttu að biðja allan rósakransinn. Sama er um köllun okkar að segja, hún á að fá tíma til að þroskast og þá skilur maðurinn að það er ekki bara hugdetta hans sjálfs, heldur köllun fyrir allt lífið.

Auðvitað getum við lent í erfiðleikum. Við getum kallað þá „próf“. Svona var það hjá börnunum líka. Frímúrarar vissu að börnin áttu alltaf að vera í Fatíma 13. dag mánaðarins að biðja og þar birtist þeim María mey. Því settu þeir börnin í fangelsi þann 13. ágúst, og hvað gerðist? Börnin gátu ekki farið á birtingarstaðinn í Fatíma, en María mey birtist ekki þann 13. heldur þann 19. ágúst, þegar börnin losnuðu úr fangelsinu, og hún birtist þeim þá eins og ekkert hefði gerst. Guð finnur alltaf leið í öllum erfiðleikum til að vernda köllun okkar.

Kæru bræður og systur, kæru ungmenni, óttumst ekki að svara kalli Guðs. Við svörum ekki fullkomlega í upphafi, en erum á réttri braut. Með trúnaðartrausti leggjum við köllun okkar í hendur Maríu meyjar. Okkur kann að vera mikil hjálp í reynslu margra Portúgala sem þúsundum saman koma til Fatíma. Margir þeirra koma ekki einu sinni reglulega í kirkju og einn þeirra útskýrði það fyrir mér hvers vegna hann sækir ekki kirkju reglulega, en fer samt til Fatíma. Hann sagði: „Ég þekki ekki einu sinni sóknar­prestinn minn með nafni og er ekki viss um hvort honum þykir vænt um mig. En mér finnst gott að koma til Fatíma vegna þess að ég er viss um að María mey er alltaf að bíða eftir mér eins og góð móðir sem elskar mig.“

Bræður og systur, gamalt orðtak segir: „Besta byrjunin felst í því að byrja.“ Óttumst ekki að byrja  þó að við vitum ekki hvort það er rétt eða ekki, hvort köllunin er frá Guði, o.s.frv. Byrjum bara með trúnaðartrausti og þá mun Guð hjálpa okkur að fylgja köllun okkar. María, móðir köllunarinnar, biðji fyrir oss.

Davíð biskup

18. febrúar 2018

Kæru bræður og systur,

Fyrir nokkru bárust þær fregnir um heiminn að Frans páfi vildi breyta Faðirvorinu, eða orðunum: „…eigi leið þú oss í freistni.“ Nokkrir voru jákvæðir, aðrir mótfallnir og nokkrir notuðu það til að gagnrýna páfa, en fáir hugsuðu um það að páfi vildi ekki ekki breyta svo miklu, heldur fremur vekja athygli okkar á því að hugsa betur um það sem við segjum.

Eðlilega hugsum við um það, eftir að við höfum heyrt guðspjall dagsins, að Andi Guðs knúði Jesú út í óbyggðina „… og Satan freistaði hans“ (Mk 1, 12-13). Augljóslega var það ekki Andi Guðs sem freistaði, heldur Satan, eins og Jakob segir í bréfi sínu: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns. Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin er síðan orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða“ (Jak 1, 13-15).

Og í Trúfræðsluriti okkar segir síðan: „Þessi bæn fer að rótum þeirrar sem á undan fer því syndir okkar eru afleiðing þess að við höfum látið undan freistingunni; þess vegna biðjum við Föður okkar að „leiða“ okkur ekki í freistni. Erfitt er að þýða gríska orðasambandið sem notað er með einu orði; það þýðir: „lát þú oss eigi falla í freistni“ eða „lát þú oss eigi leiðast til freistni.“ „Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns“; hann vill þvert á móti frelsa okkur undan hinu illa. Við biðjum hann um að láta okkur ekki ganga þann veg sem leiðir til syndar“ (TKK 2846).

Kannski myndi þá einhver segja: „Já, Guð freistar okkar ekki, en hvers vegna leyfir hann þá Satan eða eigin girnd okkar að freista okkar?“ Svarið gefur okkur hinn frægi dóminikani Tómas frá Akvínó, sem sagði: „Við þurfum ekki að bera óskir okkar fram fyrir Guð til þess að tilkynna honum bænir okkar eða óskir, heldur til þess að við komumst til skilnings á því að í þessum efnum verðum við að biðja um guðlega hjálp“ (STh. II-II 83, 2 ad1).

Nú ætla ég að segja nokkuð sem hljómar kannski ekki mjög vel, en ég vil leyfa mér að gera það vegna þess að við notum stundum slíkt orðalag í kirkjunni, til dæmis í helgisiðum páskanna þegar við segjum: „Hversu nauðsynleg var synd Adams, sem afmáð var með dauða Krists! Þú sæla sök…“ Það sem ég vildi segja er að við „þörfnumst“ freistni. Og hvers vegna? Það er vegna þess að við sjáum að við erum of veikburða til að sigra djöfulinn, en það er Guð hins vegar ekki. Hans er „ríkið og mátturinn og dýrðin að eilífu,“ en hvorki okkar né Satans.

