Kirkjulegar athafnir
Skírn
Skírnin er sameiginlegt sakramenti allra kristinna manna. Kirkjan veitir það í umboði Drottins: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni Föður, Sonar og Heilags anda“ (Mt 28:11).
Skírnin stofnar persónulegt samband við Jesú Krist. Hún táknar einnig upptöku í samfélag trúaðra, kirkjuna. Hún leiðir til fyrirgefningar synda og er tákn um að einstaklingurinn hafi hafið nýtt líf sem bróðir eða systir Jesú, sonur eða dóttir Guðs.
Skírnin skyldar einstaklinginn sem skírist, foreldra hans og guðforeldra til þess að breyta eftir Kristi í lífi sínu.
Foreldrar sem fyrirmyndir í trúnni
Það er afar mikilvægt að foreldrar skírnarbarnsins íhugi hvað felst í því að vera kristin. Barn getur aðeins lært það sem fyrir því er haft. Ákvörðun um að færa barn til skírnar krefst þess að foreldri fylgi barninu á leið þess til trúar, í samfélagi kirkjunnar, þegar það tekur á móti fyrsta altarissakramentinu og síðar í fermingunni og hvarvetna þar sem spurningar barnsins vakna um Guð og samleið hans með okkur mönnunum. Þá eru foreldrar ætíð skyldugir til þess að taka afstöðu og bregðast við á grundvelli trúar sinnar.
Guðforeldrar barnsins
Barn sem er fært til skírnar hefur eina guðmóður og einn guðföður. Hlutverk guðforeldra er að vera foreldrum til aðstoðar í kristilegu uppeldi barnsins. Hlutverk guðforeldra er fyrst og fremst af andlegum toga. Orðin guðmóðir og guðfaðir merkir „andleg móðir“ og „andlegur faðir“. Guðforeldrar verða að vera reiðubúin til þess að fylgja barninu í lífinu og vera til vitnis um trú sína í orðum og í verki.
Ferming
„Ferming“ er dregið af orðinu „firmare“ sem á latínu merkir „að staðfesta.“ Í fermingunni felst ákvörðun um að staðfesta skírnarheitin og er sú ákvörðun tekin af fúsum og frjálsum vilja. Uppfrá því er viðkomandi fullgildur kaþólikki með öllum réttindum og skyldum sem því fylgir.
Annar veigamikill þáttur fermingarsakramentisins er kraftur Heilags Anda. Í Biblíunni segir: „Þeir fylltust allir Heilögum Anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og Andinn gaf þeim að mæla“ (P 2. 1-4). Í fermingunni tekur fermingarbarnið á móti Heilögum Anda. „Að upplifa Heilagan Anda“ þýðir, samkvæmt Biblíunni, að mæta Guði og leyfa honum að tala til sín, að átta sig á því að kraftur hans er að verki í lífi okkar og geti unnið í okkur og í gegnum okkur. Kraftur Heilags Anda veitir styrk og hvetur menn til þess að taka ábyrgð á sjálfum sér og samfélagi sínu. Þar með dýpkar fermingarsakramentið á sérstakan hátt merkingu þess að verða fullorðinn einstaklingur.
Fermingarfræðsla
Fyrir ferminguna sækir fermingarbarnið fræðslu í kristnum fræðum hjá presti. Í fermingarfræðslunni gefst unglingunum tækifæri til þess að spyrja spurninga og íhuga trúnna og lífið. Fræðsluna annast prestar, reglusystur og leikmenn. Biskupsdæmið hefur gefið út trúfræðslurit og vinnubækur á íslensku. Prestar eða systur skipuleggja sérstaka kvertíma víðsvegar um landið handa börnum sem aðeins tala eða skilja pólsku eða ensku. Börn sem búa fjarri þeim stöðum þar sem skipulögð trúfræðsla fer fram geta tekið þátt í bréfaskóla.
Nánari upplýsingar veita sóknarprestar.
Hjónaband
Hjónaband er eitt hinna sjö sakramenta. Það er tákn um kærleikann sem Guð ber til mannanna. Í kærleika hjóna hvers til annars verður kærleikur Guðs til mannsins sýnilegur. Í sakramenti hjónabandsins veitir Guð hjónunum vernd sína, blessun og stuðning í hinu sameiginlegu lífi. En þar sem það er ekki aðeins um kærleika þeirra beggja að ræða heldur einnig kærleika Guðs, gefast þau hvort öðru opinberlega frammi fyrir prestinum, fulltrúa kirkjunnar og tveimur vitnum.
4 grunnstoðir hjónabandsins:
Órjúfanleiki Hjónabandið er ævilangur sáttmáli. Jesús segir „það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja“ (Mk 10.9).
Eining Þegar karl og kona gefa sig hvort öðru af frjálsum vilja „eru þau ekki framar tvö heldur einn maður“ (Mt 19.6).
Samvinna Hjónabandið byggist á samvinnu beggja aðila á jafningjagrundvelli og á gagnkvæmum stuðningi og virðingu, jafnt í gleði sem sorg.
Foreldrahlutverkið Í hjónabandinu skal viljinn til þess að eignast börn vera fyrir hendi. Ennfremur er ein höfuðábyrgð foreldra að ala börn sín upp í kristinni trú.
Hjón eru hvött til að iðka náttúrulega fjölskylduáætlun í samræmi við kaþólska siðferðisreglur. Nánari upplýsingar um náttúrulega fjölskylduáætlun er að finna HÉR
Þessi boð eru mörgum þungbær; ekki er til nein trygging fyrir árangursríku hjónabandi. Fólki getur skjátlast hverju um annað. Kærleikurinn getur dáið og þeir sem elskuðust skilji hvort annað ekki lengur. Hjónabönd geta brostið. Kristnir menn verða að treysta því að kærleikur Guðs yfirgefur þá ekki þegar svo er komið og þeim verður heldur ekki útskúfað úr kirkju Jesú Krists.
Undirbúningur fyrir hjónavígsluna
Nánari upplýsingar veita sóknarprestar.
Hinn deyjandi, andlát og útför
Dauðinn eru afdráttarlaus endalok. Oft á tíðum nálgast dauðinn hægt og við getum búið okkur undir hann en stundum andast menn skyndilega. Fyrir ættingja og vini er alltaf sárt að kveðja. Á þessum erfiðu tímum finnur fólk huggun í samúð annarra og í þeirri fullvissu að dauðinn er ekki endir alls. Sú von birtist á Páskunum, þegar Drottinn umbreytir dauða í nýtt líf. Þessi von kemur fram í bænum og í tilbeiðslu trúaðra.
Prestsþjónusta fyrir hinn deyjandi
Æskilegt er að allir kaþólskir menn meðtaki sakramentin fyrir andlát. Smurning sjúkra og deyjandi er afar mikilvæg í kaþólskri trú. Smurning fer þannig fram að prestur ber olíu á enni og hendur sjúklings. Í smurningunni leitar sjúklingurinn heilsu á ný og/eða styrks til að mæta þjáningunni og því sem verða vill.
Ef andlát er yfirvofandi vinsamlegast bíðið ekki með að hafa hafið samband við prest.
Nánari upplýsingar um prestþjónustu við sjúka, útför og greftrun veita sóknarprestar.
Minningarkort
Tekið er á móti beiðnum um minningarkort á skrifstofu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi í síma 552 5388.
Unnt er að að leggja inná reikningsnúmerið: 0528-26-3145
Kennitala Kaþólsku kirkjunnar er: 680169-4629
Lágmarksgjald er kr. 500.-