Bréf Barnabasar

Kveðjur til ykkar, sona minna og dætra. Friður sé í nafni Drottins sem elskar okkur.

 

1. Það er sannarlega augljóst að heilagleiki Guðs er yfir ykkur. Andleg náðargjöf hans hefur skotið sterkum rótum í hjarta ykkar og það vekur með mér mikinn fögnuð að sál ykkar skuli njóta dýrðar og sælu. Þegar ég sé slíka úthellingu Andans yfir ykkur úr auðlegð hinnar himnesku uppsprettu þá eykur það hamingjusamar væntingar mínar um sáluhjálp. Það færði mér mikla gleði að hitta ykkur eftir að hafa þráð svo mjög að sjá ykkur.

 

Eitt veit ég og á því leikur ekki nokkur vafi í huga mér. Síðan ég ræddi við ykkur hef ég komist til skilnings á mjög mörgu enda hef ég á vegferð minni til heilagleika notið félagsskapar Drottins. Líkt og hann ber mér að elska ykkur meira en lífið sjálft vegna þess trúarkrafts og kærleika sem dvelur í hjarta ykkar meðan þið vonið eftir því lífi sem er hans. Ég hef hugboð um að ef ég í umönnun minni gef ykkur eitthvað af því sem ég hef sjálfur öðlast, þá geti ég vænst umbunar fyrir að vera til þjónustu við sálir sem eru slíkar að verðleikum. Ég hef lagt mig allan fram við að senda ykkur þetta litla rit til að þið með trú ykkar fáið öðlast fullkomna þekkingu. Meginreglur Drottins eru þrjár að tölu. Trú hefst og endar með von, von um líf; dómur hefst og endar með heilagleika; og verk heilagleikans birtast í kærleikanum og í þeim fögnuði og gleði sem hann færir.

 

Drottinn hefur fyrir munn spámannanna sýnt okkur fram á söguna í nútíð og fortíð og þá hefur hann gefið okkur forsmekk að því sem í vændum er. Það gefur augaleið að það styrkir og eykur lotningarfullan guðsóttann að sjá hluti rætast í smáatriðum nákvæmlega eins og hann sagði okkur. Því er það ætlun mín - ekki sem kennari heldur sem einn ykkar - að deila með ykkur hugsunum mínum. Það ætti að hugga hjarta ykkar við þær aðstæður sem við nú stöndum frammi fyrir.

 

2. Þetta eru dagar illra afla þar sem sá vondi heldur sjálfur um taumana. Þetta þýðir að við verðum að leggja okkur fram og kanna nákvæmlega fyrirmæli Drottins. Þolinmæði okkar og guðsótti styrkja trúna og ennfremur höfum við undirgefni og sjálfsögun okkur til stuðnings. Að því tilskildu að við stöndum stöðugir í þeim efnum, í anda heilagleika, þegar kemur að Drottni, þá munu fyrr en varir viska, vitsmunir, skilningur og uppljómun bætast þar við.

 

Það sem Drottinn hefur margsinnis látið í ljós við okkur, fyrir munn spámanna sinna, er að fórnir, offur og brennifórnir, eru hlutir sem hann hefur alls enga þörf fyrir. Hans eigin orð eru: "Hvað skulu mér yðar mörgu sláturfórnir? - segir Drottinn. Ég er orðinn saddur á brennifórnum og lambafeiti, uxa- og hafrablóð langar mig ekki eða að þér komið hér fyrir auglit mitt. Aldrei aftur skuluð þér traðka forgarða mína. Það er til einskis að bjóða mér góðar matfórnir, fórnarreykur er mér andstyggilegur og ég er orðinn þreyttur að bera tunglkomur yðar og hátíðir." Allt þetta nam hann úr gildi til að hið nýja lögmál Drottins okkar Jesú Krists hefði ekki í för með sér ok harðstjórnar og til að fórn þess yrði ekki fórnfæring sem mannlegar hendur færðu. Þannig segir hann við þá á öðrum stað: "Þá er feður yðar komu frá Egyptalandi talað ég til þeirra nokkuð um brennifórnir og sláturfórnir? Aldrei, það eina sem ég sagði var: Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum." Nema því aðeins að við séum skilningslausir með öllu ættum við vissulega að skynja í þessu góðan ásetning Föðurins hvað okkur varðar. Því hér beinir hann orðum sínum til okkar í þeirri ósk sinni að við finnum réttu leiðina til hans en leiðumst ekki á villigötur eins og þeir. Og það sem hann segir við okkur er "að Guði þekkar fórnir er sundurkramið hjarta; hjarta sem vegsamar skapara sinn er Drottni þægilegur ilmur." Það er við hæfi, bræður mínir, að við lítum vandlega á þessi mál er varða sáluhjálp okkar af ótta við að hinn illi muni læða vélabrögðum sínum í hjarta okkar og valda því að við verðum útskúfaðir frá lífinu sem okkur býðst og er framundan.

 

3. Í þessu sambandi segir hann einnig við þá: "Hví fastið þér með þeim hætti að fyrir eyrum mér ómar til þessa dags vol yðar? Slík fasta er ekki samkvæmt mínum tilmælum, segir Drottinn; ekki þessi niðurlæging mannlegrar sálar. Þér getið hengt niður höfuðið sem sef og breitt undir yður sekk og ösku til að hvíla á en slíkt skuluð þér ekki telja velþóknanlega föstu." Og þá ávarpar hann okkur: "Sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok. Miðla hinum hungruðu af brauði þínu og sjáir þú sér klæðlausan mann þá klæð þú hann. Heimilislausum skalt þú gefa skjól undir þínu eigin þaki og sjáir þú einhvern af lágum stéttum skaltu gæta þess að hvorki þú né neinn þinna líti hann hæðnisaugum. Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega. Þá mun heilagleikinn fara fyrir þér í fylkingarbrjósti og dýrð Drottins fylgja þér til beggja hliða. Þá mun Guð heyra þig þegar þú kallar og meðan orðin eru enn á vörum þér mun hann segja. Hér er ég - ef þú einungis afneitar allri undirokun og ofbeldi, hættir illmælum, ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt með góðum huga og hefur meðaumkun með þjáðri sál." Þannig eigum við, bræður mínir, að líta fram á veg til þess dags er þeir sem undirbúnir hafa verið í hans elskaða munu geyma trúna af fullkomnum hreinleika. Allt þetta gerði hann okkur ljóst fyrirfram til að við yrðum ekki skipreika á grunnsævi þess að verða áhangendur lögmáls þeirra.

 

4. Það sem okkur ber því að gera er að skoða frá öllum hliðum hvernig málum er nú háttað og kanna hvert af því sem þar er að finna færir okkur fullvissu um sáluhjálp. Við skulum af mikilli gaumgæfni forðast hverskonar misgerð, að öðrum kosti mun misgerðin verða okkur yfirsterkari. Látum hatur gegn villum þessa heims búa í okkur svo að kærleikur í okkar garð megi ríkja í þeim heimi sem í vændum er. Við megum ekki gefa eðlishvöt okkar slíkt frelsi að við teljum eðlilegt að umgangast svikara og syndara. Það mun einungis valda því að við endum sem þeir. Síðasta stóra hindrunin 1 , sú stærsta, er á næsta leiti. Enok ýjar að þessu með orðunum: "Drottinn hefur búið tíma og dögum endi til að hans elskaði komi skjótt og gangi inn til arfleifðar sinnar." Spámaðurinn Daníel talar einnig með sama hætti: "Tíu konungar munu ríkja yfir jörðu og óverulegur konungur mun upp rísa eftir þá, og þremur þessa konunga mun hann þegar steypa." Daníel heldur áfram með svipuðum hætti: "Ég sá fjórða dýrið. Það var illt og öflugt og grimmara en allar aðrar skepnur hafsins. Ég sá að það hafði tíu horn og lítið horn spratt upp milli þeirra sem eins konar angi, og þrjú af fyrri hornunum voru þegar slitin upp fyrir það." Ég læt ykkur það eftir að túlka þessi orð.