Kæru bræður og systur, við erum vel stæð í dag en þá fjölgar líka freistingunum til að eiga meira, til dæmis að skipta um mann eða konu, misnota náttúruna eða ýmsa hluti, svo sem áfengi eða fíkniefni, eða bara að misnota velgengni okkar og gleyma því, að það er Guð sem ræður. Freistingarnar sýna okkur aftur hver staða okkar er. Við erum nógu sterk til að vera góð og heilög vegna þess, og aðeins vegna þess, að Guð sjálfur tekur í hönd okkar, líka á tímum freistinganna. Biðjum í dag af öllu hjarta: „Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.“ Amen.

Biskup Davíð

Hirðisbréf biskups fyrir aðventu 2017

Kæru bræður og systur,

Það er gott að við byrjum saman nú í dag nýtt kirkjuár. Og á aðventunni hugsum við um komu Jesú, frelsara okkar. En í sambandi við komu hans er oft nefnd hin litla ambátt, María mey. Það er stundum svo, bæði í okkar kirkju og öðrum kristnum kirkjudeildum, að fólk spyr: Hvers vegna? Svarið er einfalt, ef María mey hefði ekki heilshugar tekið við hlutverki sínu, væri saga heimsins allt önnur.

Mér finnst nauðsynlegt að tala um hlutverk Maríu og langar til að útskýra það með því að benda á sögu Jóns Sveinssonar, Nonna. Hann er mér í fersku minni vegna þess að í síðasta mánuði var mér boðið til hátíðar í Köln í Þýskalandi í tilefni af því að 160 ár voru liðin frá fæðingu hans. Það gladdi mig mjög að hitta allt þetta fólk, m.a. frá Nonna-félaginu og Íslendingafélaginu í Þýskalandi, og hlusta á sendiherra Íslands, Martin Eyjólfsson, Msgr. Georg Austen, aðalritara Bonifatiuswerk og Günter Assenmacher, stjórnanda Ansgar-Werk í Köln, en þeir ræddu um áhrif Nonna á sig og ungt fólk almennt, en bækur hans hafa komið út á yfir 50 tungumálum. Þeir nefndu nafnið „Nonni“ oftar en 100 sinnum í máli sínu!

Þegar þetta gerðist datt mér í hug nafn annars manns sem stuðlaði að því að Nonni varð jafn frægur og áhrifamikill og raun varð á. Ég á þarna við séra Jean-Baptiste Baudoin (1831-1875). Ég held að flest ykkar hér hafi aldrei heyrt á hann minnst. Hann var franskur prestur sem kom til Íslands og starfaði um hríð meðal franskra sjómanna hér. Hann reyndi einnig, ásamt öðrum frönskum presti, séra Bernard Bernard, að endurreisa kaþólska trú hér á landi. Hér lenti séra Baudoin í erfiðleikum og í varðveittum dagbókum hans má m.a. lesa eftirfarandi: „Guð minn, það gleður mig að mega vera hér og ég vildi gjarnan fórna lífi mínu fyrir þetta fólk.“ En stuttu seinna skrifar hann þetta: „Það voru mestu mistök lífs míns að koma til Íslands, veðrið er slæmt og fólkið hérna hafnar mér.“  En það var hins vegar séra Baudoin sem hitti fátæka ekkju á ferð sinni til Reykjavíkur og bauð henni að borga fyrir menntun sonar hennar í Danmörku. Og þessi piltur var Nonni. Séra Baudoin dó án þess að hafa lesið bækur Nonna, og Nonni sjálfur nefndi ekki oft nafn hans, en þó var það sr. Baudoin sem Guð notaði til að koma Nonna á framfæri, ef svo má segja.

Kæru bræður og systur, þetta dæmi ætti að hjálpa okkur öllum að fela okkur sjálf Guði á vald. Við vitum ekki hvernig og hvar Guð vill nota það sem við gerum af hreinu hjarta. En við getum verið viss um það að þessi sami Guð, sem sagði við séra Baudoin í eilífðinni: „Sjáðu, hjartans þakkir fyrir fyrir hjálp þína við að búa Nonna til,“ mun segja við okkur: „Þakka þér fyrir allt það góða sem þú hefur gert án þess að vita af því.“ Við þurfum ekki alltaf að skilja allt, það nægir einfaldlega að treysta Guði.

Allt þetta ætti því að kenna okkur öllum að taka persónulega á móti þessu hlutverki „hinnar litlu ambáttar“ í lífi okkar.

María, þú varst hin litla ambátt Drottins, hjálpa þú okkur að gera það sem Guð býður okkur, og aðeins okkur, að gera. Amen.

Davíð biskup

Í október 2017
Hirðisbréf biskups í tilefni af 50 ára afmælishátíð Reykjavíkurbiskupsdæmis

Kæru bræður og systur,

Þegar einhver nær fimmtíu ára aldri segjum við að viðkomandi hafi fullorðnast og búi yfir mikilli reynslu og þroska, og á ef til vill stóra fjölskyldu og barnabörn. En í lífi kirkjunnar er hálf öld ekki mikill áfangi. Hún er að þessu leyti eins og ung stúlka sem er full af lífi og fegurð eða piltur sem enn hefur ekki komið miklu í verk en er þó fullur af krafti og athafnaþrá. Á næsta ári er biskupsdæmið okkar 50 ára, og það er eins og stúlkan eða pilturinn, ekki með mikla reynslu að baki, en hefur samt komið miklu í verk, og hefur einnig þrótt og löngun til að ná árangri og býr jafnframt yfir mikilli fegurð.

