Saga Kaþólsku Kirkjunnar á Íslandi

Ágrip

Kristnir landnámsmenn Talið er að fyrstu mennirnir sem settust að á Íslandi hafi verið svonefndir papar. Þeir voru kaþólskir einsetumenn frá Írlandi.

Í lok 9. aldar námu norrænir og keltneskir menn land á Íslandi. Flestir þeirra voru heiðnir og trúðu á forn norræn goð. Hluti landnámsmanna, frá Írlandi og Suðureyjum Skotlands, var kristinn.

Á 10. öld komu kaþólskir trúboðar til landsins frá Noregi og Norður-Þýskalandi. Þeir kristnuðu æ fleiri íbúa landsins. Svo fór að árið 1000 samþykkti Alþingi að lögtaka kristni sem almenna trú í landinu öllu.

Biskupsdæmi stofnuð Alþingi hafði samband við forsvarsmenn heimskirkjunnar í Róm og bað þá að veita landinu kirkjulega stjórn. Fyrsti íslenski biskupinn var Ísleifur Gissurarson árið 1056. Faðir hans, Gissur hvíti gaf honum óðal sitt, Skálholt, og „kvað svo á, að þar skyldi biskup sitja meðan kristni væri í landinu.“  Árið 1106 var stofnað biskupsdæmi á Hólum á Norðurlandi. Á fyrstu tveimur öldum kristninnar voru hér um bil tvö þúsund kirkjur byggðar á landinu.

Klausturreglur og menningarlíf Stofnuð voru munka- og nunnuklaustur á Íslandi, bæði af reglu Benedikts af Núrsíu og af reglu Ágústínusar kirkjuföður. Þau urðu, ásamt biskupsskólunum í Skálholti og á Hólum, miðstöðvar menntunar og menningarlífs.

Fyrir áhrif þeirra þróaðist ríkuleg menning hér á landi og kirkjuleg rit, fornsögur og lög voru skrásett. En reglubræður, reglusystur og aðrir kirkjunnar menn stuðluðu einnig að framförum á sviði landbúnaðar sem og umönnunar sjúkra og fátækra.

Heilagur Þorlákur, verndardýrlingur Íslands Mikilvægasti biskup miðalda var Þorlákur Þórhallsson. Hann var biskup í Skálholti 1178-1193. Hann stundaði nám í Frakklandi og Englandi. Hann reyndi að bæta siðferði presta og leikmanna og krafðist þess að leikmenn létu eignarrétt sinn yfir kirkjueignum í hendur kirkjunnar.

Hann var þegar á sínum dögum tignaður sem helgur maður og helgitaka hans fór fram á Þingvöllum fimm árum eftir dauða hans. Árið 1984 lýsti Jóhannes Páll páfi II yfir því að hann væri „verndardýrlingur Íslands“.

Siðaskipti árið 1550 Í kjölfar siðaskipta tókst Kristjáni III Danakonungi að ná yfirráðum yfir eignum Kaþólsku Kirkjunnar á Íslandi. Hann kom einnig mótmælendaprestum til valda og setti stofnanir kirkjunnar undir þeirra stjórn.

Jón Arason biskup Jón Arason, biskup á Hólum neitaði að skipta á krúnunni og páfanum í andlegum málum. En þrátt fyrir kröftuga mótspyrnu var hann handsamaður og tekinn af lífi án dóms og laga í Skálholti 7. nóvember 1550. Í kjölfarið var bannað að aðhyllast kaþólska trú að viðlögðu lífláti eða útlegð.

Kaþólsk Kirkja endurreist á 19. öld Fyrstu kaþólsku trúboðarnir eftir siðaskipti komu til Íslands árið 1857. Tveimur frönskum prestum, séra Bernard Bernard og séra Jean-Baptist Baudoin (kallaður séra Baldvin) var heimilað að þjóna frönskum sjómönnum sem voru við fiskveiðar við landið.

Þremur árum síðar settust þeir að í Landakoti, þar sem Dómkirkja Krists konungs stendur í dag. Séra Baldvin dvaldi hér í 15 ár. Á þeim tíma heyrði Ísland undir svokallað „Norðurheimskautstrúboð“ (Præfectura Apostolica Poli Arctici) sem stofnað var 1855 og náði yfir nyrstu lönd Evrópu og Ameríku.

Uppbygging kirkjunnar Árið 1869 var Norðurheimskautstrúboðið leyst upp og Ísland lagt undir nýstofnað trúboðsumdæmi í Danmörku. 1895 voru sendir hingað til lands tveir prestar frá trúboðskirkjunni í Danmörku og ári síðar fjórar Jósefssystur.

