Páfagarður

Bréf frá hinum Heilaga föður til úkraínsku þjóðarinnar

níu mánuðum eftir að stríðið braust út

24. nóvember 2022

Kæru úkraínsku bræður og systur!

Hið fáránlega brjálæði stríðsins hefur geisað í landi ykkar í níu mánuði. Hjá ykkur endurómar himinninn stöðugt af hræðilegum drunum sprenginga og ógnvekjandi sírenuvæli. Sprengjur herja á borgir ykkar, eldflaugaregn veldur dauða, eyðileggingu og sársauka, hungri, þorsta og kulda. Á götum ykkar hafa margir þurft að flýja og yfirgefa heimili sín og ástvini. Blóð og tár streyma við hlið stórfljóta ykkar dag hvern.

Ég vil sameina tár mín ykkar og segja ykkur að það líður ekki sá dagur að ég sé ekki nálægt ykkur og þið eruð í hjarta mínu og bænum. Sársauki ykkar er sársauki minn. Í krossi Jesú í dag sé ég ykkur þjást yfir þeirri skelfingu sem þessi yfirgangur leysti úr læðingi. Já, krossinn sem kvaldi Drottin lifir aftur í þeim ummerkjum pyntinga sem finnast á líkunum, í fjöldagröfunum sem fundist hafa í ýmsum borgum, í þessum og svo mörgum öðrum óhugnanlegum myndum sem sálir okkar skynja, svo að við hrópum: Hvers vegna? Hvernig getur fólk komið svona fram við annað fólk?

Margar hörmulegar frásagnir sem ég hef heyrt koma upp í hugann. Sérstaklega um litlu börnin: Hversu mörg börn hafa verið drepin, slösuð eða urðu munaðarlaus, og tekin frá mæðrum sínum! Ég syrgi með ykkur yfir hverju því barni sem missti líf sitt vegna þessa stríðs, eins og Kira í Odessa, eins og Lisa í Vinnytsia og eins og hundruð annarra barna: Í hverju þeirra beið allt mannkynið ósigur. Nú búa þau í faðmi Guðs, þau sjá kvöl ykkar og biðja um að þessu ljúki. Hvað getum við annað en fundið fyrir sársauka vegna þeirra og allra þeirra sem hafa verið flutt úr landi, stórir sem smáir? Þjáningar úkraínskra mæðra eru ómælanlegar.

Þá hugsa ég til ykkar unga fólksins sem urðuð að grípa til vopna í hugrakkri vörn föðurlands ykkar í stað þess að láta framtíðardrauma ykkar rætast; Ég hugsa um ykkur eiginkonur sem hafið misst eiginmenn ykkar og bítið á jaxlinn og haldið áfram að færa allar þessar fórnir fyrir börnin ykkar í hljóði, með reisn og festu; til ykkar fullorðinna sem eruð að reyna með öllum ráðum að vernda ástvini ykkar; til ykkar aldraðra sem var hent út í myrka stríðsnótt í stað þess að njóta áhyggjulausrar elli; til ykkar kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi og berið miklar byrðar í hjörtum ykkar; til ykkar allra sem eruð særð á sál og líkama. Ég hugsa til ykkar og er ykkur nákominn með ástúð og aðdáun sem standið frammi fyrir svo erfiðum raunum.

Og ég hugsa til ykkar sjálfboðaliða sem vinnið fyrir fólkið á hverjum degi; til ykkar hirða hins heilaga lýðs Guðs, sem hafið dvalið hjá fólkinu, oft í mikilli lífshættu persónulega, til að veita þeim huggun Guðs og samstöðu bræðra ykkar og systra, til að umbreyta sóknum og klaustrum í híbýli á skapandi hátt, þar sem fólki í neyð er boðið

upp á gestrisni, aðstoð og mat. Ég hugsa einnig til flóttafólksins utanlands sem innan sem eru nú langt frá heimilum sínum, sem mörg hver hafa verið eyðilögð; og til stjórnmálaleiðtoganna sem ég bið fyrir: Þeim ber skylda til að stjórna landinu á hörmulegum tímum og taka framsýnar ákvarðanir í þágu friðar og efnahagsþróunar á meðan verið er að eyðileggja mikilvæga innviði í borgum jafnt sem á landsbyggðinni.

Kæru bræður og systur, í öllum þessum hafsjó illsku og þjáningar – níutíu árum eftir hið hræðilega þjóðarmorð sem kallast Holodomor – dáist ég að heilbrigðu kappi ykkar. Þrátt fyrir ómældar hörmungar sem úkraínska þjóðin hefur orðið fyrir, hefur hún aldrei látið hugfallast eða vorkennt sjálfri sér. Heiminum hefur nú vitnast hugrökk og sterk þjóð, fólk sem þjáist og biður, grætur og berst, þraukar og vonar, göfugt fólk og píslarvottar. Ég er nærri ykkur, með hjarta mínu og bæn, með mannúðaraðstoð, svo að þið skynjið samstöðuna með ykkur, svo að stríðið venjist ekki, svo að í dag og sérstaklega á morgun standið þið ekki ein þegar þið freistist kannski til að gleyma þjáningunum.

Á þessum mánuðum, þegar hörð veðrin gera reynslu ykkar enn hörmulegri, vildi ég að stuðningur kirkjunnar, styrkur bænarinnar, kærleikurinn sem svo margir bræður og systur bera til ykkar í öllum heimshlutum, yrði sem ástarhót á andliti ykkar. Jólin koma eftir nokkrar vikur og þjáningarópin verða enn hærri. En ég vil snúa aftur með ykkur til Betlehem, til prófraunarinnar sem fjölskyldan heilaga þurfti að takast á við þá nótt sem virtist aðeins köld og dimm. Í staðinn kom ljósið: Ekki frá mönnum, heldur frá Guði; ekki af jörðu heldur af himni.

Megi Móðir hans og okkar, hin heilaga María mey, vaka yfir ykkur. Hennar flekklausa hjarta, helgaði ég, ásamt biskupum heimsins, kirkjuna og mannkynið, sérstaklega land ykkar og Rússland. Móðurhjarta hennar færi ég þjáningar ykkar og tár. Við skulum ekki þreytast á að biðja hana, sem, eins og mikill sonur lands ykkar skrifaði: „Guð færði í heim okkar“, um hina eftirsóttu friðargjöf í þessari fullvissu: „Guði er enginn hlutur um megn“ (Lk 1:37). Megi hann uppfylla réttlátar væntingar hjartna ykkar, lækna sár ykkar og veita ykkur huggun sína. Ég er með ykkur, ég bið fyrir ykkur og ég bið ykkur að biðja fyrir mér.

Megi Drottinn blessa ykkur og María mey vernda ykkur.

Róm, hl. Jóhannes í Lateran, 24. nóvember 2022

FRANS

Related Posts