Ef við viljum finna orð sem einkennir þessi tímamót, þá kemur mér þakklæti fyrst í hug. Þakklæti fyrir allt sem gerðist, ekki aðeins á þessum fimmtíu árum heldur til allra sem hjálpuðu á þessari vegferð. Með gleði og þakklæti hugsum við til séra Bernards og séra Baudoins sem fórnuðu sér í starfi kirkjunnar hér á 19. öld. Við viljum ekki gleyma neinum kristnum manni sem lagði hönd á plóg til að kaþólsk trú mætti festa rætur á ný á Íslandi. Hvernig gætum við gleymt Gunnari Einarssyni, Nonna, Montfort-prestunum, Marteini Meulenberg og Jóhannesi Gunnarssyni, Jósefssystrum og mörgum leikmönnum sem lifðu, unnu og báðu í kirkjunni og fyrir henni? Og loks kom þar, að Páll páfi VI stofnaði Reykjavíkurbiskupsdæmi 18. október 1968.

En þakklæti okkar væri ekki alveg fullkomið ef við vildum aðeins þakka mönnum. Það væru mikil mistök að gleyma því að allt gott kemur frá Guði, eða eins og G.K. Chesterton segir í bók sinni Orthodoxy eða Rétttrúnaður: „Börnin eru þakklát þegar hl. Nikulás setur gjafir, sælgæti eða leikföng í skóinn þeirra. Ætti ég þá ekki að vera Guði þakklátur fyrir að gefa mér tvo undursamlega fætur? Við þökkum fólki þegar það gefur okkur vindla eða inniskó í afmælisgjöf. Á ég þá ekki þakka Guði á afmælisdaginn fyrir það að hann gaf mér það að fæðast?“

Eins og ég sagði eru 50 ár ekki langur tími í sögu biskupsdæmis. Kannski segir einhver að við séum eins og barn sem er að læra að ganga. Auðvitað fylgja því ýmis föll og byltur og það höfum við sannarlega fengið að reyna í biskupsdæmi okkar. En alltaf stendur barnið upp aftur, Guði sé þökk, og heldur áfram göngu sinni.

Komandi ár viljum við nota til að undirbúa 50 ára afmælishátíð biskupsdæmisins. Og hvað ætlum við að gera?

 1. Kannski væri rétt að setja saman farandsýningu svo að allir sem sjá hana geti komist að því hvernig Guð byggði upp biskupsdæmi okkar í rás sögunnar.
 2. Við förum í pílagrímsferð til Rómar til að þakka Guði á staðnum þar sem fyrst var tilkynnt um stofnun biskupsdæmisins.
 3. Við lesum hátíðlega þakkarmessu í Péturskirkjunni og höldum til fundar við Frans páfa í áheyrnartíma hans, í tilefni þess að við erum pílagrímar þar.
 4. Síðan munum við halda þakkarmessu í Dómkirkjunni okkar 4. nóvember 2018 með öllum biskupum Norðurlanda og Arborelius kardínála. Í sömu messu ætlum við að helga biskupsdæmið hinu flekklausa hjarta Maríu.

Og ýmislegt annað verður á döfinni.

Kæru bræður og systur,

Framundan er ár ýmiss konar viðburða og hátíðahalda og við getum horft vonglöð fram á veginn. Þökk sé Guði og ykkur öllum sem ætlið að taka þátt í því.

                       Með þakklæti, Davíð biskup

20. ágúst 2017

Kæru bræður og systur.

Nú er að hefjast nýtt skólaár. Í fjölmörgum löndum koma nú saman nemendur á öllum skólastigum, kennarar, foreldrar og starfsfólk skólanna til „Veni Sancte-messu“, þ.e. til að biðja Heilagan Anda um að koma til þeirra sem starfa á þessu sviði. Við viljum gera það líka hér á landi í upphafi skólaársins, vegna þess að byrjun með Guði er góð byrjun.

Það er eitt sem við gleymum stundum og því er nauðsynlegt að við minnum okkur á það enn og aftur. Við þurfum að læra aftur að byrja hvern dag með bæn, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Við eigum að byrja matmálstímana með borðbæn og gera það líka opinberlega, svo sem í matsalnum, í skólanum, á veitingastaðnum eða í vinnunni, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Alltaf þegar við byrjum mikilvægt verk er nauðsynlegt að við biðjum Guð um hjálp, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Allir góðir nemendur vita að áður en þeir taka próf eiga þeir að biðja Heilagan Anda um hjálp, því að byrjun með Guði er góð byrjun.

Við öll, sem ökum bifreiðum, vitum að það er bæði gott og gagnlegt að biðja Guð um hjálp og vernd áður en lagt er af stað, því að byrjun með Guði er góð byrjun. Sumir segja kannski: „Við erum ekki vön að gera þetta, þetta er ekki hluti af menningu okkar.“ Það er ekki mikið vandamál, við getum þá bara byrjað á þessu í dag, því að byrjun með Guði er góð byrjun.

