Í tvo mánuði hafa stríðsátök á landsvæðum Ísraels og Palestínu leitt til yfirgengilegs harmleiks þar sem þúsundir mannslífa týnast, fjölskyldur sundrast og börn verða munaðarlaus eða deyja.
Samtök okkar lýsa hryggð sinni og undrun yfir þeim ósköpum sem nú ganga yfir almenning á þessu svæði.
Við fordæmum hvers konar hryðjuverk og ofbeldi og hvetjum til þess að strax verði komið á varanlegu vopnahléi og hafið nauðsynlegt hjálparstarf, um leið og ríki heims knýi aðila til að finna framtíðarlausn á þeim vanda sem skapað hefur sífellda hringrás átaka áratugum saman.
Mannkynið þarf nú fremur en nokkru sinni fyrr að standa saman og vinna að lausnum á brýnum vanda án ofbeldis og styrjaldarátaka. Fremur en nokkru sinni fyrr er nauðsynlegt að bera virðingu fyrir lífi og réttindum allra manna, óháð trúarbrögðum, lífsskoðunum, þjóðerni, litarhætti og öðrum þeim atriðum sem orðið hafa tilefni mismununar og átaka. Við þurfum að yfirstíga slíkar ógnir, og vinna að því að mannfólk og þjóðfélög geti þrifist hlið við hlið í friði með velferð allra að leiðarljósi.
Reykjavík, 11. desember 2023