Pílagrímsferð til Rómar

Birt 08.11.18 í Fréttir og tilkynningar

Pílagrímsferð til Rómar

í október 2018.

Systir Porta Coeli skrifar:

Pílagrímsferðin okkar hófst snemma að morgni mánudagsins 15. október 2018. Við áttum dásamlega viðdvöl í Amsterdam þar sem við sóttum messu í fallegri kirkju og fórum í bátsferð um skurði borgarinnar. Við komum svo til borgarinnar eilífu seint á mánudagskvöldið.

Á þriðjudagsmorgni hófst pílagrímsferðin okkar, fyrst með heilagri messu í Basilíku Maríu meyjar hinni meiri. Eftir hádegisverðinn heimsóttum við kirkju hl. Jóhannesar í Lateran, hinn heilaga kross og heilögu tröppurnar.

Á miðvikudaginn vöknuðum við mjög snemma til þess að fara í biðröðina til að taka þátt í trúfræðslu miðvikudagsins hjá hinum heilaga föður í Péturskirkjunni. Við vorum svo nálægt Frans, páfa – rétt hjá sviðinu! Við sáum að Davíð biskup okkar heilsaði hinum heilaga föður og biskupinn benti á hópinn okkar. Hinn heilagi faðir leit yfir til okkar og við létum til okkar heyra svo að hann vissi að við höfðum komið til að sjá hann. Eftir fræðsluna kom Drottinn okkur mjög á óvart! Í tilefni af 50 ára afmæli stofnunar Reykjavíkurbiskupsdæmis gátum við heilsað og tekið mynd með hinum  heilaga föður!

Fimmtudaginn 18. október héldum við hátíðlegan 50 ára afmælisdag biskupsdæmisins okkar.  Af því tilefni höfðum við tekið frá kapellu Péturs postula fyrir morgunmessu. Þar voru viðstaddir Pétur biskup og Davíð biskup, svo að athöfnin varð enn hátíðlegri. Eftir messuna gafst tækifæri til að skoða Vatíkansafnið sem geymir alla menningarfjársjóði okkar.

Á föstudag og laugardag heimsóttum við mikilvægar kirkjur og dýrlinga og gripum tækifærið og báðum fyrir biskupsdæmi okkar.

Síðasta messan okkar í Róm var í Kirkju hl. Páls utan múra þar sem gröf hans er að finna. Fyrir árnaðarbænir allra heilagra og í hverri messu báðum við fyrir biskupsdæminu, ávöxtum pílagrímsferðarinnar og fyrir öllum sem báðu okkur að biðja fyrir sér.

Við þökkum fyrir alla þá náð sem okkur hlotnaðist og felum okkur bænum ykkar, svo að við getum borið vitni um þau stórvirki Drottins sem okkur auðnaðist að verða vitni að í borginni eilífu.

Systir Porta Coeli.