Föstutími

Föstuboðskapur Frans páfa 2024

Guð leiðir okkur um eyðimörkina til frelsis

Kæru bræður og systur!

Þegar Guð opinberar sig er boðskapur hans ávallt frelsisboðskapur: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu“ (2M 20:2). Þannig hljómar hið fyrsta af boðorðunum tíu sem Móses tók við á Sínaífjalli. Þjóð hans þekkti vel til flóttans sem Guð talaði um: Þrautir ánauðarinnar hvíldu ennþá þungt á henni. Hún tók á móti „boðorðunum tíu“ í eyðimörkinni sem leið til frelsis. Við köllum þau „boðorð“ til þess að undirstrika styrk kærleikans sem Guð mótar fólk sitt með. Kallið til frelsis krefst mikils af okkur. Því er ekki svarað umhugsunarlaust. Það þarf að þróast sem hluti af leiðangri. Eins og þegar Ísrael í eyðimörkinni saknaði enn Egyptalands – og horfði með söknuði til fortíðar og möglaði yfir Drottni og Móse  – rétt eins og í dag þegar Guðs lýður heldur fast í þrúgandi ánauð þess sem þeim ber að skilja við. Sannleikur þess verður okkur ljós á þeim augnablikum þegar höfum misst vonina og göngum gegnum lífið eins og um eyðimörk án fyrirheitins lands. Föstutíminn er árstíð náðar þegar eyðimörkin getur aftur orðið  – eins og Hósea spámaður sagði – staður fyrsta ástarfundar okkar (sbr. Hs 2:16-17). Guð mótar þjóð sína, hann gerir okkur kleift að yfirgefa þrældóm okkar og upplifa páskahátíð sem leið frá dauða til lífs. Eins og brúður dregur Drottinn okkur aftur til sín og hvíslar kærleiksorðum í hjörtu okkar.

Flóttinn frá þrælahaldi til frelsis er ekki ferð í huglægri merkingu. Svo að föstutími okkar verði áþreifanlegur, þá er fyrsta skrefið að við viljum opna augu okkar fyrir raunveruleikanum. Þegar Drottinn kallar á Móse úr hinum logandi runna þá opinberar hann á augabragði að hann er Guð sem sér og, umfram allt, heyrir: „Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi“ (2M 3:7-8). Enn þann dag í dag stígur grátur svo margra kúgaðra bræðra okkar og systra til himins. Spyrjum okkur sjálf: Heyrum við þessa grátstafi? Angra þeir okkur? Hreyfa þeir við okkur? Of margt skilur okkur að og hefur spillt bræðralagi okkar frá upphafi vega.

Á ferð minni til Lampedusa, sem var liður í viðleitni minni til þess að hamla gegn hnattvæðingu afskiptaleysis spurði ég tveggja spurninga sem hafa orðið æ áleitnari: „Hvar ertu?“ (1M 3:9) og „Hvar er bróðir þinn?“ (1M 4:9). Föstuleiðangur okkar verður raunverulegur ef þessar tvær spurningar koma okkur í skilning um það að enn þann dag í dag erum við undir yfirráðum faraós, yfirráðum sem þreyta okkur og gera okkur áhugalaus um hlutskipti annarra. Þetta er vaxtarlíkan sem sundrar og rænir okkur framtíðinni. Jörð, loft og vatn er mengað, en einnig sálir okkar. Sannlega hefst ferli okkar til frelsunar með skírninni, en samt erum við haldin óútskýranlegri þrá eftir þrældómi. Einhvers konar aðdráttarafli öryggis sem felst í því kunnuglega, en rýrir þó frelsi okkar.

