Föstutími

Föstuboðskapur hans heilagleika, Frans páfa, árið 2021

„Nú förum vér upp til Jerúsalem“ (Mt 20:18)

Fastan er tíminn til að endurnýja trú, von og kærleika

Kæru bræður og systur,

Jesús opinberaði lærisveinum sínum dýpstu merkingu erindis síns þegar hann sagði þeim frá þjáningu sinni, dauða og upprisu, til að uppfylla vilja Föðurins. Hann kallaði síðan lærisveinana til að taka þátt í þessu verkefni til hjálpræðis heiminum.

Í föstuferð okkar í átt að páskum skulum við minnast hans sem „lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já dauðans á krossi“ (Fil 2:8). Á þessum iðrunartíma skulum við endurnýja iðrun okkar, drekka af „lifandi vatni“ vonarinnar og taka á móti kærleika Guðs opnum hjörtum, sem gerir okkur að systkinum í Kristi. Á páskavökunni munum við endur­nýja skírnarheit okkar og endurfæðast sem nýir menn og konur fyrir tilverknað Heilags Anda. Þessi föstuferð, eins og öll pílagrímsferð kristins lífs, er jafnvel núna upp­lýst með ljósi upprisunnar, sem veitir innblástur hugsunum, viðhorfum og ákvörðunum fylgjenda Krists.

Föstur, bænir og ölmusugjafir, eins og Jesús boðaði (sbr. Mt 6:1-18), greiða fyrir og tjá trú okkar. Leið fátæktar og sjálfsafneitunar (fastan), nærgætni og kærleiksríkrar um­hyggju fyrir fátækum (ölmusugjafirnar) og barnslegar viðræður við Föðurinn (bænin) gera okkur kleift að lifa lífinu í einlægri trú, lifandi von og árangursríkum kærleika.

  1. Trúin kallar okkur til að taka á móti sannleikanum og bera vitni um hann frammi fyrir Guði og öllum bræðrum okkar og systrum.

Þegar við tökum við og lifum sannleikann sem opinberaður er í Kristi, þá þýðir það í fyrsta lagi að við opnum hjörtu okkar fyrir orði Guðs sem kirkjan miðlar frá kynslóð til kynslóðar. Þessi sannleikur er ekki óhlutlægt hugtak sem er frátekið fyrir útvalinn og fámennan hóp gáfumanna. Þess í stað er hann boðskapur sem við öll getum tekið á móti og skilið, þökk sé visku hjartans sem er opið fyrir mikilfengleika Guðs, en hann elskar okkur jafnvel áður en við erum meðvituð um það. Kristur sjálfur er þessi sannleikur. Með því að taka á sig mannlega mynd okkar, jafnvel allt að mörkum hennar, hefur hann gert sig að veginum – sem er krefjandi en samt opinn öllum – sem leiðir til lífs í fullri gnægð.

Þegar við höldum föstuna sem einskonar sjálfsafneitun, þá hjálpar hún þeim sem halda hana í einfaldleika hjartans að uppgötva gjöf Guðs á ný, og viðurkenna að við sem erum sköpuð í mynd hans og líkingu, finnum fyllingu okkar í honum. Sá sem tekur á móti reynslu fátæktar með föstu sinni, verður sem fátækur meðal fátækra og safnar bæði og miðlar fjársjóði kærleikans. Á þennan hátt hjálpar fastan okkur að elska Guð og náungann, að því leyti sem kærleikurinn, eins og heilagur Tómas frá Akvínó kennir, er hreyfing út á við sem beinir athygli okkar að öðrum og lítur á þá sem einn af okkur (sbr. Fratelli Tutti, 93).

Fastan er tíminn til að trúa, til að taka vel á móti Guði í lífi okkar og leyfa honum að „gera bústað“ meðal okkar (sbr. Jh 14:23). Fastan felst í því að við frelsumst undan öllu sem hvílir þungt á okkur – svo sem neysluhyggja eða ofurmagn upplýsinga, hvort sem þær eru sannar eða rangar – til að við getum opnað dyr hjarta okkar fyrir þeim sem kemur til okkar, fátækur í öllu, en samt „fullur náðar og sannleika“ (Jh 1:14): Syni Guðs frelsara okkar.

  1. Vonin sem „lifandi vatn“ gerir okkur kleift að halda áfram ferð okkar.

Samverska konan við brunninn, sem Jesús biður að gefa sér að drekka, skilur ekki hvað hann á við þegar hann segist geta boðið henni „lifandi vatn“ (Jh 4:10). Auðvitað heldur hún að hann sé að vísa til efnislegs vatns, en Jesús var að tala um Heilagan Anda sem hann myndi gefa í ríkum mæli í leyndardómi páskanna, og gæfi þannig von sem ylli ekki vonbrigðum. Jesús hafði þegar talað um þessa von þegar hann sagði frá þjáningu sinni og dauða, og að hann myndi „upp rísa á þriðja degi“ (sbr. Mt 20:19). Jesús var að tala um framtíðina sem opnaðist fyrir miskunn Föðurins. Þegar við vonum með honum og vegna hans, þá merkir það að við trúum því að mannkynssagan endi ekki með mistökum okkar, ofbeldi okkar og óréttlæti, eða með syndinni sem krossfestir kærleikann. Það þýðir að við öðlumst frá opnu hjarta hans fyrirgefningu Föðurins.

