Föstuboðskapur hans heilagleika, Frans páfa, 2018

Birt 09.02.18 í Fréttir og tilkynningar

Föstuboðskapur hans heilagleika, Frans páfa, 2018

 

„Vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna(Mt 24:12)

Kæru bræður og systur,

Enn og aftur nálgast páskar Drottins! Í undirbúningi okkar fyrir páskana býður Guð í forsjá sinni á hverju ári föstutímann sem „sakramentislegt tákn um afturhvarf okkar“ [1]. Föstutíminn kallar okkur og gerir okkur kleift að snúa með fúsleik aftur til Drottins á öllum sviðum lífsins.

Með þessum boðskap vil ég enn á ný á þessu ári hjálpa gervallri kirkjunni að upplifa aftur þennan náðartíma, í gleði og sannleika. Ég mun taka mið af orðum Jesú í Matteusarguðspjalli: „Vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna(24:12).

Þessi orð birtast í prédikun Krists um lok tímans. Þau féllu í Jerúsalem, á Olíufjallinu, þar sem þjáningar Drottins hófust. Í svari sínu við spurningu lærisveinanna spáir Jesús miklum þrengingum og lýsir ástandi þar sem trúað fólk gæti sem best fundið sjálft sig. Á miklum erfiðleikatímum munu falsspámenn leiða fólk í villu, og kærleikurinn, sem er kjarninn í fagnaðarerindinu, myndi kólna í hjörtum margra.

Falsspámenn

Við skulum hlusta á guðspjallskaflann og reyna að skilja með hvað hætti slíkir falsspámenn geta birst.

Þeir geta birst eins og „slöngutemjarar“ sem spila á mannlegar tilfinningar til þess að afvegaleiða fólk. Hversu mörg af börnum Guðs eru dáleidd af stundaránægju og telja hana til sannrar hamingju! Hve marga karla og konur dreymir um auðæfi sem gera þau aðeins að þrælum gróða og léttvægra hagsmuna! Hversu margir lifa lífi sínu í þeirri trú að þeir séu sjálfum sér nógir, og enda síðan í einsemd!

Falsspámenn geta einnig verið „svikarar“ sem bjóða upp á auðveldar og skjótar lausnir á þjáningum sem fljótlega reynast svo algjörlega gagnslausar. Hversu margt ungt fólk lætur glepjast af lyfjaneyslu, skammtímasamböndum sem eru svo auðvelt að stofna til en veita samt svo óheiðarlegan ávinning! Hversu margir eru rígbundnir í svokallaðri „sýndar“-tilveru, þar sem sambönd birtast hratt og greiðlega, en reynast svo tilgangslaus! Með því að halda að fólki hlutum sem hafa ekkert raunverulegt gildi, ræna þessir svindlarar því sem mönnum er dýrmætast: Reisninni, frelsi og hæfileikanum til að elska. Þeir höfða til hégómagirndar okkar og trausts okkar á ytri ásýnd, en á endanum hafa þeir okkur aðeins að fíflum. Þetta ætti ekki að koma okkur á óvart. Til þess að rugla hjarta mannsins hefur djöfullinn, sem er „lygari og lyginnar faðir“ (Jh 8:44), alltaf sagt að hið illa sé gott og lygin sannleikur. Þess vegna erum við öll kölluð til þess að skoða hjarta okkar til að sjá hvort við höfum fallið fyrir lygum þessara falsspámanna. Við verðum að kanna það vandlega og gægjast undir yfirborðið og komast að því hvað það er sem skilur eftir gott og varanlegt merki í hjörtum okkar, því það kemur frá Guði og er sannarlega til góðs fyrir okkur.

Kalt hjarta

Í lýsingu sinni á helvíti dró Dante Alighieri upp mynd af djöflinum þar sem hann situr á hásæti úr ís, [2] í freðinni og ástlausri einangrun. Við getum að sjálfsögðu spurt okkur að því hvernig á því stendur að kærleikurinn frýs innra með okkur. Hver eru táknin sem benda til þess að kærleikur okkar sé farinn að kólna?

