Heimsókn Frans páfi til Afríku 4.-10.09. 2019

Birt 09.09.19 í Fréttir og tilkynningar

Heimsókn Frans páfi til Afríku 4.-10.09. 2019

Nú líður að lokum ferðar Frans páfa til  Mósambík, Madagaskar og Máritíus.

Þann 4. september hélt páfi með föruneyti sínu og blaðamönnum til Maputo, höfuðborgar Afríkuríkisins Mósambík. Þetta er fjórða heimsókn páfa til Afríku, þar af önnur til landa sunnan Sahara.  Ferðin er táknræn fyrir áhersluna sem hinn heilagi faðir hefur lagt á að hlúa að þeim sem lifa á jaðrinum og við fátækt.

            Yfirskrift heimsóknarinnar til Mósambík er: „Von, friður og sættir.“ Í Madagaskar er litið á páfa sem „sáðmann friðar og vonar“ og Máritíus tekur á móti Frans sem „boðbera friðar.“

            Ferðin er farin í boði Kaþólsku kirknanna og ríkisstjórna hinna þriggja landa. Í heimsókninni hefur páfi messað, átt samræður við bæði stjórnmálamenn og trúarleiðtoga og hitt ungt fólk.

            Nú þegar páfi heimsótti Mósambík er landið enn að jafna sig eftir hrikalegar afleiðingar fellibylja sem dundu á landinu á fyrri helmingi ársins og ollu gríðarlegu eigna- og manntjóni. Páfi færði þjóðinni samúðarkveðjur og huggunarorð, einkum þeim sem misstu ástvini og eignir af völdum óveðursins.

            Einnig hafa margir þjáðst vegna langvarandi borgarastyrjaldar sem hófst í kjölfar sjálfstæðis landsins frá Portúgal árið 1975. Nýlega var friðarsamningur á milli stríðandi aðila undirritaður og horfur á varanlegum frið nokkuð bjartar. Páfi hvatti aðila til dáða í áframhaldandi friðarferli.

            Að lokinni heimsókn í Mósambík hélt páfi til Madagaskar, eyjunnar sem er þekkt  fyrir vanilluframleiðslu og er staðsett við suðausturströnd Afríku.

Madagaskar öðlaðist sjálfstæði frá Frakklandi árið 1960 en íbúar þess eru þreyttir á langvarandi pólitískum óstöðugleika og umdeildum kosningum sem hafa oftar en ekki haft alvarleg átök í för með sér.

            Landið er ríkt af náttúruauðlindum og státar af blómlegri ferðaþjónustu. Jafnframt er það eitt af fátækustu ríkjum heims.

            Kaþólskir í Madagaskar eru þekktir fyrir mikla tryggð við kirkjuna. Frans páfi hitti þúsundir ungmenna á fundi sem gengur undir heitinu „Litli World Youth Day.“ Daginn eftir söng páfi messu fyrir 800 þúsund manns á sama stað.

            Í dag, 9. september flýgur, páfi til Port Louis, höfuðborgar lýðveldisins Máritíus. Máritíus er einnig eyja undan suðausturströnd Afríku. Þar búa 1,3 milljónir manna. Hindúar eru 49% íbúa, kaþólskir 28% og 17,5% játa íslamstrú.

            Eins og gefur að skilja koma upp deilur á milli hinna ólíku þjóðar- og trúarhópa sem í einhverjum tilvikum má rekja langt aftur. Hins vegar hefur samráðsvettvangur átján mismunandi trúarbragða verið stofnaður með það fyrir augum að hlúa að gagnkvæmum skilningi og efla samstarf milli hinna ólíku trúarhópa.

            Páfi heimsækir Máritíus í boði biskupsdæmisins í Port Louis og ríkisstjórnar landsins. Stjórnvöld hvetja almenning til þess að fagna Frans páfa, rétt eins og  Jóhannesi Páli II þegar hann heimsótti Máritíus árið 1989.

            Við það má bæta að ferðaþjónustan hefur séð sér leik á borði og hefur látið birta auglýsingar: „Forðið ykkur til Máritíus í heimsókn Frans páfa!“

Eflaust hlakkar Frans páfa til að sjá alla sem „forða“ sér til Port Louis í dag.