Helgir dómar heilagrar Teresu frá Lisieux

Birt 24.10.17 í Fréttir og tilkynningar

Helgir dómar heilagrar Teresu frá Lisieux

og foreldra hennar til Norðurlanda 2018

Í október 2018 munu helgir dómar hl. Teresu frá Lisieux og foreldra hennar ― Zélie og Louis Martin ― koma til Norðurlanda.

Af þessu tilefni hittist undirbúningsnefnd til þess að ræða fyrstu skref framkvæmdarinnar. Á vorfundi Biskuparáðs Norðurlandanna, sem var haldin í Hamborg fyrr á þessu ári, var ákveðið að helgir dómar hinna þriggja heilögu: Teresu, Zélie og Louis Martin, yrðu færðir til allra landa og biskupsdæma sem heyra undir Biskuparáð Norðurlanda, svo þeir megi standa frammi við tilbeiðslu. Þetta verkefni mætti mikilli velvild í Lisieux, sem þýðir að þá munu helgir dómar fara yfir norðurheimskautsbauginn í fyrsta sinn.

Um síðustu helgi hittust skipuleggjendur frá Norðurlöndunum í fyrsta skipti til þess að undirbúa þetta verkefni. Helstu áskoranir eru miklar vegalengdir og afskekktir staðir.

Samkvæmt núverandi áætlun mun verða tekið á móti hinum helgu dómum í Stokkhólmi þann 28. september 2018. Þaðan liggur leiðin 6. eða 7. október til Noregs, þann 19. október til Danmerkur, þann 24. október til Finnlands og þann 3. nóvember til Íslands. Þaðan verða gripirnir fluttir aftur til Lisieux þann 5. nóvember 2018.

Heilög Teresa frá Lisieux fæddist 2. janúar 1873 í Alençon í Frakklandi. Hún var yngst níu barna Zélie og Louis Martin. Þegar hún var 15 ára sóttist hún eftir að ganga í Karmelregluna. Umsóknum hennar var hafnað oftar en einu sinni meðal annars vegna þess hversu ung hún var. Þegar hún fékk loks inngöngu valdi hún trúarlega nafnið „Thérèse de l'enfant Jesus“ (Teresa barn Jesú). Hún lifði samkvæmt hugmyndinni um „barn Guðs“ á þann hátt að það heillaði marga jafnvel eftir dauða hennar.

Ævisögu sína „Saga sálar“ skrifaði hún að beiðni príorinnu sinnar. Hún var gefin út tveimur árum eftir dauða hennar. Teresa dó þann 30. september, 1897, aðeins tuttugu og fjögurra ára að aldri. Síðustu orð sem hún mælti voru: „Guð minn, ég elska þig.“

Þegar árið 1923 var Teresa frá Lisieux tekin í tölu blessaðra og árið 1925 var hún tekin í tölu heilagra. Píus XI páfi lýsti hana sem verndara heimstrúboðsins þann 14. desember 1927. Þann 19. október 1997 útnefndi Jóhannes Páll páfi II hana einn kennimanna kirkjunnar.

Árið 2015 voru foreldrar hennar Zélie og Louis Martin einnig tekin í tölu heilagra.