 

Annað sem ég vil brýna fyrir ykkur - ég tala sem einn af ykkur því ég elska hvern ykkar meira en mitt eigið líf - og það er að þið íhugið aðstæður ykkar vandlega við núverandi ástand mála. Farið ekki í fótspor vissra einstaklinga með því að gera of mikið úr syndum ykkar og staðhæfa að "sáttmáli Gyðinga er einnig fyrir okkur". Raunar er það þannig. Því varla hafði Móse tekið á móti honum en þeir fyrirgerðu honum um aldir alda. Þetta segir Ritningin okkur: "Móse var á fjallinu fjörutíu daga og fjörutíu nætur og fastaði. Og hann tók við sáttmálanum frá Drottni. Steintöflur ritaðar með fingri Drottins." En þeir glötuðu sáttmálanum þar sem þeir hófu þá þegar að snúa andliti sínu að skurðgoðum. Þetta sagði Drottinn: "Móse, Móse far skjótt og stíg ofan því að fólkið sem þú leiddir út af Egyptalandi hefur brotið lögmál mitt." Móse áttaði sig á því hvað var að gerast og kastaði frá sér steintöflunum sem hann hafði í höndunum. Og þessi sáttmáli þeirra brotnaði mélinu smærra til að innsigla mætti sáttmála Jesú, hins elskaða, í hjarta okkar ásamt þeirri von sem fylgir því að trúa á hann.

 

(Það er heilmargt sem mig langar segja í þessu sambandi - ekki sem kennari heldur einfaldlega af því að ég elska ykkur og finnst ekki rétt að sleppa úr neinu sem okkur er skiljanlegt - þótt þetta bréf sé skrifað í skyndi en í auðmjúkri hollustu við ykkur).

 

Á þessum lokadögum verðum við þannig að gæta okkar vandlega. Því trú liðinna ára verður okkur einskis virði ef við bregðumst á þessum löglausu tímum, þegar fyrir okkur liggur að þurfa að horfast í augu við ýmsar þrekraunir og veita þá mótspyrnu sem hæfir Guðs börnum gegn lævísri niðurrifsstarfsemi myrkrahöfðingjans. Við eigum að hafna haldlitlum smáatriðum og hafa rótfasta andúð á leið illskunnar og verkum hennar.

 

En þrátt fyrir það eigið þið ekki að draga ykkur í hlé og lifa í einveru eins og Guð hefði þegar lýst ykkur heilaga. Komið og takið fullan þátt í fundum og rökræðum sem er öllum til heilla. Ritningin segir: "Vei þeim sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti." Verum því andans menn. Gerum sjálfa okkur að raunverulegu musteri Guðs. Við skulum helga okkur því að iðka guðsótta, eftir því sem hverjum á fyrir að liggja, og reyna eftir fremsta megni að halda boðorð hans. Ef við gerum það munum við hafa yndi af lögum hans. Því þegar Drottinn dæmir heiminn þá verður engin hlutdrægni. Hverjum verður umbunað í hlutfalli við það sem hann hefur gert. Reynist hann góður maður þá gerir ráðvendni hans leið hans slétta. Reynist hann slæmur maður þá þarf hann að horfast í augu við afrakstur illsku sinnar. Sú forsenda að við séum meðal þeirra útvöldu má aldrei verða okkur sú freistni að draga úr viðleitni okkar og ekki megum við sofna á verðinum gagnvart syndinni. Ef það gerist mun höfðingi illskunnar ná tökum á okkur og nema okkur brott úr ríki Drottins. Við skulum gæta þess vandlega, bræður mínir, að hafna ekki meðal þeirra sem um er ritað: "Margir eru kallaðir en fáir útvaldir." Því þið sjáið að þrátt fyrir að mikilfengleg tákn og undur gerðust í Ísrael þá var þeim engu að síður hafnað.

 

5. Þegar Drottinn í undirgefni sinni gaf líkama sinn til eyðingar þá var það til að helga okkur með því að afmá syndir okkar. Hreinsun blóðs hans kom því til leiðar. Þetta er það sem Ritningin segir um hann (og vísar að hluta til Ísraels en einnig að hluta til okkar): "Hann var særður vegna synda okkar og kraminn vegna misgerða okkar og fyrir hans benjar urðum við heilbrigðir. Hann var leiddur til slátrunar eins og sauður og eins og lamb sem þegir fyrir þeim er klippa það." Við stöndum vissulega í mikilli þakkarskuld við Drottin fyrir að hafa gert okkur fortíðina ljósa og gefið okkur visku fyrir líðandi stund og jafnvel einhvern skilning á framtíðinni. Ritningin segir: "Netin eru ekki þanin fyrir fuglana að ástæðulausu." Þetta þýðir að glötun bíður réttilega þess manns sem þekkir leið heilagleikans en gengur engu að síður leið myrkursins.

 

Íhugið ennfremur þetta bræður mínir: Ef Drottinn var reiðubúinn að þjást í þágu sálar okkar enda þótt hann væri Drottinn alls heimsins, hann sem Guð ávarpaði við grundvöllun heimsins og sagði: "Vér skulum gera manninn eftir vorri mynd og líkan oss" - hvers vegna lét hann til leiðast að þjást af völdum mannanna? Ástæðan er þessi: Spámennirnir, sem hann náðarsamlega veitti innblástur, höfðu sagt fyrir um hann í spádómum sínum. Og þar sem það var nauðsynlegt fyrir hann að opinberast í mannlegu holdi ef fyrir honum átti að liggja að tortíma dauðanum og sanna að hinir dauðu gætu risið upp, þá lét hann það yfir sig ganga að þjást. Með þeim hætti uppfyllti hann loforðin sem gefin voru feðrum okkar og þannig stofnsetti hann nýjan lýð sjálfum sér til handa. Þá var það einnig ásetningur hans, meðan hann dvaldi á jörðu, að láta í ljós áform sín að reisa manninn frá dauða og dæma hann síðan. Þar að auki, með því að kenna Ísraelslýð og vinna tákn og undur, kom hann á framfæri boðskap sínum og takmarkalaus kærleikur hans varð ljós. En það var val hans á postulum, sem áttu að boða guðspjall hans, sem leiddi skýrast í ljós að hann var Sonur Guðs því þessir menn voru illmenni af verstu gerð 2 og sannaði að hann "kom ekki til að kalla réttláta, heldur syndara." Við getum ennfremur gert okkur í hugarlund að ef hann hefði ekki komið holdi klæddur þá hefði það ekki verið mögulegt fyrir mennina að líta hann augum og öðlast sáluhjálp. Því jafnvel þegar þeir líta sólina, verk handa hans sem dag einn mun hverfa, þá geta þeir ekki horft beint í geisla hennar.

 

Tilgangur holdtekju Sonar Guðs var þannig að útkljá syndir þess fólks sem hafði ofsótt og drepið spámenn hans. Og til að það mætti gerast lét hann það yfir sig ganga að þjást. Guð kennir því um benjar holds síns þegar hann segir: "Þegar þeir slá sinn eigin hirði þá munu sauðirnir í hjörðinni deyja." Það var að hans eigin vilja að hann þjáðist með þessum hætti þar sem spádómsorðið hafði dæmt hann til að mæta dauða sínum á tré: "Frelsa líf mitt undan sverðinu" segir þar og síðan segir "gegnumstingið líkama minn nöglum því hópur illvirkja hefur risið gegn mér." Og enn aftur segir þar: "Sjá, ég býð svipunni bak mitt og kinnar mínar til höggs, ég hef gert andlit mitt að hörðum steini."

