Aðalfundi Norræna biskuparáðsins sem var haldinn í klaustrinu Einsiedeln í Sviss er lokið

Birt 11.09.19 í Fréttir og tilkynningar

Aðalfundi Norræna biskuparáðsins sem var haldinn í klaustrinu Einsiedeln í Sviss er lokið

Í gær, þriðjudag 10. september 2019, lauk aðalfundi Norræna biskuparáðsins í Einsiedeln. Biskupar Skandinavíu, Finnlands og Íslands dvöldu í Benediktína-klaustrinu í fjóra daga í boði Svissneska biskuparáðsins og fyrir atbeina Péturs Bürcher biskups, postullegs stjórnanda Chur og biskup emeritus í Reykjavíkurbiskupsdæmi.

Formaður Norræna biskuparáðsins kjörinn

Czeslaw Kozon Kaupmannahafnarbiskup var endurkjörinn formaður Norræna biskuparáðsins til næstu fjögurra ára, auk Anders Arborelíusar kardínála í embætti varaformanns. Annar meðlimur í fastanefndinni er Reykjavíkurbiskup, David B. Tencer OFMCap. Systir Anna Mirijam Kaschner, sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra í 10 ár, var endurkjörin til fjögurra ára í viðbót.

Hirðisbréf fyrir október 2019, sem er sérlegur trúboðsmánuður

Trúboð skiptir miklu máli á Norðurlöndunum. Í tilefni af hinum sérlega trúboðsmánuði, október 2019, sem Frans páfi boðaði til, höfða biskupar því til hinna trúuðu: Á Norðurlöndunum líta meðlimir kirkjunnar gjarnan á málefni hennar út frá sjónarhóli minnihlutahóps. Þetta leiðir oft til þess að megináherslan er á að einblína á það sem hefur áunnist. Einnig forðast menn gjarnan hugtök eins og „trúboð“ til þess að virðast ekki vera yfir aðra hafna. Biskuparnir kalla hins vegar eftir endurnýjuðum viðhorfum gagnvart trúboði kirkjunnar sem varðar alla trúaða menn: „Þeir höfða í því samhengi ekki aðeins til presta og trúboða í klassískum skilningi orðsins, heldur einnig til allra sem hlotið hafa skírn og verið fermdir til þess að taka þátt og bera ábyrgð á erindi kirkjunnar. Þetta gerist bæði með því að vinna að áþreifanlegum verkefnum í boðun fagnaðarerindisins en umfram allt með því að bera trúverðugt vitni um sannfæringu sína í daglegu lífi.“

Skipst á skoðunum við biskuparáðin í Sviss og Þýskalandi

Séra Hans Langendörfer, ritari Þýsku biskuparáðstefnunnar, upplýsti félaga í Norræna biskuparáðinu um bakgrunn „sýnódal“-nálgunarinnar í Þýskalandi. Einnig var haldinn fundur með fulltrúum Svissnesku biskuparáðstefnunnar með það fyrir augum að skiptast á skoðunum um aðstæður og áskoranir kirkjunnar í viðkomandi löndum.

 ***

Norræna biskuparáðstefnan (Conferentia Episcopals Scandiae) er samráðsvettvangur Kaþólsku biskupanna á Norðurlöndunum (Svíþjóð, Danmörk, Noregur, Finnland, Ísland).

Sem stendur er biskuparáðstefnan skipuð sjö meðlimum, sem saman standa fyrir hin sjö kaþólsku biskupsdæmi og kirkjuumdæmi (prelatúrur) á Norðurlöndunum.

Aðalskrifstofan í Kaupmannahöfn annast samskipti á milli biskupsdæmanna á milli þinga og samhæfir störf biskupsráðstefnunnar. Síðan 2009 hefur systir Anna Mirijam Kaschner gegnt stöðu framkvæmdastjóra.

Í biskupsdæmunum og prelatúrunum er Kaþólska kirkjan öflugur minnihlutahópur. Hér búa um 350.000 kaþólikkar, en þeim fjölgar stöðugt vegna innflytjenda frá kaþólskum löndum. Hlutfall kaþólskra af heildarfjölda íbúa er á bilinu 0,3% til 4%.