Norðurlönd

Hirðisbréf um mannlegt kynferði

Kaupmannahöfn. 26.03.2023. Norræna biskuparáðstefnan birti í dag hirðisbréf um mannlegt kynferði í framhaldi af nýloknum vorfundi Biskuparáðsins. 

Hirðisbréfið, sem ber yfirskriftina „Um mannlegt kynferði“, var birt 5. sunnudag í föstu og er því ætlað, að sögn biskupanna, að vísa veginn fyrir hina trúuðu og fólk með góðan vilja sem er óráðið af allt of veraldlegri sýn á manninn og kynferði hans.
Mat og mótsögn: Í hirðisbréfi norrænu biskupanna er beinlínis talað um jákvætt mat á LGBTQ+ hreyfingunni að því leyti sem hún vísar til reisnar alls fólks og þrá eftir viðurkenningu. Kirkjan fordæmir beinlínis „hvers konar mismunun, einnig á grundvelli kynvitundar eða kynhneigðar“.
Hins vegar eru biskuparnir ósammála viðhorfinu til mannlegs eðlis „sem flytur mynd af mannlegu eðli (…) sem aðskilur líkamlega og andlega verund einstaklingsins, rétt eins og kyni hafi verið úthlutað fyrir tilviljun“. Sérstaklega gagnrýna þeir að „slíkri skoðun sé þröngvað upp á börn, rétt eins og hún sé ekki djörf tilgáta heldur fullsönnuð staðreynd“ og „það eru lagt á ólögráða börn og er þeim þung byrði að þurfa að ákveða sjálfsmynd sína, sem þau eru ekki tilbúin að takast á við.“

Kirkjan svarar og leggja sitt af mörkum: Arborelius kardínáli – biskup í Stokkhólmi – sagði að það væri „mikilvægt að færa trú kirkjunnar nær fólki á okkar tímum“ og „það sérstaklega í ljósi mismunandi kenninga um kynferði manna.“
Erik Varden biskup (í Þrándheimi) leggur áherslu á þetta: „Okkar trúaða fólk spyr okkur hvað kirkjan segir um kynjamálin – og við viljum svara á uppbyggilegan hátt.“
Texti hirðisbréfsins, sem var saminn á ensku, er aðgengilegur í ýmsum þýðingum á vef Norræna biskuparáðsins. Sjá frekari upplýsingar: www.nordicbishopsconference.org

BRÉF UM MANNLEGT KYNFERÐI — 5. SUNNUDAGUR Á FÖSTUTÍMA 2023

Kæru bræður og systur,

Fjörutíu dagar föstutímans minna á þá fjörutíu daga sem Kristur fastaði í eyðimörkinni. En það er ekki öll sagan. Í sögu hjálpræðisins marka tímabil sem standa yfir í fjörutíu daga áfanga í endurlausnarverki Guðs, allt fram á okkar daga. Fyrsta slíka inngripið átti sér stað á dögum Nóa. Eftir að hafa fylgst með eyðileggingunni sem maðurinn olli (i), lét Drottinn jörðina undirgangast hreinsandi skírn. „Og steypiregn dundi yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur“.(ii) Í kjölfarið varð til nýtt upphaf.

Þegar Nói og ættingjar hans stigu aftur inn í veröld sem hafði gengist undir hreinsun, gerði Guð sinn fyrsta sáttmála við allt hold. Hann lofaði að flóð myndi aldrei
framar eyða jörðinni. Af mannkyninu krafðist hann réttlætis: Að virða Guð, að halda frið, að vera frjósöm. Við erum kölluð til þess að lifa í blessun Guðs á jörðu, finna gleði hvert í öðru. Möguleikar okkar eru dásamlegir svo lengi sem við munum hver við erum: „Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn“.(iii) Okkur ber að lifa í samræmi við þessa mynd og taka ákvarðanir sem móta líf okkar í takti við hana. Til merkis um sáttmála sinn birti Guð tákn á himni: „Boga minn set ég í skýin, að hann sé merki sáttmálans milli mín og jarðarinnar. Og þegar ég dreg ský saman yfir jörðinni og boginn sést í skýjunum, þá mun ég minnast sáttmála míns, sem er milli mín og yðar og allra lifandi sálna í öllu holdi.“(iv)

Í dag er þessu merki sáttmálans, regnboganum, haldið á lofti sem tákni hreyfingar sem er í senn pólitísk og menningarleg. Við virðum allt það sem er göfugt í stefnu þessarar hreyfingar. Svo lengi sem hún miðar að reisn allra manna og þrá þeirra eftir viðurkenningu, þá deilum við henni. Kirkjan fordæmir hvers kyns óréttmæta mismunun, einnig á grundvelli kyns eða kynhneigðar. Við lýsum þó yfir andstöðu við það þegar hreyfingin setur fram sýn á mannlegt eðli sem aðskilur líkamlega og andlega verund einstaklingsins, rétt eins og kyni við fæðingu hafi verið úthlutað fyrir tilviljun. Og við mótmælum þegar slíkri skoðun er þröngvað upp á börn, rétt eins og hún væri ekki djörf tilgáta heldur fullsönnuð staðreynd, í formi skilgreiningar á sjálfsmynd sem er þröngvað á ólögráða börn, sem þau eru ekki tilbúin til að takast á við. Eitt er forvitnilegt: Okkar ákaflega líkamsmeðvitaða samfélag tekur í raun hugmyndinni um líkamann af léttúð og neitar að líta á hann sem mikilvægan þátt í sjálfsmyndinni, og gerir ráð fyrir að raunveruleg sjálfsmynd okkar sé sú sem huglæg sjálfsskynjun setur fram, og við gerum eftir okkar eigin mynd.