 

6. Eftir að hafa gert það sem fyrir hann var lagt, hvað segir hann þá? "Hverjum dirfist að ákæra mig? Lát hann standa andspænis mér. Hver leitar þess að fá mig dæmdan? Lát hann nálgast þjón Drottins. Vei yður, þér munuð allir gatslitna eins og kyrtill og mölur skal eyða yður." Sami spámaður lítur á hann sem traustan marmara er bíður mótunar og segir á öðrum stað: "Sjá, ég legg dýrmætan undirstöðustein á Síon, sérvalinn eðalstein sem hornstein. Sá sem trúir á hann mun hafa eilíft líf." Eigum við þá í raun og veru að setja von okkar á stein? Að sjálfsögðu ekki. Hann mælir á þessa leið því Drottinn hefur búið líkama sinn varanlegum styrk. "Hann hefur sent mig", segir hann, "eins og óbifanlegan stein." Á öðrum stað segir spámaðurinn einnig: "Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini," og bætir síðan við, "þetta er dagurinn mikli og dásamlegi sem Drottinn hefir gert" (af kærleika til ykkar skrifa ég þetta á almennu máli til að þetta verði ykkur ekki torskilið). Og hvað annað segir hann? "Hópur illvirkja umkringdi mig, þeir slógu hring um mig eins og býflugur vax," og síðan segir hann, "þeir kasta hlut um kyrtil minn." Þar sem það var hlutskipti hans að birtast og þjást í mannlegu holdi þá var það með þessum hætti að píslir hans voru opinberaðar áður en þær gerðust. Og spámaðurinn segir um Ísrael: "Vei sálum þeirra. Þeir hafa bruggað launráð og bakað sjálfum sér ógæfu þegar þeir segja, "vér skulum sitja um hinn réttláta því að hann ergir oss"." Hvað segir hinn spámaðurinn, Móse, þeim? "Sjá, þetta segir Drottinn Guð. Far til þess góða lands sem Drottinn sór Abraham, Ísak og Jakob og tak það því það hafið þér hlotið að erfð. Þetta land flýtur í mjólk og hunangi." Leyfið mér að sýna ykkur fram á hvað sannur skilningur leiðir í ljós í þessu sambandi. Það sem hér er verið að segja er þetta: "Setjið von ykkar á Jesúm sem opinberast ykkur í gervi dauðlegs manns". Því hér stendur orðið "land" - þessi vesalings og þjáningarfulla sköpun - fyrir "mann" þar sem það var af jörðu sem Adam fékk sköpulag sitt. Hvaða merkingu hefur þá landið sem er "gott og flýtur í mjólk og hunangi?" (Blessaður sé Drottinn, bræður mínir, fyrir að hafa veitt okkur af náð sinni visku og dómgreind varðandi leyndardóma sína! Spámaðurinn talar hér um Drottin með táknrænum hætti en einungis vitur og upplýstur ástvinur Drottins fær skilið það). Hann hefur gert okkur að nýjum manni með fyrirgefningu syndanna, manni nýrra einkenna sem hefur með svo afgerandi hætti sál barnsins að það er engu líkara en að hann hafi endurskapað okkur. Ritningin vísar til þessarar endurmótunar okkar því þar segir hann við Son sinn: "Vér skulum gera manninn eftir vorri mynd og líkan oss. Og látum hann drottna yfir skepnum jarðar og fuglum loftsins og fiskum sjávarins." Og þegar hann sá hversu fagrir við vorum við sköpun okkar þá bætti hann við: "Aukist og margfaldist og uppfyllið jörðina." Hann sagði þetta við Son sinn en leyfið mér að sýna ykkur fram á að hann var jafnframt að mæla til okkar. Eftir að hafa komið á nýrri sköpun á þessum síðari dögum segir Drottinn: "Sjá ég geri hina síðustu hluti eins og þá fyrstu." Spámaðurinn var að vísa til þessa þegar hann sagði: "Farið til lands sem flýtur í mjólk og hunangi og drottnið yfir því." Í þessu getið þið séð að við erum á allan hátt ný sköpun. Eða eins og hann segir fyrir munn annars spámanns: "Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra" (það er að segja úr þeim sem þegar voru fyrirsjáanlegir Andanum) "og gefa þeim hjarta af holdi." Þetta segir hann vegna þess að hann ætlaði sjálfur að birtast holdi klæddur og taka sér búsetu meðal okkar. Því er það, mínir kæru bræður, að hann er heilagt musteri Drottins þessi litli bústaður þar sem hjarta okkar er! Þar að auki segir Drottinn: "Hvar mun ég birtast frammi fyrir Drottni Guði mínum og dýrð hljóta?" Og hann svarar: "Á safnaðarsamkomu bræðra minna mun ég kunngera þig og innst úr safnaðarsamkomu heilagra kemur lofsöngur minn." Það eru því engir aðrir en við sjálfir sem hann hefur leitt til landsins góða.

 

En hvað táknar "mjólk og hunang"? Mjólkin heldur lífinu í barninu í upphafi lífs þess og því næst tekur hunangið við. Og þannig er það með okkur. Þegar við höfum öðlast líf fyrir trú á fyrirheitið og fyrir Orðið þá munum við næst drottna yfir jörðinni. Eins og hann sagði hér að ofan: "Lát þá aukast og margfaldast og uppfylla jörðina og drottna yfir ... fiskunum." Er þann mann að finna í dag sem hefur þetta vald, að drottna yfir skepnunum, fiskunum og fuglum loftsins? Nei, enda verðum við að skilja að það er tákn um vald "að drottna", það er að segja, sá sem gefur tilskipanir drottnar í raun og veru. Og þannig er því ekki háttað sem stendur. Hins vegar hefur hann sagt okkur hvenær það gerist - þegar við höfum öðlast fullkomnun og gerst erfingjar sáttmála Drottins.

 

7. Hafið í huga, þið börn gleðinnar, að Drottinn hefur í gæsku sinni gert okkur alla hluti ljósa áður en þeir gerast til að við fáum vitað hverjum ber þakkir okkar og lof. Enda þótt Sonur Guðs hafi verið sá Drottinn sem hann er og sem dæma mun lifendur og dauða þá þjáðist hann engu að síður til að böl hans myndi ávinna okkur líf. Við skulum því horfast í augu við þá staðreynd að ef það hefði ekki verið fyrir okkur, þá hefði það aldrei komið til þess að Sonur Guðs þyrfti að þjást.

 

Þið kunnið að spyrja þessu næst hvers vegna honum var gefið edik og gall að drekka þegar hann var krossfestur. Hlustið því og heyrið hvernig prestar musterisins sáu þetta fyrir. Þetta boð stendur í Ritningunni: "Hver sá er eigi fastar skal dauðinn uppræta." Þetta boð gaf Drottinn með tilvísun til þess sem koma skyldi, að hann myndi fórna keri anda síns 3 fyrir syndir okkar til að sú gerð fórnar sem stofnsett var í Ísak, þegar honum var fórnað á altarinu, yrði uppfyllt. Og hvað segir hann í spámanninum? "Lát þá eta af geitinni sem fórnfærð er á föstunni fyrir syndir þeirra og" (takið nú vel eftir) "lát alla prestana, og enga aðra, eta innmat hennar óþveginn og með ediki." Hvers vegna? Vegna þess að "í þann mund er ég gef líkama minn fyrir syndir þessa nýja lýðs míns munuð þið gefa mér gall og edik að drekka. Þess vegna etið þið einir meðan lýðurinn fastar og syrgir klæddur hærusekk og ösku". Með þessum hætti vildi hann sýna fram á að hann yrði að þjást af þeirra völdum.

 

Takið eftir þeim fyrirmælum sem hann gaf: "Takið tvær geitur gallalausar og hvor annarri líkar og færið þær til fórnar. Látið prestinn taka aðra þeirra til brennifórnar." En hvað eiga þeir að gera við hina? "Á hinni," segir hann, "hvílir bölvun." (Takið nú eftir hversu greinilegur hann er fyrirboðinn um Jesúm). "Hrækið allir á hana, stingið hana með broddstöfum yðar, vefjið höfuð hennar skarlati og látið reka hana út í óbyggðina." Eftir þessu er farið og geitin er leidd út í óbyggðina af þeim sem það hlutverk fær. Þar tekur hann ullina af henni og leggur hana á þyrnirunnann (þetta eru plönturnar sem við tínum venjulega berin af og borðum þegar við rekumst á þær í sveitinni; ekkert jafnast á við ávexti þyrnisins). En hvaða merkingu hefur þetta? Takið eftir að fyrri geitin fer á altarið en á hinni hvílir bölvun og það er sú sem á hvílir bölvun sem klæðist kransinum. Það er vegna þess að þeir munu sjá hann á þeim degi klæddan ökklasíðri skikkju gerða úr skarlati og þeim verður að orði: "Er þetta ekki hann sem við krossfestum eitt sinn, hæddumst að, stungum og hræktum á? Jú, þetta er maðurinn sem sagði við okkur að hann væri sonur Guðs." En hver er samlíkingin við geitina? Geiturnar eru báðar gallalausar og hvor annarri líkar til að þeir fyllist skelfingu yfir hinni augljósu samlíkingu milli hans og geitarinnar þegar þeir sjá hann koma á deginum. Í þessu sjáið þið tákn um þær þjáningar sem biðu Jesú.