Við skulum athuga það, að ekki er svo langt síðan að tannburstar voru ekki almennt notaðir og sjálfsagt muna einhver ykkar þessa tíma. En ástandið batnaði smátt og smátt og nú er svo komið að allt skynsamt fólk veit að notkun þeirra er ekki bara góð og gagnleg, heldur líka nauðsynleg. Nú nota allir tannbursta og þykir það sjálfsagt mál, og enginn velkist í vafa um hvort það sé gott eða ekki.

Sama máli gegnir um það að byrja með Guði. Á þessu skólaári nálgast nemendur á öllum stigum skólakerfisins hér á landi sjálfsagt eitt hundrað þúsund. Á meðal þeirra eru væntanlega um 2000 kaþólsk börn og unglingar. Yfir 150 kaþólsk börn byrja í fyrsta bekk, um 150 ganga til altaris í fyrsta sinn og önnur 150 meðtaka fermingar­sakramentið. Margir kaþólskir ættu að halda áfram námi sínu á æðra skólastigi, eins og prestnemarnir þrír í Płock í Póllandi, sem nú hefja nám þar í guðfræðideildinni fyrir biskupsdæmi okkar. Við allt þetta unga fólk segi ég hárri röddu: Byrjun með Guði er góð byrjun!

Bræður og systur.

Finnum tíma til þess að koma saman í Veni Sancte-messunni sem halda á næsta sunnudag, 28. ágúst, og biðjum þess saman að Heilagur Andi hjálpi öllum nemendum og kennurum í skólakerfinu, að þeir finni að málið snýst ekki um bara um námið heldur ætti námið að hjálpa okkur að komast nær Guði.

Heilög María mey, þú sem ert kölluð „alspaka mey“, og „móðir ráðgæskunnar“, hjálpa þú okkur að feta veginn frá góðu byrjuninni með Guði til farsælla endaloka og mæta honum.

Með blessun og óskum um góða byrjun,

+ Davíð biskup

7. maí 2017

Kæru bræður og systur,

Í dag er sunnudagur Góða Hirðisins. Þetta er í 54. sinn sem páfi hefur hvatt okkur til að biðja í öllum kaþólskum kirkjum fyrir nýjum köllunum til prestsdóms. Við sjáum að það er mikil þörf á nýjum prestum til starfa, einnig hér á landi, þar sem að einungis einn íslenskur prestur starfar á Íslandi í dag, einn í biskupsdæmi Liverpool og einn prestnemi er í Ágústínusarreglu. Því er ljóst að þörfin er brýn.

Þá gæti einhver spurt: „Við þurfum fleiri presta en eru ennþá til ungir menn sem vilja gerast prestar?“ Svarið er: „Jú, svo sannarlega!“ Ég get fullyrt það vegna reynslu minnar nýverið. Í janúar var ég á ferð í Póllandi að leita stuðnings við biskupsdæmi okkar. Biskupar í Póllandi, sem ég heimsótti, kvörtuðu yfir því að fáir vilji gerast prestar og prestnemum fer fækkandi. Í þessari sömu ferð dvaldi ég í Kapúsínaklaustri og ræddi þar við próvinsíalinn í Varsjá. Hann hafði sömu sögu að segja. En því næst hitti ég bróður Mikael. Hann var ekki sama sinnis. Hans skoðun var sú að ef við óskum eftir því að fá fleiri menn til að starfa sem presta á landinu, nægir ekki eingöngu að biðja heldur þurfum við að gera fleira. Hann lét ekki sitja við orðin tóm heldur gerði hann mér strax tilboð og sagði: „Ég er flinkur að gera stutt myndbönd. Eigum við að búa til eitt saman?“ Ég ákvað að þiggja boðið, þar sem ég hafði engu að tapa. Sama kvöld gerðum við fimm mínútna langt myndband. Í því sagði ég frá biskupsdæmi okkar og kynnti þá sem starfa hér og gaf ýmsar tölulegar upplýsingar. Síðan lauk bróðir Mikael við myndbandið og setti það á Facebook klukkan tíu sama kvöld. Hvað gerðist þá? Á einum sólarhring höfðu yfir tuttugu þúsund manns skoðað það. Sjö prestar og þrír djáknar sendu skilaboð og buðust til þess að koma til starfa á Íslandi að fengnu leyfi yfirmanns síns. Fleiri en þrjátíu ungir menn svöruðu kallinu og sögðu: „Við viljum gerast prestnemar fyrir biskupsdæmi ykkar“ og þúsundir manna „like-uðu“ eða skrifuðu að þeir væru tilbúnir til þess að styðja okkur á ýmsa vegu. Hugsa ennþá einhverjir að það séu ekki til ungir menn með opið hjarta, tilbúnir til þess að helga líf sitt þjónustu við Guð? En þá er samt skiljanlegt að einhver spyrji: „Hvers vegna búa engir svona menn á Íslandi? – Við höfum beðið fyrir því í langan tíma, Davíð, er það ekki?“

Svarið við því er það sama og bróðir Mikael gaf mér þetta kvöld í Varsjá: „Að biðja dugar ekki eitt og sér því að það er nauðsynlegt að gera eitthvað áþreifanlegt.“ Það myndi duga skammt ef fjárhirðir gerði ekki annað en að biðja fyrir hjörð sinni. Hans hlutverk er að leiða hjörðina í góðan haga, að verja hana fyrir árásum og berjast við úlfa, ljón og birni og drepa rándýrin. Og ef ekki verður hjá því komist, þarf hirðirinn að fórna lífi sínu fyrir hjörðina.