Þegar við játum að Guð hafi skapað okkur í sinni mynd vísar myndin ekki bara til sálarinnar. Hún er á leyndardómsfullan máta einnig samtvinnuð líkamanum. Fyrir okkur sem erum kristin er líkaminn óaðskiljanlegur þáttur af persónuleikanum. Við trúum á upprisu líkamans. Vitanlega „munum vér [allir] umbreytast“.(v) Hvernig líkamar okkar verða í eilífðinni getum við ekki ennþá gert okkur í hugarlund. En við trúum á boðskap Biblíunnar, sem er byggður á þeirri hefð að eining hugar, sálar og líkama sé gerð til þess að endast að eilífu. Í eilífðinni munum við vera auðþekkjanleg sem þau sem við erum nú, en innri átök sem hindra hið sanna sjálf okkar að njóti sín til fulls munu þá vera leyst.

„En af Guðs náð er ég það sem ég er“.(vi) Heilagur Páll átti í baráttu við sjálfan sig við að lýsa yfir þessari staðreynd í trúartrausti. Oftsinnis þurfum við þess líka. Við erum meðvituð um allt sem við erum ekki; við einblínum á gjafir sem við fengum ekki, á ástúð eða staðfestingu sem vantar í líf okkar. Það veldur okkur hryggð. Við viljum bæta það upp. Stundum er það skynsamlegt. Oft er það tilgangslaust. Leiðin að því að viðurkenna okkur sjálf liggur í því að takast á við það sem er raunverulegt. Raunveruleiki lífs okkar geymir mótsagnir okkar hið innra og sársauka. Biblían og líf hinna heilögu sýna að sár okkar geta, fyrir náð, orðið uppspretta lækninga fyrir okkur sjálf og aðra.

Ímynd Guðs í mannlegu eðli birtist í því að karl- og kvenkyn bæta hvort annað upp. Maður og kona eru sköpuð fyrir hvort annað: Boðorðið um að vera frjósöm er háð þessari gagnkvæmni, helgað í hjónabandi. Í Ritningunni verður hjónaband manns og konu myndbirting samfélags Guðs við mannkynið, sem fullkomnast í brúðkaupsveislu lambsins við endalok sögunnar.(vii) Það er ekki þar með sagt að slík sameining sé okkur auðveld eða sársaukalaus. Sumum virðist það ómögulegur kostur. Samþætting karllægra og kvenlegra eiginleika innra með okkur getur reynst erfið. Kirkjan viðurkennir það. Hún vill umfaðma og hughreysta alla sem ganga í gegnum erfiðleika.

Sem biskupar ykkar leggjum við áherslu á þetta: Við erum hér fyrir alla, til að fylgja öllum. Þráin eftir ást og leitin að kynferðislegri heild snerta hverja mannveru náið. Á
þessu sviði erum við berskjölduð. Þolinmæði er krafist á vegferðinni í átt til einingar og hverju skrefi fram á við fylgir gleði. Það er til að mynda stórt framfarastökk frá lauslæti til trúfesti, hvort sem hið trúfasta samband er í fullu samræmi við þá hlutlægu skipan hjónabandsins sem notið hefur blessunar sakramentanna. Sérhver leit að óskertri heild er virðingarverð og verðskuldar hvatningu. Vöxtur í visku og dyggðum er lifandi ferli. Hann gerist smám saman. Á sama tíma verður vöxtur sem ber góðan ávöxt að beinast að ákveðnu markmiði. Hlutverk okkar og verkefni sem biskupa er að vísa í átt að hinni friðsælu, lífgefandi leið boðorða Krists. Stígurinn er þröngur í upphafi en víkkar eftir því sem leið okkar vindur fram. Við myndum svíkja ykkur ef við byðum eitthvað minna; við vorum ekki vígðir til að boða okkar eigin lítilfjörlegu hugmyndir.

Í gestrisnu samfélagi kirkjunnar er rými fyrir alla. Kirkjan, segir í fornum texta, er „miskunn Guðs sem kemur niður yfir mannkynið“.(viii) Þessi miskunn útilokar engan. En hún boðar háleita hugsjón. Hugsjónin er skrifuð í boðorðunum, sem hjálpa okkur að vaxa upp úr hömlum okkar afar þrönga sjálfs. Við erum kölluð til að verða nýjar konur og karlar. Í okkur öllum eru óreiðuþættir sem þarf að koma skipun á. Altarisgangan gerir ráð fyrir að við lifum samkvæmt og í samræmi við skilmála sáttmálans sem innsiglaður er með blóði Krists. Svo getur farið að aðstæður geri kaþólskt fólk ófært um að taka við sakramentunum um tíma. Hann eða hún hættir þó ekki að vera meðlimur kirkjunnar. Reynsla af innri brottför í trú getur leitt til dýpri tilfinningar um að tilheyra samfélaginu. Þetta gerist oft hjá þeim sem halda á brott í Ritningunni. Öll þurfum við að fara á brott, en við erum ekki ein á ferð.

