Hirðisbréf Davíðs biskups

Birt 11.05.17 í Fréttir og tilkynningar

Hirðisbréf Davíðs biskups

frá sunnudeginum 7. maí 2017

Kæru bræður og systur,

 

Í dag er sunnudagur Góða Hirðisins. Þetta er í 54. sinn sem páfi hefur hvatt okkur til að biðja í öllum kaþólskum kirkjum fyrir nýjum köllunum til prestsdóms. Við sjáum að það er mikil þörf á nýjum prestum til starfa, einnig hér á landi, þar sem að einungis einn íslenskur prestur starfar á Íslandi í dag, einn í biskupsdæmi Liverpool og einn prestnemi er í Ágústínusarreglu. Því er ljóst að þörfin er brýn.

Þá gæti einhver spurt: „Við þurfum fleiri presta en eru ennþá til ungir menn sem vilja gerast prestar?“ Svarið er: „Jú, svo sannarlega!“ Ég get fullyrt það vegna reynslu minnar nýverið. Í janúar var ég á ferð í Póllandi að leita stuðnings við biskupsdæmi okkar. Biskupar í Póllandi, sem ég heimsótti, kvörtuðu yfir því að fáir vilji gerast prestar og prestnemum fer fækkandi. Í þessari sömu ferð dvaldi ég í Kapúsínaklaustri og ræddi þar við próvinsíalinn í Varsjá. Hann hafði sömu sögu að segja. En því næst hitti ég bróður Mikael. Hann var ekki sama sinnis. Hans skoðun var sú að ef við óskum eftir því að fá fleiri menn til að starfa sem presta á landinu, nægir ekki eingöngu að biðja heldur þurfum við að gera fleira. Hann lét ekki sitja við orðin tóm heldur gerði hann mér strax tilboð og sagði: „Ég er flinkur að gera stutt myndbönd. Eigum við að búa til eitt saman?“ Ég ákvað að þiggja boðið, þar sem ég hafði engu að tapa. Sama kvöld gerðum við fimm mínútna langt myndband. Í því sagði ég frá biskupsdæmi okkar og kynnti þá sem starfa hér og gaf ýmsar tölulegar upplýsingar. Síðan lauk bróðir Mikael við myndbandið og setti það á Facebook klukkan tíu sama kvöld. Hvað gerðist þá? Á einum sólarhring höfðu yfir tuttugu þúsund manns skoðað það. Sjö prestar og þrír djáknar sendu skilaboð og buðust til þess að koma til starfa á Íslandi að fengnu leyfi yfirmanns síns. Fleiri en þrjátíu ungir menn svöruðu kallinu og sögðu: „Við viljum gerast prestnemar fyrir biskupsdæmi ykkar“ og þúsundir manna „like-uðu“ eða skrifuðu að þeir væru tilbúnir til þess að styðja okkur á ýmsa vegu. Hugsa ennþá einhverjir að það séu ekki til ungir menn með opið hjarta, tilbúnir til þess að helga líf sitt þjónustu við Guð? En þá er samt skiljanlegt að einhver spyrji: „Hvers vegna búa engir svona menn á Íslandi? – Við höfum beðið fyrir því í langan tíma, Davíð, er það ekki?“

Svarið við því er það sama og bróðir Mikael gaf mér þetta kvöld í Varsjá: „Að biðja dugar ekki eitt og sér því að það er nauðsynlegt að gera eitthvað áþreifanlegt.“ Það myndi duga skammt ef fjárhirðir gerði ekki annað en að biðja fyrir hjörð sinni. Hans hlutverk er að leiða hjörðina í góðan haga, að verja hana fyrir árásum og berjast við úlfa, ljón og birni og drepa rándýrin. Og ef ekki verður hjá því komist, þarf hirðirinn að fórna lífi sínu fyrir hjörðina. 

Þá gætuð þið spurt: „Hvað eigum við þá að gera?“ Mitt svar er: Jú, við þurfum að biðja en það þarf einnig að gera fleira. Hér eru nokkrar tillögur: 1. Til dæmis gætuð þið tekið að ykkur prest, reglubróður eða reglusystur. Það þýðir að þið styðjið og hvetjið viðkomandi. 2. Á þessu ári er útlit fyrir að allt að sex prestnemar byrji að læra fyrir biskupsdæmið okkar, í Póllandi og Slóvakíu. Þá gefst tækifæri til þess að að taka vel á móti þeim, að biðja fyrir þeim, að sýna þeim alúð og að styðja við biskupsdæmi okkar með framlögum til þess að greiða skólavist og framfærslu þeirra. 3. Einnig getið þið þjónað kirkjunni með því að taka að ykkur starf fyrir hana, til dæmis með því að syngja í kirkjukórnum, með því að aðstoða prest, annast blómaskreytingar, lesa í messu o.s.frv., eða 4. með því að gerast prestur eða nunna eða taka við öðru embætti innan kirkjunnar.  

Jæja, kæru bræður og systur, nú vitum við hvað við getum gert: Að biðja? Já! En við ættum líka að láta verkin tala. María, móðir allrar köllunar, hjálpaðu oss að finna og rækja köllun okkar. Amen.

Með blessun

+Davíð biskup

 

(Ljósmynd: heyiceland.is)