Reykjavíkurbiskup

Hvernig á góð prédikun að vera?

Góð prédikun á að úthella í hjartað gleði og von

Hvernig læra prestnemar að prédika og hvernig  á góð prédikun á að vera? Um allt það höfum við rætt við prédikunarkennarann David Tencer (57) sem er í dag Reykjavíkurbiskup.

Hvað merkir orðið prédikunarfræði (hómiletika)? Orðið hómiletika (prédikunar­fræði) kemur af gríska orðinu omilein, sem þýðir að tala við og er notað um fræðigrein sem fjallar um prédikunina eða það sem betra er, um listina að tala á mannamáli um guðleg málefni.

Hvernig gerist maður prédikunarfræðingur? Gamlir prédikunarfræðingar sögðu að maður geti ekki verið prédikunarfræðingur heldur gerist hann það með starfi sínu og dugnaði (og mig langar að segja að það gerist líka með náð Guðs því að þetta er gjöf frá honum). Prédikarinn er eins og gott vín sem þroskast í tíma og vex að gæðum eða breytist með skriðþunga í bragðvont edik sem engan langar í.

Hvað á að leggja áherslu á þegar prédikun er búin til? Önnur fræði eru til sem segja til um hvað prédikunin ætti að fjalla um, svo sem Biblíufræði, aðferðafræði, kenningarfræði, trúfræði, kirkjulögfræði, sagnfræði o.s.frv. Prédikunarfræði leggja áherslu á hvernig á að ræða um þessi efni. Það er mikill munur á því þegar piltur segir við kærustuna að hann elski hana og á leiðinni rífur hann upp blóm sem er handan við girðinguna eða þegar hann segir að hann elski hana og gefur hana lítinn kassa með litlum hring sem hann keypti sérstaklega í því skyni. Eða annað dæmi: Kaffi smakkast miklu betur ef það er í fínum bolla – en það er líka rétt að vín er hægt að drekka úr fötu … það er hægt en …

Og hvernig lítur það raunverulega út þegar prestnemar læra að prédika? Það er augljóst að þeir eiga að tileinka sér fræðilega hluti sem í prédikunarfræði inniheldur undirstöðuþekkingu um aðferðafræði, mælskufræði, líkams- og andlitstjáningu o.s.frv. og síðan koma praktískir hlutir, þar sem nemandinn ætti að sýna það það sem hann hefur lært í reynd. Það merkir að í þessum seinni hluta þurfa þeir að skrifa prédikanir og líka að flytja þær frammi fyrir öðrum.

Manst eftir einhverjum skemmtilegum frásögnum úr kennslustundum í prédik­unar­fræði? Jú, milljón! Eins og mismæli af þessum toga: „Faðir faðmaði son sinn og var svo snortinn að tárin flæddu úr eyrum hans!“ Eða þegar ég talaði um líkams­tjáningar­fræðin og tók dæmi af biskupi nokkrum sem var ekki fullkomlega ánægður með karismatísku hreyfinguna en tók samt þátt í opnun mikils þings hennar á stórum íþróttavelli. Þegar hann byrjaði að tala sá hann og aðrir að hljóðneminn virkaði ekki, svo hann breiddi út hendur og sagði við skipuleggjendurna: „Þetta virkar ekki hjá ykkur!“ Og allur mannfjöldinn svaraði með þrumuraust: „Og með þínum anda!“

Hver eru stærstu mistök sem hægt er að gera í prédikuninni? Það er alls ekki leyfilegt að prédikari setji sjálfan sig á stall með almáttugum og alvitrum Guði og misnoti prédikunina til að viðra sínar hugmyndir og sinn sannleika. Í þessu tölum við ekki lengur um orð Guðs heldur um eigingjarnan ávöxt veikrar hugsunar. Þannig byrja allar trúvillukenningar og klofningur.

Hvernig á góð prédikun að vera? Góð prédikun á að vekja dottandi mann, mann sem skortir lífsvilja, gleðja þann sem er sorgmæddur, smyrja sár hins særða með læknandi olíu og úthella í hjartað gleði og von og þrá eftir því að koma aftur í kirkjuna í næsta skipti.

Ég heyrði að þegar þú varst að kenna prédikunarfræði hér í háskóla talaðir þú við prestnemana … „Strákar, ekki lesa prédikanirnar, af því að þegar þið lesið eru þið eins og sjónvarpsþulir.“ Er réttara og betra þegar prédikun er flutt en ekki lesin?

Það er áreiðanlega rétt að flytja hana. Það kemur af orðinu sjálfu, omilein,  – tala saman. Hver les af pappír þegar hann er að tala við annan? Og enn fremur: Orð manns í kirkjunni: „Hvernig eigum við að muna það sem var í prédikuninni ef presturinn sjálfur getur ekki munað það sem hann sjálfur skrifaði?“ En samt er gott að skrifa prédikun og – eins og gamall prédikunarfræðingur, Vrablec prófessor, sagði: „Setja í vasann fyrir messuna og tala við fólkið um það sem ég er með í vasanum. Að lesa er bara leyfilegt þegar ég fer með tilvitnun.“

Hvernig undirbúa prestar sig fyrir prédikun og hvernig ætti það að gerast á sem bestan hátt? Við erum búin að tala um þá aðferðafræði sem hjálpar hverjum presti að finna sína leið en samt eru almennar reglur sem ekki má gleyma. Fyrst og fremst er það sú hugmynd að ég er erindreki Drottins sem afhendir erindið sem Drottinn sendir fólki sínu. Þess vegna spyrja allir prestar Guð í bæninni: „Drottinn, hvað á ég að segja við þá?“ Hann leitar ekki aðeins að svari í bæninni heldur líka í rannsóknum um efnið og í persónulegri hugleiðslu. Slíka vinnu blessar Guð með ávöxtum. Og ég er viss um að allir prestar vita að þeir eru ekki aðeins erindrekar heldur á sama tíma einn af móttak­endum erindisins. Og allt sem við bætist í undirbúningnum, svo sem hvenær, hve lengi – það fer eftir hverjum og einum. Samt er gott að segja að hver prestur á að gera það sem hann getur til þess að prédikunin geymi glæsilegt form gagnkvæmrar samræðu. Og hann á ekki vera hræddur við viðbrögð og spurningar sem geta sprottið af þessu seinna.

Gott og vel, en hvernig eigum við hlustendur að skilja prédikunina sem best? Við fylgjum sömu reglum og við höfum greint frá áður, það er: Ég hugsa í trúnni að presturinn talar ekki eins og maðurinn N.N., heldur eins og sá sem afhendir erindi Guðs sem elskar mig. Svo að ég þarf ekki að muna eftir öllu af því að ekki var allt sagt fyrir mig en samt vil ég ekki glata því sem er mitt.

Hvernig getum við hlustendur hjálpað prédikurunum? Fyrst og fremst með því að biðja fyrir þeim og taka á móti því sem þeir segja. Þegar presturinn sér að vinna hans ber ávöxt, undirbýr hann að sjálfsögðu næstu prédikanir sínar með gleði. Hann veit að það er ekki eins og að skvetta vatni á gæs. En ég vil bæta því við, að við skulum ekki óttast að tala við prestinn um prédikun hans. Viðbrögðin eru svo verðmæt og nauð­synleg að virðuleg fyrirtæki vilja fá þau og borga meira að segja stundum fyrir þau. Og Kaþólska kirkjan er gott „vörumerki“, er það ekki? …

(Þetta viðtal birtist 24. nóvember 2020 í blaðinu Slovo+ Zuzana Vandáková.)

Related Posts