Krists Konungs Sókn

Systir Henrika Gerdes – Minning

Systir Henrika Gerdes, f. 18. apríl 1934 d. 23. janúar 2023
ÚTFÖRF: Mánudaginn 30. janúar, kl. 10.30
Hjúkrunarheimilinu Klostergården (áður kirkja St. Jósefssystra)

Sr. Henrika hlaut hægt andlát snemma morguns þann 23. janúar á dvalarstað sínum á hjúkrunarheimilinu Klostergården í Kaupmannahöfn, umvafin fólki sem þótti vænt um hana, bæði starfsfólki hjúkrunarheimilisins og meðsystrum. Síðastliðna mánuði þjáðist hún  af erfiðum veikindum svo að dauðinn kom sem lausn. Eins og ein meðsystir hennar orðaði það minnumst við sr. Henriku sem „hlédrægrar og yndislegrar manneskja“ og erum afar þakklát fyrir sr. Henriku og gjöfina sem hún hefur verið okkur. Við trúum því staðfastlega að sr. Henrika sé hamingjusöm í ástríkri návist Guðs.

Sr. Henrika fæddist í Þýskalandi og kom til Danmerkur 21 árs ung kona til þess að ganga til liðs við reglu St. Jósefssystra á Strandvejen. Eftir að hafa undirbúið sig í reglusamfélaginu tók hún fyrstu heitin 15. ágúst 1957. Síðan flutti hún í skóla St. Jósefssystra á Østerbro. Þaðan var hún send til Íslands árið 1964 og kom til Hafnarfjarðar 26. júlí. Í meira en 30 ár var sr. Henrika mikilvægur hlekkur í trúboði St. Jósefssystra á Íslandi. Árið 2001 lauk veru systranna á Íslandi og þá flutti hún aftur til Strandvejen. Sr. Henrika hafði brennandi áhuga á verkefnum systranna á norðurslóðum. Sr. Henrika hafði lokið leikskólakennaranámi árið 1964 og var því vel undirbúin fyrir starfið í leikskóla systranna í Hafnarfirði. Síðar flutti sr. Henrika til Reykjavíkur, þar sem hún bjó í litlu samfélagi ásamt þremur systrum.

Sr. Henriku þótti mikið til íslenskrar náttúru koma og kunni vel við Íslendinga. Eitt af helstu áhugamálum Henriku voru helgisiðir og allt sem tengdist þeim. Því gerðist hún skrúðhúsvörður á Íslandi og gegndi því hlutverki áfram eftir að hún snéri tilbaka til Danmerkur.

Það var augljóst að sr. Henrika saknaði Íslands allt til dauðadags. Frásagnir af  Íslandi voru fastur liður í samtölum við sr. Henriku og hún hélt sambandi við vini sína „þarna uppi“ og verður sárt saknað af þeim. Við andlát sr. Henriku missir regla St. Jósefssystra „síðasta lifandi vitnið“ um trúboðið á Íslandi.

Sr. Henrika var afar trú heilögum Jósef, verndardýrlingi safnaðarins og hafði miklar mætur á  rólegri bæn og að ígrunda og hugleiða orð Guðs.

Sr. Henrika lifði ekki aðeins langa ævi heldur einnig mörg ár sem reglusystir. Þann 15. ágúst 2022 fagnaði hún 65 ára afmæli sem reglusystir.

Hvíl í friði systir Henrika.

(Þessi grein um systur Henriku birtist á heimasíðu St. Jósefssystra í Danmörku: www.sanktjosephsoestrene.dk/soster/sr-henrika-gerdes-1934-2023/)

sr henrika1
sr henrika2
Josefssystur Systur Henrika
Back to list

Related Posts