Frans páfi: Föstuganga okkar er samráðsferli sýnódunnar
Í föstuboðskap sínum fyrir árið 2023, leggur Frans páfi áherslu á tengsl föstunnar og sýnódunnar, samráðsferlis kirkjunnar sem eiga hvorar tveggja rætur í hefðum en eru á sama tíma opnar fyrir nýjungum.
Persónuleg og kirkjuleg „umbreyting“ er markmiðið með krefjandi ferðalagi föstunnar og það sama á sér stað í kirkjuþingsferlinu, skrifar Frans páfi í föstuboðskap sínum fyrir árið 2023.
Boðskapurinn, undirritaður á hátíð sinnaskipta heilags Páls og gefin út sl. föstudag, ber titilinn „Yfirbót föstunnar og sýnódan“.
Föstuleiðangur okkar er sýnóda
Frans páfi sækir innblástur í frásögn guðspjallsins um ummyndunina, sem boðuð er á hverju ári á öðrum sunnudegi á föstutíma. Eins og með hina útvöldu lærisveina við ummyndunina, „tekur Jesús okkur með sér á nýjan stað“ á föstutímanum.
„Yfirbót föstunnar,“ skrifar hann, „er skuldbinding, studd af náð, til að sigrast á skorti okkar á trú og mótþróa okkar við að fylgja Jesú á leið krossins.
Þetta krefst erfiðis, fórnfýsi og einbeitingar, sem eru jafnframt kröfurnar sem gerðar eru til sýnóduferlisins. Þess vegna getum við sagt að „fastan okkar sé „sýnóda“ þar sem við tökumst á við hana í sameiningu og erum á sömu vegferð, sem lærisveinar hins eina sanna meistara.
Að hjálpa okkur að skilja vilja Guðs
Eins og ferð lærisveinanna upp á Tabor-fjall, viðurkennir Frans páfi að kirkjuþingsferlið geti virst erfitt og leitt til uppgjafar.
Samt segir hann „það sem bíður okkar í lokin er án efa eitthvað dásamlegt og ótrúlegt, sem mun hjálpa okkur að skilja betur vilja Guðs og verkefni okkar í heiminum.“
Frans páfi bendir á Móse og Elía – fulltrúa lögmálsins og spámannanna – við ummyndunina, og segir að: „Sýnódan á, á sambærilegan hátt, rætur í hefð kirkjunnar en er á sama tíma opin fyrir nýjungum.“ Hann útskýrir að „hefð sé uppspretta innblásturs til að leita nýrra leiða og forðar frá hinum andstæðu freistingum hreyfingarleysis annars vegar og vanhugsaðrar tilraunamennsku hins vegar.“
Hlustun og dagleg viðleitni
Til þess að ná markmiði okkar um ummyndun í bæði persónulegu lífi og á kirkjulegum vettvangi, leggur Frans páfi til tvær leiðir innblásnar af ummyndun Jesú.
Hin fyrri er að hlusta á orð Guðs og á bræður okkar og systur. Páfi minnir okkur á að við heyrum orð Krist gjarnan þegar við hlustum á bræður okkar og systur í kirkjunni.
Hin síðari felur í sér að horfast í augu við veruleika daglegrar lífsbaráttu, án þess að dvelja við óvenjulega atburði og reynslu. Frans páfi minnir okkur á að hvorki fastan né kirkjuþingsferlið eru markmið í sjálfu sér heldur leiða þau okkur að veruleika páskanna.
„Við skulum þá halda út á akurinn,“ segir páfi að lokum, „og megi náðin sem við höfum þegið styrkja okkur til að vera „verkamenn sýnódunnar“ í daglegu lífi samfélaga okkar.“
Byggt á grein eftir Christopher Wells, Vatican News