Heilagur Patrekur frá Írlandi er einn vinsælasti dýrlingur heims. Hann fæddist í Bretlandi á tímum Rómaveldis og þegar hann var um það bil fjórtán ára gamall var honum rænt af írskum sjóræningjum og fluttur til Írlands þar sem hann var hnepptur í þrældóm og látinn gæta sauðfjár. Patreki var haldið föngnum uns hann varð tvítugur. Þá tókst honum að strjúka eftir að hann hafði dreymt að Guð hafi sagt honum að forða sér frá Írlandi með því að fara niður að ströndinni. Þar hitti hann nokkra sjómenn sem fluttu hann til baka til Bretlands og þar fann hann fjölskyldu sína á ný.
Opinberunin varð til þess að hann hóf prestnám. Hann var vígður af heilögum Germanusi, biskupi í Auxerre, þar sem hann hafði stundað nám í mörg ár. Hann var síðar vígður til biskups og sendur til baka til að boða fagnaðarerindið á Írlandi. Patrekur kom til Slane á Írlandi þann 25. mars 433. Til eru nokkrar þjóðsögur um það sem gerðist næst. Sú sem er þekktust segir að hann hafi hitt drúída-höfðingja sem reyndi að drepa hann. Eftir íhlutun frá Guði gat Patrekur snúið höfðingjanum til kristinnar trúar og boðað fagnaðarerindið um allt Írland. Þar snéri hann mörgum, þúsundum þegar upp var staðið, og hóf að reisa kirkjur víðs vegar um landið.
Hann notaði oft þríblaða smára til að útskýra Heilaga Þrenningu og heilu konungs-ríkjunum var að lokum snúið til kristni eftir að hafa heyrt boðskap Patreks. Patrekur prédikaði og snéri öllu Írlandi til kristinnar trúar á 40 árum. Hann gerði mörg kraftaverk og skrifaði um kærleika sinn til Guðs í skrifum sem kallast „Játningar.“ Eftir mörg ár við líf í fátækt, á ferðalögum og mikla þjáningu, andaðist hann þann 17. mars 461. Hann lést í Saul, þar sem hann reisti fyrstu írsku kirkjuna. Talið er að hann sé grafinn í Down-dómkirkjunni, í Downpatrick. Gröf hans var merkt með granítsteini árið 1990.