Uppeldis- og velferðarmál Jósefssystur sinntu hjúkrunarstörfum og byggðu Landakotsspítala sem var mikið framfaraskref í heilbrigðismálum á Íslandi. Fljótlega eftir komu þeirra hófu þær að kenna fáeinum kaþólskum börnum í húsakynnum sínum í Landakoti. Í kjölfar þess var Landakotsskóli stofnaður. Árið 1938 komu systur af reglu St. Fransiskusar frá Belgíu sem byggðu og ráku spítala í Stykkishólmi. Síðar hafa fleiri systur af ýmsum reglum starfað hér á landi.

Montfort-reglan Árið 1903 komu fyrstu Montfort-prestarnir til landsins. Þeir höfðu umsjón með trúboðinu til ársins 1968. Séra Marteinn Meulenberg var gerður að yfirmanni þess árið 1923. Árið 1929 var trúboðsumdæmið á Íslandi fært á efra stig stjórnsýslunnar og gert að víkaríati. Þá fékk Meulenberg fullt biskupsvald. Árið 1941 tók Jóhannes Gunnarsson, fyrsti íslenski presturinn eftir siðaskipti, við embætti biskups og gegndi því til ársins 1966.

Á tímabili trúboðskirkjunnar á Íslandi, þ.e. frá 1903-1968, sáu Montfortpresta að mestu leyti um starfsemi hennar með aðstoð Jósefssystra í Reykjavík og Hafnarfirði og Fransiskussystra í Stykkishólmi. Eftir það hafa kaþólskir prestar hér á landi ýmist verið ,,heimsprestar“, þ.e. utan reglu, eða af öðrum prestareglum.

Forverar dómkirkjunnar Fyrsta kapellan í Landakoti var tekin í notkun árið 1864 af séra Bernard og séra Baldvin. Messuhald í henni naut mikilla vinsælda meðal bæjarbúa en stóð stutt vegna andstöðu íslenskra yfirvalda sem bönnuðu öðrum en kaþólskum að sækja þar messu. En með íslensku stjórnarskránni 1874 komst trúfrelsi á hér á landi og upp frá því fékk Kaþólska Kirkjan nýtt tækifæri til trúboðs.

Í lok 19. aldar komu tveir trúboðsprestar og fjórar systur af Jósefsreglu til landsins. Þau stóðu fyrir byggingu nýrrar kirkju sem var helguð hjarta Jesú og var vígð árið 1897. Hún var notuð í um 25 ár. Seinna varð hún hluti af Landakotsskóla og notuð sem íþróttasalur. Hún stendur nú í Árbæjarsafni.

Dómkirkja Krists Konungs Á árunum eftir fyrri heimstyrjöld ákvað Montfort-prestareglan að ráðast í smíði kirkju í nýgotneskum stíl eftir teikningum íslenska arkitektsins Guðjóns Samúelssonar.

Kirkjan var fullreist árið 1929 og vígð þann 23. júlí sama ár. Í framhaldi af því var Marteinn Meulenberg yfirmaður trúboðsumdæmisins og forvígismaður að byggingu kirkjunnar, vígður í embætti fyrsta kaþólska biskupsins á Íslandi eftir siðaskipti.

Lengi var Dómkirkja Krists konungs stærsta kirkja landsins. Eitt sinn var Meulenberg spurður hvort kirkjan væri ekki fullstór fyrir svo lítinn söfnuð (sem taldi þá um 130 manns). Hann svaraði því til að innan fárra ára mundi enginn tala um hvað kirkjan væri stór heldur fremur spyrja hvers vegna hann hefði ekki látið byggja enn stærri kirkju.

Dómkirkjan ber nafn Krists Konungs í heiðursskyni við Krist Konung alheimsins. Kirkjan er undir verndarvæng Maríu Guðsmóður, heilags Jósefs og tveggja helgra, íslenskra manna, Jóns Ögmundarsonar og Þorláks Þórhallssonar. Kirkjuklukkurnar þrjár eru tileinkaðar Kristi konungi, Maríu mey og heilögum Jósef.

Í tilefni af hátíðinni „Kristni í 1000 ár á Íslandi“, árið 2000, var dómkirkjan heiðruð og fengin nafnbótin „basilíka“, hin eina í löndum Norður-Evrópu.

Biskupsdæmi Reykjavíkur stofnað 1968

Stofnbréf  Reykjavíkurbiskupsdæmis var undirritað af Páli VI páfa þann 18. október 1968.

