Ráðstefna Páfagarðs um „Vernd barna innan kirkjunnar“

Birt 25.02.19 í Fréttir og tilkynningar

Ráðstefna Páfagarðs um „Vernd barna innan kirkjunnar“

Ítarlegar aðgerðir kynntar á blaðamannafundi

Um 190 biskupar og yfirmenn innan kaþólsku kirkjunnar frá 130 löndum komu saman í Róm dagana 21.-24. febrúar 2019.

Frans páfi kallaði til ráðstefnunnar eftir að greint var frá kynferðisbrotum presta í kirkjunni víða í heiminum á síðasta ári. Fundinum lauk með fréttatilkynningu frá Páfagarði um áþreifanlegar skuldbindingar og aðgerðir til þess að vernda börn fyrir kyn­ferðis­legu of­beldi.

Það féll í hlut Séra Federico Lombardi SJ, stjórnanda ráðstefnunnar um „Vernd barna innan kirkjunnar“, að tilkynna þrenns konar aðgerðir sem gripið verður til í kjölfar fundarins:

1. Tafarlaus útgáfa verklagsreglna páfa „Motu proprio“, sem hafa það að markmiði að vernda börn og aðra berskjaldaðra einstaklinga í kirkjunni.

2. Dreifing „Vademecum“ (starfsreglna) til biskupa um allan heim, þar sem laga- og embættisskyldur þeirra hvað varðar vernd barna eru tilgreindar.

3. Stofnun aðgerðarhóps, sem samanstendur af sérfræðingum sem hafa það hlutverk að aðstoða biskuparáð sem kann að skorta nauðsynleg úrræði eða sérþekkingu til að takast á við málefni sem varða vernd barna og viðbrögð við ofbeldi.

Einnig kom fram að hér mun ekki verða staðar numið heldur er fundur fyrirhugaður með stjórnanda ráðstefnunnar og yfirmönnum Páfagarðs til þess að ræða eftirfylgni og hugleiða til hvaða aðgerða skuli gripið til í framhaldinu.

Hvað skilur ráðstefnan eftir sig að mati fundargesta?

Aðspurður um hvað ráðstefnan hafi skilið eftir í huga hans, sagði Oswald Gracias, kardínáli og erkibiskup í Bombay, hana „tímabæra, gagnlega og nauðsynlega“. Hann ásamt bræðrum sínum á biskupsstóli öðluðust alhliða skilning og meðvitund um að það að horfast í augu við vandamálið sem felst í ofbeldinu er „forgangsmál kirkjunnar“. Hann lofaði einnig framlag kvenna á ráðstefnunni og benti á mikilvægi „innsýnar og sjónarmiða sem konur hafa fram að færa".

Að mati Charles Scicluna erkibiskups á Möltu var lokaræða páfa og afdráttarleysi hans afar áhrifaríkt, þegar hann skilgreindi bæði ofbeldið sem og þöggun þess sem „forkastanlega glæpi“. „Héðan er engin leið tilbaka“, sagði erkibiskupinn. Hann nefndi einnig að nærvera fórnarlambanna hafi verið afar mikilvægur hluti af viðburðinum. „Við getum ekki hafnað því að hlusta á rödd fórnarlambanna“, bætti hann við. Scicluna erkibiskup lagði áherslu á að „þegar allt kemur til alls er viðhorfsbreyting það mikilvægasta“. Við þurfum hvatningu og þess vegna þurfum við að hlusta á ólíkar raddir – þar á meðal kvenna, sem (í tilfelli þessarar ráðstefnu) báru „með sér ferska vinda“.

Jesúítapresturinn Hans Zollner, er meðlimur í skipulagsnefndinni og forstöðumaður Miðstöðvar barnaverndar í Gregoríanska háskólanum í Páfagarði. Hann talaði um að „gagnger hugarfarsbreyting hafi átt sér stað og sú þróun mun halda áfram“. Viðhorf hafa breyst, sagði hann, og menn hafa tekið stakkaskiptum: Þeir eru staðráðnir í að „halda aftur heim og gera eitthvað í málunum.“

Nú, lauk séra Zollner máli sínu á, „verðum við að einbeita okkur að því sem við höfum fengist við hér“ á þessum fundi í Páfagarði og ráðast á „rætur vandans innan kerfisins“. Málefni þessa fundar endurspegla bæði vandamálið og lausnina: Ábyrgð, reikningsskil og gagnsæi.