Framar öllu öðru er það peningagræðgin sem eyðileggur kærleikann, hún er „rót alls þess, sem illt er“ (1Tím 6:10). Afneitun Guðs og friðar hans fylgir svo fljótlega í kjölfarið; við kjósum eigin einsemd fremur en huggunina sem finna má í orði hans og sakramentunum [3]. Allt þetta leiðir til ofbeldis gegn öllum þeim sem við teljum ógna okkar eigin „fullvissu“: Hvort sem það er ófætt barni, einhver aldraður og veikburða, farandfólkið eða útlendingurinn meðal okkar eða nágranninn sem uppfyllir ekki væntingar okkar.

Sköpunin sjálf verður þögult vitni um þessa kólnun kærleikans. Jörðin eitrast af afneitun, henni er fargað sakir kæruleysis eða í eiginhagsmunaskyni. Höfin, sem sjálf eru menguð, gleypa líkamsleifar óteljandi manna sem hafa hrakist á flótta. Himnarnir, sem í áætlun Guðs voru til þess gerðir að syngja honum lof, enduróma af hreyflum véla sem varpa niður verkfærum dauðans.

Ástin getur einnig kólnað í okkar eigin samfélagi. Í postullegu bréfi mínu, Evangelii Gaudium, reyndi ég að lýsa augljósasta merkinu um þennan skort á ást: En það er þetta, eigingirni og andleg lygi, dauðhreinsuð svartsýni, freisting sjálfsupphafningar, stöðugt stríð meðal okkar og veraldlegt hugarfar, sem veldur því að við höfum aðeins áhyggjur af hinni ytri ásýnd og drögum þannig máttinn úr trúboðskrafti okkar [4].

Hvað eigum við að gera?

Kannski sjáum við, bæði djúpt innra með okkur og umhverfis okkur, þau tákn sem ég hef nú lýst. En kirkjan, móðir okkar og kennari, ásamt læknisdómi sannleikans sem oft er beiskur, býður okkur á föstunni milda lækningu bænarinnar, ölmusugjafa og föstu.

Með því að verja meiri tíma í bæn leyfum við hjörtum okkar að rífa upp með rótum leynilegar lygar okkar og margvíslega sjálfsblekkingu [5], og finnum með því þá huggun sem Guð býður okkur. Hann er Faðir okkar og hann vill að okkur líði vel í lífinu.

Ölmusugjafir leysa okkur úr fjötrum græðginnar og hjálpa okkur að líta á náungann sem bróður eða systur. Það sem ég eignast er aldrei aðeins mín eign. Ég vildi óska þess að ölmusugjafir yrðu að raunverulegum lífsstíl okkar allra! Ég vildi sannarlega óska þess sem kristinn maður, að við fylgdum öll fordæmi postulanna og sæjum að með því að deila eigum okkar með öðrum berum við áþreifanlega vitni um samfélag okkar í kirkjunni! Af þessum sökum endurtek ég hvatningu heilags Páls postula til Korintumanna um að hefja söfnun fyrir samfélagið í Jerúsalem, því að þeir sjálfir myndu njóta góðs af (2Kor 8:10). Þetta á allt einkar vel við á föstutímanum, þegar margir hópar taka höndum saman og safna til að aðstoða þurfandi kirkjur og fólk. En ég vildi einnig vona að jafnvel í daglegum samskiptum okkar við þá sem biðja um hjálp okkar, mættum við sjá slíkar beiðnir eins og þær kæmu frá Guði sjálfum. Þegar við gefum ölmusu tökum við þátt í forsjá Guðs við hvert barn hans. Ef Guð hjálpar einhverjum í dag fyrir mína aðstoð, mun hann þá ekki á morgun mæta mínum eigin þörfum? Því að enginn er örlátari en Guð [6].

