Norðurlönd

Hirðisbréf norrænu biskupanna

Kæru bræður og systur,

(17.10. 2021) Á þessum sunnudegi hefst greiningarferli sem snertir alla kaþólska. „Frans páfi“, er okkur sagt, „býður allri kirkjunni að hugsa um synodalitet.“[i] Hugmyndin um ‘synodalitet’ hefur fengið mikla athygli undanfarin ár. Það er notað til að hvetja til aðgerða sem hjá sumum vekja von, en öðrum kvíða. Hvað þýðir orðið? Þetta er grískt orð samsett af tveimur hlutum. Forskeytið syn– [συν] er forsetning sem þýðir „með“ eða „við hliðina á“. Við þekkjum það af kunnuglegu orði svo sem „samúð“ (e. sympathy), vilja til að deila sársauka einhvers annars með honum. Nafnorðið hodos [ὅδος], þýðir „leið“ eða „vegur“. „Synodos“ er því „vegur sem leitað er saman“. Það stendur fyrir samfélag á hreyfingu í átt að sameiginlegu markmiði. Það felst engin sérstök dyggð í því einu að vera á leiðinni; leiðin hlýtur að enda einhvers staðar. Við þurfum að vita hvert við erum að fara.

Fyrir okkur kristna menn hefur þetta auðmjúka og hversdagslega orð „vegur“ margslungna merkingu. Fyrstu lærisveinar Jesú töluðu einfaldlega um kirkjuna sem „veginn“. Þannig töluðu aðrir um þá líka. Undir lok Postulasögunnar, þegar Páll kynnir æviferil sinn í stuttu máli fyrir fólki sem safnast hafði saman í Jerúsalem, viðurkennir hann gjörðir sínar áður en hann hitti hinn upprisna Krist, „Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur“ (22:4). Litið var á kristna menn sem þéttan hóp sem fylgdi annarri ferðaáætlun en flestir aðrir. Það þótti hættuleg ögrun.

Þegar við íhugum hjálpræðissöguna sjáum við að samlíking vegarins er endurtekin aftur og aftur. Köllun Abrams hófst með boði um að fara „til landsins, sem ég mun vísa þér á“ (1M 12:1). Abram fékk ekki kort með merktum áfangastað og sagt að finna leið til að komast þangað. Leiðin sem hann átti að fylgja var opinberuð honum meðan hann ferðaðist. Það sama gerðist öldum síðar hjá vitringunum sem voru leiddir, skref fyrir skref, til að veita lotningu dýrð Drottins vors (Mt 2:1 o.áfr.). Gangan kallar á að menn sýni hugrekki og leggi á sig erfiði. En skilgreining markmiðsins er háð opinberun.

Í Gamla testamentinu liggur „vegurinn“ umfram allt til fyrirheitna landsins. Það er endurtekið aftur og aftur í útlegðarstöðunum. Í Nýja testamentinu bendir „vegurinn“ á persónu, Drottin vorn Jesú Krist. Hann er héðan í frá hið sanna norður sem nálin í áttavita lífs okkar bendir til. En það er ekki allt. Kristur er ekki aðskilinn frá okkur sem afmarkað markmið fyrir andlega þrá okkar. Hann kallar okkur til að vera eitt með sér. Þess vegna getur hann sagt „Ég er vegurinn“ (Jh 14:6). Synodalitetið sem mestu máli skiptir er vegferð okkar í sameiningu við Krist þegar við leitumst við að vera trú kenningu hans og fordæmi, meðvituð um að „hver sem segir ‘ég er stöðugur í honum’, verður að ganga sama veg og hann gekk“ (1Jh 2:6). Eins og Kristur verðum við að læra að elska og þjóna „uns yfir lýkur“ (sbr. Jh 13:1), auðmýkja okkur og verða „hlýðin allt til dauða“ (Fil 2:8).

Stórfengleg fegurð kirkjunnar kemur í ljós þegar kristið fólk, saman á þessari leið, gerir veginn sem Krists fetaði fyrir okkur augljósan og trúverðugan; þegar við verðum, með glæsilegum orðum þriðju efstubænarinnar, kirkja „sem er á vegferð í heimi þessum“, staðföst í trú og kærleika, sameinuð okkar á milli, í einingu með prestum okkar, með gleði á leið til vorra himnesku heimkynna, þar sem við munum um síðir sjá Drottin vorn „eins og hann er“, þar sem Guð mun til eilífðar vera „allt í öllu“ (1Kor 15:28).

Hvar stöndum við núna í þessari sameiginlegu fyrirætlun sem beinist að Kristi? Hvað er það sem hindrar það? Hvað nærir það? Þessar spurningar eru kjarninn í skilningi okkar á synodalitetinu.

Til að skerpa hugsanir okkar og fjörga löngun okkar, hefur hinn heilagi faðir fengið allri kirkjunni í hendur dásamlega bæn, Adsumus.[ii] Rætur hennar ná aftur til 6. aldar. Þingfulltrúarnir lásu upp afbrigði af þessari bæn fyrir hvern einasta fund annars Vatíkan­þingsins. Bænin hljóðar svo:

Vér stöndum frammi fyrir þér, Heilagur Andi, er vér komum saman í þínu nafni, með þig einn til að leiðbeina oss. Bú þér stað í hjörtum vorum. Kenn oss leiðina sem vér hljótum að fara og hvernig vér eigum að feta hana. Vér erum veikir og syndugir; lát oss eigi stuðla að óreglu. Lát eigi fáfræði leiða oss á rangan veg né hlutdrægni hafa áhrif á gjörðir vorar. Leyf oss að finna í þér einingu vora, svo að vér megum ferðast saman til eilífs lífs en eigi villast frá vegi sannleikans og þess sem rétt er. Alls þess biðjum vér þig, sem ert að störfum á hverjum stað og tíma, í samfélagi Föður og Sonar, að eilífu. Amen.