 

En hvers vegna settu þeir ullina á þyrninn? Þetta er einnig tákn um Jesúm en það beinist að kirkjunni. Hver sá sem hefur í hyggju að taka skarlatið sér til eignar verður að þola mikið því þyrnirinn er skelfilegur og enginn fer höndum um hann nema að finna til sársauka. Á svipaðan hátt segir hann: "Þeir sem óska þess að sjá mig og komast til ríkis míns verða að þola kvöl og þrengingar áður en þeir ná til mín."

 

8. Getið þið gert ykkur í hugarlund hvað fólst í næstu fyrirmælum hans til Ísraels? Þeir menn sem alteknir voru synd áttu að færa kvígu til fórnar, slátra henni og brenna. Að því loknu eftir að hafa safnað öskunni saman og sett hana í skál af vatni áttu ungmenni að hnýta skarlati og ísópsvendi um tré (þið sjáið að aftur er minnst á skarlat og krosstáknið er hér). Þetta var notað til að dreypa á fólkið eitt af öðru til að hreinsa það af syndum sínum. Takið eftir hversu greinilega hann talar til ykkar! Kálfurinn er Jesús og syndararnir sem offra honum eru þeir sem stuðluðu að drápi hans. Eftir þetta heyrum við ekkert frekar um mennina eða um dýrðina til handa syndurum. Drengirnir sem dreyptu á fólkið eru til tákns um þá sem boðuðu okkur fyrirgefningu syndanna og hreinsun hjartans. Það eru þeir sem hann gaf leyfi til að predika fagnaðarerindið og voru þeir tólf að tölu til vitnis um tólf kynþætti Ísraels. En hvers vegna voru þeir þrír drengirnir sem sáu um að dreypa á fólkið? Það var til minningar um Abraham, Ísak og Jakob og mikilleika þeirra fyrir augsýn Guðs. Og hvers vegna var ullin sett á lifandi tré? Vegna þess að konungsríki Jesú er grundvallað á tré og vegna þess að þeir sem vona á hann skulu hafa eilíft líf. Og hvers vegna ísóp og skarlat? Vegna þess að í ríki hans koma slæmir dagar og skaðlegir en meðan þeir vara verður okkur bjargað. Ennfremur er slím ísópsins lækning gegn líkamlegum kvölum. Þetta eru ástæður þess að hlutirnir voru gerðir með þessum hætti og okkur er það fullljóst. Þetta var hins vegar hulið þeim vegna þess að eyru þeirra voru dauf fyrir orði Drottins.

 

9. Á öðrum stað talar hann raunar um þessi eyru þegar hann minnist á hvernig hann umskar hjarta okkar. Drottinn talar þegar spámaðurinn segir: "Óðara er eyru þeirra heyrðu mín getið, hlýddu þeir mér." Enn segir hann: "Þeir sem eru langt í burtu skulu heyra og þeir skulu skilja það sem ég hef gert." Og: "Hafið hjarta yðar umskorið segir Drottinn." Þá segir hann: "Heyrið, ó Ísrael, því þetta eru orð Drottins, Guðs yðar." Og Andi Drottins segir: "Hver er hann sem þráir að lifa að eilífu? Lát hann hlýða vandlega á rödd þjóns míns." Enn á ný segir hann: "Heyrið þér himnar og hlusta þú jörð því að Drottinn hefur talað þetta til vitnisburðar." Hann segir einnig: "Höfðingjar þessa fólks, heyrið orð Drottins." Og enn aftur segir hann: "Heyrið börnin mín rödd þess er kallar í óbyggðinni." Niðurstaðan er sú að hann umskar eyru okkar til að við gætum heyrt orð hans og trúað.

 

Þeim tiltekna umskurði sem þeir höfðu tiltrú á hefur hins vegar verið hafnað því hann hefur sagt að umskurður sé ekki líkamleg aðgerð. Þar urðu þeim á mistök vegna þess að illur engill blekkti þá. Þetta er það sem hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Guð yðar" - og í þessu sé ég boðorð- "sáið ekki ofan í þyrna heldur umskerið yður fyrir Drottni." Hvað á hann við? "Umskerið harðúð hjarta yðar og verið ekki harðsvíraðir." Og hlustið áfram: "Sjá, segir Drottinn, allir eru heiðingjarnir óumskornir á yfirhúðinni, en þessi lýður er óumskorinn í hjarta sér." Nú spyrjið þið eflaust: "En var þessi lýður ekki umskorinn á líkama til að innsigla sáttmálann?" Já en er ekki sérhver Sýrlendingur og Arabi og allir prestar skurðgoðanna umskornir á líkama? Eiga þeir þá aðild að sáttmála Gyðinga? Jafnvel Egyptar stunda umskurð á líkama.

 

Leyfið mér, kæru börn kærleikans, að uppfræða ykkur að fullu hvernig þessu er háttað. Upphaflega var það Abraham sem gaf okkur umskurnina en þegar hann umskar sig sjálfan þá gerði hann það í andlegri eftirvæntingu eftir Jesú. Hann fékk fyrirmæli sín í þremur stöfum stafrófsins því Ritningin segir okkur að "Abraham umskar átján og þrjú hundruð þeirra er fæddir voru í húsi hans." Hvert var þá hið andlega hugsæi hans? Takið eftir að það segir fyrst "átján", tíu er táknað með stafnum I og átta með stafnum E og þannig hafið þið IE (sus). En þar sem krossinn, sem hefur T að tákni, átti að vera uppspretta náðarinnar þá segir einnig "og þrjú hundruð". Þannig benda tveir fyrstu stafirnir á Jesúm og sá þriðji á krossinn. Allt þetta veit hann sem gróðursett hefur í hjarta okkar fræi kenninga sinna. Og aldrei hef ég gefið neinum manni betri túlkun en þessa. En það veit ég að þið eigið allan rétt á henni.

 

10. Nú skulum við víkja að því sem Móse sagði: "Þér megið ekki eta af kjöti svíns, ekki af erni, gammi eða kráku og ekki af neinum fiski er hefur ekki hreistur." Þetta hefur að geyma þrjár siðferðisreglur og þær meðtók hann og skildi. (Enda segir Guð í Devteronomium: "Ég mun gera sáttmála við þennan lýð sem mun fela í sér reglur mínar fyrir heilagleika." Þannig getið þið séð að fyrirmæli Guðs ber ekki að skilja sem bókstaflegt bann við áti. Móse var að vísa í hið andlega). Ástæða þess að hann minntist á "svín" er þessi. Það sem býr í orðum hans er að "þið eigið ekki að leggja lag ykkar við það fólk sem minnir á svín, það er að segja, við fólk sem gleymir Drottni þegar það á nóg en þekkir hann þegar það líður skort. Þannig líkist það svíni sem hunsar eiganda sinn þegar það etur en rýtir um leið og það finnur til hungurs. Sé það fóðrað þagnar það á ný."

 

"Hvorki megið þér eta örn eða gamm, gleðu eða kráku." Þetta þýðir að þið eigið ekki að vera í félagi við eða breyta eftir venjum þeirra sem kunna ekki að afla sér lífsviðurværis með erfiði handa sinna heldur ræna og rupla af eigum annarra í vanvirðu við lögin. Þeir fara um saklausir á svip en eru vel á verði og beina sjónum sínum víða til að sjá hvern þeir geti rænt til að fullnægja græðgi sinni. Því fuglarnir sem hann minnist á eru þeir einu sem afla sér ekki fæðu. Þeir sitja makindalega á grein sinni og bíða færis að rífa í sig hold af annarri skepnu. Þeir eru í einu og öllu miskunnarlausir vargar.