Þá gætuð þið spurt: „Hvað eigum við þá að gera?“ Mitt svar er: Jú, við þurfum að biðja en það þarf einnig að gera fleira. Hér eru nokkrar tillögur: 1. Til dæmis gætuð þið tekið að ykkur prest, reglubróður eða reglusystur. Það þýðir að þið styðjið og hvetjið viðkomandi. 2. Á þessu ári er útlit fyrir að allt að sex prestnemar byrji að læra fyrir biskupsdæmið okkar, í Póllandi og Slóvakíu. Þá gefst tækifæri til þess að að taka vel á móti þeim, að biðja fyrir þeim, að sýna þeim alúð og að styðja við biskupsdæmi okkar með framlögum til þess að greiða skólavist og framfærslu þeirra. 3. Einnig getið þið þjónað kirkjunni með því að taka að ykkur starf fyrir hana, til dæmis með því að syngja í kirkjukórnum, með því að aðstoða prest, annast blómaskreytingar, lesa í messu o.s.frv., eða 4. með því að gerast prestur eða nunna eða taka við öðru embætti innan kirkjunnar.

Jæja, kæru bræður og systur, nú vitum við hvað við getum gert: Að biðja? Já! En við ættum líka að láta verkin tala. María, móðir allrar köllunar, hjálpaðu oss að finna og rækja köllun okkar. Amen.

 Með blessun

+Davíð biskup

14. apríl 2017

Bræður og systur,

Við erum vön því að fá hirðisbréf a páskatímanum, yfirleitt á páskadag. En í ár ætla ég að hafa annan hátt á, því að í dag hlustum við á píslarsögu Krists. Við sjáum að maðurinn breytist ekki mikið þegar hann heyrir hana, enginn fór að hrópa eða gráta. Eins og hér hefði verið um skáldaða frásögn að ræða.

Árið 2007 fór á kreik á Facebook áhrifamikil saga sem eignuð var lækninum Jim Clark. Hún hljóðar svo:

„Í dag skar ég upp litla stúlku. Hún þurfti á blóði úr O-flokki að halda. Það áttum við ekki til, en tvíburabróðir hennar var af O-blóðflokki. Ég útskýrði það fyrir honum að hér væri um líf eða dauða að tefla. Hann var hljóður um stund og kvaddi síðan foreldra sína. Ég veitti því enga athygli fyrr en eftir að við höfðum tekið úr honum blóðið og hann spurði, „Og hvenær mun ég deyja?“ Hann hélt að hann væri að gefa líf sitt fyrir systur sína. Sem betur fer vegnaði þeim báðum vel.“

Þúsundir eða jafnvel milljónir manna urðu snortnir, og mörg þúsund manns „lækuðu“ söguna. Mér finnst sjálfum sagan mjög falleg, en vil helst ekki segja hana öðrum ef hún er ekki sönn. Ég kannaði málið á netinu og komst að því að frásögnin á ekki við rök að styðjast. Með öðrum orðum, Jim Clark var ekki til, né heldur litla stúlkan og bróðir hennar. Þetta er því falleg frásögn, en ósönn – „feik“.

En í dag vil ég segja það opinberlega og með hárri raustu, að píslarsaga Jesú er ekki ósönn og hún er enginn skáldskapur, ekkert „feik“. Jesús dó á krossinum fyrir okkur, en á sama tíma vissi hann nákvæmlega hvað myndi koma fyrir hann. Ef einhver heldur að Jesús hafi ekki vitað þetta þá er einfaldast að opna Biblíuna og lesa í Matteusar­guðspjalli, tuttugasta kafla, vers 17 til 19: „Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá: ,Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa.‘“ Jesús vissi nákvæmlega hvað beið hans, en hann tók á móti þessu öllu vegna þess að þetta var í fyrsta lagi vilji Föðurins, sem hann elskar mest, og einnig sakir hins mikla kærleika sem hann ber til okkar. Fyrir honum var hvorki um já eða nei að ræða. Hann tók þessu sem einu leiðinni til að bjarga okkur.

Bræður og systur, eftir skamma stund munum við sýna hinum heilaga krossi lotningu okkar. Krossinn er tákn um elsku Jesú. Gerum það í dag með þeirri fullvissu að við kyssum ekki í rauninni aðeins fæturna eða sárin á róðukrossinum, heldur líkt og Jesús sjálfur væri þar lifandi kominn. Og ef okkur tekst það er ég viss um að þessi reynsla verður aldrei frá okkur tekin. Þá er það enginn skáldskapur heldur raunveruleg fórn Jesú til okkar sem við tökum á móti af dýpsta þakklæti.

