Reykjavíkurbiskupsdæmi

Fyrsta skóflustunga að Kaþólskri kirkju á Selfossi

Sumardaginn fyrsta, þann 20. apríl var fyrsta skóflustungan að kirkju Kaþólskra á Selfossi tekin.

Fyrst söng David biskup Messu ásamt nokkrum prestum í gömlu húsi safnaðarins á Selfossi, þar sem sunnudagsmessur og trúfræðsla hafa farið fram. Í lok Messunnar  var hornsteinn nýju kirkjunnar blessaður.

Að því loknu gengu viðstaddir að Móavegi á Selfossi, þar sem kirkjan mun rísa. Bæjarstjóri sveitarfélagsins Árborgar, Fjóla Steindóra Kristinsdóttir flutti stutt ávarp við þetta tilefni og í kjölfarið tók David Tencer biskup fyrstu skóflustunguna.

Kaþólska samfélagið á Íslandi hafði beðið lengi eftir blessun hornsteinsins. Það ríkti því mikil gleði þegar þær fréttir bárust loks í byrjun mars að byggingarleyfið hefði verið veitt. Bygging nýju kirkjunnar er fjármögnuð af byggingaraðstoð Bonifatiuswerks að upphæð 541.500 €. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næstu vikum.

Af þessu tilefni vill Kaþólska Kirkjan á Íslandi koma á framfæri innilegu þakklæti sínu í garð Bonifatiuswerks og annarra velgjörðarmanna sem hafa veitt styrki til kirkjubyggingar á Selfossi.

Related Posts