Ágrip af sögu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi

Þegar landnámsmenn komu frá Noregi til Íslands í lok 9. aldar og settust að í landinu voru líklega fyrir hér írskir einsetumenn sem bjuggu á Suðurlandi. En þeir hurfu brátt af sjónarsviðinu. Á 10. öld komu kristnir trúboðar til landsins frá Noregi og einnig frá Norður-Þýskalandi. Þeir kristnuðu æ fleiri íbúa landsins. Þegar fjölgun kristinna manna var farin að ógna friði og einingu samfélagsins lét Alþingi, sem fundaði hvert sumar á Þingvöllum, málið til sín taka. Loks kvað lögsögumaðurinn upp úrskurð sinn: „En nú þykir mér það ráð, að vér látum og eigi þá ráða er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn“. Því var það að Alþingi samþykkti 24. júní árið 1000 að lögtaka kristni sem almenna trú í landinu öllu með nokkrum tilslökunum gagnvart heiðnum siðvenjum, en hverjum skyldi þó frjálst að blóta á laun. Upp frá því fóru kristin trú og kristnir lífshættir hægt en örugglega að gegnsýra samfélagið.

Alþingi ákvað ennfremur að hafa samband við forsvarsmenn heimskirkjunnar í Róm og biðja þá að taka Ísland og Íslendinga upp í sinn hóp og fá landinu kirkjulega stjórn. Árið 1056 var fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gizurarson, vígður í Dómkirkjunni í Brimum í Þýskalandi. Hann settist að í Skálholti á Suðurlandi. Sonur hans, Gizur Ísleifsson, staðfesti biskupsdæmið og hóf að skipta því í sóknir. Árið 1106 var einnig stofnað biskupsdæmi á Hólum á Norðurlandi. Fram til 1104 tilheyrði Skálholtsbiskupsdæmi kirkjuumdæminu í Brimum-Hamborg. Frá 1104 til 1152 tilheyrði Ísland kirkjuumdæminu í Lundi í Danmörku (nú í Svíþjóð). Árið 1152 voru Skálholt og Hólar gerðir hluti af nýju kirkjuumdæmi í Niðarósi (Þrándheimi) í Noregi. Stofnuð voru nokkur klaustur á Íslandi, bæði af Benediktína- og Ágústínareglu. Þau urðu, ásamt skólunum í Skálholti og á Hólum, miðstöð menntunar og menningarlífs. Um 1200 voru 220 kirkjur og um 290 prestar í Skálholtsbiskupsdæmi einu. (Íbúafjöldi landsins var þá um 80.000). Þökk sé áhrifum munka og presta þróaðist ríkuleg menning, ekki síst í skáldskap. Fornsögurnar og lögin voru skrásett. En munkarnir og aðrir kirkjunnar menn höfðu einnig áhrif í framfaraátt á sviði landbúnaðar og í innra skipulagi þjóðfélagsins.

Mikilvægasti biskup miðalda var Þorlákur Þórhallsson. Hann var biskup í Skálholti 1178-1193. Hann stundaði nám í Frakklandi (París) og Englandi (Lincoln) og varð fyrir áhrifum af endurbótum á heimskirkjunni á tólftu öld. Hann reyndi einnig að bæta siðferði presta og leikmanna og krafðist þess að leikmenn létu eignarrétt sinn yfir kirkjueignum í hendur kirkjunnar. Árangur þessa var þó takmarkaður. Hann var þegar á sínum dögum tignaður sem helgur maður; hann var blessaður fimm árum eftir dauðann (þegar eftirmaður hans lét taka upp bein hans). Árið 1984 lýsti Jóhannes Páll páfi II yfir því að hann væri "verndardýrlingur Íslands". Margir eftirmanna Þorláks héldu uppi merki hans og því fóru áhrif kirkjunnar í landinu vaxandi og urðu sýnileg hvarvetna. Vald páfa var aldrei dregið í efa; kristniréttur hafði verið viðurkenndur frá 14. öld, einnig af almenningi.

Öldum saman var Ísland sjálfstætt ríki og laut lögum sem samþykkt voru á Alþingi. En oft leiddi framkvæmd og viðhald laganna til átaka milli ýmissa hópa í þjóðfélaginu. Alþingi ákvað að gangast Noregskonungi á hönd 1262 til að styrkja framkvæmdavaldið í landinu. Hann ábyrgðist sjálfstæði landsins og rétt þess til að setja sér sín eigin lög. Árið 1397 komst Noregur, og þá einnig Ísland, undir stjórn dönsku krúnunnar. Smám saman dró Danakonungur úr frelsi íslensku þjóðarinnar og Alþingis. Einkum voru settar hömlur á verslunarfrelsi. Á sama tíma urðu hér eldgos, jarðskjálftar, flóð, harðir vetur og slæm sumur. Margir dóu úr hungri. Eina hjálpin kom frá kirkjunni. Áhrif hennar urðu gríðarmikil, kónginum mjög til ama.

