Séra Edward Booth OP. látinn

Birt 29.08.19 í Fréttir og tilkynningar

Séra Edward Booth OP. látinn

Sr. Edward Booth lést á dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi þann 28.08.2019 sl.

Séra Edward Booth fæddist 16. ágúst 1928 í Evesham, Worchestershire, Englandi. Hann lauk BA-prófi 1952, MA-prófi 1970 og doktorsprófi 1975 frá háskólanum í Cambridge, Englandi.

Hann gekk í reglu Dóminikana þegar árið 1952 og var þvíí henni í ein 66 ár. Hann hlaut prestvígslu árið 1958. Auk almennra preststarfa stundaði séra Edward bæði kennslu og ritstörf af kappi og verður nánar vikið að þeim hér neðar.

Hann fór víða, var m.a. fyrirlesari við Pontifical Beda College 1978-1980 og Pontificial University of St. Thomas í Róm 1980-1988. Út hafa komið tvær bækur eftir séra Edward, Aristotelian Aporetic Ontology in Islamic and Christian Thinkers (1983) og The Saint Augustine and the Western Tradition of Self Knowing: The Saint Augustine Lecture 1986 (1989). Þá hafa fjölmargar greinar og bókadómar eftir hann birst í ýmsum erlendum tímaritum, m.a. í The New Grove Dictionary of Music and Musicians (1980), greinin „Kategorie und Kategorialität, Historisch Systematische Untersuchungen zum Begriff der Kategorialität im philosophischen Denken“ í Festschrift für Klaus Hartmann (1990) og „Gott und sein Bild – Augustins De Trinitate“ í Spiegel der Neueren Forschung (2000). Auk þeirra fræðiskrifa séra Edwards, sem birst hafa í erlendum ritum, skal hér bent á að hann skrifaði einnig greinar um margvísleg efni í tímaritinu Merki krossins á árunum 2005-2009. Þar kemur vel fram hve áhugamál hans voru fjölbreytt.

Um hann má raunar segja að það er leitun á því málefni sem hann hafði ekki áhuga á, eða treysti sér a.m.k. til að segja eitthvað um. Þetta hélst í hendur við yfirgripsmikla þekkingu hans, hvassa heimspekilega hugsun og óþrjótandi elju, sem var lítt á undanhaldi þrátt fyrir háan aldur. Hann skrifaði einnig prédikun fyrir hvern sunnudag þann tíma sem hann var starfandi prestur hér og er þar um mikið safn að ræða.

Sálumessa séra Edwards fór fram í Dómkirkju Krists Konungs í Landakoti, miðvikudaginn 4. september kl. 15:00. Erfidrykkja var í safnaðarheimili Krists kirkju, Hávallagötu 14-16 að sálumessu lokinni.

Hér má sjá myndir úr athöfninni