 

Þegar hann segir: "Ekki megið þér eta af steinsugu, holsepa eða smokkfiski," þá á hann við að þið eigið ekki að umgangast eða líkja eftir því fólki sem hefur algjörlega hafnað Guði og er gott sem dauðadæmt. Því það eru þessir fiskar og engir aðrir sem eru dæmdir til að synda í hyldýpi hafdjúpanna en fá ekki að synda upp og niður eins og aðrir fiskar. Þeir verða að búa sér stað niðri við sjávarbotninn.

 

(Meðal annarra hluta segir hann að "ekki megið þér éta af héra." Þá á hann við að þið eigið ekki að spilla ungum drengjum eða vera þeim líkir sem það gera. Því héranum vex nýtt gat á afturenda sínum á hverju ári. Fjöldi þessara hola samsvarar aldri hans. Og "ekki megið þér eta af híenu" táknar að þið eigið ekki að vera nautnaseggir eða kynsvallarar eða líkja eftir þeirra háttum. Því þessi skepna breytir kyni sínu árlega - hún er karldýr nú en kvendýr seinna. Hann talar einnig af andstyggð um hreysiköttinn og ekki að ástæðulausu. Þá er hann að segja okkur að breyta ekki eftir þeim sem sagt er að séu það saurugir að þeir noti munn sinn til siðlausra hluta og ekki leggja lag okkar við gjörspilltar konur sem gera það sama. Því þessi skepna frjóvgast í gegnum munn sinn).

 

Í þessum ákvæðum um mataræði meðtók Móse þrjár meginreglur varðandi siðferði og setti þær í andlegt samhengi. En Gyðingarnir voru holdlegir í hugsun og töldu víst að hann væri að vísa til matar með bókstaflegum hætti. Davíð var einnig gefinn skilningur á þessum sömu reglum og segir hann í þessu samhengi: "Sæll er sá maður er eigi fer að ráðum óguðlegra" (eins og fiskarnir sem synda um í myrkri hyldýpanna) "eða gengur eigi á vegi syndaranna" (eins og þeir sem þykjast óttast Guð en syndga eins og svín) "og hefur eigi setið í hópi skemmdarvarga" (eins og fuglarnir sem sitja og bíða eftir valbráð sinni). Þannig að nú hafið þið allan sannleikann um þessar matarvenjur.

 

Móse sagði hins vegar: "Etið hvert það jórturdýr sem hefur alklofnar klaufir og jórtrar." Hvers vegna minnist hann á það? Það er vegna þess að þegar það er fóðrað þá þekkir það þann sem gefur því og er sýnilega þakklátt honum meðan það endurnærir sig. Þannig orðaði Móse þetta eftir að hafa íhugaði það sem Drottinn krafðist. Merking þessa orða hans er því þessi: "Leitið félagsskapar við þá menn sem óttast Drottin, við þá sem ígrunda inntak hvers þess orðs sem þeir meðtaka, við þá sem hafa á vörum sér boðorð Drottins og breyta eftir þeim, við þá sem hafa yndi af íhugun - þá sem í raun og veru "jórtra" á orði Drottins". Og hvers vegna "alklofnar klaufir?" Merkingin er sú að meðan góður maður gengur þennan heim væntir hann eilífs heilagleika. Af þessu getið þið séð hversu meistaralega Móse ritaði lögmálið. En hvernig í ósköpunum átti þessi lýður að geta meðtekið og skilið þessa hluti? Við skiljum aftur á móti leiðbeiningar hans með réttum hætti og túlkum þær eins og Drottinn áformaði. Hann umskar eyru okkar og hjarta til að við mættum skilja hluti sem þessa.

 

11. Við skulum nú kanna hvort Drottinn hafi gert sér far um að gefa okkur fyrirfram vísbendingu um vatnið og um krossinn. Hvað viðkemur því fyrrnefnda þá segir Ritningin að Ísrael muni hafna skírninni til fyrirgefningar syndinni og búa þess í stað til eitthvað sjálfir. "Furðið yður himnar," segir spámaðurinn, "og lát jörðina skelfast því meir vegna þess að tvennt illt hefur þessi lýður gert. Hann hefur yfirgefið mig, uppsprettu lífs, og grafið sér brunn dauðans. Er mitt helga fjall, Síon, hrjóstrugur klettur? Þér verðið sem flöktandi ungar sem fældir hafa verið úr hreiðri sínu." Og aftur segir spámaðurinn: "Ég mun ganga á undan þér, jafna fjöllin, brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar og ég mun gefa þér fjársjóði sem eru leyndir, faldir og ósýnilegir til að þér megið vita að ég er Drottinn Guð." Ennfremur: "Þér skuluð búa uppi á hæðum hamrakletta þar sem eru uppsprettur vatns er aldrei þverra. Augu yðar skulu sjá Konunginn í dýrð sinni og hjarta yðar skal hugleiða það að óttast Drottin." Í öðrum spámanni segir hann: "Sá sem gerir þessa hluti skal vera sem gróðursett tré hjá rennandi lækjum er ber ávöxt sinn á réttum tíma. Blöð þess visna ekki og allt sem hann gerir skal lánast honum. Svo fer eigi hinum óguðlegu, nei þeir skulu vera líkir ryki er vindur feykir af yfirborði jarðar. Þess vegna munu hinir óguðlegu ekki standast í dóminum og syndugir ekki í söfnuði réttlátra. Því að Drottinn þekkir veg réttlátra en vegur óguðlegra endar í vegleysu." Takið eftir hvernig hann lýsir vatninu og krossinum í sömu andránni. Hann er í raun og veru að segja þetta: "Blessaðir eru þeir sem setja von sína á krossinn og stíga niður í vatnið". Því hann talar um laun þeirra "á réttum tíma." "Á þeim tíma" segir hann mun ég greiða þau. En á líðandi stundu þegar hann segir "blöð þess visna ekki" þá merkir það að sérhvert orð sem sagt er af vörum ykkar í trú og kærleika mun opna mörgum leið til sinnaskipta og vonar.

 

Annar spámaður segir jafnframt: "Land Jakobs var lofað umfram önnur lönd." Hér á hann við að hann upphefur til dýrðar hið jarðneska ker sem geymir Anda hans. Og hvað segir hann meir? "Það var fljót sem rann frá hægri og af því runnu upp fögur tré. Hver sem af þeim etur skal hafa eilíft líf." Með þessu á hann við að eftir að við höfum stigið niður í vatnið saurugir og íþyngdir syndinni, stígum við þar upp berandi ávöxtu, við munum hafa lotningu í hjarta og von á Jesúm í sál okkar. Og orðin, "hver sem af þeim etur skal hafa eilíft líf," merkja að hver sá er heyrir þessi orð töluð og trúir, mun lifa að eilífu.

