Bænavikan fyrir einingu kristinna manna, 17.-25. janúar 2021
„Verið stöðug í elsku minni og þið munuð bera mikinn ávöxt“ (Jh 15.5-9).
Dagskrá bænavikunnar fer fram á youtube rásinni: Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga
Átta daga bænavika fyrir einingu kristninnar var fyrst haldin með formlegum hætti árið 1908. Frá árinu 1968 hefur Heimsráð kirkna (e. World Council of Churches) ásamt Páfaráðinu fyrir einingu kristninnar (e. Pontifical Council for Promoting Christian Unity) staðið að útgáfu sameiginlegs efnis til notkunar í bænavikunni um heim allan. Víða miðast vikan við minningardag játningar Péturs, 18. janúar, og Pálsmessu að vetri, 25. janúar. Á suðurhveli jarðar þar sem gjarna eru sumarfrí í janúar er bænavikan haldin í tengslum við hvítasunnu.
Innan Heimsráðs kirkna eða Alkirkjuráðsins eru 350 kirkjur um víða veröld, alls um hálfur milljarður kristins fólks með fjölbreytilegar hefðir. Rómversk kaþólska kirkjan á ekki aðild að Heimsráðinu en samkirkjulega bænavikan fyrir einingu kristninnar er gott dæmi um samstarf milli þessara stóru hreyfinga. Um 1.2 milljarður manns tilheyrir Rómversk kaþólsku kirkjunni.
Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristninnar hefur verið haldin á Íslandi frá 1980 og voru því 40 ár liðin í janúar 2020.
UM SYSTRASAMFÉLAGIÐ Í GRANDCHAMP
Efni bænavikunnar árið 2021 er byggt á orðum Jesú í Jóhannesarguðspjalli: Verið stöðug í elsku minni og þið munuð bera mikinn ávöxt (Jóh 15.5-9). Það endurspeglar köllun systrasamfélagsins í Grandchamp í Sviss til bænar, sáttargjörðar og einingar kirkjunnar og mannkyns í heild. Systrasamfélagið í Grandchamp varð til á fjórða áratug síðustu aldar þegar hópur kvenna úr reformertu kirkjunni í frönskumælandi Sviss enduruppgötvaði mikilvægi kyrrðar í samfélaginu við Guð. Þær hófu að safnast saman til kyrrðardvalar til að næra trúarlíf sitt innblásnar af dæmi Krists sem iðulega vék burt á óbyggðan stað til að biðjast fyrir í einrúmi (Mark 1.35, Matt 14.23).