Af því tilefni sendi Kaþólska Kirkjan á Íslandi eftirfarandi fréttatilkynningu:

„Herra Páll páfi VI hefur veitt Íslandi þann heiður að endurreisa hér á landi, fyllilegan kaþólskan biskupsdóm, eins og áður var, með því að stofna hér Reykjavíkurbiskupsdæmi.“

Í þessu fólst að Kaþólska Kirkjan á Íslandi og umdæmi hennar var skilgreint sem sérstakt og sjálfstætt biskupsdæmi með eigin dómkirkju og biskupi.

Fyrsti biskup Reykjavíkurbiskupsdæmis var Hinrik Frehen SMM. Hann gegndi embætti biskups frá 1968 til dánardags árið 1986.

Lengi fram eftir öldinni fjölgaði hægt í kaþólska söfnuðinum á Íslandi. Árið 1960 taldi söfnuðurinn um ½ % þjóðarinnar (897), árið 1994 um 1% (2.535) en eru nú um 4,0% landsmanna (um 14.600), að stærstum hluta innflytjendur frá kaþólskum löndum, einkum Póllandi.

Biskupar Reykjavíkurbiskupsdæmis

Hinrik Frehen 1968 –1986 • Alfreð Jolson S.J. 1988 –1994 • Jóhannes Gijsen 1996–2007 • Pétur Bürcher 2007–2015 • David B. Tencer OFMCap. frá 2015

Hinrik Frehen S.M.M. (f. 1917 –  d. 1986) var frá Hollandi og gegndi embætti Reykjavíkurbiskups til dánardags. Hann beitti sér fyrir endurnýjun helgisiða og lét þýða messu- og helgitexta á íslensku. Frehen biskup tókst að bæta fjárhagsstöðu biskupsdæmisins með stuðningi frá Hollandi og Þýskalandi.  Hann vann ötullega að því að vekja áhuga prestnema í ýmsum löndum á að koma til Íslands. Það starf hans bar góðan ávöxt.

Alfred Jolson S.J. (f. 1928 – d.1994) var bandarískur, af vestur-íslenskum ættum. Jolson biskup stundaði nám við Boston College og Weston College og hlaut meistaragráðu í viðskiptafræði frá Harvard háskóla og lauk doktorsprófi í hagfræði frá Gregorian University í Róm. Hann var vígður prestur árið 1958. Hann starfaði 35 ár við kennslu við framhaldsskóla í Bandaríkjunum, Ítalíu, Ródesíu og Írak. Hann sat í stól Reykjavíkurbiskups frá 1988 til dánardags. Á þeim árum voru tvær kapellur vígðar: Í Keflavík og á Ísafirði. Jolson biskup tók á móti Jóhannesi Páli páfa II í heimsókn hans til Íslands dagana 3. og 4. júní 1989.

Jóhannes Gijsen (f. 1932 – d. 2013) var frá Hollandi. Hann stýrði biskupsdæminu frá 1995 til 2007. Hann bauð erlendum prestum að sinna auknum fjölda kaþólskra manna. Í tíð hans voru tvær kirkjur vígðar; á Akureyri og í Breiðholti. Einnig voru tvær kapellur blessaðar; á Reyðarfirði og á Ísafirði. Honum auðnaðist einnig að fá reglusystur úr ýmsum reglusamtökum til að sinna trúboðs- og þjónustustörfum á Íslandi. Gijsen biskup gekkst fyrir þýðingu „Missale Romanum“ messubókarinnar á íslensku.

Pétur Bürcher (f. 1945) frá Sviss tók við embætti Reykjavíkurbiskups árið 2007. Í hans tíð var ný kirkja vígð á Ásbrú og tvær kapellur; á Egilsstöðum og á Höfn. Árið 2014 var sókn hl. Jóhannesar Páls II á Ásbrú í Keflavík komið á fót. Með aðstoð ýmissa hjálparsamtaka var fjárhagur biskupsdæmisins endurbættur og fyrir þeirra hjálp hefur einnig gisti- og fræðslumiðstöð verið komið upp í Stykkishólmi.

David B. Tencer OFMCap. (f. 1963) situr nú á biskupsstóli. Hann er frá Slóvakíu og tilheyrir reglu Kapúsínabræðra. Frá 2004 var hann skipaður aðstoðarprestur í Maríusókn í Breiðholti í Reykjavík. Árið 2007 var hann skipaður sóknarprestur á sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði. Í biskupstíð hans hefur ný kirkja verið byggð á Reyðarfirði og sókn hl. Jóhannesar postula stofnuð á Vestfjörðum og són hl. Frans frá Assisi á Vesturlandi.

