Norðurlönd

Yfirlýsing vegna stríðsins gegn Úkraínu

Biskuparáðstefna Norðurlanda, samankomin í Tromsö, lýsir yfir djúpri samhyggð með úkraínsku þjóðinni og andstyggð sinni á árásarstríðinu þar sem Rússneska sambandsríkið sýnir fullveldi Úkraínu fyrirlitningu og veldur milljónum manna, saklausu fólki, ómældum þjáningum.

Árásin á barna- og fæðingarsjúkrahús í Mariupol sem var gerð í vikunni og er víðsfjarri hverslags hernaðarlegu skotmarki, stendur uppúr sem hræðilegur vitnisburður þessa stríðs. Blóð mæðra og barna hrópar til himins. Við höfum ekki rétt til að líta undan og spyrja, á ég að gæta bróður míns? (1. Mósebók 4:9f.). Þess vegna áköllum við Rússlandsforseta: Stöðvið þetta óréttláta stríði! Við biðlum til rússnesku þjóðarinnar: Leyfið ekki að þessa misgjörðir séu framdar í ykkar nafni!

Við erum harmi slegin yfir nýlegum yfirlýsingum frá ákveðnum aðilum innan rússnesku kirkjunnar, þar sem þetta stríð skefjalausrar árásargirni er kynnt sem barátta fyrir kristnum gildum. Að tala á þennan hátt jafngildir því að taka undir ómerkilegar röksemdir, þar sem siðferðilegum gildum er haldið í gíslingu pólitískra markmiða.

Sum okkar Norðurlanda eiga landamæri að Rússlandi. Við höfum sterk söguleg tengsl við Úkraínu. Þetta stríð snertir okkur djúpt. Við biðjum þess að heimilislausir finni skjól, hræddir öðlist huggun, sjúkir og særðir fái lækningu; að hinir látnu megi hvíla í friði; að hjörtu hinna voldugu séu opin fyrir hvatningu Friðarhöfðingjans, að fylgja vegi friðarins í anda réttlætis.

Á þessum föstutíma erum við snortin af ákalli Krists til umbreytingar. Við kunngjörum það af húsþökum. Auðvitað varðar það fyrst og fremst okkur sjálf, kirkjur okkar og lönd okkar; en það varðar einnig okkar ástkæru Evrópu, svo fremi að bræðravígsstríðið þróist ekki á enn skelfilegri veg.

Drottinn vor segir okkur: „Sælir eru friðflytjendurnir!“ (Matteus 5:9). Megi sannleikurinn um þessa blessun sannast á komandi dögum, meðan enn er tími til stefnu.

Czeslaw Kozon Kaupmannahafnarbiskup, forseti

Anders Arborelius OCD, kardínáli í Stokkhólmi, varaforseti

Bernt Eidsvig Can.Reg, Oslóarbiskup

David Tencer OFMCap, Reykjavíkurbiskup

Berislav Grgic, biskup í Tromsö

Erik Varden OCSO, biskup í Þrándheimi

Marco Pasinato, administrator Helsinkibiskupsdæmis

Peter Bürcher, biskup emeritus í Reykjavík

Teemu Sippo SCI, biskup emeritus í Helsinki

Sr. Anna Mirijam Kaschner CPS, aðalritari

Back to list

Related Posts