Nýr sendiherra páfa á Norðurlöndum

Birt 07.04.17 í Fréttir og tilkynningar

Nýr sendiherra páfa á Norðurlöndum

Fimmtudaginn, 6. apríl 2017 skipaði Frans páfi James Patrick Green erkibiskup

nafnbiskup af Altinum, nýjan sendiherra páfa í Svíþjóð og á Íslandi. Gert er ráð fyrir að hann verði skipaður sendiherra páfa á hinum Norðurlöndunum innan tíðar. Green erkibiskup fæddist þann 30. maí 1950 í Fíladelfíu í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum. Hann lærði til prests og tók prestvígslu í erkibiskupsdæminu í Fíladelfíu þann 15. maí 1976. Á fyrstu árunum sem hann vann fyrir utanríkisþjónustu Páfagarðs starfaði hann í Papúa Nýju-Gíneu, Kóreu, Hollandi, Spáni og á skrifstofu sendiherra páfa á Norðurlöndum (í Kaupmannahöfn). Hann dvaldi síðan eitt ár í Taívan sem staðgengill sendiherra áður en hann var fluttur til Rómar í lok ársins 2002.

Ferill James Patrick Green í biskupsembætti:

Benedikt XVI páfi skipaði Green nafnbiskup af Altinum þann 17. ágúst 2006 og sama dag var hann skipaður sendiherra páfa í Suður-Afríku og Namibíu og fulltrúi páfa í Botswana. Hann var vígður biskup þann 6. september 2006 af utanríkisráðherra Páfagarðs, Angelo Sodano kardínála. Sama dag var hann skipaður fulltrúi páfa í Lesotho. Þann 23. september 2006 var hann skipaður fulltrúi páfa í Svasíland. Þann 15. október 2011 var Green erkibiskup skipaður sendiherra páfa í Perú.