Dómstóll Reykjavíkurbiskupsdæmis

Gildi vígslna og hjónabanda

Við erum vön því í samfélagi okkar að vald sé aðskilið, þannig að löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald sé ekki á einni hendi,  heldur hvert um sig falið sinni stofnun og mönnum til framkvæmda. Í reyndinni er þó mikið samband milli þessara valdastofnana:  Ríkisvaldið, framkvæmdavaldið, styðst að mestu leyti við þingmeirihluta – löggjafarvaldið; dómsvaldið – dómararnir, dæma samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur sett og er tilnefnt af ríkisvaldinu.

Í kaþólsku kirkjunni er slíkur „aðskilnaður valdsins“ í grundvallaratriðum ekki til. Páfinn er löggjafi allrar kirkjunnar og biskupinn löggjafi kirkjunnar á hverjum stað fyrir sig – biskupsdæmisins  –  stjórnandi hennar og dómari. En páfinn og biskuparnir eru í öllu skuldbundnir til að vera trúir orðum heilagrar ritningar og þeim lagaákvæðum Guðs sem í henni eru opinberuð. Þeir  geta ekki breytt þeim heldur aðeins túlkað þau og aðhæft þeim kringumstæðum sem fyrir hendi eru hverju sinni. Auk þess er biskupinn  bundinn fyrirmælum kirkjuréttarins. Ennfremur ber honum að taka tillit til ráðlegginga presta sinna þótt hann taki lokaákvarðanir á eigin ábyrgð. Hvað stjórnina snertir heldur hann ekki alltaf sjálfur um stjórnvölinn, heldur felur öðrum að fara með vald sitt, einkum  staðgengli sínum, og einnig njóta sóknarprestar ákveðins sjálfstæðis.  Til meðferðar mála sem snerta lög og reglur á biskup að skipa dómsfulltrúa – officialis – og dómara. Þeir fella dóma á grunni almennra réttarreglna en fara að eigin hyggju í beitingu þeirra.

Kirkjurétturinn mælir svo fyrir: „Hver biskup sem stjórnar biskupsdæmi skal tilnefna staðgengil til meðferðar dómsmála (officialis). Hann hefur því samkvæmt stöðu sinni almennt dómsvald í biskupsdæminu. Staðgengill (officialis) þessi má ekki vera sá sami og gegnir almennu staðgengilshlutverki“ (sjá gr. 1420,1.lið). „Officialis“ á að vera prestur með próf í kirkjurétti. Biskup skal tilnefna þrjá dómara honum til aðstoðar og skulu þeir einnig hafa góða þekkingu á kirkjurétti. Þessir menn skipa, ásamt með „officialis“, dómstól biskupsdæmisins.

Meirihluti meðlima þess dómstóls skal vera prestar. Biskup tilnefnir þá til ákveðins tíma – oftast fimm ára – en tilnefna má þá á ný til áframhaldandi setu án takmarkana. Biskup má ekki svipta þá embætti nema hann hafi lögmæta og mikilvæga ástæðu til þess.

Dómstóll biskupsdæmisins tekur til meðferðar deilumál sem snerta band heilagrar vígslu eða hjónaband. Í málum sem varða véfengingu vígslu eða umsókn um ógildingu hjónabands skal biskup skipa „vígsluverjanda“ (defensor vinculi) sem færa skal allt það fram og leggja fyrir dómstólinn sem mögulegt er eða skylt að benda á að stríði gegn véfengingu vígslu eða hjónabands. Einnig skal biskup skipa málflytjanda til þess að gæta almennra hagsmuna kirkjunnar sem viðkomandi deila kann að snerta (promotor justitiae), svo og lögbókanda.