Á erfiðleikatímum umlykur tákn fyrsta sáttmála Guðs okkur líka. Það kallar okkur til að leita skilnings á tilveru okkar, ekki í ljósbrotum lita regnbogans, heldur í guðdómlegri uppsprettu hins fullkomna, glæsilega litrófs, sem er frá Guði komið og kallar okkur til að vera Guði lík. Sem lærisveinar Krists, sem er ímynd Guðs,(ix) getum við ekki smættað merki regnbogans niður í eitthvað sem er minna en hið lífgefandi samspil Skapara og sköpunar. Guð hefur veitt okkur „hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að [við] fyrir þau skyldu[m] verða hluttakendur í guðlegu eðli“.(x) Mynd Guðs, sem greypt er í veru okkar, kallar á helgun í Kristi. Sérhver skýring á mannlegri löngun sem setur markið lægra en þetta er ófullnægjandi frá kristnu sjónarhorni.

Nú eru hugmyndir um hvað það er að vera manneskja, og þar með kynverur, síbreytilegar. Því sem þykir sjálfsagt í dag kann að verða hafnað á morgun. Sá sem leggur
mikið upp úr hverfulum kenningum kann að hljóta djúp sár. Við þurfum djúpar rætur. Við skulum því reyna að tileinka okkur grundvallarreglur kristinnar mannfræði um leið og við réttum fram hönd okkar í vináttu og með virðingu til þeirra sem telja sig standa fjarri þessum reglum. Við skuldum Drottni, okkur sjálfum og heimi okkar, að gera grein fyrir því sem við trúum og hvers vegna við trúum því að það sé satt.

Margir furða sig á hefðbundinni kristinni fræðslu um kynferði. Þeim gefum við vinsamleg ráð. Í fyrsta lagi: Reyndu að kynna þér köllun og fyrirheit Krists, reyndu að
kynnast honum betur í gegnum Ritninguna og í bæn, með helgisiðum og rannsókn á fullri kennslu kirkjunnar, ekki bara brotum hér og þar. Taktu þátt í lífi kirkjunnar.
Sjóndeildarhringur spurninganna sem þú lagðir af stað með mun stækka með þessu móti, sem og hugur þinn og hjarta. Í öðru lagi skaltu íhuga takmörk þeirrar orðræðu um kynferði sem miðast eingöngu við hið veraldlega. Hana þarf að auðga. Við þurfum fullnægjandi hugtök til að tala um þessa mikilvægu hluti. Framlag okkar verður dýrmætt ef við endurheimtum sakramentiseðli kynferðisins í áætlun Guðs, fegurð kristins skírlífis og gleði vináttunnar, sem gerir okkur kleift að sjá að mikla og frelsandi nánd er einnig að finna í samböndum sem ekki eru af kynferðislegum toga.

Tilgangurinn með fræðslu kirkjunnar er ekki að draga úr kærleika heldur að gera hann mögulegan. Í lok formála Trúfræðslurits Kaþólsku kirkjunnar frá 1992 er
endurtekinn kafli úr Trúfræðsluritinu frá 1566: „Markmiðið með allri kenningu og kennslu hennar verður að beinast að kærleikanum sem enginn endir er á. Hvort sem einhverju er komið á framfæri til trúar, til vonar eða til athafnar verður kærleikur Drottins ávallt að vera aðgengilegur til að hver sem er megi sjá að öll verk hinnar fullkomnu kristnu dyggðar spretta af kærleika og hafi ekkert annað að viðfangi en að ná til kærleikans.“(xi) Af þessum kærleika varð heimurinn til, og eðli okkar mótaðist. Þessi kærleikur kom fram í fordæmi Krists, kennslu, frelsandi þjáningu hans og dauða. Það sannaðist í dýrðlegri upprisu hans, sem við munum fagna með gleði á þessum fimmtíu dögum páskanna. Megi kaþólskt samfélag okkar, svo margþætt og litríkt, bera þessum kærleika vitni í sannleika.

i Fyrsta Mósebók 6.5.
ii Fyrsta Mósebók 7.12.
iii Fyrsta Mósebók 9.6.
iv Fyrsta Mósebók 9.13, 16.
v Fyrra Korintubréf 15.51.
vi Fyrra Korintubréf 15.10.
vii Opinberunarbókin 19.6.
viii Úr sýrlenskum ritskýringum frá fjórðu öld, Helli dýrgripanna.
ix Kólossubréf 1.15.
x Síðara Pétursbréf 1.4.
xi Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar, nr. 25; sbr. Rómverskt trúfræðslurit, formáli 10; sbr. fyrra Korintubréf 13.8.

Back to list

Related Posts