Norðurlönd

Vertu velkomin til starfa kæri Nuncio okkar!

Í byrjun nóvember 2022 skipaði Frans páfi Julio Murat, erkibiskup af Orange, í embætti sendiherra páfa (Nuntius apostolicus) á Norðurlöndum. Þann  12. janúar sl. kom erkibiskupinn til Svíþjóðar og var hann boðinn hjartanlega velkominn í  postullegu sendiskrifstofu sinni  í Djursholm. Viðstaddir voru biskup okkar, David B. Tencer OFMCap, ásamt öðrum fulltrúum Kaþólsku kirkjunnar á Norðurlöndum.

Innan skamms mun Julio Murat erkibiskup afhenda konungi Svíþjóðar, Karli Gústafi XVI trúnaðarbréf sitt frá páfa og verður þá formlega settur í embætti nuncio.

Ásamt Murat erkibiskup á myndinni er formaður norrænu biskuparáðstefnunnar, Czeslaw Kozon biskup, sem flutti ræðu í tilefni af embættistöku nuncio.

Julio Murat erkibiskup fæddist í Karsiyaka í Tyrklandi 18. ágúst 1961. Hann var vígður í erkibiskupsdæminu í Izmir í Tyrklandi 25. maí 1986 og er með doktorsgráðu í kirkjurétti. Eftir að hafa gengið til liðs við utanríkisþjónustu Páfagarðs 1. janúar 1994 hefur hann starfað í eftirtöldum löndum: Indónesíu, Pakistan, Hvíta-Rússlandi og Austurríki, auk þess að starfa á skrifstofu utanríkisráðuneytis Páfagarðs.

Julio Murat var skipaður erkibiskup af Orange og postullegur nuncio í Sambíu árið 2012 og tók við biskupsembætti skömmu síðar. Sem postullegur nuncio hefur hann starfað í Malaví (2012-18), Kamerún (2018-2022) og Miðbaugs-Gíneu (2018-2022).

Auk tyrknesku talar hann frönsku, ensku, ítölsku, þýsku og grísku.

Sendiherra páfa

Titillinn „postullegur nuncio“ er notaður yfir diplómata sem gegna stöðu sendiherra, sendur af Páfagarði. Orðið ‘nuntius’ kemur úr latínu og þýðir ‘boðberi’.

Nuncio páfa er yfirmaður fulltrúa Páfagarðs í öðrum löndum eða hjá alþjóðastofnunum. Nuncio hefur stöðu sendiherra. Hann sér venjulega einnig um samskipti Páfagarðs og Kaþólsku kirkjunnar á staðnum. Nuncio mun oftast vera preláti með tign biskups, erkibiskups eða æðri.

Julio Murat tekur við af Monsignor James Patrick Green, erkibiskupi í Altinum, sem hefur verið  postullegur nuncio Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Íslands á árunum 2017 til 2022.

Related Posts