Yfirlýsing Norrænu biskupa ráðstefnunnar um kórónu faraldurinn

Birt 12.03.20 í Fréttir og tilkynningar

Yfirlýsing Norrænu biskupa ráðstefnunnar um kórónu faraldurinn

Kæru trúsystkin,

 

á fáeinum dögum hefur kórónaveiran einnig náð fótfestu í löndum okkar. Borgaraleg yfirvöld hafa fyrirskipað afar róttækar aðgerðir. Við biskupar fylgjum tilmælum og ráðleggingum yfirvalda þeirra ríkja sem heyra undir biskuparáð okkar og við munum gefa út viðeigandi leiðbeiningar, einkum hvað varðar almennt helgihald og aðrar samkomur í biskupsdæmum okkar og breyta þeim og aðlaga ef þörf krefur.

Auk nauðsynlegra varúðarráðstafana sem snerta heilsu manna, vekur kórónafaraldurinn fjölmargar aðrar áhyggjur, svo sem ótta um aldna ættingja og ættingja með undirliggjandi sjúkdóma, óöryggi vegna takmarkana á samskiptum og á viðskiptum sem hafa alvarlegar afleiðingar fyrir daglegt líf fjölda fólks og allt upp í ótta við óstöðugleika í einstökum löndum og í samfélögum heimsins.

Í tengslum við yfirstandandi ástand vakna ef til vill með einhverjum myrkar hugsanir og jafnvel ótti við endalok nútíma samfélags. Þrátt fyrir að staðan sé alvarleg eigum við að leitast við að treysta Guði og forsjá hans. Þetta minnir okkur á að við sem mannverur, höfum ekki stjórn á öllu, getum ekki séð allt fyrir, heldur verðum við að sætta okkur við og reiða okkur á öfl sem eru okkur æðri. Við þurfum að breyta eða aðlaga okkar sjálfsögðu daglegu venjum og mögulega að hætta alveg einhverju sem við erum vön. Næstu vikur, ef til vill jafnvel mánuðir, verða strembið tímabil en það ætti ekki að leiða til vonleysis og örvæntingar.

Núverandi ástand getur einnig haft í för með sér að það þurfi að fella niður messuhald og annað helgihald. Rétt er að árétta að í þessu tilfelli telst það ekki synd að vera fjarverandi í sunnudagsmessu. Engu að síður munu margir trúaðir sakna þess sárt að mega ekki meðtaka hið alhelga altarissakramenti. En það er möguleiki að meðtaka Jesú á andlegan hátt, sem við mælum eindregið með við alla trúaða. Andleg altarisganga þýðir að tjá sannfæringu sína um nærveru Krists í altarissakramentinu og tjá löngun til þess að sameinast honum í bæn.

Við skulum sameina núverandi áskoranir í föstuhaldi okkar. Við skulum reyna að hjálpa þeim sem verða illa úti af völdum kórónafaraldursins og endurnýja traust okkar á Guði með styrkri bæn og leitast við að láta líf okkar mótast af honum.

 

Paderborn, Þýskalandi 12. mars 2020

Fyrir hönd Norrænu biskuparáðstefnunnar

+ Ceszlaw Kozon, formaður

Kaupmannahafnarbiskup

 Drottinn, Jesús Kristur, sendu þinn Heilaga Anda um allan heim, til þeirra sem hafa smitast af kórónaveirunni. Lækna, í gæsku þinni, þá sem eru sjúkir, vernda okkur fyrir smiti, gefðu þeim styrk sem annast sjúka. Hjálpaðu okkur öllum að umbreytast og treysta þér. Amen.

 

Heilög María, hressing sjúkra, bið þú fyrir oss.

Heilagur Jósef, bið þú fyrir oss.

Heilagur Ansgar, bið þú fyrir oss.

Heilaga Birgitta, bið þú fyrir oss.

Heilagur Hinrik, bið þú fyrir oss.

Heilagur Ólafur, bið þú fyrir oss.

Heilagur Þorlákur, bið þú fyrir oss.

Allir norrænu heilögu, biðjið fyrir oss.

Allir englar og dýrlingar Guðs, biðjið fyrir oss.

 

Bæn heilags Padre Píó

við andlega altarisgöngu

 

Jesús minn, ég trúi að þú sért hér í hinu alhelga altarissakramenti. Ég ann þér ofar öllu öðru og sál mín þráir þig. Þar sem ég get ekki tekið á móti þér nú í altarissakramentinu, komdu þess stað, í Anda til mín. Ég umfaðma þig sem værir þú hjá mér og sameinastu mér! Ég dýrka þig af dýpstu lotningu. Leyf þú aldrei að ég skiljist við þig. Amen.