Norðurlönd

Nýr biskup í Noregi

Fyrsta vígsla kaþólsks biskups í grafarkirkju heilags Ólafs frá siðaskiptum

Þann 3. október sl. var Erik Varden OCSO ábóti vígður biskup Þrándheimsumdæmis í Mið-Noregi. Frans páfi hafði þegar tilnefnt þennan 46 ára Norðmann í nóvember á síðasta ári. Hins vegar þurfti að fresta áætlaðri vígslu hans vegna veikinda.

Nú tilkynnti postullegur stjórnandi Þrándheims og Óslóarbiskup, Bernt Ivar Eidsvig, að Erik Varden ábóti verði vígður biskup 3. október 2020 í Niðarósdómkirkju í Þrándheimi. Þar með lýkur 11 ára biskupslausu tímabili í þessu norska umdæmi þar sem um 15.000 kaþólskir búa.

Dr. Erik Varden ábóti fæddist í Noregi árið 1974. Hann stundaði nám og lauk doktorsprófi í Cambridge og París og að því loknu gekk hann í Mount Saint Bernhard-klaustrið í Leicesterskíri á Englandi árið 2002. Eftir að hann hafði unnið klausturheit sín árið 2007 stundaði hann nám á árunum 2009 til 2011 og lauk lísentíatsprófi í patristískri guðfræði frá Pontifical Oriental Institute. Árið 2013 var hann skipaður yfirmaður í klaustri sínu árið og kosinn ábóti í apríl 2015.

Í fyrstu yfirlýsingu sinni eftir skipun sína í fyrra lýsti biskupsefni hlutverki sínu á eftirfarandi hátt: „Í heimi og á tímum sem einkennist í auknum mæli af afskiptaleysi og tortryggni, vonleysi og sundrungu, er það verkefni okkar að gera annan málstað að okkar: Að benda á ljósið, sem ekkert myrkur fær sigrað, að næra velvild og sátt, að vinna að samfélagi friðar sem byggir á trausti, að bera því vitni að dauðinn hefur misst brodd sinn, að lífið sé þroskandi og fagurt og göfgi þess friðhelg. Í þessu felst mikil ábyrgð en einnig forréttindi – uppspretta umbreytandi gleði.“

——————————

Þrándheimsprelatúra eða kirkjuumdæmi (á latínu: Praelatura Territorialis Trudensis) er kaþólskt kirkjuumdæmi með aðsetur í Þrándheimi. Um það bil 15.000 kaþólskir búa þar dreifðir í fimm söfnuðum. Hlutur þeirra af heildarfjölda íbúa er 2,2%.

Síðan Georg Müller biskup sagði af sér árið 2009 var biskupsembættið laust og var því stjórnað af postullegum stjórnanda og Óslóarbiskupi, Bernt Ivar Eidsvig.

Hin nýbyggða St. Ólafsdómkirkja í hjarta Þrándheims var vígð árið 2016.

Myndaband frá vígslunni má sjá HÉR