 

Úr ávarpi hans heilagleika Frans páfa, sunnudaginn 24. febrúar 2019

Reglur um viðbrögð við ofbeldi

1. Vernd barna. Megintilgangur allra ráðstafana er að vernda börn og koma í veg fyrir að þau verði fórnarlömb hvers kyns sálræns og líkamlegs ofbeldis. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að breyta hugarfarinu og berjast gegn varnarviðbrögðum sem hafa þann tilgang að vernda stofnunina og leitast við, af öllu hjarta og af ákveðni, að efla velferð samfélagsins með því að veita fórnarlömbum misnotkunar forgang í hvívetna. Við verðum að sjá fyrir okkar andlit barnanna, full sakleysis, og minnast orða frelsarans: „En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls. Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur“ (Mt. 18:6-7).

2. Óumdeilanlegur alvarleiki. Hér ítreka ég að „kirkjan mun ekki hlífa sér við neinum ráðstöfunum sem eru nauðsynlegar til þess að koma lögum yfir hvern þann sem hefur framið slíka glæpi. Kirkjan mun aldrei leitast við að þagga niður eða leiða hjá sér þess konar mál“ (Ávarp til kúríunnar í Róm, 21. desember 2018). Hún er sannfærð um að „syndir og glæpir vígðra manna afhjúpa ennfremur vantrú og skömm; Þeir vanhelga kirkjuna og grafa undan trúverðugleika hennar. Kirkjan sjálf, ásamt trúföstum börnum sínum, er einnig fórnarlamb þessara gjörða sem einkennast af vantrú og „sjálftöku“ (Sama heimild).

3. Ósvikinn hreinsun. Þrátt fyrir ráðstafanir sem þegar hefur verið gripið til og árangur aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun, er þörf á stöðugt endurnýjaðri skuldbindingu um heilagleika presta, sem er í samræmi við Krist, hinn góða hirði, og er réttur þjóðar Guðs. Þannig staðfestir kirkjan „eindregna ákvörðun sína um að halda sleitulaust áfram á braut hreinsunar og leita svara við því hvernig best sé að vernda börn, hvernig megi forðast viðlíka hörmungar, að veita fórnarlömbunum líkn og endurhæfingu og að bæta fræðslu sem veitt er í prestaskólum... Allt kapp verður lagt á að undangengin mistök verði til þess að útrýma þessum ófögnuði, ekki aðeins úr líkama kirkjunnar heldur einnig úr samfélaginu“ (Sama heimild). Heilagur ótti við Guð hefur í för með sér að við göngumst við eigin sök – sem einstaklingar og sem stofnun – og að við bætum fyrir mistök okkar. Að gangast við eigin sök er grundvöllur viskunnar og er bundinn heilögum ótta við Guð: Að læra að viðurkenna eigin sök, sem einstaklingar, sem stofnanir, sem samfélag. Því að við megum ekki falla í þá gildru að  kenna öðrum um, því það er skref í átt að „fjarvistarsönnun“ sem aðskilur okkur frá því sem átti sér raunverulega stað.

4. Menntun og fræðsla. Hér er með öðrum orðum krafist viðmiða sem skal hafa að leiðarljósi við val á umsækjendum um prestnám og í uppfræðslu prestnema, sem einblína ekki aðeins á neikvæða þætti, heldur hafa umfram allt þann tilgang að útiloka einstaklinga sem eiga við vanda að etja. Ennfremur að stuðla að jákvæðri sýn og veita hæfum umsækjendum velígrundaða fræðslu sem stuðlar að heilagleika og ástundun dyggðar skírlífis. Heilagur Páll VI skrifaði í páfabréfi sínu, Sacerdotalis Caelibatus, að „skírlífi sem prestur ástundar nær til allra eðlisþátta hans. Það útilokar alla þá sem hafa ekki líkamlega, andlega og siðferðilega burði til þess. Né skyldi enginn ætla að náð Guðs geti bætt upp galla náttúrunnar sem slíkur maður hefur í fari sínu“ (nr. 64).

5. Staðfesting og endurskoðun verklagsreglna frá biskuparáðum. Með öðrum orðum, að staðfesta nauðsyn þess að biskupar sameinist um ráðstafanir sem eru gefnar út sem reglur sem fara skal eftir en eru ekki aðeins leiðbeinandi tilmæli. Reglur, ekki eingöngu tilmæli. Ekkert ofbeldi skal nokkru sinni verða þaggað niður (eins og algengt var fram að þessu) eða ekki tekið nægilega alvarlega, því að þöggun ofbeldis hefur í för með sér að hið illa dreifir sér og eykur enn á óhæfuna. Einkum og sér í lagi skal þróa nýjar og árangursríkar forvarnir í öllum stofnunum og á öllum sviðum kirkjunnar.

