María mey

Máríudægur – tónstund helguð minningu hinnar tignu meyjar

fer fram sunnudaginn 5. júlí kl. 15 í Staðastaðarkirkju og er aðgangur ókeypis.

Mærin helga tignuð með tónverkum

Dagskrá tileinkuð Maríu Guðsmóður í Staðastaðarkirkju

Nánar má lesa um dagskránna í grein sem birt var í Skessuhorni 29. júní 2020:

Tónlistardagskrá samtvinnuð lestrum úr helgum ritum skapa Máríudægur, helgistund tileinkaða Maríu Guðsmóður sem fram fer í Staðastaðarkirkju á Snæfellsnesi fyrstu helgina í júlí. Frumflutt verða ný verk við gömul Maríukvæði í bland við klassíska helgitexta og sálma sem fluttir eru af Maríusystrunum í Stykkishólmi og Hljómórum, tríói þriggja organista af Vestfjörðum sem jafnframt leggja upp dagskrána í samstarfi við sóknarprestinn á Stað, sr. Arnald Mána.

„Tilefnið er raunar margþætt, en kaþólikkar sækja reglulega í Maríulind á Hellnum sem er eini formlegi pílagrímastaður þeirra hér á landi. En kirkjan á Stað á Ölduhrygg, Staðastað, var einnig helguð Maríu að fornu og ber þess merki enn í dag þar sem Maríumyndir eru áberandi í skreytingum hennar,“ segir séra Arnaldur Máni. Að sögn hans voru Íslendingar Maríu mjög trúir um aldir, löngu fram yfir siðbót raunar. „Lútherskir biskupar ortu jafnvel til hennar á latínu á 17. öld og sálmar henni helgaðir voru í sálmabókum lengi vel. En það sem er kannski enn áhugaverðara er að fyrir skömmu var gerð úttekt á innblæstri og efnistökum texta í nýjum tónverkum tónskálda á Norðurlöndum síðustu 50 árin, og þá var það ekki aðeins áberandi að íslensk tónskáld eru handgengnari trúarlegum textum heldur hafa textar með tengsl við Maríu, t.a.m. Magnificatinn, algjöra sérstöðu. Og það segir okkur kannski að mannlegt inntak og flókin merkingarheimur Maríu guðsmóður tali enn til skapandi hliða í nútímamanninum. Að minnsta kosti verða tvö ný verk frumflutt þann 5. júlí og helgistundin sjálf í raun nokkurskonar sögulína, sett upp eins og „stutt“ ferðalag um veröld Maríu,“ segir Arnaldur.

Sögulína frá því „fyrir Krist“ til okkar daga

„Verkið sem heild hefst á því að ungri stúlku eru boðuð tíðindi sem snúa veröldinni alveg á hvolf. Og það er í mannlegu samhengi sínu bara alvöru harmleikur og ávísun á tilvist á ákveðnum jaðri,“ segir einn skipuleggjenda stundarinnar, kórstjórinn og tónlistarkonan Dagný Arnalds. „En María er um leið í gegnum söguna þessi ímynd allrar gæsku, þolgæðis, heilags ásetnings og trúmennsku sem lyftir henni á stall sem fólk tengdi við á fjarlægan og upphafinn hátt áður fyrr, en er kannski að meta á annan hátt í dag. Hin himneska drottning er líka einhvern veginn systir manns og dóttir, og mamma manns líka. Í henni eru skin og skuggar og miskunn og hjálparráð. Hún huggar,“ segir Dagný en tónskáldin tvö sem eiga ný verk á stundinni eru samstarfsfólk hennar vestan frá Ísafirði, tónskáldin Jón Gunnar Biering Margeirsson og Rúna Esradóttir, sem einnig eru organistar.

„Það er þessi dulúð í kringum Maríu sem passar vel við leiðslu og svona „bjarta og hreina“ fegurð, sem við þörfnumst einmitt sérstaklega í trúarlegri tónlist,“ segir Rúna en lag hennar er samið við hið þekkta Maríukvæði María meyjan skæra sem mörg tónskáld hafa reynt sig við. „Það er einmitt mjög áhugavert að endurhugsa þennan klassíska arf og það er það sem er spennandi við starf organistanna, þessi túlkun arfsins á hverjum tíma sem viðheldur líka nýsköpun í kirkjutónlistinni,“ segir Rúna en sjálf hefur hún flutt margskonar tónlist opinberlega og stundað tónsmíðanám við tónlistardeild LHÍ. „Það er mjög ferskt að fá að tala við konu og stelpu og móður sem er guðsmynd og syngja henni samt einmitt einhvern veginn lof því hún sé manneskja en ekki Guð, hún hafi þurft að ala upp dreng sem væri Guð, hugga hann grátandi og hughreysta. Er það ekki magnað en samt svo ótrúlega bara mannlegt hlutskipti sem verður hennar, “ bætir Rúna við. „Og frá örófi svo áfram, eftir að þurfa að þola allt og líða, er hún alltaf tilbúin, mætt til að hugga og reisa fólk við, kalla þau og halda áfram þó hún hafi staðið við krossinn þegar hinir voru farnir.“

Þær Rúna og Dagný segja „sögu Maríu“ raunar aldrei ljúka, því enn í dag starfi konur í hennar nafni sem hafa helgað sig trúnni, að hjálpa öðrum og bera ljós þangað sem myrkur er. Þessvegna sé mjög viðeigandi að Maríusysturnar frumflytji á helgistundinni verk tileinkað Maríu, kirkjunni á Staðastað og þeim sjálfum.

Auðmýkt og persónulegt samband

Tónskáldið Jón Gunnar Biering Margeirsson segir verkefnið hafa verið ljúfa áskorun. „Það er eitthvað eilíft í þeirri reisn sem hún býr yfir, eitthvað hreint í viskunni, æðruleysinu og þeim kvenlega kjarki sem býr í hinni lífsreyndu móður,“ segir Jón Gunnar en lag hans er við gamla Maríubæn, sem svipar til miskunnarbæna. „Það er eitthvað sem dregur mann inní þessa dulúðarstemningu við að kyrja þessi orð:

Bið ég María bjargi mér burt úr öllum nauðum,

annars heims og einnin hér

ástmær Guðs, ég treysti þér,

bið þú fyrir mér bæði lífs og dauðum.

„Maður fyllist einhverri auðmýkt og sambandið er kannski einhvern veginn mannlegt og persónulegt, um leið og maður hvílir í skauti móður sinnar, nýfætt barn og dáinn maður,“ bætir Jón Gunnar við angurvær. Hann hefur einnig samið ný lög við mikið af eldri sálmum en honum þykir gaman að semja verk fyrir sérstaka staði og tilefni sem þetta. Öll þrjú starfa sem organistar; á Flateyri, Þingeyri, Suðureyri og Súðavík en kenna líka í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Í vetur hafa þau sem þríeyki staðið í útsetningum og flutningi á eldri tónlist, trúarlegri og alþýðlegri og flutt í kirkjunum fyrir vestan, og munu á ferð sinni í tilefni Máriudægra troða upp á svæðinu undir merki Hljómóra einnig. Máríudægur – tónstund helguð minningu hinnar tignu meyjar – fer fram sunnudaginn 5. júlí kl. 15 í Staðastaðarkirkju og er aðgangur ókeypis. Flytjendur eru þríeykið ásamt sóknarpresti og Maríusysturnar í Stykkishólmi, þær María Birhen Ng Ngiti, María Sabiduría de la Cruz og María de Pentecostés. Verkefnið fer fram undir merkjum Menningarsjóðsins undir Jökli og er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.