 

12. Hann skilgreinir einnig krossinn í öðrum spámanni sem segir: "Og hvenær verður allt þetta fullkomnað? segir Drottinn. Þegar tré er höggvið en rís aftur og þegar blóð drýpur af tré." Hér hafið þið óbeina tilvísun til krossins og til hans sem var krossfestur. Og á öðrum stað, þegar ráðist var á Ísrael af erlendum her, gefur hann Móse skipun til að minna þá á sem áttu undir högg að sækja að syndir þeirra voru orsök þess að þeir glötuðu lífinu. Þetta var þegar Andinn talaði innra með Móse og bað hann að tákna krossinn og hann sem þjáðist á honum. Þannig gaf hann í skyn að nema þeir komi og setji von sína á hann muni hernaðarátökum gegn þeim aldrei linna. Því staflaði Móse upp brynjum í miðju átakanna. Ofan á hlaðanum tók hann sér stöðu þannig að hann gnæfði yfir aðra og breiddi hátt út arma sína. Hóf þá Ísrael að hafa betur og vinna sigra. En í hvert sinn sem armar hans sigu voru þeir á ný drepnir. Hvers vegna? Það var til þess að þeir sæju að þeir hlytu því aðeins sáluhjálp að þeir settu traust sitt á hann. Þannig segir hann í öðrum spámanni sínum: "Ég hef rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð sem gengur á illum vegum eftir eigin hugþótta sínum." Móse notaði einnig annað tækifæri til að tákna Jesúm. Það gerði hann til að sýna fram á að Jesús verður að þjást og gefa mönnunum líf þrátt fyrir að þeir telji sig hafa tortímt honum. Þetta átti sér stað þegar siðferði var slæmt hjá Ísrael og til að sannfæra þá að raunir dauðans væru afleiðing synda þeirra lét Drottinn alls kyns orma bíta þá banvænu biti (þið munið að synd Evu var af völdum höggorms). Þannig að jafnvel þótt Móse hefði sjálfur forboðið þeim og sagt "þér skuluð eigi hafa líkneski, steypt eða meitlað, fyrir guð yðar" þá bjó hann sjálfur til eitt slíkt til að tákna Jesúm. Móse gerði höggorm af eiri, setti hann upp þar sem allir gátu séð hann og kallaði síðan til sín allan lýðinn. Þar sem fólkið hópaðist saman grátbændi það Móse að hafa meðalgöngu um lækningu þess. Hann sagði við það: "Í hvert sinn er einn af ykkur verður bitinn skal hann líta með vonaranda til ormsins á stönginni og trúa því að þótt hann sé án lífs hafi hann engu að síður mátt til að veita líf. Mun hann þá hljóta skjótan bata." Og þetta gerðu þeir. Hér sjáið þið enn á ný dýrð Jesú því allir hlutir eru í honum og fyrir hann.

 

Eitt enn. Hvað sagði Móse við Jesús Naveson, sem hann svo nefndi, þegar hann var spámaður eingöngu til að allur lýðurinn mætti vita að Faðirinn opinberar alla hluti um Son sinn Jesúm? Móse sagði við Jesúm Naveson eftir að hafa gefið honum þetta nafn og sent hann til að kanna landið: "Tak þér bókfell í hönd og rita þessi orð Drottins: Á hinum síðustu dögum mun Sonur Guðs rífa upp með rótum og eyða húsi Amalekíta." Sjá, þar er Jesús aftur kominn, ekki sem mannssonur heldur sem Sonur Guðs þótt hann birtist á táknrænan hátt í holdi. Og vegna þess að síðar munu þeir segja að Kristur sé sonur Davíðs, þá segir Davíð, innblásinn Andanum, í ótta og fullri vitneskju um þessa villu syndugra manna: "Svo segir Drottinn við minn Drottin: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér"." Jesaja mælir á svipaðan hátt: "Drottinn segir við Krist Drottin minn, sem ég held í hægri höndina á, að þjóðirnar lúti honum; og ég mun splundra mætti konunga." Takið eftir að Davíð kallar hann Drottin en segir ekki "sonur".

 

13. Við skulum nú kanna hverjir eru hinir sönnu erfingjar, þessi nýi lýður eða hinn fyrri, og hvort sáttmálinn er ætlaður okkur eða þeim. Hlýðið á hvað Ritningin segir varðandi "lýðinn": "Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, Rebekku, því að hún var óbyrja. Og hún varð þunguð. Rebekka fór þá til frétta við Drottin og Drottinn svaraði henni, "tvær þjóðir eru í skauti þínu og tveir lýðir í iðrum þér. Annar lýðurinn verður sterkari en hinn og hinn eldri mun þjóna hinum yngri"." Þið verðið að átta ykkur á hver þau eru, Ísak og Rebekka, og með hvaða hætti hann hefur bent á að þessi nýi lýður verði meiri en hinn.

 

Jakob talar jafnvel enn skýrar í annarri spásögn þegar hann segir við son sinn Jósef: "Sjá, Drottinn leyfir mér að líta þig augum. Leiddu syni þína til mín að ég megi blessa þá." Og Jósef sótti Efraím og Manasse. Hann setti Manasse Jakobi föður sínum til hægri handar þar sem hann vildi að Manasse hlyti blessun því hann var eldri. En Jakob sá í anda lýðinn sem koma skyldi og hvað gerir hann þá? "Jakob lagði hendur sínar í kross, setti hægri hönd sína á höfuð Efraím, sem var yngri og annar í röðinni, og blessaði hann. Jósef sagði við Jakob: "Eigi svo, set hægri hönd þína á höfuð Manasse því hann er minn frumgetni." Þá sagði Jakob við Jósef: "Ég veit það, barnið mitt, ég veit það, en hinn eldri skal lúta hinum yngri. Engu að síður skal hann einnig fá blessun"." Þannig getið þið séð við hvern er átt í fyrirmælum Drottins þegar segir: "Þessi lýður skal vera fyrstur og erfa sáttmálann". Ef við finnum til viðbótar öllu þessu frekari staðfestingu hjá Abraham þá er þekking okkar fullkomnuð. Hvað sagði hann við Abraham þegar hann einn trúði og það var honum til réttlætis reiknað? "Sjá, ég hef gert þig, Abraham, föður margra þjóða sem trúa á Guð óumskornir."

 

14. Þannig er það nú. Við skulum nú athuga hvort sáttmálinn sem hann sór feðrum okkar að gefa lýðnum var í raun og veru honum gefinn. Það var hann svo sannarlega. En syndir hans gerðu hann óhæfan að varðveita hann. Svo segir spámaðurinn: "Móse fastaði á Sínaífjalli í fjörutíu daga og fjörutíu nætur til að fá sáttmála Drottins fyrir fólkið. Og Móse fékk frá Drottni tvær steintöflur ritaðar í Andanum með fingri af Drottins hendi." Móse tók þær og ætlaði ofan til að gefa þær fólkinu þegar Drottinn sagði við Móse: "Móse, Móse, stíg þú skjótt ofan því að fólkið sem þú leiddir af Egyptalandi hefur brotið lögmál mitt. Og Móse skynjaði að það hafði gert sér steypt líkneski á ný. Hann þeytti töflunum af hendi og töflurnar með sáttmála Drottins brotnuðu í sundur." Þannig að þótt þær væru gefnar Móse þá glataði það rétti sínum til þeirra.

 

En hvernig var hann okkur gefinn? Móse tók við honum sem þjónn. Hins vegar var það Drottinn sjálfur sem gaf okkur hann og gerði okkur að erfingjum með því að þjást fyrir okkar hönd. Enda þótt einn tilgangur þess að hann kom holdi klæddur væri sá að þeir gætu fyllt mæli synda sinna þá var það einnig gert til að við gætum móttekið sáttmála Drottins Jesú frá réttmætum erfingja hans. Þetta var það hlutverk sem honum var ætlað: Að koma sem maður og leysa hjarta okkar úr viðjum myrkursins (þar sem það var orðið lúið í skugga dauðans og ofurselt syndinni) og stofnsetja sáttmála hjá okkur með orði sínu. Ritningin segir frá því að Faðirinn hafi fengið hann til að kaupa okkur úr myrkrinu og skapa helgan lýð sjálfum sér til handa. Það er í samræmi við þetta sem spámaðurinn segir: "Ég, Drottinn Guð þinn, hef kallað þig til réttlætis. Ég held í hönd þína og varðveiti þig og ég hef skipað þig til að gera sáttmála við lýðinn og vera ljós fyrir þjóðirnar. Til að opna augu hinna blindu, leiða þá út úr vaðhaldinu sem bundnir eru og frelsa þá úr dýflissunni sem í myrkri sitja." Í þessu sjáum við frá hvers kyns stöðu við höfum verið endurleystir. Spámaðurinn segir ennfremur: "Andi Drottins er yfir mér því hann hefur smurt mig til að flytja nauðstöddum fagnaðarboðskap náðarinnar. Hann hefur sent mig til að græða þá er hafa sundurmarið hjarta, boða fjötruðum lausn og blindum sýn, til að boða náðarár Drottins og dag endurgjalds og til að hugga alla hrellda."

