Fundur Norræna biskuparáðsins í Hamborg

Birt 10.04.17 í Fréttir og tilkynningar

Fundur Norræna biskuparáðsins í Hamborg

Fréttatilkynning

Hamborg, 7. apríl 2017.

Aðalfundi Norræna biskuparáðsins lauk í dag í Hansaborginni Hamborg. Viðfangsefni ráðsins á fjögurra daga fundi sinum var hvatningarit páfa, „Amoris Laetitia“, viðmiðunarreglur fyrir menntun presta, og skipulagning pílagrímsferða fólks frá Norður­löndum til helgra dóma Teresu frá Lisieux og foreldra hennar. Einn meginatburðurinn var hátíðleg messa í Dómkirkju hl. Maríu meyjar með Stefan Hesse erkibiskupi og Franz-Josef Bode biskupi, í tilefni af 50 ára afmæli Ansgarwerk í Osnabrück-Hamborg.

Athugun á „Amoris Laetitia“

Biskuparnir komu saman til sérstaks fundar til að kynna sér betur rit páfa, „Amoris Laetitia“, og hvernig það snýr við prestþjónustunni. Tveir sérfræðingar, dr. Eberhard Schockenhoff frá Freiburg og dr. Andreas Wollbold frá München, skýrðu þau siðferðis- og guðfræðileg álitamál og þau guðfræðilegu atriði varðandi prestþjónustuna, sem koma fram í riti páfa.

Helgir dómar hl. Teresu frá Lisieux á Norðurlöndum

Helgidómaskrín hl. Teresu frá Lisieux og foreldra hennar – þeirra Zelie og Louis Martin – mun í október 2018 fara um öll Norðurlöndin og verður þar stillt upp svo að fólkið geti vottað þeim virðingu sína. Trúarlegar hugmyndir Karmelreglunnar njóta mikils fylgis á Norður­löndum og í öllum fimm löndunum starfa reglu- og leikmannasamfélög á grundvelli hennar.

Ansgarwerk fagnar 50 ára afmæli sínu

Biskupsdæmi Norðurlandanna eru nátengd Ansgarwerk í Osnabrück-Hamburg, en þ. 6. apríl fagnaði stofnunin 50 ára afmæli sínu. Af því tilefni var haldin hátíðleg messa með biskupunum í Dómkirkju heilagrar Maríu í Hamborg með virkri þátttöku almennings. Í prédikun sinni minnti Bode biskup á, með vísun til einkunnarorða samræðna biskupanna um málefni prestanna í biskupsdæmunum, að ástandið í hinum dreifðu byggðum á Norðurlöndum væri ekki aðeins áskorun, heldur væri þar einnig um ákveðið tækifæri að ræða til að dreifa „salti norðursins“. „Í sinni almennu og postullegu vídd er kirkjan Guðs lýður og því hafin yfir öll landamæri,“ sagði Bode biskup, í ljósi þeirra áskorana og ógna sem steðja að Evrópu frá hægri- og þjóðernissinnuðum hreyfingum. Ansgarwerk var stofnað árið 1967. Stofnunin styður starf presta í sóknum og biskupsdæmum, einkum menntun og mótun nýrra presta. Á sviði samfélagsþjónustu prestanna veitir stofnunin aðstoð (við þýðingu trúarlegra bóka og handbóka fyrir helgihaldið, vegna bænabóka, helgigripa o.fl.) og stuðlar að guðfræði- og uppeldisfræðilegri þjálfun sjálfboðaliða í trúfræðslu og æskulýðsstarfi.

Nánari upplýsingar: www.nordicbishopsconference.org