Gjöf til ferðalaga innanlands
Búum til minningar á ferðalagi innanlands og styðjum við bakið á íslenskri ferðaþjónustu
Allir einstaklingar, með lögheimili á Íslandi, fæddir 2002 og fyrr fá Ferðagjöf að andvirði 5.000 kr. Gjöfin er liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og efla þannig íslenska ferðaþjónustu sem og hvetja landsmenn til að eiga góðar stundir á ferðalagi víðs vegar um landið. Nánari upplýsingar má finna á ferðalag.is.
Þegar gjöf er sótt verður til Ferðagjöf sem er tengd við símanúmer eiganda.
Hvernig nota ég Ferðagjöfina?
Til að nýta Ferðagjöfina þarf að sækja gjöfina hér á Ísland.is með innskráningu. Sótt er smáforritið Ferðagjöf í App eða Play store og strikamerki skannað við kaup á þjónustu.
Einnig er hægt að nýta Ferðagjöfina beint inn á Ísland.is fyrir þá sem ekki eru með snjallsíma.
Hvað ef ég á ekki snjalltæki?
Ferðagjöfina má nálgast á Ísland.is í tölvu, til að nýta Ferðagjöfina þarf annað hvort að panta þjónustu á vef hjá þeim fyrirtæki sem bjóða upp á vefbókanir, hringja í ferðaþjónustufyrirtæki og lesa upp númer strikamerkis eða fá að innskrá sig á Ísland.is hjá ferðaþjónustufyrirtæki og framkalla strikamerki í tölvu á staðnum. Ekki er ráðlagt að prenta út strikamerkið þar sem hvert strikamerki er aðeins virkt í 15 mínútur.
Hvar get ég notað Ferðagjöfina?
Ferðagjöfina má nýta hjá Ferðaþjónustufyrirtækjum víðsvegar um landið. Sjá má yfirlit yfir fyrirtæki sem hafa skráð sig til þátttöku á ferðalag.is og í smáforritinu Ferðagjöf. Athugið að þau fyrirtæki sem taka þátt í Ferðagjöfinni eru merkt sérstaklega með gulum borða sem á stendur Ferðagjöf.
Get ég gefið Ferðagjöfina?
Allir eru hvattir til að nýta gjöfina en heimilt er að gefa eigin gjöf, hver einstaklingur getur þó að hámarki nýtt 15 Ferðagjafir. Mögulegt er að gefa gjöfina áfram bæði í smáforritinu Ferðagjöf sem og beint af Ísland.is. Í smáforritinu þarf að ýta á uppæðina en þá kemur upp valmöguleikinn að „Nota gjöf“ eða „Gefa áfram“. Kjósi fólk að senda mynd eða myndband með Ferðagjöfinni þarf smáforritið aðgang að myndavél símans en einnig er mögulegt að senda skriflega kveðju. Á Ísland.is þarf að skrá sig inná með því að smella á „Sækja Ferðagjöf“. Þá opnast gluggi með valmöguleikanum að nota ferðagjöfina eða „Gefa áfram“.
Hver er gildistími Ferðagjafarinnar? Gildistími er til og með 31.desember 2020.