Kæru bræður og systur,
Jæja, þá er maður orðinn gamall. Á þessu ári varð ég sextugur, en ég verð að viðurkenna að ég fékk þá miklu gjöf að fá að vera kaþólskur allt mitt líf og fékk köllun til að verða bæði prestur og munkur, og ég fékk þá gjöf að vera næstum öll síðustu 20 árin hér á landi og síðustu átta árin sem biskup. Fyrir hvern og einn dag get ég sagt einfaldlega: Þökk sé Guði!
En ég vil þó nefna eitt sem ég er mjög þakklátur fyrir og það eru þið sjálf. Ég er þakklátur fyrir að geta verið biskup í biskupsdæmi Reykjavíkur og get hitt svo margt ágætt fólk, bæði leikmenn, reglufólk og presta. Ég biðst afsökunar á öllum mistökum mínum og verð að segja að þið voruð mér alltaf mikill stuðningur.
Það var mér alltaf mikilvægt að sjá svo mörg ykkar sem fórna svo miklu til að rækta kaþólska trú hér á landi. Trúin fer áfram og vex meðal þeirra sem hafa fullan ákafa. Við skiljum það vel á Íslandi. Í sögu Íslands getum við fundið mörg dæmi um slíkt. Fyrir þau öll vil ég nefna sem dæmi eina konu sem hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag og framtíð landsins. Margir sem eru að vinna við ferðamennsku geta lifað hér þökk sé henni.
Og ég veit að nú eruð þið öll mjög forvitin að vita hver hún væri. Jæja, ég er að tala um Sigríði Tómasdóttur, einfalda bóndakonu sem dó 1957, en ef hún hefði ekki verið, þá væri Gullfoss ekki til! Ef hún hefði ekki verið svo full ákafa fyrir því, þá væri í stað Gullfoss komin mikil virkjun sem framleiðir rafmagn og enginn gæti séð hvað væri undir fyrirhuguðu lóni. En hún barðist mjög fyrir því að varðveita Gullfoss eins og hann er. Með fé sínu borgaði hún lögfræðingum og setti málið í dóm gegn ríkinu. Við skulum minnast þess að hún kom gangandi til Reykjavíkur til að mótmæla og sýna samfélaginu hve þetta er mikilvægt þema. Og þegar ríkir fjárfestar vildu ekki hlusta a hana, hótaði hún að varpa sér í fossinn og deyja þar, og var tilbúin að gera það. Og sama ríkið sem var í málaferlum við hana viðurkenndi hve framsýn hún var og árið 1979 var minningarsteinn um hana settur við Gullfoss til að sýna öllum sem þar koma að það er henni að þakka að við getum í dag séð Gullfoss í öllu sínu veldi.
Æ, bræður og systur, hve mig langar að vera í starfi mínu að minnsta kosti örlítið eins og hún! Og það er það sem ég óska fyrir mig og ykkur líka. Biðjið fyrir mér að það megi gerast.
Með þakklæti fyrir allt, bróðir ykkar og biskup, David.
8. vígsluafmæli biskups, 31. október 2023
31
okt