Krists Konungs Sókn

Vígsludagur Dómkirkju Krists Konungs í Landakoti

Dómkirkja Krists konungs
Næstkomandi sunnudag, þann 26. júlí fögnum við vígsludegi Dómkirkju Krists Konungs. Stórhátíð í Kristskirkju.
Messa kl. 8.30 (á pólsku)
Messa kl. 10.30 (á íslensku)
Messa kl. 13.00 (á pólsku)
Rósakrans á ensku – Rosary in English at 5.30 p.m.
Messa kl. 18.00 (á ensku) – Mass in English at 6 p.m.
Þann 23. júlí næstkomandi voru níutíuogeitt ár liðin frá vígslu Dómkirkju Krists konungs í Landakoti.
Sögu kaþólsku kirkjunnar í Reykjavík má rekja allt aftur til ársins 1860 þegar tveir franskir prestar keyptu jörðina Landakot, þar sem þeir reistu litla kapellu. Hún var síðar leyst af hólmi af timburkirkju við Túngötu sem var helguð heilögu hjarta Jesú.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina hófu prestar af Montfort-reglunni, sem tóku við trúboðinu í Íslandi árið 1903, að leggja drög að byggingu nýrrar kirkju. Ýmsar teikningar voru gerðar en loks var ákveðið að smíða kirkju í nýgotneskum stíl. Hornsteinninn var lagður 1927. Árið 1929 var kirkjan fullreist.
Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, var falið að teikna kirkjuna. Sameinaði hann í teikningum sínum gotneskan stíl við séríslensk einkenni, og má einkum greina það í ytri burðarsúlum kirkjunnar, sem minna á stuðlaberg í fjallshlíð. Jens Eyjólfsson, byggingameistari, sá um að reisa kirkjuna. Hún breyttist að einhverju leyti í meðförum hans, til dæmis var hætt við að reisa turnspíru ofan á turn kirkjunnar. Lengi var Dómkirkja Krists konungs stærsta kirkja landsins.
Þann 23. júlí 1929 var kirkjan vígð. Það gerði sérstakur sendimaður Píusar XI páfa, William kardínáli van Rossum CssR, yfirmaður stjórnardeildar trúboðs í Páfagarði. Vígsluathöfnin hófst á því að kardínálinn gekk til gömlu kirkjunnar og var þar haldin stutt messa. Að því loknu voru helgir dómar kirkjunnar bornir úr gömlu kirkjunni og yfir í þá nýju. Þegar inn í hina nýju kirkju var komið var altarið vígt. Í kjölfarið fylgdu ýmsar helgiathafnir sem kardínálinn framkvæmdi, ásamt prestum kirkjunnar og fylgdarliði sínu. Að vígslu lokinni var lesin messa. Messugerðinni lauk á því að kardínálinn söng Te Deum úr hásæti sínu, en söfnuður og aðkomufólk stóð upp. „Gengu klerkar síðan með kórdrengjum fyrir í skrúðgöngu úr kirkjunni.“
Dómkirkjan ber nafn Krists konungs í heiðursskyni við Krist, Drottin alheimsins. Kirkjan er undir verndarvæng hinnar sælu Maríu meyjar Guðsmóður, heilags Jósefs og tveggja helgra, íslenskra manna, Jóns Ögmundarsonar og Þorláks Þórhallssonar. Kirkjuklukkurnar þrjár eru tileinkaðar Kristi konungi, Maríu mey og heilögum Jósef.