Yfirlýsing Þings evrópsku biskuparáðanna (CCEE)

Birt 15.03.18 í Fréttir og tilkynningar

Yfirlýsing Þings evrópsku biskuparáðanna (CCEE)

varðandi frumvarp um bann við umskurn drengja

Kristnir, gyðingar og múslímar lýsa yfir áhyggjum af frumvarpi um umskurn drengja á Íslandi

Stofnanir kristinna, gyðinga og múslima í Evrópu lýsa yfir áhyggjum af  frumvarpi sem hefur verið lagt fram á Alþingi Íslendinga og bannar umskurn sveinbarna sem er ekki gerð í læknisfræðilegum tilgangi. Ef frumvarpið verður að lögum gætu foreldrar átt á hættu allt að sex ára fangelsisvist ef þeir láta framkvæma umskurn á syni sínum í trúarlegum tilgangi.

Þessi breyting fæli ekki aðeins í sér brot á grundvallarmannréttindum um trúfrelsi, heldur yrði hún einnig talin tákn um að fólk með gyðinglegan eða múslímskan bakgrunn sé ekki lengur velkomið á Íslandi.

Umskurn hefur verið stunduð innan hinna ýmsu trúarsamfélaga í þúsundir ára; Hún er grundvallaratriði í trúarlegri iðkun gyðingdóms, íslams og ýmissa kristinna hefða, svo sem í rétttrúnaðarkirkjunni í Eþíópíu og Erítreu. Umskurn er ekki valfrjáls athöfn, heldur einn meginþáttur fyrrnefndra trúarbragða. Með þessari tilteknu trúarathöfn eru sveinbörn boðin velkomin í trúarsamfélag sitt og á þennan hátt hljóta þau áþreifanlegt tákn um sáttmála Guðs við mannkynið. Fyrir þessi samfélög er það óaðskiljanlegur hluti trúariðkunar þeirra.

„Það er mikilvægt að umskurn sé framkvæmd löglega og á öruggan hátt svo að heilsu barnsins sé ekki stefnt í voða,“ segir Christopher Hill, biskup og forseti þings evrópskra kirkna (CEC), og bætir við: „Við megum ekki gleyma því að þessi athöfn er viðurkennd í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barna til að tilheyra og hljóta fræðslu um trúarlegar hefðir fjölskyldu sinnar.“

Hann vekur einnig athygli á því að umskurn er stöðluð læknisfræðileg aðgerð í nokkrum löndum ― og fylgir fullgildum læknisfræðilegum leiðbeiningum ― sem getur jafnvel verið gagnleg. Það er því ekki hægt að halda því fram að íhlutunin sé óviðunandi brot á líkamlegri mannhelgi einstaklingsins. Þar með er ekki unnt að réttlæta slíka takmörkun á trúfrelsi með hlutlægum rökum.

Angelo Bagnasco, kardínáli og forseti forseti þings evrópskra biskuparáða (CCEE), minnti einnig á að „Kaþólska kirkjan er sérstaklega skuldbundinn til þess að verja réttindi barna, sem fela einnig í sér réttindi og skyldur fjölskyldunnar til þess að uppfræða börn sín samkvæmt eigin trúarlegri sannfæringu. Þetta frumvarp gengur gegn trúfrelsi og meginreglum lýðræðis sem er undirstaða borgaralegs samfélags.“

„Bann við umskurn í tilteknu ríki jafngildir því að sama ríki lýsi opinberlega yfir því að ekkert gyðinglegt samfélag sé framvegis velkomið á yfirráðasvæði þess,“ segir Albert Guigui, leiðtogi Gyðinga í Brüssel og fastafulltrúi á Þingi evrópskra rabbína.

Imam Razawi, leiðtogi „Scottish Ahlul Bayt Society“, segir einnig að „þess háttar bann við að ástunda trúarlegar hefðir muni leiða til þess að múslimum yrði óheimilt að iðka trú sína.“

Trúarlegar stofnanir gyðinga, kristinna og múslíma eru sammála um að bann við umskurn á Íslandi myndi leiða til þess að tveimur heimstrúarbrögðum og áhangendum þeirra yrði úthýst.

Þessi lög gæfu Íslandi þann stimpil að vera haldið andúð á útlendingum í trúarlega og menningarlega fjölbreyttum heimi. Ef þetta frumvarp nær fram að ganga eykur það hættu á að áþekkar hugmyndir komi fram í öðrum löndum Evrópu og víðar.

Í andrúmslofti sívaxandi andgyðinglegra og andíslamískra viðhorfa gæti þetta ýtt undir þess háttar hugmyndir víðar og aukið þrýsting á samfélög sem eiga mörg hver þegar undir högg að sækja.

Samtökin leggja áherslu á að þau vísa hér aðeins til umskurnar karlmanna. Það má ekki rugla þessari trúarlegu hefð saman við grimmilega árás á kynfæri kvenna sem felur í sér árás á líkamlega mannhelgi kvenna og brýtur í bága við grundvallarmannréttindi þeirra og reisn.

Nánari upplýsingar á vef ÞINGS EVRÓPSKRA BISKUPARÁÐA (CCEE)