6. Stuðningur við fórnarlömb ofbeldis. Hið illa sem þau hafa þurft að þola skilur eftir sig óafmáanleg sár sem kunna að birtast í vanlíðan og í tilhneigingu til sjálfsskaða. Þar af leiðandi ber kirkjunni skylda til að veita þeim alla þá aðstoð sem þau þarfnast með því að leita aðstoðar sérfræðinga á þessu sviði. Að hlusta, leyfið mér að orða það svo: „að taka sér tíma“ í að hlusta. Það að hlusta læknar hinn þjáða og læknar okkur sjálf af sjálfselsku okkar, fjarlægð og skorti á umhyggju, eins og sjá má af viðhorfi prestsins og Levítans í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann.

7. Hin stafræna veröld. Vernd barna gegn ofbeldi verður að taka mið af nýjum tegundum kynferðislegs ofbeldis og misnotkunar af öllu tagi sem ógnar börnunum í þeim aðstæðum sem þau búa við og í gegnum nýja tækni sem þau nota. Prestnemar, prestar, reglubræður og reglusystur, starfsmenn kirkjunnar, það er að segja allir sem einn, eiga að vera meðvitaðir um að hin stafræna veröld og notkun hinna ýmsu tækja hafa oft dýpri áhrif en við höldum. Það er nauðsynlegt að hvetja ríki og yfirvöld til að beita öllum nauðsynlegum ráðstöfunum til að stemma stigu við vefsíðum sem ógna mannlegri reisn, virðingu kvenna og einkum barna. Bræður og systur: Glæpur á ekki heimtingu á frelsi. Það er brýnt að berjast gegn þessum ófögnuði af fullum krafti, að vera vakandi og leggja sitt af mörkum til að verja ungt fólk fyrir  óheftum aðgangi að klámfengu efni, sem mun skilja eftir djúp ör í hugum þeirra og hjörtum. Við, þá einkum fræðimenn og prestar, verðum að tryggja að ungum mönnum og konum sé ekki haldið föngnum af fíkn sem byggist á hagnýtingu og glæpsamlegri misnotkun saklausra og ljósmynda af þeim og fyrirlitningu í garð kvenna og smánun einstaklingins. Í því sambandi ber að nefna nýjar reglur um graviora delicta (svívirðileg brot) sem Benedikt XVI páfi samþykkti árið 2010, þar sem ný tegund af glæpsamlegu athæfi er talið með: „Kaup, yfirráð eða dreifing presta á klámfengnum myndum af ólögráða einstaklingum ... með hvaða hætti sem er og með hvaða tækni sem er“. Textinn fjallar um börn „undir fjórtán ára aldri“. Við erum þeirrar skoðunar að aldurstakmarkið skuli hækkað í því skyni að auka vernd hinna ólögráða og leggja áherslu á alvarleika þessara brota.

8. Kynlífstengd ferðaþjónusta. Breytni okkar og  hvernig við lítum á aðra, er kjarninn í fari lærisveina Jesú og þjóna hans. Þeim ber ætíð að sjá ímynd Guðs í sérhverjum einstaklingi, og byrja á því að líta til þeirra sem eru varnarlausastir. Eingöngu með því að byggja á þessari róttæku sýn á virðingu fyrir reisn annarra, getum við varið aðra fyrir alltumlykjandi valdi ofbeldis, hagnýtingar, misnotkunar og spillingar og stutt þá á trúverðugan hátt á leið þeirra til andlegs og einstaklingsbundins þroska í samfélagi við aðra menn og við Guð. Baráttan gegn kynlífstengdri ferðaþjónustu krefst þess að hún sé dæmd ólögleg en einnig að fórnarlömb þessa glæpsamlega fyrirbæris fái stuðning og hjálp við að stíga aftur inn í samfélagið. Stofnanir kirkjunnar er kallaðar til þess að efla starf presta í þágu fórnarlamba kynlífstengdrar ferðaþjónustu. Meðal þeirra sem eru viðkvæmastir og þarfnast sérstakrar hjálpar, eru vissulega konur, minnimáttar og börn. Hin síðasttöldu þurfa þó sérstaka vernd og athygli. Ríkisstjórnir ættu að gera þetta forgangsatriði og bregðast skjótt við og berjast gegn mansali og efnahagslegri misnotkun barna. Í þessu skyni er mikilvægt að samræma aðgerðir á öllum stigum samfélagsins og vinna náið með alþjóðastofnunum til að setja lagalegan ramma sem verndar börn fyrir kynferðislegri misnotkun í tengslum við ferðaþjónustu og að tryggja að réttað verði yfir hinum seku.

Frekari upplýsingar og fréttir af ráðstefnunni er að finna á fréttaveitu Páfagarðs:  Vatican News