 

15. Ritningin minnist einnig á hvíldardaginn. Í boðorðunum tíu sem Drottinn gaf Móse augliti til auglitis á Sínaífjalli segir: "Haltu hvíldardag Drottins heilagan með óflekkaðri hendi og hreinu hjarta." Og á öðrum stað segir: "Haldi synir mínir hvíldardaginn mun ég miskunna þeim." Svo segir um hvíldardaginn í upphafi sköpunarinnar: "Á sex dögum gerði Guð verk handa sinna og þegar hann lauk við það hvíldist hann á sjöunda degi og helgaði hann." Takið sérstaklega eftir, börnin mín, merkingu þess þegar segir "hann lauk við það á sex dögum." Það sem þetta þýðir er að hann mun láta heiminn enda eftir sex þúsund ár því hjá honum er einn dagur sem þúsund ár. Takið eftir hvað hann sjálfur segir: "Sjá, einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár." Því er það, börnin mín, að eftir sex daga - raunar sex þúsund ár - mun allt enda. Eftir það "hvíldist hann á sjöunda degi" sem merkir að þegar Sonur hans snýr aftur mun hann binda enda á tímabil lögleysingjans, dæma hina óguðlegu og breyta sólinni, tunglinu og stjörnunum. Síðan, á sjöunda degi, mun hann sannarlega hvílast.

 

"Haltu hann heilagan," segir hann, "með óflekkaðri hendi og hreinu hjarta." Það yrðu mikil mistök hjá okkur að halda að nokkur nú á tímum hafi það hreint hjarta að hann geti haldið daginn heilagan sem Guð hefur blessað. Þið skuluð samt sem áður hafa það í huga að tíminn nálgast að við fáum hvíld og getum haldið hann heilagan. Það verður þó ekki fyrr en við höfum verið réttlættir og öðlast fyrirheitið, þegar engin synd er lengur og þegar Drottinn hefur gert alla hluti nýja. Þá verður okkur kleift að halda hann heilagan því við höfum áður verið gerðir heilagir.

 

Hann segir einnig við þá: "Ég fæ eigi þolað nýjar tunglkomur yðar og hvíldardaga." Þið getið séð hvað hann á hér við: "Það eru ekki þessir núverandi hvíldardagar sem eru mér að skapi heldur einungis sá er ég sjálfur set við upphaf áttunda dagsins 4 eftir að hafa búið öllum hlutum hvíld og nýr heimur hefst." (Við fögnum einnig glaðir áttunda deginum því það er sami dagurinn og Jesús reis upp frá dauðum, gerði sig sýnilegan á ný og steig upp til himna).

 

16. Nú erum við komnir að því að ræða um musterið. Ég mun sýna ykkur fram á hversu þessu auma fólki skjátlaðist að setja vonir sínar á bygginguna, eins og það væri bústaður Guðs, en ekki á Guð, skapara sinn. Raunar voru þeir litlu betri en heiðingjarnir að því leyti að þeir lýstu yfir guðlegri helgi á musteri sínu. En orð Drottins gera þetta merkingarlaust með öllu: "Hver hefur stikað himininn með handarbreidd annarrar handar eða jörðina með lófa sínum? Er það ekki ég? segir Drottinn. Himinninn er mér hásæti og jörðin fótskör mín. Hvaða hús getið þér reist mér og er þann stað að finna þar sem ég get hvílst?" Hér getið þið séð að von þeirra var tóm heimska. Auk þess segir hann: "Sjá, þeir er brutu niður musterið skulu reisa það á ný." Þetta er að gerast nú. Þegar þeir hófu stríð eyddu óvinir þeirra því og nú eru þeir sjálfir í þann mund að reisa það og gera það sem þegnar fjandmanna sinna. Engu að síður hefur það verið opinberað að borg, musteri og lýður Ísraels eru dæmd til að farast. Þetta segir Ritningin: "Það mun gerast á hinum síðustu dögum að Drottinn mun framselja til eyðingar hagbeitarhjörðinni, sauðabyrgi þeirra og varðturni." Og það sem Drottinn hefur sagt verður ekki aftur tekið.

 

Næst skulum við kanna hvort nokkuð sé til sem kallist musteri Guðs. Vissulega er það til þar sem hann sjálfur segir að hann reisi það og fullkomni. Því svo stendur skrifað: "Áður en vikan er á enda mun musteri Guðs verða reist í dýrðarljóma í nafni Drottins." Af þessu dreg ég þá ályktun að sá hlutur sé til sem nefnist musteri. En takið eftir að það verður "reist í nafni Drottins." Því á þeim dögum, áður en við trúðum á Guð, var bústaður hjarta okkar fúinn og ótraustur líkur musteri reist af manna höndum. Í stöðugri andstöðu okkar við Guð höfðum við gert bústaðinn að athvarfi fyrir skurðgoðadýrkun og heimili fyrir djöfla. Nú verður "musterið reist í nafni Drottins." Velkist heldur ekki í vafa um að musteri Drottins verður reist í "dýrðarljóma" og sjáið nú hvernig það gerist. Þegar við fengum fyrirgefningu syndanna og hófum að setja von okkar á nafn hans þá vorum við gerðir að nýjum mönnum, við vorum endurskapaðir frá upphafi. Því er það að Guð dvelur í okkur - í þessum auma bústað. Með hvaða hætti gerist þetta? Með trúarboðskap hans, með köllun okkar til fyrirheitinnar blessunar; með speki reglna hans og visku kennslu hans; með andríki hans í okkur og dvöl hans hið innra með okkur; með því að ljúka upp dyrum musterisins - opna varir okkar og gefa okkur sem haldnir voru dauðanum tækifæri til að iðrast. Þannig leiðir hann okkur inn í hið óforgengilega musteri. Þannig beinir sá sem þráir að frelsast ekki athygli sinni að meðbróður sínum heldur að þeim sem býr í honum og talar fyrir munn hans. Og hann undrast stórum að það skuli ekki vera fyrr en nú að hann heyrir slík orð sögð af honum eða að hann skuli ekki hafa áður þráð að heyra þau. Í þessu felst að reisa Drottni andlegt musteri.

 

17. Ég vona sannarlega að svo framarlega sem í mínu valdi liggur að gefa einfalda skýringu hafi ég ekki gleymt neinu sem máli skiptir varðandi sáluhjálp okkar. Ef ég skrifaði ykkur varðandi hluti sem nú gerast eða sem í vændum eru þá yrði það ofvaxið skilningi ykkar því slíkum hlutum er komið á framfæri í dæmisögum. Við skulum því láta þetta nægja.

 

18. Við skulum nú snúa okkur að annars konar uppfræðslu og þekkingu. Til eru tvær leiðir uppfræðslu og eins birtist mátturinn okkur á tvennan hátt. Eftir leið ljóss og leið myrkurs. Það er mikill munur á þessum tveimur leiðum. Yfir annarri standa vörð ljósgefandi englar Guðs og yfir hinni eru englar satans. Yfir annarri er Drottinn um aldir alda meðan hinn stjórnar núverandi tímum lögleysis.

 

19. Leið ljóssins er þessi: Hver sá er óskar þess að fylgja leiðinni að hinu tilsetta marki verður að gera það af öllu hjarta. Þetta er sú þekking sem okkur hefur verið gefin til að fara þessa leið. Elska skaltu skapara þinn, óttast skaltu Drottin þinn, gef honum dýrð sem endurleysti þig frá dauða. Vertu heill í hjarta þér og auðugur í andanum. Forðastu samskipti við þá sem ganga leið dauðans. Hafðu andstyggð á hverju því sem ekki er Guði þóknanlegt og hafðu óbeit á hræsni í hvaða formi sem hún birtist. Víktu aldrei frá boðorðum Drottins.

 

Gerðu ekki of mikið úr eigin mikilvægi, sýndu hógværð á öllum sviðum og eignaðu þér aldrei heiður af neinu. Ráðgerðu aldrei illkvittnislega hluti gagnvart náunga þínum. Láttu ekki hroka stjórna fari þínu. Fremdu eigi skírlífsbrot, hjúskaparbrot eða ónáttúrulega siði. Taktu þér aldrei orð Guðs í munn í slæmum félagsskap. Þurfir þú að ávíta einhvern fyrir yfirsjónir hans þá gerðu svo án ótta og án hlutdrægni. Vertu hæglátur og mildur, virtu þau orð sem þú heyrir sögð og ekki bera í brjósti gremju gagnvart bróður.