Á 16. öld reyndi Danakonungur að ná yfirráðum yfir eignum kirkjunnar. Kristján III (1537-1559) notaði siðaskiptin í þessum tilgangi. Hann kom einnig hér á landi til valda mótmælendaprestum og setti stofnanir kirkjunnar undir þeirra stjórn. Kirkjuskipan hans var samþykkt á Alþingi árið 1541 fyrir Skálholtsbiskupsdæmi en aðeins sakir þess að þá voru viðstaddir menn konungs undir vopnum. Andstöðuna gegn honum skipulagði Jón Arason, biskup á Hólum. Hann neitaði að skipta á krúnunni og páfanum í andlegum málum og lýsti hina nýju kirkjuskipun ólöglega. Hann gerðis forvígismaður hreyfingar til viðhalds íslenskum sérréttindum og sjálfstæðis kirkjunnar. En hann var tekinn höndum og tekinn af lífi án dóms og laga í Skálholti 7. nóvember 1550, - ásamt sonum sínum tveimur. Þó að andófi væri uppi haldið enn um sinn var mótstaðan þó brotin á bak aftur. Konungur fordæmdi morðið á Jóni Arasyni og lofaði að virða eignir kirkjunnar. Hann samþykkti heldur ekki allar nýjungar lúterstrúarmanna. Einkum var litúrgían svo að segja óbreytt út á við. En klaustrin voru eyðilögð, munkar drepnir eða sendir í útlegð; aðeins þeir prestar sem fylgdu hinni nýju kirkjuskipun fengu að halda embættum sínum; skorið var á öll tengsl við Róm. Bannað var að aðhyllast kaþólska trú að viðlögðu lífláti eða útlegð. Innan fárra ára var kirkjan orðin lútersk þó að flestir hinna gömlu kaþólsku siða lifðu enn um langa hríð. Hörmulega bágur fjárhagur flestra manna og þrúgandi vald dönsku stjórnarinnar kæfðu sérhverja tilraun til að öðlast á ný sjálfstæða kirkju og þjóðleg réttindi.

Fyrstu kaþólsku trúboðarnir eftir siðaskipti komu til Íslands árið 1857. Tveimur frönskum prestum, sr. Baudoin og sr. Bernard var heimilað að þjóna frönskum sjómönnum sem voru við fiskveiðar við landið. Þremur árum síðar settust þeir að í Landakoti, þar sem Dómkirkjan stendur í dag. Sr. Bernard dvaldi hér í 15 ár. Á þeim tíma heyrði Ísland undir svokallað ,,Norðurheimskautstrúboð“ (Præfectura Apostolica Poli Arctici) sem stofnað var 1855 og náði yfir nyrstu lönd Evrópu, Asíu og Ameríku. Árið 1869 var Norðurheimskautstrúboðið leyst upp og Ísland lagt undir nýstofnað trúboðsumdæmi (prefektúru) í Danmörku. Trúboðið á Íslandi lá niðri á tímabilinu 1875-1895, en þá voru sendir hingað til lands tveir prestar frá trúboðskirkjunni í Danmörku og ári síðar fjórar Jósefssystur. Árið 1902 byggðu þær Landakotsspítala sem var mikið framfaraskref í heilbrigðismálum á Íslandi. Fljótlega eftir það hófu þær að kenna fáeinum kaþólskum börnum í húsakynnum sínum í Landakoti. Var það upphaf Landakotsskóla.

Árið 1903 komu fyrstu Montfort prestarnir til landsins. Þeir höfðu umsjón með trúboðinu til ársins 1968. Árið 1923 var Ísland gert að sérstöku trúboðsumdæmi (prefektúru), og var séra Marteinn Meulenberg, sem starfað hafði á Íslandi frá 1903, gerður að yfirmanni þess (prefekt). Um sama leyti og Dómkirkja Krists konungs í Landakoti var vígð árið 1929 var trúboðsumdæmið á Íslandi fært á efra stig stjórnsýslunnar og gert að víkaríati. Í því fólst að yfirmaður þess (Meulenberg) fékk fullt biskupsvald, en trúboðið heyrði eftir sem áður undir Stjórnardeild trúboðsmála (Sancta Congregatio de Propaganda Fide) í Páfagarði. Árið 1968 var kaþólska kirkjan á Íslandi og umdæmi hennar skilgreint sem sérstakt og sjálfstætt biskupsdæmi með eigin dómkirkju og biskupi sem laut beint undir páfann í Róm. Á tímabili trúboðskirkjunnar á Íslandi, þ.e. frá 1903-1968, sáu Montfortpresta að mestu leyti um starfsemi hennar með aðstoð Jósefssystra í Reykjavík og Hafnarfirði og Fransiskussystra í Stykkishólmi. Eftir það hafa kaþólskir prestar hér á landi ýmist verið ,,heimsprestar“, þ.e. utan reglu, eða af öðrum prestareglum.

Lengi fram eftir öldinni fjölgaði hægt í kaþólska söfnuðinum á Íslandi. Árið 1960 voru safnaðarmenn um ½ % þjóðarinnar (897), árið 1994 um 1% (2.535) en eru nú um 3% landsmanna (um 11.500), að stærstum hluta innflytjendur frá kaþólskum löndum, einkum Póllandi.

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014