Alþjóðamál

Biðjum fyrir fórnarlömbum jarðskjálftans í Tyrklandi og Sýrlandi

Yfirlýsing frá Sýnódu fyrir meginland Evrópu

Frá Prag, þar sem Sýnóda fyrir meginland Evrópu (European Synodal Continental Assembly) fer fram, senda kirkjurnar í Evrópu eftirfarandi yfirlýsingu um samstöðu sína með íbúum Suður-Tyrklands og Norður-Sýrlands sem urðu illa úti í kjölfar jarðskjálftans þann 6. febrúar sl.

Tala látinna fer stöðugt hækkandi og eyðileggingin sem og þjáningar íbúanna hafa haft djúpstæð áhrif á okkur og snerta við hjörtum okkar. Þetta er djúpt sár, sem bætist við stríðið í Sýrlandi sem geisað hefur á svæðinu í 12 ár.

Hugur okkar er hjá sókninni í Iskenderun, þar sem dómkirkjan hrundi í skjálftanum en til allra hamingju án þess að nokkur týndi lífi. Hugur okkar leitar einnig til sóknarinnar í Anatólíu, sem hefur orðið afar illa úti. Loks til Aleppo, borgarinnar sem var píslarvottur í stríðinu í Sýrlandi og gengur nú í gegnum annað píslarvætti.

Umfram allt leitar hugur okkar og þakklæti til þeirra sem koma að hjálparstarfi þessa stundina, við afar krefjandi aðstæður, sem fara versnandi vegna vetrarkuldanna sem herja. Starf Caritas-samtaka okkar felst í því að takast á við neyðarástand, meðhöndla slasaða, hugga þá sem hafa misst fjölskyldumeðlimi og finna skjól fyrir þá sem hafa það ekki lengur. Kirkjurnar á staðnum veita nú þegar alls kyns hjálp og taka vel á móti þeim sem til þeirra leita. Þær eru skínandi fordæmi sem við horfum til með aðdáun.

Kirkjurnar í Evrópu lýsa yfir djúpri samúð og samstöðu með íbúum sem urðu fyrir barðinu á jarðskjálftunum. Þær biðja fyrir þeim og eru reiðubúnar til þess að veita alla hugsanlega aðstoð til þess að takast á við hörmungarnar.

Prag, 7. febrúar 2023

https://prague.synod2023.org/en/2023/02/07/europe-in-prayer-for-the-victims-of-the-earthquake-in-turkey-and-syria/