Hl. Þorlákur

Kaþólskir biskupar á Íslandi frá 1000 til 1550

Biskupar yfir öllu Íslandi

Ísleifur Gizurarson 1056-1080.

Gizur Ísleifsson 1082-1106.

Biskupar í Skálholti.

Gizur Ísleifsson 1106-1118.

Þorlákur Runólfsson 1118-1133.

Magnús Einarsson 1134-1148.

Klængur Þorsteinsson 1152-1176.

Þorlákur helgi Þórhallsson, Ágústínusarreglu 1178-1193.

Páll Jónsson 1195-1211.

Magnús Gizurarson 1216-1237.

Sigvarður Þéttmarsson, Benediktsreglu, norskur 1238-1268.

Árni Þorláksson 1269-1298.

Árni Helgason 1304-1320.

Grímur Skútuson, Benediktsreglu, norskur 1321.

Jón Halldórsson, Dóminíkanareglu, norskur 1322-1339.

Jón Indriðason, Benediktsreglu, norskur 1339-1341.

Jón Sigurðsson, Ágústínusarreglu 1343-1348.

Gyrðir Ívarsson, Ágústínusarreglu, norskur 1350-1360.

Þórarinn Sigurðsson, norskur 1362-1364.

Oddgeir Þorsteinsson, norskur 1365-1381.

Michael, Dóminíkanareglu, danskur 1382-1391.

Vilkin Hinriksson, Dóminíkanareglu, danskur 1391-1405.

Jón (fyrr ábóti í Noregi), Benediktsreglu, norskur 1406-1413.

Árni Ólafsson, Ágústínusarreglu, 1413-1425.

Jón Gerreksson, danskur 1426-1433.

Jón Vilhjálmsson Craxton, enskur (sjá Hólar nr. 17) 1435-1437.

Gozewijn Comhaer, Karþúsareglu, hollenskur 1437-1447.

Marcellus, Fransiskusreglu, þýskur 1448-1462.

Jón Stefánsson Krabbe, danskur 1462-1465.

Sveinn Pétursson 1466-1475.

Magnús Eyjólfsson, Ágústínusarreglu, 1477-1490.

Stefán Jónsson 1491-1518.

Ögmundur Pálsson, Ágústínusarreglu, 1521-1541.

Biskupar á Hólum.

Jón Ögmundarson helgi 1106-1121.

Ketill Þorsteinsson 1122-1145.

Björn Gilson 1147-1162.

Brandur Sæmundsson 1163-1201.

Guðmundur Arason góði 1203-1237.

Bótólfur, Ágústínusarreglu, norskur 1238-1247.

Heinrekur Kársson, norskur 1247-1260.

Brandur Jónsson, Ágústínusarreglu 1263-1264.

Jörundur Þorsteinsson 1267-1313.

Auðun Þorbergsson, norskur 1313-1322.

Lárentíus Kálfsson, Benediktsreglu, 1324-1331.

Egill Eyjólfsson 1332-1341.

Ormur Ásláksson, norskur 1342-1356.

Jón Eiríksson, norskur 1358-1390.

Pétur Nikulásson, Dóminíkanareglu, danskur 1391-1411.

Jón (Henriksson eða Tófason), Dóminíkanareglu 1411-1423.

Jón Vilhjálmsson Craxton, (sjá Skálholt nr. 23) 1425-1435.

Jón Bloxwich, Karmelreglu, enskur 1435-1440.

Róbert Wodborn, Ágústínusarreglu, enskur 1441.

Gottskálk Keneksson, norskur 1442-1457.

Ólafur Rögnvaldsson, norskur 1460-1495.

Gottskálk Níkulásson, norskur 1496-1520.

Jón Arason, píslarvottur 1524-1550.

Kaþólskir biskupar á Íslandi frá 1929 til dagsins í dag

Biskupar vígðir til Hóla með aðsetur í Reykjavík.

Marteinn Meulenberg, Montfortreglu, þýskur 1929-1941.

Jóhannes Gunnarsson, Montfortreglu 1942-1966.

Reykjavíkurbiskupar.

Hinrik Frehen, Montfortreglu, hollenskur 1968-1986.

Alfred Jolson, Jesúítareglu, bandarískur 1988 – 1994.

Jóhannes Gijsen, hollenskur 1996 – 2007.

Pétur Bürcher, svissneskur 2007 – 2015.

Davíð Tencer, slóvakískur 2015 –