Yfirlýsing hins kaþólska Biskuparáðs Norðurlanda í tilefni skýrslu um réttindi og stöðu kynheilsu og barneigna í Evrópusambandinu, með sérstöku tilliti til heilsu kvenna, sem kynnt var af þingmanni Evrópuþingsins, Predrag Fred Matic.
Efling mannlegrar reisnar er grundvallaratriði innan Kaþólsku kirkjunnar. Þetta felur í sér að leitast skal við að hlúa að og vinna að aðgangi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Það felur í sér að unnið skal gegn mismunun og félagslegum og menningarlegum fordómum sem ákvarða örlög margra, sérstaklega kvenna. Við sjáum því marga jákvæða þætti í þessari skýrslu.
Á sama tíma andmælum við því, sem skýrt er frá í skýrslunni, að flokka fóstureyðingar sem heilbrigðisúrræði og mannréttindi. Samkvæmt skilgreiningu er heilbrigðisaðgerðum og mannréttindum ætlað að tryggja heilsu fólks og vernda líf þess. Það getur ekki undanskilið líf ófæddra.
Þegar fóstureyðingar eru flokkaðar sem aðgerðir á sviði heilbrigðismála og mannréttinda, verða þessi hugtök þokukennd og unnt verður að túlka þau á handahófskenndan hátt.
Slík ráðstöfun myndi jaðarsetja einstaklinga enn frekar, sem og stofnanir og lönd sem eru andvíg fóstureyðingum og láta sem þau séu í andstöðu við „mannréttindi“.
Með hliðsjón af Evrópusambandinu hamlar þetta framtak með óeðlilegum hætti lögmætu sjálfræði hvers aðildarríkis til að útfæra eigin löggjöf um fóstureyðingar og önnur siðferðileg álitamál.
Með því að leggja til að skilgreina skuli sem vandamál og atlögu að lögum þann rétt heilbrigðisstarfsfólks að andmæla á grundvelli samvisku sinnar, stefnir skýrslan í hættu þeim rétti einstaklinga að fylgja sannfæringu sinni í siðferðilegum og trúarlegum málum og stefnir með því atvinnuöryggi þeirra í hættu eða jafnvel meinar þeim aðgang að vinnu á sviði heilbrigðismála.
Sem kaþólskir biskupar verjum við mannlíf frá getnaði til náttúrulegs dauða. Við vinnum að rétti einstaklinga, stjórnmálamanna og stofnana til að andmæla fóstureyðingum án þess að slíkt leiði til jaðarsetningar eða mismununar. Við viljum tryggja að flókin málefni fóstureyðinga verði áfram, öllum til góðs, á sviði upplýstrar opinberrar umræðu.
Kaupmannahöfn 19. júní 2021
Fyrir hönd Norræna biskuparáðsins
+ Czeslaw Kozon
Kaupmannahafnarbiskup
Forseti