 

Vertu aldrei beggja blands í afstöðu þinni til neinna hluta. Notaðu ekki nafn Drottins að vild. Losaðu þig aldrei við ófætt barn og eyddu því ekki eftir að það er fætt. Agaðu son þinn eða dóttur og komdu þeim til þroska í Guðs ótta.

 

Ekki girnast það sem náunga þínum tilheyrir. Leitaðu þér ekki ávinnings af áfergju. Settu þér ekki það mark að vera í nánum tengslum við þá er mikilfenglegir teljast heldur leitaðu félagsskapar við það fólk sem er auðmjúkt og dyggðum prýtt. Teldu þér til blessunar allt það sem yfir þig gengur, það er tryggt að ekkert gerist án Guðs.

 

Vertu ekki tvíræður hvorki í tali né hugsun. Hlýddu húsbónda þínum af virðingu og ótta og líttu á hann sem fulltrúa Guðs. Mæltu ekki af hörku þegar þú skipar þjónum þínum fyrir verkum, körlum eða konum, ef þeir treysta á sama Guð og þú. Að öðrum kosti er sú hætta fyrir hendi að þeir glati ótta sínum á hann sem ríkir yfir ykkur báðum. Drottinn kom ekki til að kalla á fólk samkvæmt stöðu þess. Hann kom fyrir þá sem þegar voru undirbúnir af Andanum.

 

Gefðu náunga þínum hlutdeild í öllu því sem þú átt og ekki segja að neitt sé þitt. Ef þið eigið samleið í því sem ódauðlegt er skyldi hún ekki vera meiri í því sem dauðlegt er? Vertu ekki snöggur til tals því tungan er dauðans mein. Vertu eins hreinn og þú getur sakir sálu þinnar.

 

Ekki vera einn þeirra sem rétta út hönd sína til að taka en kippa henni að sér þegar kemur að því að gefa. Gættu þeirra sem sjáaldur auga þíns sem skýra fyrir þér orð Drottins.

 

Hafðu dómsdag í huga dag og nótt. Leitaðu daglega félags við lýð Guðs. Gerðu það annað hvort með því að iðka af kappi hið talaða orð - það er að segja, fara meðal þeirra þér til hvatningar og kappkosta síðan að bjarga sálum fyrir kraft hins talaða máls - eða stritaðu með höndum þínum til að öðlast lausnargjald fyrir syndir þínar.

 

Hikaðu aldrei við að gefa og er þú gefur ger það möglunarlaust. Þú kemst brátt að raun um hver getur verið örlátur í umbun sinni. Haltu þeirri erfðavenju er þér hefur verið gefin og bættu engu þar við og taktu ekkert þar af. Hataðu hið illa linnulaust. Taktu ákvarðanir heiðarlega og réttlátlega.

 

Gerðu ekkert sem valdið getur sundurþykkju. Kallaðu saman þá sem eiga í deilum og bittu enda á deilur þeirra. Játaðu syndir þínar, þú átt ekki að koma til bænastundar með slæma samvisku.

 

Þetta er leið ljóssins.

 

20. Leið myrkursins er hlykkjótt og full af vesöld. Leið hennar liggur til dauða og eilífrar refsingar. Þar er að finna allt það er tortímir sál manna: Skurðgoðadýrkun, óskammfeilin sjálfsánægja, valdahroki, hræsni, tvöfeldni, hórdómur, manndráp, þjófnaður, hégómi, þorparaskapur, undirferli, illgirni, þrjóska, galdur og kukl, græðgi og andstaða við Guð. Þeir ofsækja hina dyggðugu. Þeir hata sannindi og elska ósannindi. Þeir vita ekkert um afrakstur ráðvendni og ekki geta þeir tileinkað sér mannúð eða beitt réttlátri dómgreind. Ekkjan og munaðarleysinginn eru einskis virði í þeirra augum. Þeir óttast ekki Guð á andvökunóttum sínum heldur iðka þeir siðspillandi hluti. Mildi og langlyndi þekkja þeir alls ekki. Allt sem þeir hugsa um er lítilfjörlegt og einskis virði og það eina sem þeir leita eftir er fyrir þeirra eigin hag. Þeir hafa enga meðaumkun með hinum fátæku og ekki hugsa þeir hið minnsta um vesalings sál í neyð. Þeir hafa ávallt á takteinum illgirnislega hviksögu því þekking á skapara þeirra er ekki í þeim. Þeir drepa ungbörn, eyða Guðs mynd. Þeir reka bágstadda frá dyrum sínum og þeir taka óþýðlega á hinum bækluðu. Meðan þeir styðja og hjálpa hinum ríku eru þeir harðbrjósta gagnvart hinum fátæku. Í einu orði sagt, þeir eru gjörsamlega gengnir syndinni á vald.

 

21. Allt sýnir þetta hversu gott það er að hafa lært reglur Drottins eins og þær er að finna í Ritningunni og ástunda þær. Því þess manns sem það hefur gert mun bíða dýrð í ríki Guðs en sá sem velur hina leiðina mun eyðast ásamt með verkum sínum (um þennan endi gilda reglurnar um upprisu og endurgjald). Og nú hef ég ósk fram að færa við þá sem eru í áhrifastöðum vilji þeir taka ábendingu frá velunnara. Sumum meðal ykkar getið þið hjálpað, biðjið að þið bregðist þeim ekki.

 

Sá dagur nálgast að heimurinn hljóti sömu örlög og hinn illi. "Drottinn kemur og endurgjald hans fylgir honum." Því hvet ég ykkur enn og aftur: Verið ykkar eiginn góði löggjafi, verið ykkar eiginn dyggi ráðgjafi og slítið öll tengsl við guðrækni hræsnaranna. Megi Guð og Drottinn alls heimsins gefa ykkur visku, skynsemd og þekkingu sem og sannan skilning á reglum sínum og megi hann veita ykkur þolgæði. Hafið Guð fyrir kennara ykkar og kannið hvað það er sem Drottinn krefst af ykkur. Innið það af hendi og ykkur verður vel tekið á dómsdegi.

 

Að svo miklu leyti sem góðgjörða er minnst hafið mig í huga og íhugið þessa hluti. Þá hafa áhyggjur mínar og andvökustundir að minnsta kosti leitt eitthvað gott af sér. Ég bið að þið gerið þetta af mildi ykkar. Á meðan hið fagra ker holdsins er stöðugt í ykkur skuluð þið láta ekkert af þessu ógert. Hafið þetta óaflátanlega í huga og sjáið til þess að öllum boðorðunum sé fylgt af kostgæfni. Þau eru vissulega ómaksins verð og það er ástæða þess að ég var þetta áfjáður að gera mitt besta við að skrifa þetta bréf. Það geri ég í þeirri von að það verði til þess að betrumbæta anda ykkar.

 

Verið sæl, börnin mín, börn kærleika og friðar. Megi Drottinn dýrðar og allrar náðar vera með anda ykkar.

 

...................................

 

(1) Virðist vera tilvísun til Anti-Krists en koma hans boðar endalok heimsins.

 

(2) All harkaleg eftirmæli um postulanna en ef til vill hefur Barnabas hér í huga Júdas Ískaríot og/eða fyrri iðju sumra postulanna eins og Matteusar og Páls.

 

(3) Með "keri anda síns" er átt við líkama hans.

 

(4) Samkvæmt skilningi Barnabasar höfðu fimm dagar (5000 ár) þegar liðið og hann og samtímamenn hans lifðu á sjötta degi. Eftir það kom sá sjöundi en þá átti Kristur að koma í dýrð og ríkja í 1000 ár á jörðu. Síðan koma endalok heimsins - öllum hlutum búin hvíld - og þá hefst dögun hins áttunda dags, dags eilífðarinnar. Það er einnig ljóst þegar lengra er lesið að í veraldlegum skilningi er áttundi dagur sá dagur sem við köllum sunnudag.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014