Reykjavíkurbiskupsdæmi

Málþing 6. nóvember

Samráðsvettvangur trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi, sem var stofnaður árið 2006, býður á málþing, sem verður haldið mánudaginn 6. nóvember 2023 frá kl. 17.00 til 19.30 í Auðarsal í byggingu VERÖLD – HÚS VIGDÍSAR Háskóla Íslands, Brynjólfsgötu 107, 107 Reykjavík. Viðfangsefni málþings er:

ANDLÁT, TRÚARBRÖGÐ OG LíFSSKOÐANIR

Frummælendur á þinginu eru Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma, Rúnar Geirmundsson, formaður Félags íslenskra útfararstjóra og séra Díana Ósk Óskarsdóttir, fyrrv. sjúkrahúsprestur á Landspítala. Þá gera fulltrúar  trúfélaga og lífsskoðunarfélaga grein fyrir siðum við andlát. Séra María Ágústsdóttir, sóknarprestur í Grensáskirkju, stýrir fundinum og Mörður Árnason stýrir pallborðsumræðu.

Íslenskt samfélag hefur tekið djúptækum breytingum á undanförnum áratugum, og koma þær meðal annars fram í meiri fjölbreytni á sviði trúarbragða og lífsskoðana en áður var. Þá hefur margt fólks af ýmsum uppruna  sest að hér á landi og hefur það aukið enn á fjölbreytt lífsviðhorf, siði og menningararf. Til að tryggja farsæla sambúð allra landsmanna og forðast óþörf átök þurfa allir að leggja sitt af mörkum með umburðarlyndi, gagnkvæma virðingu og aðlögunarvilja að leiðarljósi. Þetta á ekki síst við þegar kemur að andláti og siðum sem þar að lúta.

Málþinginu lýkur með pallborðsumræðu þar sem fundarmönnum gefst tækifæri til að leggja fram spurningar, útskýringar eða athugasemdir. Íslenska verður aðaltungumál málþingsins en enska notuð ef nauðsynlegt er. Málþingið er öllum opið og kaffiveitingar í boði  í hléi.

F.h. Samráðsvettvangs trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi,

Séra Jakob Rolland

 

Aðildarfélög Samráðsvettvangs trú- og lífsskoðunarfélaga á Íslandi: 

Ásatrúarfélagið, Bahá‘í samfélagið, Búddistafélag Íslands, Búddistasamtökin SGI á Íslandi, DíaMat – Félag um díalektíska efnishyggju, Félag múslima á Íslandi, Fjölskyldusamtök Heimsfriðar og Sameiningar, Fríkirkjan í Hafnarfirði, Fríkirkjan í Reykjavík, Fríkirkjan Vegurinn, Hjálpræðisherinn, Hvítasunnukirkjan Fíladelfía, Íslenska Kristskirkjan, Kaþólska kirkjan á Íslandi, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Kirkja sjöunda dags aðventista á Íslandi, ICCI (Menningarsetur múslima á Íslandi), Menningarfélag gyðinga á Íslandi, Óháði söfnuðurinn, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Siðmennt – Félag siðrænna húmanista, Smárakirkja, Stofnun múslima á Íslandi, Zen á Íslandi – Nátthagi, Þjóðkirkjan.

Samstarfsaðili: Trúarbragðafræðistofa Hugvisindasviðs Háskóla Íslands

Back to list

Related Posts