Í frásögninni um flóttann frá Egyptalandi er að finna mikilvægt smáatriði: Það er Guð sem sér, hann er snortinn og færir okkur frelsi. Ísrael biður ekki um það. Faraó kæfir drauma, birgir sýn á himnaríki, lætur þennan heim ,,þar sem að mannleg reisn er fótum troðin og raunverulegum tengslum er hafnað, koma okkur þannig fyrir sjónir að hann muni aldrei breytast. Heimurinn fjötraði allt við sjálfan sig. Við getum spurt okkur: Viljum við nýjan heim? Er ég tilbúinn að skilja við málamiðlanir mínar við fortíðina? Vitnisburður margra sambiskupa minna og fjölmargra meðal þeirra sem vinna að friði og réttlæti hefur sannfært mig æ betur um að við þurfum að berjast gegn vonleysi sem kæfir drauma og þaggar niður í þeim hljóðu kveinstöfum sem ná til himna og hræra hjarta Guðs. Þessi „skortur á von“ er ekki ósvipaður eftirsjá eftir þrældómnum sem lamaði Ísrael í eyðimörkinni og kom í veg fyrir að þau gætu haldið áfram. Það er unnt að rjúfa flóttann: Hvernig má annars útskýra þá staðreynd að nú þegar mannkynið stendur við þröskuld allsherjarbræðralags og á því stigi vísinda, tækni, menningar- og réttarfarslegrar þróunar sem getur tryggt öllum reisn, fer það samt villur vega í myrkri ójöfnuðar og átaka?

Guð er ekki orðinn þreyttur á okkur. Við skulum fagna föstunni sem hinni miklu hátíð þegar hann minnir okkur á að „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu“ (2M 20:2). Fastan er tími umbreytinga, tími frelsis. Jesús sjálfur, eins og við minnumst á hverju ári fyrsta sunnudag á föstutíma, var hrakinn út í eyðimörkina af Andanum til þess að freistast í frelsi. Í fjörutíu daga mun hann standa frammi fyrir okkur og með okkur: Sonurinn sem varð hold. Ólíkt faraó vill Guð ekki þegna, heldur syni og dætur. Eyðimörkin er staður þar sem frelsi okkar getur þroskast í persónulegri ákvörðun um að falla ekki aftur í þrældóm. Í föstunni finnum við ný viðmið réttlætis og samfélags sem við getum fylgt eftir braut sem hefur ekki enn verið fetuð.

Þetta hefur hins vegar á í för með sér baráttu, eins og önnur Mósebók og freistingar Jesús í eyðimörkinni gera okkur ljóst. Rödd Guðs sem segir: „Þú ert sonur minn, hinn elskaði“ (Mk 1:11), og „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig“ (2M 20:3), stendur andspænis óvininum og lygum hans. Það sem ber að óttast meira en faraó eru átrúnargoðin sem við berum fram; við getum litið á þau sem okkar innri rödd. Að vera almáttug, fyrirmynd sem allir líta upp til, að drottna yfir öðrum: sérhver mannvera er meðvituð um hversu djúpstæð og freistandi þessi lygi getur verið. Það eru vel þekkt sannindi. Við getum orðið háð gildum eins og peningum, ákveðnum verkefnum, hugmyndum eða markmiðum, stöðu okkar, hefðum, jafnvel ákveðnum einstaklingum. Og í stað þess að hjálpa okkur að ná lengra, hefta þau  okkur. Í stað þess að færa okkur nær hvert öðru, sundra þau okkur. Samt er hér líka nýtt mannkyn, hinir smáu og auðmjúku sem hafa ekki látið undan töfrum lygarinnar. En þau sem þjóna átrúnaðargoðum verða eins og þau, mállaus, blind, heyrnarlaus og óhreyfanleg (Sl 115, 5), hinir fátæku í anda eru opnir og reiðubúnir: þeir eru þögult afl hins góða sem læknar og viðheldur heiminum.