Við ykkur öll, sem komið saman á páskatímanum, langar mig að segja þetta: Ég vildi ekki aðeins óska þess að þessi reynsla ykkar á föstudaginn langa verði áhrifarík, heldur líka að upprisa Drottins verði varanleg innra með ykkur. Amen.

Bróðir Davíð, biskup

29. janúar 2017

Kæru bræður og systur,

Nú nálgast hátíð kyndilmessu. Við sjáum fyrir okkur ungu hjónin, Maríu og Jósef, ganga inn í musterið til að færa Drottni Jesúbarnið eins og lögmál Gyðinga segir fyrir um. Og vegna þess að Símeon gamli og Anna og allir viðstaddir sáu að þetta var ekki bara venjulegt barn heldur frelsari heimsins sem Guð hafi gefið fyrirheit um, er það venja okkar að blessa kerti á þessum degi til að staðfesta það. Já, hann er þetta ljós heimsins.

Einmitt þetta tákn, kertið, sem ber ljósið til allra, brennur samtímis. Þetta tákn var innblástur fyrir hl. Jóhannes Pál páfa II, sem sagði að þetta skyldi vera dagur allra þeirra sem helga líf sitt Guði. Og þessi dagur er alveg einstakur.

Fyrir skömmu var ég á ferð í Varsjá í Póllandi, og nálægt kapúsína­klaustrinu þar sem ég bjó, er Pilsudski-torgið. Þar má meðal annars sjá gröf ókunna hermannsins en þar brenna alltaf fjórir logar, dag og nótt, árið um kring. Og alltaf standa þar vörð tveir hermenn í fullum herklæðum. Með þessu sýnir þjóðin virðingu sína, ekki bara þessum eina hermanni, heldur öllum þeim sem fórnað hafa lífi sínu fyrir heimaland sitt og þjóð. Þetta finnst mér alveg rétt, því að þeir guldu fyrir það með lífi sínu.

En bíðum við, fyrst þessu er svo háttað á Pilsudski-torginu, þá er ég viss um að sami logi ætti að brenna í kirkjugarðinum sem er að baki Dómkirkjunni okkar. Þessi logi ætti að brenna hjá gröfum allra þeirra þriggja biskupa sem þar hvíla, allra presta Montfortreglunnar eða presta biskupsdæmisins okkar sem störfuðu og dóu hér á landi! Og sömu hermenn ættu líka að standa við gröf hverrar einustu Jósefssystur! Vegna þess að öll helguðu þau líf sitt þjónustunni við þjóð og kirkju á Íslandi. En það er ekki nóg, sami logi ætti að brenna í kirkjugarðinum á Munkaþverá, við gröf Hákonar Loftssonar. Og gleymum ekki Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, en þar eru jarðsettar nunnur bæði frá Hollandi og Póllandi, sem afsöluðu sér lífinu með fjölskyldu sinni og helguðu líf sitt þess í stað kirkjunni hér á landi. Þar ættu að vera bæði hermenn og logi!

En höldum við að þau sjálf biðji um þetta? Nei, alls ekki. Gerum heldur eitthvað enn betra og skynsamlegra í staðinn.

Í fyrsta lagi: Biðjum fyrir þeim sem fórnuðu lífi sínu í þjónustu við Guð og okkur.

Í öðru lagi: Á kyndil­messu skulum við af fremsta megni reyna að sækja messu og láta blessa þau kerti sem við ætlum að nota heima hjá okkur.

Og í þriðja lagi: Hugsum um það, að nú er komið að okkur að halda því verki áfram sem þau byrjuðu, að gera eitthvað fyrir kirkju og þjóð. Og ef okkur er það mögulegt, skulum við ekki óttast að helga líf okkar Guði og kirkjunni í landinu sem prestar, munkar eða nunnur. Unga fólk, heyrið þið það?!

Drottinn þiggi fórn okkar af höndum okkar nafni sínu til lofs og dýrðar, en oss til gagns og heilagri kirkju sinni allri, og megi blessun Guðs, Föður, Sonar og Heilags Anda, koma yfir okkur öll. Amen.

Bróðir Davíð, biskup

27. nóvember 2016

Bræður og systur,

Orð dagsins er „Caritas“. Orðið beinir huga okkar aðallega að söfnun og öðru ekki. En málið er ekki svona einfalt. Hvað merkir orðið Caritas? Íslenska þýðingin er ást, elska eða kærleikur. En hvers konar ást, elsku eða kærleika er þar um að ræða? Er það ástin milli karls og konu, nei, alls ekki. Það köllum við Eros, sem er sú ást sem hefur einkum að markmiði líkamlegt samband við aðra persónu. Á einhvern hátt felst einnig í því löngum til að eiga hana. Kannski gæti Caritas átt við um móðurástina sem getur verið svo sterk að móðurinni er sama um sjálfa sig og er reiðubúin að fórna lífi sínu fyrir barnið. Þessi ást sést hjá sýrlensku konunni sem komst ekki sjálf með í bát flóttamanna heldur borgaði manni nokkrum 5000 evrur fyrir barnið og bað hann að láta það í hendur einhvers sem gæti tekið að sér barnið og alið það upp, því að heima hjá henni var það í stöðugri lífshættu. Slíka ást, sem lýsa má með orðunum: „Ég elska þig meira en mitt eigið líf,“ köllum við Amor. Þannig elskaði Jesús okkur, svo mjög að hann dó á krossinum til að við gætum lifað að eilífu.

