Norðurlönd

Goyarrola Belda nýr biskup Finnlands

Frans páfi hefur skipað Raimo Ramón Goyarrola Belda biskup Kaþólsku kirkjunnar í Finnlandi. Sendiherra páfa á Norðurlöndum, Julio Murat erkibiskup, tilkynnti útnefningu hans í lok messu í Dómkirkju heilags Hinriks í Helsinki, föstudaginn, 29. September sl.

Raimo Ramón Goyarrola Belda er Spánverji og lærði fyrst læknisfræði og skurðlækningar áður en hann nam heimspeki og guðfræði við háskóla Páfagarðs í Róm og hlaut síðan doktorsgráðu í guðfræði. Hann var vígður til prests 1. september 2002 og hefur starfað sem prestur í Opus Dei reglunni.

Hinn 56 ára Spánverji þekkir biskupsdæmi sitt þegar nokkuð vel, þar eð hann var skipaður staðgengill biskups (Vicar General) af forvera sínum, Teemu Sippu biskup.

Finnland sem telur um 5,5 milljónir íbúa er eitt biskupsdæmi með aðeins átta kaþólskar kirkjur og um 30 presta. Í Finnlandi sem er um 338.145 km2 að flatarmáli, er kaþólska samfélagið tiltölulega fámennt og dreift, með um 17.000 meðlimi (í byrjun árs 2023) sem er minna en 0,3 prósent íbúa landsins. Flestir þeirra eru innflytjendur en meirihluti Finna tilheyra lúthersku kirkjunni.

Við óskum hinum nýjum biskupi innilega til hamingju með skipan hans og velfarnaðar í lífi og starfi!

Ljósmynd: Nýskipaður biskup Raimo Ramón Goyarrola Belda frá Helsinki, til vinstri, og Julio Murat erkibiskup, Sendiherra páfa á Norðurlöndum @Kaþólsk upplýsingamiðstöð, Helsinki biskupsdæmi

Related Posts