Það er kominn tími til að bregðast við og á föstunni merkir það að bregðast við einnig að gera hlé. Að staldra við í bæn, til þess að taka á móti orði Guðs, að staldra við eins og Samverjinn í nánd hins særða bróður eða systur. Kærleikur til Guðs og kærleikur til náungans er einn og sami kærleikurinn. Að hafa ekki aðra guði er að vera í návist Guðs og við hlið náunga okkar. Af þessum sökum eru bænir, ölmusugjafir og fasta ekki þrjár ótengdar athafnir, heldur ein birting opnunar og sjálfsfórnar, þar sem við rekum út átrúnagoðin sem íþyngja okkur og þær skuldbindingar sem halda aftur af okkur. Þá mun hið vanrækta og einangraða hjarta lifna aftur við. Með öðrum orðum, förum okkur hægar og stöldrum við! Þáttur íhugunar í lífi okkar, sem fastan hjálpar okkur að enduruppgötva, mun veita nýja orku. Í nærveru Guðs verðum við, bræður og systur, næmari í hvers annars garð: í stað aðdróttana og óvina uppgötvum við félaga og samferðamenn. Þetta er draumur Guðs, fyrirheitna landið sem við erum á leið til þegar við höfum sagt skilið við þrældóminn.

Sýnóduleið kirkjunnar, sem við höfum enduruppgötvað og lagt rækt við undanfarin ár, bendir á að fastan ætti einnig að vera sá tími þegar við tökum ákvarðanir sem snerta samfélagið, smærri sem stærri ákvarðanir sem ganga gegn meginstraumnum. Ákvarðanir sem geta breytt daglegu lífi einstaklinga og heilu borgarhverfanna, svo sem með hvaða hætti við nálgumst nauðsynjavörur, hugum að sköpunarverkinu og leitumst við að hafa þá með sem eru ósýnilegir eða þá sem litið er niður til. Ég býð sérhverju kristnu samfélagi að gera einmitt þetta: að bjóða meðlimum sínum upp á stundir þar sem þeim gefst ráðrúm til að endurskoða lífsstíl sinn, tími til að skoða stöðu sína í samfélaginu og framlag sitt með það að markmiði að betrumbæta samfélagið. Vei okkur ef kristin iðrun okkar líktist þeirri iðrun sem hryggði Jesú svo mjög. Hann segir einnig við okkur: „Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta“ (Mt 6:16). Sýnið þess í stað öðrum glaðlegt viðmót, finnið ilminn af frelsinu  og skynjið kærleikann sem endurnýjar allt, byrjum á því smávægilega í næsta í nágrenni okkar. Þetta er vel gerlegt í sérhverju kristnu samfélagi.

Svo fremi þessi föstutími verði tími breytinga, mun hið þjáða mannkyn skynja sköpunargleðina, ljóma nýrrar vonar. Leyfið mér að endurtaka það sem ég sagði við unga fólkið sem ég hitti í Lissabon síðastliðið sumar: „Leitið og verið reiðubúin til þess að taka áhættu. Á þessari stundu stöndum við frammi fyrir gríðarlegum háska; við heyrum bænir þrungnar sársauka frá svo mörgum. Reyndar erum við að upplifa þriðju heimsstyrjöldina, þar sem bardagar eiga sér víða stað. Þrátt fyrir það skulum við finna hugrekki til að sjá heiminn okkar, ekki eins og hann sé í dauðateygjum, heldur í fæðingarferli, ekki við endalok heldur við upphaf merkilegs nýs kafla í sögu hans. Við þörfnumst hugrekkis til þess að hugsa á þennan veg“ (Ávarp til háskólanema, 3. ágúst 2023). Í því felst hugrekki til breytinga, til þess að stíga upp úr þrældómi. Trú og kærleikur halda í hönd þessa litla barns; vonarinnar. Þau kenna henni að ganga og samtímis leiðir hún þau áfram.[1]

Ég blessa ykkur öll og föstuleiðangur ykkar.

Róm, í kirkju hl. Jóhannesar í Lateran, 3. desember 2023, fyrsta sunnudag í aðventu.

[1] Sbr. CH. PÉGUY, The Portico of the Mystery of the Second Virtue.

 

Sjá einnig vef VATICAN NEWS

Related Posts