Stjórn Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi

 

 

BISKUPINN Í RÓM

Biskupsdæmið Reykjavík tilheyrir Rómversk kaþólsku kirkjunni. Höfuðstjórnandi hennar er biskupinn í Róm Hans heilagleiki Frans páfi. Frans páfi er fæddur 17. desember 1936 í Buenos Aires og skírður Jorge Mario Bergoglio. Jorge Mario Bergoglio var vígður til prests 13. desember 1969, tilnefndur kardínáli 21. Febrúar 2001, kjörinn páfi 13. mars 2013 og settur í embætti biskups í Róm 19. mars 2013.

Veffang: www.vatican.va

 

SENDIHERRA PÁFA Á NORÐURLÖNDUM

Á Norðurlöndum (Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð) er sendiherra páfa, nuntius apostolicus, sem hefur aðsetur í Stokkhólmi. Nú gegnir því embætti Herra Henryk Józef Nowacki erkibiskup. Herra Nowacki er nafnbiskup í Blera. Hann fæddist í Gunzenhausen í Bæjaralandi 11. ágúst 1946 af pólskum foreldrum. Hann hlaut prestvígslu í Tarnow 1970. Hann lærði guðfræði í Lublin og hélt síðar til Rómar.

Veffang: www.nunciature.se

 

REYKJAVÍKURBISKUP

Á biskupsstóli í Reykjavík situr nú Herra Davíð Bartimej Tencer OFMCap. Hann fæddist 18. maí 1963 í Nová Baňa. Hann hlaut prestvígslu 15. júlí 1986 í Banská Bystrica í Slóvakíu fyrir biskupsdæmið Banská Bystrica, var aðstoðarsóknarprestur í Hriňova og síðar aðstoðarprestur í Zvolen. Hann varð stjórnandi prestakallsins í Sklenne Teplice árið 1989 og 1989 í Podkonice.

Hann bað biskup sinn að leysa sig undan embættisskyldum svo að hann gæti gengið í reglu kapúsína og árið 1990 hóf hann reynslutíma sinn. Hann vann fyrstu trúarheit sín árið 1991 í Podkonice. Árið 1992 hóf hann nám í trúarhefðum fransiskana í Antonianum-háskólanum í Róm og lauk því með lísentíatsprófi 1994. Hann vann hátíðlegt lokaheit í Fæðingarkirkju heilags Jóhannesar skírara í Kremmnické Bane – Johanesberg.

Hann varð stjórnandi prestakallsins í Holíč eftir að hann kom heim frá Róm, ráðgjafi nýmunka og félagi í ráðgjafanefnd stjórnanda reglunnar. Árið 1996 var hann fluttur til Raticovvrch í Hriňova þar sem hann var ráðgjafi nýmunka til 2000 og yfirmaður klaustursins til 2003. Hann hóf kennslu um áramótin 2001-2002 og kenndi predikunar- og andlega guðfræði til ársins 2004 í prestaskólanum í Badin. Hann varð forstöðumaður samfélagsins í Žilina 2003 og kenndi andlega guðfræði í Stofnun heilags Tómasar frá Akvínó til 2004

Davíð biskup kom til Íslands árið 2004, var skipaður aðstoðarprestur í Maríusókn í Breiðholti í Reykjavík og hóf um leið íslenskunám. Árið 2007 var hann skipaður sóknarprestur á sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði. Hann er félagi í prestaráði og ráðgjafanefnd Reykjavíkur­biskupsdæmis.

Veffang: www.catholica.is