Frans páfi hefur lýst því yfir að árið 2025 sé Heilagt Ár. Það er dásamleg gjöf til kirkjunnar, raunar til gervalls heimsins. Heilagt Ár er biblíuleg stofnun. Við lásum fyrst um það í Þriðju Mósebók – ef til vill er það ekki sú bók sem við snúum okkur helst til fyrir andlegan lestur. Við skulum rifja upp orð Drottins til Móse á Sínaífjalli um Árið Helga.
Árið Helga skal vera fimmtugasta hvert ár, eftir „sjö vikur ára“. Hlutverk þess var að gefa öllum íbúum landsins landsins reglulega tækifæri til þess að leiðrétta stöðu mála, veita þrælum frelsi, fella niður skuldir og hvílast frá framkvæmdum. Það átti að vera ár heimkomu: „Á þessu Helga Ári skuluð þér hverfa aftur til jarðeignar yðar, hver og einn“ (3Mós 25.12). Þetta atriði snertir annað og meira en einungis tilfinningalega tengingu við gamla varðeldinn. Það varðar eðli eigna og tilkall okkar til þeirra. Þriðja Mósebók viðurkennir flókið gangverk mannlegra samfélaga. Það getur birst í því þegar jarðeignir skipta um hendur. Einhver býr á jörðinni um hríð, selur hana eða er rekinn á brott, annar maður kemst yfir hana og slær eign sinni á hana. Þá rísa upp deilur. Einhver hrópar: „Þetta land er mitt!“ Einhver annar hrópar: „Engan veginn! Það er mitt!“ Það eru þessar aðstæður sem biblíutextinn fjallar um. Það gerir hann með því að fjalla um réttindi og eignarrétt á skýran og skorinorðin hátt. „Landið,“ segir Drottinn, „skal ekki selt að eilífu, því að landið er mitt; hjá mér eruð þér aðeins útlendingar og leiguliðar“ (3Mós 25.23).
Sé litið til óásættanlegs ástands í heiminum í dag er þetta sjónarhorn mikilvægt. Samfélag frjálsra kvenna og karla sem byggir á traustum grunni og er í takt við vilja Guðs fyrir mannkynið, er ekki einungis grundvallað á tilkalli til eignar. Til þess að samfélag geti dafnað verða einstaklingar innan þess fyrst að verða þjóð, sem er bundin sáttmála sem byggir á réttlæti og er í samræmi við náttúruleg lög og lög innblásin af Guði. Þegar upp er staðið erum við öll, eins og Abraham, faðir okkar í trúnni, ferðalangar og útlendingar í landinu (1Mós 23.4). Okkur verður þá að lærast að vera verðugir ferðalangar, skuldbundnir til að ástunda bæði réttlæti og gestrisni, með það í huga að landið, hvar sem við búum á jörðinni, er áfram Drottins og að við verðum kölluð til ábyrgðar fyrir pólitíska, trúarlega og vistfræðilega forsjá þess.
Eftir að hafa kynnt meginregluna varðandi eignarhald á landi, beitir Mósebók rökfræði Fagnaðarársins nánar um mannleg samskipti. Biblían hefur engar falshugmyndir um þetta. Þar segir „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman“ (Sálmur 133.1) samtímis er viðurkennt að fyrir þess konar bræðralag þarf að borga dýru verði. Við verðum að leitast eftir því þó að það kosti miklar þjáningar. Gleymum ekki að saga mannkyns, eftir að hafa yfirgefið Eden, hefst á bræðravígi (1Mósebók 4.1-8). Það er ekki í eðli okkar manna að lifa saman í friði þegar tilvera okkar er særð og blinduð af synd. Þar af leiðandi kynnir Ritningin friðinn sem máttugan, lifandi veruleika sem okkur ber að sækjast eftir með því að hverfa frá hinu illa og með því að gera gott (sbr. Sálmur 34.14). Mótlæti lífsins getur valdið því að einn maður sé kúgaður af öðrum manni – til dæmis vegna skulda eða fangelsisvistar. Sá sem ræður yfir skuldavíxlinum eða lykli fangavarðarins getur því orðið ölvaður af valdinu rétt eins og að hinn undirokaði sé eign hans og hann megi fara með hann að vild. Þriðja Mósebók minnir okkur á að þetta er blekking. Okkur er sagt „Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu.“ (3Mós 25.39). Enginn maður getur, sama hvernig á það er litið, talið sig geta átt annan einstakling. Karlar og konur haga sér stundum heimskulega, jafnvel andstyggilega. Stundum þarf að hefta frelsi þeirra með réttlátum hætti til að þau geri upp sínar skuldir, sæti refsingu eða verði frelsissvipt. Þrátt fyrir það eru þau áfram fullráða. Það sem meira er, þá eru þau einfaldlega í krafti mennsku sinnar sköpuð í mynd Guðs og njóta óskoraðar virðingar sem okkur ber að viðurkenna og halda í heiðri. Í Þriðju Mósebók er flett ofan af hugmyndinni um að það sé náttúruleg skipan að sumir menn séu þegnar annarra með því að fyrirskipa að allir þrælar skuli frelsaðir á Árinu Helga. „Því að þeir eru þjónar mínir,“ segir Drottinn, „sem ég hefi leitt út af Egyptalandi“ og endurleysti (3Mós 25.42). Aðeins Guð getur sagt við okkur með rétti: „Þú ert minn“ (Jesaja 43.1). Aðeins hann, sem er almáttugur og miskunnsamur, getur látið okkur reyna algjört ósjálfstæði sem fullkomið frelsi.
