Dagana 5. til 9 september komu biskupar Norðurlandanna saman í Hildesheim á árlegu haustþingi. Helsta umfjöllunarefni fundarins voru niðurstöður sýnoduferlisins, samráðsferlis sem efnt var til um allan heim sem og aukin mismunun ríkisins í garð kaþólsku kirkjunnar. Biskuparnir áttu bróðurleg og uppbyggileg samtöl við meðlimi biskuparáðs Þýskalands.
Engar grundvallarumbætur, heldur löngun til að auka trúarvitund í veraldlegum heimi
Eftir að hafa unnið úr niðurstöðum sýnódu samráðsferlisins sendi biskuparáð Norðurlanda samantekt sína til Rómar fyrir nokkrum vikum. Þó svo að eldfim málefni komi þar sannarlega til tals þá kalla kaþólskir á Norðurlöndum ekki „eftir gagngerum og víðtækum umbótum í kirkjunni, heldur eftir dýpri skilningi á trúnni sem unnt er að iðka í daglega lífinu og tjá í heimi, þar sem veraldleg gildi ráða för“ sagði formaður biskuparáðsins, Herra Czeslaw Kozon biskup. Einkum er óskin eftir dýpra samfélagi trúaðra og vandaðri trúfræðslu „mikið vonartákn og gefur prestum skýrt umboð til þess að útfæra starf sitt í prófastsdæmum okkar“.
Viðleitni stjórnvalda til fullkominnar aðlögunar innflytjenda vekur ugg
Í yfirlýsingu sem birt var í dag (sjá fyrir neðan) lýsa biskupar Norður-Evrópu áhyggjum sínum af vaxandi ógn við trú og trúfrelsi í löndum þeirra, þar á meðal á skorti á virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Forsaga þessa eru tvö lagafrumvörp í Svíþjóð sem annars vegar innifela að stofnun nýrra skóla og frístundaaðstöðu sem byggir á trúarlegum grunni verði ekki leyfð og hins vegar að ríkisstuðningur við trúfélög miðist við félagsleg viðmið sem stangast á við kristna trú. Herra Anders Arborelius kardínáli í Svíþjóð leggur áherslu á eftirfarandi: „Við megum ekki gleyma því að trúfrelsi merkir einnig að allir menn hafi rétt til þess að iðka trú sína án takmarkana“.
YFIRLÝSING RÁÐSTEFNU NORÐURLANDABISKUPA Í HILDESHEIM Í ÞÝSKALANDI
Ráðstefna Norðurlandabiskupa lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðu mála í Svíþjóð varðandi afstöðu til trúar og trúfrelsis en einnig hvað snertir skort á virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.
Ástæður þessa eru tvö lagafrumvörp sem voru kynnt vorið 2022 og þá sérstaklega tillaga um að ekki verði heimilt að stofna einkarekna skóla og leikskóla sem byggja á trúarlegum grunni.
Í dag gengur eitt prósent nemenda í Svíþjóð í einkarekna skóla sem byggja á trúarlegum grunni. Langflestir þessara skóla starfa hnökralaust og eru miðstöðvar sem stuðla á jákvæðan hátt að því að efla tækifæri barna og ungmenna til þess að njóta trúfrelsis. Þessir skólar veita börnum og ungmennum aðgang, þekkingu og reynslu af trúarbrögðum og trúariðkun og stuðla þannig að hæfni þeirra til þess að kynnast trúuðu fólki í samfélagi, þar sem trúfrelsi ríkir.
Samkvæmt Evrópusáttmálanum ber ríkjum að virða rétt foreldra til þess að veita börnum sínum menntun í samræmi við trúar- og lífsspekilega sannfæringu sína. Einnig segir í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna – sem var lögtekinn í Svíþjóð árið 2020 – að börn eigi rétt á trúfrelsi og á að rækta andlegan þroska. Sænska tillagan um að banna stofnun nýrra einkarekinna skóla byggða á trúarlegum grunni er því andstæð báðum samþykktum.
Í öðrum Evrópulöndum eru einkareknir skólar sem byggja á trúarlegum grunni eðlilegur þáttur í samfélaginu. Í Danmörku ganga tuttugu og fimm prósent nemenda í þess háttar skóla og í Hollandi er hlutfallið sjötíu og fimm prósent. Í Svíþjóð virðist hins vegar litið á trúarbrögð sem vandamál. Við skynjum að auk þess að viðhalda ríki sem byggir á veraldlegum grunni er einnig stefnt að veraldlegu samfélagi, þar sem trú er alfarið einkamál hvers og eins.
Við sjáum sömu tortryggni í garð trúarbragða og trúfélaga í frumvarpi til laga um ný lýðræðisleg skilyrði fyrir ríkisstuðningi við borgaraleg samtök og trúfélög. Verði tillagan samþykkt samkvæmt núverandi orðalagi er hætta á að stöðu trúfélaga í sænsku samfélagi sé ógnað til lengri tíma litið.
Gleymum því ekki að trúfrelsi merkir einnig réttur allra einstaklinga til þess að iðka trú sína án takmarkana.
Hildesheim 5. september 2022
+Czeslaw Kozon (Forseti biskuparáðstefnu Norðurlandanna, biskup í Kaupmannahöfn)
+Anders Arborelius (Kardináli og varaforseti, biskup í Stokkhólmi)
+Erik Varden (Prélati Þrándheims biskups)
+Berislav Grgic (Biskup í Tromsö)
+David Tencer (Biskup í Reykjavík)
Marco Pasinato (Stjórnandi í Helsinki)
Nánari upplýsingar: www.nordicbishopsconference.org
Ljósmynd frá vinstri til hægri: Biskup em. Teemu Sippo (Helsinki), Berislav Grgic biskup (Tromsö), Erik Varden biskup (Trondheim), biskup em. Peter Bürcher (Reykjavík), Sr. Anna Mirijam Kaschner (framkvæmdastjóri), Czeslaw Kozon biskup (Kaupmannahöfn), Anders Arborelius kardínáli (Stokkhólmi), David B. Tencer biskup (Reykjavík), Fr. Marco Pasinato (stjórnandi Helsinki)