Á þessum erfiðleikatímum, þegar allt virðist brothætt og óvíst, kann það að virðast krefjandi að tala um von. Samt er föstutíminn einmitt vonartími, þegar við snúum aftur til Guðs sem heldur þolinmóður áfram að annast sköpun sína, sem við höfum oft farið illa með (sbr. Laudato Si’, 32-33; 43-44). Heilagur Páll hvetur okkur til að setja von okkar á sáttina: „Látið sættast við Guð“ (2Kor 5:20). Með því að fá fyrirgefningu í sakramentinu sem er kjarninn í iðrunarferli okkar, getum við aftur miðlað fyrirgefningu til annarra. Þegar við höfum fengið fyrirgefningu sjálf, getum við boðið hana með því að vera viljug til að ræða náið við aðra og veita þeim huggun sem búa við sorg og sársauka. Fyrirgefning Guðs, sem einnig er boðin með orðum okkar og gjörðum, gerir okkur kleift að lifa páskana í bræðralagi með öðrum.

Á föstunni ættum við í auknum mæli að reyna „að tala orð huggunar, styrks, hug­svölunar og hvatningar, en ekki orð sem gera lítið úr öðrum, hryggja þá, reita til reiði eða sýna þeim fyrir­litningu“ (Fratelli Tutti, 223). Til þess að gefa öðrum von er stundum nóg að vera bara góður, vera „reiðubúinn að ýta öllu til hliðar og sýna áhuga, brosa til annarra, hvetja þá og hlusta á þá, jafnvel þó að flestum öðrum sé sama“ (s.st., 224).

Með íhugun og þögulli bæn er okkur gefin von sem innblástur og innra ljós, sem bregður birtu á þær áskoranir og val sem við stöndum frammi fyrir í verkefni okkar. Þess vegna þurfum við að biðja, og það í í leyni (sbr. Mt 6:6), til að mæta kærleika Föðurins.

Þegar við erum vongóð á föstunni, þá vex skilningur okkar á því að í Jesú Kristi verðum við vitni að nýjum tímum þar sem Guð „gerir alla hluti nýja“ (sbr. Opb 21:1-6). Það þýðir að við tökum á móti von Krists, sem gaf líf sitt á krossinum og var reistur upp af Guði á þriðja degi, og eigum ætíð að vera „reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá [… okkur] fyrir voninni, sem í [… okkur] er“ (1Pét 3:15).

  1. Kærleikurinn sem fetar í fótspor Krists og sinnir öllum af samúð, er æðsta tjáning trúar okkar og vonar.

Kærleikurinn fagnar því að sjá aðra vaxa. Þess vegna þjáist hann þegar aðrir búa við angist, eru einmana, veikir, heimilislausir, fyrirlitnir eða í neyð. Kærleikurinn er lyfting hjartans; Hann opnar okkur gagnvart öðrum og myndar tengsl hlutdeildar og samfélags.

„‘Félagslegur kærleikur’“ gerir það mögulegt að komast í átt að siðmenningu kær­leikans, sem við öll getum fundið okkur kölluð til. Með þessari hvatningu gagnvart öllum öðrum er kærleikurinn fær um að byggja upp nýjan heim. Þetta er ekki aðeins viðhorf, heldur besta aðferðin til að uppgötva heillavænlega leið til þróunar fyrir alla“ (Fratelli Tutti, 183).

Kærleikurinn er gjöf sem gefur lífi okkar tilgang. Hann gerir okkur kleift að líta á þá sem eru í neyð sem meðlimi eigin fjölskyldu, sem vini, bræður eða systur. Lítil upphæð, sem gefin er með kærleika, endar aldrei, heldur verður uppspretta lífs og hamingju. Það var raunin með mjölskjólu og viðsmjörskrús ekkjunnar í Sarefta, sem bauð Elía spámanni köku (sbr. 1Kon 17:7-16); og sú var líka raunin með brauðin sem Jesús blessaði, braut og gaf lærisveinunum til að dreifa til mannfjöldans (sbr. Mk 6:30-44). Svo er líka um ölmusugjöf okkar, hvort sem hún er lítil eða stór, þegar hún er boðin með gleði og einfaldleika.

Að upplifa föstuna með kærleika þýðir að hugsa um þá sem þjást eða eru yfirgefnir og óttaslegnir vegna Covid-19 faraldursins. Á þessum dögum djúpstæðrar óvissu um framtíðina, skulum við hafa í huga orð Drottins sem hann beindi til þjóns síns, „Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig“ (Jes 43:1). Mættum við í kærleika okkar tala með fullvissu og hjálpa öðrum að átta sig á því að Guð elskar þá sem syni sína og dætur.

„Aðeins augnaráð sem umbreytt er með kærleika getur gert það að verkum að virðing annarra er viðurkennd og þar af leiðandi að hinir fátæku séu metnir að verð­leikum, sjálfsmynd þeirra og menning virt, og þeir séu þar með sannarlega orðnir þáttur í sam­félaginu“ (Fratelli Tutti, 187).

Kæru bræður og systur, sérhvert andartak í lífi okkar er tími til að trúa, vona og elska. Kallið um að fastan verði okkur sem ferð iðrunar og bænar og að við deilum gæðum okkar með öðrum, hjálpar okkur – sem samfélagi og sem einstaklingum – að endurlífga trúna sem kemur frá hinum lifandi Kristi, vonina sem innblásin er af Heilögum Anda og kærleikann sem streymir frá miskunnsömu hjarta Föðurins.

Megi María, móðir Frelsarans, ævinlega trúföst við rætur krossinn og í hjarta kirkjunnar, styrkja okkur með kærleiksríkri nærveru sinni. Megi blessun hins upprisna Drottins fylgja okkur öllum á ferð okkar í áttina að ljósi páskanna.

FRANS

Róm, í basilíku hl. Jóhannesar í Lateran, 11. nóvember 2020,

á minningardegi heilags Marteins frá Tours

Related Posts