Áætlun er lögð fyrir okkur: Að vera musteri Heilags Anda, að kirkjan megi vera verðugur dvalarstaður fyrir dýrðlega, frelsandi nærveru Guðs; að beina sjónum okkar af festu að því markmiði sem við erum kölluð til að ná – sameiningu við Guð í samfélagi heilagra til eilífs lífs; að sækjast eftir þeirri leið sem mun leiða okkur að þessari helgi, alltaf meðvituð um viðkvæmni okkar, syndaranna, til að valda illsku og sundrungu og biðja því Drottin um að breyta okkur; að elska sannleikann og setja hann ofar allri hugsun um stöðu og þægindi; að leita einingar okkar í Kristi, ekki í neinu eða neinum öðrum, setja traust okkar á hann sem hefur lofað að vera með okkur „allt til enda veraldar“ (Mt 28:20).

Það er auðvelt að móta hugmyndir um hvað aðrir verða að gera í samræmi við köllun  Krist í kirkjunni: að einblína á fólk, ytri gerð og siði sem skaprauna okkur og virðast gagnslausir. Við gerum þetta alltaf og ævinlega. En þetta er ekki leiðin til að taka þátt í sýnóduferlinu. Hvert og eitt okkar verður að spyrja sig þessarar spurningar: Hvernig byggi ég upp kirkjuna í kærleika og einingu? Er ég trú(r) boðorðum Krists? Birtist ég öðrum sem lærisveinn Jesú? Mótar fagnaðarerindið líf mitt og sambönd? Er ég brúarsmiður eða loka ég dyrum? Heilög Móðir Teresa frá Kalkútta var eitt sinn spurð að því hverju þyrfti að breyta í kirkjunni. Hún strax svaraði: „Ég þarf að breytast“, horfði síðan viðmælanda sinn og bætti við (brosandi, gætum við ímyndað okkur), „og þú“.[iii] Ef við leyfum okkur að umbreytast og breytast saman, þá mun vegurinn sem við deilum vera gleðilegur og frjósamur. Þá fetum við hann án þess að draga fæturna, með þrótti og hjörtun styrkt af kærleika Krists.

Við skulum, bræður og systur, nota þetta tækifæri til að dýpka trú okkar, styrkja von okkar, gera kærleika okkar áhrifaríkari. Tertullianus ritaði í upphafi þriðju aldar og segir frá því að heiðingjar hafi horft á kristna menn og hrópað vantrúaðir: „Sjáið hve mjög þeir elska hver annan!“ [iv] Það hlýtur að vera þrá okkar að lifa þannig: Að gera kærleika Guðs sýnilegan. Það er meginverkefni okkar í kirkjulegu starfi. Trú okkar er ekki hægt að binda einvörðungu við fullkomið samfélag réttlætis og friðar, eða í lista þar sem gefin eru skýr svör við erfiðum spurningum lífsins: Trú okkar snýst um líf sem umbreytist í Kristi, leyst undan völdum syndarinnar, en laun hennar eru dauði, líf sem er lýst upp af voninni um upprisu.

Þökk sé smæð kirkjunnar á Norðurlöndunum, eru sýnódu-aðferðirnar okkur vel kunnar. Við metum þær að verðleikum. Það er augljóst fyrir okkur í daglegu lífi að við þurfum að bera, viðhalda, hvetja (og stundum leiðrétta í kærleika) hvert annað á jarðneskri pílagrímsferð okkar. Til að hjálpa okkur að ná frekari framförum hefur Páfa­garður gert ýmislegt efni aðgengilegt á vefsíðunni: <www.synod.va>. Þar má finna ýmislegt sem gæti veitt innblástur. Hins vegar verðum við, hvert og eitt, ef við viljum taka fullkomlega þátt í þessu ferli eins og hinn heilagi faðir óskar, umfram allt að hlýða aftur á kallið þar sem vegferðin hófst: „Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu“ (Mk 1:15). Það er forsenda sýnódunnar. Því eins og við lesum í hinum postullega texta, Didache: „Það eru tveir vegir, annar lífsins og hinn dauðans, og það er mikil munur á þessum tveimur vegum“.[v] Það skiptir máli að þekkja þá hvorn frá öðrum. Það skiptir máli að velja rétt, svo að öðrum verði einnig gert kleift að velja lífið en sitja ekki í skugga dauðans (sbr. Lk 1:79). Við skulum, þegar við gyrðum lendar okkar og undirbúum okkur, kalla blessun Krists, vegarins okkar, sannleika okkar, lífs okkar, yfir hvert annað. Og við skulum fylgja honum, Lambinu sem er Hirðir okkar, hvert sem hann fer (sbr. Opb 7:17, 14:4).

[i] Þessi orð eru yfirskrift hinnar opinberu vefsíðu Vatíkansins: <www.synod.va>.

[ii] https://www.synod.va/en/documents/adsumus.html

[iii] Atvik sem vitnað var til í ávarpi Benedikts XVI páfa í Freiburg, 25. september 2011.

[iv] Apologeticus 39.7.

[v] Didache 1.1.

Ljósmyndin er frá messu á sunnudaginn 10. okt. í Vatíkaninu í tilefni af sýnódunni.

Related Posts