Dómstóll biskupsdæmisins dæmir því um gildi vígslna og hjónabanda. Fyrst eru málsaðilar yfirheyrðir og síðan þau vitni sem koma til greina. Það getur annast „rannsóknardómari“ (auditor) sem biskup tilnefnir. Biskup skal leggja málsaðilum og vitnum til málflytjanda (advocatus). Gerðabók yfirheyrslunnar, svo og álitsgerðir vitna og sérfræðinga ef ástæða er til (t.d. lækna og sálfræðinga) eru lagðar fyrir dómstól biskupsdæmisins. Hann rannsakar skjölin, spyr „vígsluverjanda“ um álit hans, ef nauðsynlegt er leggur hann frekari spurningar fyrir málsaðila og vitni og kveður svo upp dóm (samkvæmt meirihluta atkvæða sem ræður úrslitum). Síðan eru öll málskjölin send öðrum dómstóli biskupsdæmisins sem páfastóll hefur bent á til þess. Ef úrskurður þessa „annars dómstigs“ kemur heim við hinn fyrri er dómurinn lögmætur og verður tilkynntur málsaðilum. Ef úrskurður „annars dómstigs“ er á aðra leið en úrskurður dómstóls biskupdæmisins, skal leita til „þriðja dómstigs“ sem í flestum tilvikum er æðsti dómstóll kirkjunnar „Sacra Romana Rota“. Úrskurði hans verður ekki áfrýjað. Í Reykjavíkurbiskupsdæmi hefur ekki verið til fram að þessu dómstóll af þessu tagi. Deilumál varðandi hjúskap milli íbúa biskupsdæmisins hafa fyrst verið lögð fyrir dómstól Óslóarbiskupsdæmis í Noregi og síðan fyrir dómstól erkibiskupsdæmis Westminster í Englandi. Þessi tilhögun hefur oft haft í för með sér erfiðleika vegna mismunandi  tungumála og því leitt til mikilla tafa á afgreiðslu mála. Reykjavíkurbiskup hefur því leitað úrlausnar á vandanum í samvinnu við Óslóarbiskup og páfastólinn. Biskupinn í Münster, Þýskalandi, hefur nú lýst sig reiðubúinn til að „lána“ honum „officialis“, þrjá dómara, einn vígsluverjanda og einn lögbókanda sem allir hafa að baki reynslu og þekkingu á kirkjurétti og búa yfir tilsvarandi tungumálakunnáttu. Þetta fólk hefur biskup því til þess nefnt að taka sæti í hinum nýstofnaða dómstóli Reykjavíkurbiskupsdæmis. „Annað dómstig“ verður síðan í höndum eigin dómstóls Münsterbiskupsdæmis með mismunandi dómendum. Reykjavíkurbiskup hefur síðan tilnefnt úr hópi presta sinna „promotor iustitiae“ (verjanda hagsmuna kirkjunnar), rannsóknardómara og málflytjanda. Þar með hefur Reykjavíkurbiskupsdæmi á að skipa eigin dómstóli sem fjallar sérstaklega um mál sem snerta véfengingu og ógildingu hjónabanda á faglegan hátt og getur leyst þau innan viðhlítandi tíma. Þetta tryggir viðkomandi aðilum þann rétt til málsmeðferðar sem þeir hafa gagnvart kirkju sinni.

Diocesis Reykiavikensis Skjaldarmerki

Skipan dómstóls Reykjavíkurbiskupsdæmis

  • Forseti: Davíð B. Tencer OFMCap. biskup
  • Dómsfulltrúi (officialis): Dompropst Kurt Schulte.
  • Dómarar: Gregor Ewering og Séra Michael Wiemuth.
  • Vígsluverjandi (defensor vinculi): Christina Ruffing.
  • Lögbókandi (Notarin): Simone Post.
  • Verjandi hagsmuna kirkjunnar (promotor iustitiae): Séra Jakob Rolland.

Heimilisföng dómstóls Reykjavíkurbiskupsdæmis

Í Reykjavík: Hávallagötu 14, 101 Reykjavík, sími 552 53 88

Í Münster: Horsterberg 11, D-48143 Münster, sími 0043-251 495 6037