Fastan veikir tilhneigingu okkar til ofbeldis; hún afvopnar okkur og verður mikilvægt tækifæri til vaxtar. Annars vegar gerir hún okkur kleift að kynnast líðan þeirra sem líða hungur og þjást.  Og hins vegar tjáir hún okkar eigin andlega hungur og þorsta eftir lífi í Guði. Fastan vekur okkur. Hún vekur athygli okkar á Guði og náunga okkar. Hún endurlífgar löngun okkar til að hlýða Guði, en hann einn er fær um að seðja hungur okkar.

Ég vil líka að boð mitt nái út yfir mörk Kaþólsku kirkjunnar og taki til allra manna, karla og kvenna sem hafa góðan vilja, og eru opin fyrir því að heyra rödd Guðs. Kannski hafið þið, eins við, áhyggjur af vaxandi misrétti í heiminum, þið óttist að kuldinn hafi lamandi áhrif á hjörtu ykkar og gjörðir og finnst samkennd okkar mannanna eiga undir högg að sækja. Gangið þá í lið með okkur og biðjið til Guðs, með föstum og ölmusugjöfum og með því að bjóða það sem við getum gefið bræðrum okkar og systrum í neyð!

Eldur páskanna

Umfram allt hvet ég meðlimi kirkjunnar til að hefja föstuferðina með áhuga, ásamt með ölmusugjöfum, föstum og bæn. Ef til þess kemur að logi kærleikans virðist deyja í hjörtum okkar, vitum við að það er aldrei raunin í hjarta Guðs! Hann gefur okkur sífellt tækifæri til að byrja að elska á ný.

Á þessu ári felst eitt slíkt tækifæri í átakinu „24 tímar fyrir Drottin“, sem býður öllu samfélagi kirkjunnar að fagna sáttasakramentinu í tengslum við tilbeiðslu altarissakramentisins. Árið  innblásin af orðum Sálmsins (130: 4): Átakið verður haldið frá föstudeginum 9. mars til laugardagsins 10. mars 2018 undir kjörorðinu „Hjá þér er fyrirgefning“. Í hverju biskupsdæmi mun að minnsta kosti ein kirkja vera opin samfellt í tuttugu og fjórar klukkustundir og þar verður bæði hægt að tilbiðja altarissakramentið og þiggja skriftasakramentið.

Á páskavökunni munum við enn einu sinni fagna með hinum dásamlega sið að kveikja á páskakertinu. Þetta ljós sem tendrað er af „nýja eldinum“, mun smátt og smátt sigrast á myrkrinu og lýsa upp söfnuðinn og helgihaldið. „Ljós dýrðarupprisu Krists eyði myrkri hjarta og huga“ [7] og gera okkur kleift að endurlifa reynslu lærisveinanna á leiðinni til Emmaus. Með því að hlusta á orð Guðs og þiggja næringu frá borði altarissakramentisins, megi hjörtu okkar verða ævarandi í trú, von og ást.

Ég gef ykkur fyrirheit um bænir mínar og veiti ykkur ástúðlega blessun mína. Vinsamlega gleymið ekki að biðja fyrir mér.

Frá Vatíkaninu, 1. nóvember 2017

Á Allra heilagra messu

Frans

________________________________________

[1] Rómversk messubók, safnbæn, (á ítölsku).

[2] Inferno XXXIV, 28-29.

[3] „Það er athyglisvert að oft erum við hrædd við huggun og hughreystingu. Eða kannski væri réttara að segja að okkur finnst við öruggari í sorg og eymd. Vitið þið af hverju af hverju? Vegna þess að í sorginni erum við sjálf aðalpersónan. En það er hins vegar Heilagur Andi sem er aðalpersóna huggunarinnar!“ (Angelusbæn, 7. desember 2014).

[4] Evangelii Gaudium, 76-109.

[5] Sbr. BENEDIKT XVI, Umburðarbréfið Spe Salvi, 33.

[6] Sbr. PÍUS XII, Umburðarbréfið Fidei Donum, III.

[7] Rómversk messubók (þriðja útgáfa), Páskavaka, Athöfn ljóssins