Ný sókn á Suðurlandi

Eftir áralanga uppbyggingu safnaðarstarfs á Suðurlandi í sókn Heilagrar Maríu meyjar Hafsins stjörnu, Reykjavík og töluverða fjölgun safnaðarmeðlima á þessum slóðum hefur David B. Tencer OFMCap biskup Reykjavíkurbiskupsdæmis stofnað nýja sókn á Suðurlandi. Sóknin sem hefur hlotið nafnið Sókn Hins Heilaga Kross var formlega stofnuð á Krossmessu, hátíð upphafningar hins heilaga kross, sunnudaginn þann 14. september 2025.
Nafn nýju sóknarinnar tengist sögu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi því að í Kaldaðarnesi í Sandvíkurhreppi var kross sem pílagrímar stöldruðu við á leið sinni til Skálholts. Hann var einnig heiðraður af heimamönnum, sérstaklega öldruðum og sjúkum, sem trúðu því að hann hefði lækningamátt.
Séra Mercurio Claudio Rivera III, núverandi aðstoðarprestur á Ásbrú og enn áður aðstoðarprestur í Maríukirkju og á Selfossi, hefur verið skipaður stjórnandi hinnar nýju sóknar. Séra Mercurio er frá Filippseyjum og hefur starfað sem prestur hjá Kaþólsku kirkjunni á Íslandi frá því í ársbyrjun 2021.
Hann verður boðinn velkominn til starfa í messu sunnudaginn 5. október í kapellunni að Smáratúni 12.
Mörk nýju sóknarinnar skulu fylgja mörkum Suðurlands (Árnessýsla, Rangárvallasýsla, Vestmannaeyjar og Vestur-Skaftafellssýsla). Þar með tilheyrir þetta svæði ekki lengur Maríusókn. Sóknarkirkja skal vera nýja kirkjan á Selfossi við Móaveg 6, en til báðabirgða mun helgihald fara fram í kapellunni við Smáratún 12 á Selfossi. Þar mun einnig vera aðsetur sóknarprests uns byggingu nýju kirkjunnar er lokið.