         En hvað er þá Caritas? Hvers konar ást er það? Caritas er elska sem deilir með öðrum. Orðið sjálft er af gríska stofninum charis, sem merkir ástargjöf. Þess konar ást merkir að við deilum því sem við eigum með öðrum. Caritas er að bjóða öðrum t.d. til máltíðar sem við höfum búið handa okkur, eða þegar við gefum öðrum helminginn af nestinu okkar eða hjálpum einhverjum með því að gefa af okkar eigin peningum o.s.frv.

         Þið vitið að í biskupsdæmi okkar starfar stofnun sem ber heitið Caritas Ísland. Margir muna eftir tónleikum sem haldnir hafa verið á hennar vegum á aðventu­tímanum eða söfnunum í þágu þeirra sem minna mega sín og þurfa á fjárhags­stuðningi að halda. Í dag vil ég þakka öllum þeim kærlega sem setið hafa í stjórn Caritas-Íslands á undanförnum árum og jafnframt tilkynna það hér að nýr stjórnarformaður hefur tekið við í samtökunum, Mike Frigge.

         Í dag byrjar nýtt kirkjuár og í dag er líka söfnun fyrir Caritas og allt þetta ætti að hjálpa okkur að hugsa svolítið um það að við ættum að taka nýja „Caritas-stefnu“. Við ættum að minnast þess að Caritas er ekki fyrst og fremst stofnun heldur á hugtakið við okkur sjálf: Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar og huga að því hvers vegna og hvernig við getum hjálpað, því að peningar hjálpa ekki alltaf, heldur verður hugsun okkar að breytast. Og það merkir að innst í hjarta okkar og huga ætti að kvikna sterk löngun sem birtist í þessu: Hvernig get ég hjálpað þér, hvað væri best að ég gerði fyrir þig?

         Bræður og systur, ég vil biðja ykkur ekki aðeins að safna fé eða biðja fyrir Mike Frigge og samstarfsfólki hans í Caritas Ísland, heldur einnig að hugsa æ meir um það hvernig við sjálf getum starfað á sem bestan hátt fyrir það fólk hér á landi sem býr við neyð og kröpp kjör. Megi María Guðsmóðir, sem var fyrsta og besta ambátt Guðs, hjálpa okkur að fylgja kærleika og Caritas Krists sonar hennar.

         Guð blessi ykkur öll.

                   +Davíð biskup

Hirðisbréf Davíðs Tencer biskups við upphaf nýs skólaárs 9. ágúst 2016

Ég vil byrja á því að þakka fyrir allt það sem vel hefur verið gert í sumar á sviði barna- og unglingastarfs og annarrar fræðslu, því að þó að börnin hafi verið í sumarleyfi, var ekki alltaf sömu að segja um presta, nunnur og leikmenn. Mörg þeirra tóku þátt í þessu starfi, til að mynda með undirbúningi pílagríms­ferðarinnar til Maríulindar, en þar voru þátttakendur um 140 talsins. Enn aðrir greiddu fyrir för ungmenna héðan (um 30 þátttakendur alls) á Heimsæskulýðs­daginn í Póllandi í sumar, og einnig ber að þakka þeim sem fylgdu pílagrímum hringinn í kringum landið til að heimsækja allar kirkjurnar og kapellurnar á þessu Ári miskunn­seminnar.

Nú hefst nýtt skólaár og þar með einnig trúfræðsla vetrarins. Tilgangur okkar er að sjálfsögðu að kenna börnunum um Guð og kirkju hans, svo sem boðorðin tíu og ýmsar bænir. En, það er þó ekki nóg! Við viljum gera enn meira en veita þeim nauðsynlega fræðslu. Okkur langar að mynda mjög sterkt samband milli unglinganna, Guðs og kirkjunnar. Þetta samband byggir að sjálfsögðu á fræðslu og kenningu en það þarf einnig að snerta hjartað djúpt. Það er svo mikilvægt!!! Hvers vegna?

Það er vegna þess, að maðurinn er stundum eins og krían sem við þekkjum svo vel á Íslandi. En ekki vita allir að krían er á Suðurskautslandinu á veturna og fer lengstu ferð allra dýra í heiminum. Sérfræðingar fylgdust með einni kríu sem flaug 91 þúsund kílómetra á einu ári. Svo ótrúlegt sem  það er, þá fór hún frá Íslandi til Hollands, þaðan suður alla Evrópu og Afríku, þá yfir til Ástralíu og Tasmaníu. Síðan flaug hún til Suðurskautslandsins og fór þar næstum hringinn í kringum heimsálfuna. Og svo fór hún sömu leið til baka til Íslands, allt á innan við einu ári, til þess að verpa hér og koma upp ungum sínum!