Hugsjónum sem Biblían lýsir er ekki framfylgt í heiminum sem við búum í. Þetta er ástand sem við verðum, sem kristið fólk, að horfast í augu við og leitast við að breyta með öllum ráðum. Hugsið ykkur: Mansal fer vaxandi, skelfileg og niðurlægjandi viðskipti, heilar þjóðir eru lamaðar af skuldum og arðrændar miskunnarlaust, viðskiptastarfsemi (lögleg og ólögleg) stuðlar að og ýtir undir fíkn í eiturlyf, leiki, klám og áfengi í þeim tilgangi einum að hagnast og finna upp leiðir til að halda fólki fjötrum. Og hvað eigum við að segja um minnkandi réttindi ófæddra, sem í auknum mæli er neitað um hvers konar mannúðlega, lagalega vernd? Þegar kristni var lögtekin í löndum okkar fyrir um það bil þúsund árum, var stórt siðmenningarskref tekið fram á við með viðurkenningu á reisn sérhvers einstaklings, allt frá því að hann er í móðurkviði. Trú á holdgerðan Guð, sem gerðist „maður eins og við í öllu nema synd“ (fjórða Evkaristíu Efstabæn), hafði mikil áhrif á sameiginlegan skilning okkar á því hvað það er að vera manneskja. Eftir því sem þessi gildi hverfa frekar úr opinberu lífi, blasir þeim mun meiri ógn við mannkyninu. Þar með leyfist einum manni að líta á annan einstakling sem hverja aðra eign. Þetta er tilhneiging sem okkur ber siðferðileg skylda til þess að vinna gegn á uppbyggilegan hátt svo lengi sem við aðhyllumst mannskilning sem er verðugur eðli okkar.
Það er dásamleg hending að Árið Helga á næsta ári, sem kallar okkur til að byggja upp réttlátari heim, falli saman við sautján alda afmæli kirkjuþingsins í Níkeu, sem haldið var árið 325. Í Níkeu var trúarjátningin skilgreind sem við játum ennþá á hverjum sunnudegi, þegar við staðfestum trú okkar á hina blessuðu þrenningu, einn Guð í þremur persónum; í holdgun sonar Guðs, „ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum“; í endurleysandi og helgandi verki Jesú Krists með fæðingu hans, kennslu, dauða, upprisu og uppstigningu til himna, og í umbreytandi nærveru Heilags Anda meðal okkar og innra með okkur, huggarans, sem talaði í gegnum spámennina og talar enn til okkar í gegnum heilaga kirkju.
Sem biskupar ykkar biðjum við þess að á Árinu Helga verði trúarástundun í löndum okkar enn áhrifaríkari, kærleiksfyllri og skynsamari. Við bjóðum ykkur að snúa til undirstöðunnar sem trúarjátning okkar hvílir á, með því að rannsaka Ritninguna og hið dásamlega Kaþólska trúfræðslurit til þess að öðlast dýpri innsýn í leyndardóma trúarinnar, til þess að skynja hvað það merkir að lifa „í Kristi“ (Galatabréfið 2.20), og vera þar með betur í stakk búinn til „að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er“ (1Pétursbréf 3.15). Með slíkan undirbúning í farteskinu munum við finna styrk og burði til þess að vera talsfólk Ársins Helga, svo að Drottinn megi, þegar við biðjum á föstudeginum langa, „hreinsa heiminn af allri villu, víki burt sjúkdómum, afstýri hungursneyð, opni fangelsi, leysi fjötra, veiti ferðamönnum öryggi, pílagrímum heimkomu, sjúklingum heilbrigði og hjálpræði hinum deyjandi.“ Við munum styðja ykkur í þessari heilögu vegferð af öllum mætti, með þakklæti fyrir vitnisburð um trúmennsku, kærleika og örlæti sem við finnum í biskupsdæmunum sem okkur eru forréttindi að þjóna. Í bréfi Frans páfa, þar sem hann boðar Fagnaðarárið og var gefið út á hátíð Maríu Meyjar af Lourdes 2022, lýsti páfi von sinni um að komandi ár gæti byggt upp kirkjuna „svo að hún geti haldið áfram ætlunarverki sínu að flytja öllum gleðilega boðun fagnaðarerindisins“. Við tökum undir þennan ásetning og segjum af heilum hug: „Amen!“ Einkunnarorð Ársins Helga eru „Peregrinantes in spem“. Okkar hlutverk er að vera pílagrímar sem fara frá vonleysi til vonar. Þegar við höldum inn í nýja aðventu dáumst við að þeirri náð sem okkur er gefin í holdgervingu Orðsins, sem endurnýjar heiminn. Megum við vera trúverðug vitni þessarar endurnýjunar, sem lærisveinar Krists, með því að vinna góðverk af örlæti, eiga staðfast samfélag og ástunda dirfskufullt réttlæti, baðað í dýrð sannleikans.
Birt fyrsta sunnudag í aðventu 2024,
+ Anders Cardinal Arborelius OCD (biskup í Stokkhólmi), +Peter Bürcher (emeritus biskup í Reykjavík), +Bernt Eidsvig, Can.Reg. (biskup í Ósló), +Raimo Goyarrola, (biskup í Helsinki, varaforseti), + Berislav Grgić (emeritus biskup í Tromsö), +Czeslaw Kozon (biskup í Kaupmannahöfn), +Teemu Sippo SCJ (emeritus biskup í Helsinki), + David Tencer OFM (biskup í Reykjavík), +Erik Varden OCSO (biskupsprestur Þrándheims og postullegur stjórnandi Tromsø, forseti), Sr Anna Mirijam Kaschner CPS (framkvæmdastjóri)