Postulleg heimsókn Frans páfa til Íraks hófst föstudag 5. mars og mun standa til 8. mars. Þetta er í fyrsta skipti sem páfi heimsækir Írak. Ferðin er talin ein mikilvægasta en jafnframt mest krefjandi heimsókn páfa, einkum vegna mikilla öryggisráðstafana vegna hins ótrygga ástands sem ríkir í landinu og einnig vegna Covid 19 heimsfaraldursins.
Frans páfi kemur sem pílagrími, til að biðja með kirkjunni á staðnum og til að styrkja þarlenda kristna menn í trú sinni. Eins og kjörorð ferðalagsins „Við erum öll bræður og systur“ ber vitni um felst tilgangur páfa með heimsókninni í að stuðla að friði og sáttum í landi þar sem sundrung og stríð hefur ríkt áratugum saman.