Sumir eru eins og rjúpan, alast upp í kirkjunni og fara aldrei frá henni. Lífið er stundum flóknara hjá öðrum, sem hafa alist upp í trú en fjarlægjast svo kirkjuna, en vegna sambandsins við hana í barnæskunni snúa þeir aftur til baka, eins og krían. Vegna alls þessa þurfum við öll, prestar, nunnur, foreldrar, kennarar og þeir sem starfa með börnum og unglingum, að hugsa vel um það að við viljum ekki bara koma kenningunni áleiðis heldur skapa og styrkja tengsl hjartans við kirkjuna og Guð.

Ég óttast ekki um framtíð kirkjunnar ef börnin okkar eru annað hvort eins og rjúpan sem aldrei yfirgefur landið, eða eins og krían sem fer heiminn á enda og snýr til baka til landsins okkar, kirkju og trúar, af því að tengslin þar á milli eru svo sterk.

Blessun Guðs fylgi öllum sem styrkja þessi tengsl á komandi skólaári, 2016-2017.

+ Davíð biskup

29. nóvember 2015

Kæru bræður og systur,

með Kaþólsku kirkjunni um allan heim hefjum við með fögnuði Heilagt ár miskunnsem­innar, sem Frans páfi lýsti yfir í bréfi sínu MISERICORDIÆ VULTUS frá 11. apríl 2015. Ár miskunnseminnar hefst í Róm með opnun Heilagra dyra á hátíð hins flekklausa getnaðar heilagrar Maríu meyjar þann 8. desember n.k. en sunnudaginn á eftir, þriðja sunnudag í aðventu, munu biskuparnir víða um heim hefja formlega Heilagt ár miskunnseminnar í biskupsdæmum sínum. Heilagt ár miskunnseminnar stendur yfir til 20. nóvember 2016.

Ár miskunnseminnar er fyrst og fremst boð kirkjunnar til allra manna um að opna sál sína fyrir miskunnsemi Guðs og einnig til að verða miskunnsamir… eins og Faðir okkar er miskunn-samur… (Lk 6,36).

Aðaldyrnar að guðshúsum okkar hér á landi, sóknarkirkjum og öðrum völdum helgistöðum, veita okkur aðgang að náð og miskunnsemi Drottins og virðast segja við okkur: „Hér er vissulega Guðs hús og hér er hlið himinsins!“ (1M 28,17).

Í krafti þess postullega embættis, sem mér var falið sem biskupi ykkar, hef ég ákveðið að fullkomið aflát Árs miskunnseminnar megi vinna á eftirtöldum stöðum:

 1. Basilíka og Dómkirkja Krists konungs í Landakoti, Reykjavík (Túngötu 13).
 2. St. Maríukirkja Stella Maris í Breiðholti, Reykjavík (Raufarseli 4).
 3. St. Jósefskirkja á Jófríðarstöðum, Hafnarfirði.
 4. Kirkja hl. Jóhannesar Páls II í Ásbrú, Reykjanesbær (Keilisbraut 775).
 5. St. Péturskirkja á Akureyri (Hrafnagilsstræti 2).
 6. St. Þorlákskirkja í Reyðarfirði (Kollaleiru).
 7. Kapella Karmelsklausturs í Hafnarfirði (Ölduslóð 37).
 8. St. Maríukapella hinnar ævarandi hjálpar í Stykkishólmi (Austurgötu 7).
 9. St. Jóhannesarkapella á Ísafirði (Mjallargötu 9).
 10. Corpus Christi-kapella á Egilsstöðum (Lagarási 18).
 11. Kirkja hl. Fjölskyldu og hl. Jóhannesar Maríu Vianney á Höfn í Hornafirði (Hafnargötu 40).
 12. Einnig verður hægt að vinna aflát hins Heilaga árs við Maríulind á Hellnum (Snæfellsnesi).

Til að vinna aflát þarf að:

 1. fara á einn af ofangreindum stöðum,
 2. vekja hugarfar og löngun til að vinna aflát (t.d. með ákalli: Heilagi Guð, heilagi Sterki, heilagi Ódauðlegi, miskunna þú oss og gjörvöllum heimi),
 3. vera í náð Guðs (skriftir),
 4. meðtaka altarissakramentið þennan dag,
 5. játa trúna (t.d. með trúarjátningu) og fara með Faðir vor, Maríubæn og Lofgerðarbænina í bænarefnum hins heilaga föður, Frans páfa.

Mjög skemmtilegt væri ef við gætum á einu ári komist að öllum miskunnarstöðum hér á landi. Bæklingurinn, sem heitir Vegabréf miskunnarinnar og er fáanlegur hjá prestum ykkar, getur verið bæði hvatning og huggun á pílagrímsleið okkar. Auk þess að náð Guðs veitist þeim, sem í einlægni og trú leitast við að öðlast miskunnsemi hans, fá allir, sem hafa heimsótt alla staðina, smáviðurkenningu á biskupsstofu.

Móðir allrar miskunnar, bið þú fyrir oss!

Í gleði og von um, að hið Heilaga ár miskunnseminnar færi biskupsdæmi okkar nýtt líf og nýjan kraft, gef ég ykkur postullega blessun mína.

… Og biðjið fyrir mér! Ég þarfnast þess mjög.

+ Davíð, biskup ykkar